04.11.1963
Neðri deild: 11. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (1837)

56. mál, launamál o.fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þó að ég ræddi nokkuð um þetta mál við 1. umr. og líti á það frá ýmsum hliðum, þá taldi ég rétt að segja okkur orð einnig við þessa umr. og þá ekki sízt vegna þess, að þegar ég hafði lokið máli mínu við 1. umr., komu hér — ég held tveir hæstv, ráðh. í ræðustól og gerðu það mál, sem ég hafði flutt, nokkuð að umtalsefni. Það var fyrst og fremst hæstv. dómsmrh., sem tók til máls og gerði mína ræðu að umræðuefni, og skal ég nú víkja nokkuð að hans máli.

Ég tók eftir því og þótti það dálítið merkilegt af þeim harða málafærslumanni sem hann er, að hann forðaðist eins og heitan eld að víkja að efni þess frv., sem hér er til umræðu. Það vildi hann forðast. Hann var ekkert að því að nefna efnisatriði eins og samningabann verkalýðsfélaga til kauphækkana, bann við verkföllum verkalýðsfélaganna. M.ö.o.: honum fannst ekki taka því að gera að umtalsefni það meginefni frv., að það væri verið að ráðast á félagafrelsið í landinu, sem hann á að hafa gæzlu og vörzlu um að varðveita sem dómsmrh. öllum öðrum fremur, ásamt þá félmrh., sem hefur verið ákaflega þögull við þessar umr. En það var annað, sem hæstv. dómsmrh. hafði orð á, og það var, að ég hefði á sínum tíma verið í ráðherrastóli og þá sett lög, sem hefðu verið alveg sama eðlis og þetta frv., sem hér lægi fyrir og ætlunin væri að lögfesta. Og þá var hann kominn á það strákskaparsvið í sínum málflutningi, sem hvorki hæfði honum sem dómsmrh. né sem lögfræðingi, að ætla að verja þessa lagasmíð hér, þessi óþurftarlög, sem við erum hér að ræða um, með því að segja: Þú ert ekkert betri, þú hefur gert það sama, þú hefur flutt sams konar frv. til laga. — Þetta er vitanlega enginn málflutningur. Þó að hann hefði getað fundið einhvern jafnargan sér, þá var það engin bót fyrir hann. Og það á líka sízt að verða skjól fyrir þessa hæstv. ríkisstj., þó að hún gæti vitnað til þess, að önnur eins ólög hefðu einhvern tíma verið samin á Alþingi eins og þau, sem þeir eru núna að reyna að þvæla í gegnum Alþingi Íslendinga.

Hann nefndi heiti þeirra laga, sem ég gaf út 1956, en það var það einkennilega, að hæstv. ráðh. lét ekki svo litið til þess að sanna sitt mál, að hér væri um sams konar löggjöf að ræða, að lesa eitt einasta orð eða staf úr þeirri löggjöf, það forðaðist hann. Af hverju? Af því að hann hefði ekki getað sannað mál sitt um, að hér væri um svipaða eða sams konar löggjöf að ræða. Ef hann hefði vikið eitthvað að efni þeirra laga, hefði komizt upp um strákinn Tuma, að hann var ekki að fara með sannleikann. Hins vegar greip hann ofan í ræðu mína, framsöguræðu mína, þegar ég flutti þessi lög fyrir Alþingi, og vildi þar með gefa í skyn, að hér væri um sams konar löggjöf að ræða. En öllu skýrara hefði það nú verið, ef hann hefði vitnað í lögin sjálf.

Um hvað eru þessi umræddu lög frá 1956, sem ég setti sem félmrh., og eru þau sams konar lög og það frv., sem hér er til umr.? Ég skal nú fyrst víkja að því, hvers vegna þessi lög voru sett og hvaða skynsemisrök lágu til þess. Öll verðlagsmál voru á ferð og flugi, voru eins og á færibandi upp á við, þegar ríkisstj. Ólafs Thors gafst upp á miðju sumri 1956 og hafði þá, eins og stundum áður, misst einmitt verðlags- og efnahagsmálin úr böndunum. (Forsrh.: Það var nú eitthvað annað en vinstri stjórnin gerði, var það ekki?) Það var annað en vinstri stjórnin gerði, a.m.k. á því stigi, því að þá hafði vinstri stjórnin ekki setið neitt, var ekki tekin við. En hún tók við af strandkapteininum, hæstv. núv. forsrh., Ólafi Thors, í það skipti, og eitt af því fyrsta, sem hún gerði, var að setja þessi lög. Og við settum þau af því, að okkur fannst ekki hyggileg vinnubrögð að hafa öll verðlagsmálin á ferð og flugi, meðan við værum að kynna okkur ástandið og hugleiða, hvaða úrræðum skyldi beitt. Það væri betra að fá þarna kyrrð og stöðvun á, meðan við værum að finna ný úrræði.

Þá var vísitölukerfið í gangi, þá var það í gildi. Bændur áttu þá um haustið 1966 að fá hækkun á afurðaverði vegna kaupbreytinga, sem orðið höfðu á liðnu ári, frá haustinu áður, og síðan áttu verkamenn í ársfjórðungslok að fá kauphækkun samkv, vísitölu sem afleiðingu af þessari afurðaverðshækkun bændanna. Það var hægt að gera bændur skaðlausa af þeirri greiðslu, sem þeir áttu að fá sem umbun hækkaðs afurðaverðs, með því að greiða niður með fjárframlögum úr ríkissjóði þá hækkun á verði einstakra landbúnaðarvara, sem leiddi af nýjum grundvelli haustið 1966, þannig að smásöluverð þessara vara héldist óbreytt frá því, sem var 1. ágúst 1956. Ef bændurnir voru þannig gerðir skaðlausir af þeim hlut, sem þeir áttu heimtingu á, þá var spurningin: Vill verkalýðshreyfingin sætta sig við það að fá þá ekki þá kauphækkun, sem átti að koma fram í vísitöluhækkun um haustið, ef verðlagið á landbúnaðarvörum hefði ekki verið niðurgreitt? Þetta var borið undir verkalýðsfélögin almennt. Og þau svöruðu því undantekningarlaust, að þau hefðu aldrei fengið meiri bætur með vísitöluuppbótum heldur en dýrtíðaraukningunni hefði numið og alltaf hefði að þeirra áliti heldur vantað eitthvað á, að vísitöluuppbæturnar skiluðu því fulla verðmæti, sem þurfti að standast í aukinni dýrtíð. Þeir töldu sig því ekki verða fyrir skaða eða tjóni þó að orsökin væri numin burt og þeir fengju ekki vísitölubæturnar á eftir, því að það gæfi aldrei fullt. Og þá var það m.a., sem ég fékk það frá einum góðum og gildum Alþfl.- manni, sem stjórnaði stóru og myndarlegu verkalýðsfélagi:

Við viljum ekki aðeins una því, að þetta sé gert, heldur ætlumst við til þess af þér. — Það var svo gert, að bændunum voru bætt þau vísitölustig, sem þeir áttu að fá í hækkuðu afurðaverði, með greiðslu úr ríkissjóði, og verkamennirnir fengu ekki þá hækkun á kaupi, sem afurðaverðshækkunin hefði annars leitt til.

Þeir menn, sem halda því fram, — og það hefur því miður hæstv. forsrh. gert, og það gerði frsm. meiri hl. fjhn. hér í dag, — og fullyrða, að ég hefði með þessum lögum lækkað kaup verkamanna, þeir hafa, þessir mætu menn báðir, því miður, farið með ósannindi, og þykir mér leitt að seg,ja það um hinn hærum krýnda forsrh., kominn á grafarbakkann næstum því. En þetta hefur hent hann. Það verður hvergi fundið orð eða stafur fyrir því, að l. frá 1956 séu um neina kauplækkun. Það hefur hæstv. forsrh. missagt, og það hefur hv. 6. landsk., Davíð Ólafsson, einnig missagt, annaðhvort af því, að þeir hirtu ekki um að segja satt, eða af því, að þeir vissu ekki betur og fóru þannig með rangt mál óafvitandi. En fyrir því mættu þeir gjarnan gera grein, hvort heldur var, hvort þeir fóru þarna með sannleikann á svona léttúðugan hátt, af því að þeir kærðu sig ekki um að hafa það nákvæmara, eins og maðurinn sagði, eða hvort þeir vissu ekki betur.

Þá kemur að hinu, hvort nokkuð öðruvísi hafi verið búið um hnútana í l. frá 1966, að því er snerti það atriði að fyrirbyggja möguleika til verðhækkana, meðan á þessu stöðvunartímabili stæði, eða hvort það muni vera betur um það búið nú að fyrirbyggja verðhækkanir í þessu frv. Í þessu frv., sem við erum að ræða hér, er leyfilegt að hækka verð á vörum. Ef tilkostnaður frá liðnum tíma fram að þessu gefur tilefni til þess, aukinn tilkostnaður, erlendur eða innlendur, hækkað verð á erlendum markaði eða innlendir kostnaðarliðir hafa hækkað, þá má hækka verðið og það mun hækka. Það einasta, sem sagt er í frv. — og þykir mér ekki mikið — til þess að stöðva verðlag, er, að það megi ekki hækka álagningu í hundraðshlutum, en hún má hækka greinilega í krónutölu, ef einhverjir kostnaðarliðir, innlendir eða útlendir, hafa hækkað. Þá mun álagningin líka hækka í krónutölu í því frv., sem við erum að ræða. En hvernig var þetta í l. frá 1956? Bannað var til ársloka 1956 að hækka söluverð innanlands á öllum vörum í heildsölu og smásölu, svo og á hvers konar verðmæti og þjónustu frá því, sem var l5. ágúst 1956, og engar undantekningar þar frá. Lögin, sem ég setti, voru því um algera verðstöðvun á stöðvunartímabilinu.

Þá kem ég að samanburðinum, að því er snertir að brjóta niður samningsrétt og verkfallsrétt verkalýðsfélaganna og þar með félagafrelsið allt að því er verkalýðshreyfinguna snertir. Ég skora á hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh. og hv. 6. landsk. þm., Davíð Ólafsson, að finna einn einasta staf eða stafkrók í l. frá 1956, þar sem skertur sé samningsréttur verkalýðsfélaganna eða verkfallsrétturinn eða á nokkurn hátt gengið á hinn félagslega rétt samtakanna. í l. frá 1956 er ekkert til í þessa átt, en hins vegar er það meginefni þess frv., sem við erum hér að ræða. Það hefði verið strákslegt að reyna að afsaka þetta frv., sem hér er til umr., með því, að einhver hefði einhvern tíma áður á Alþingi flutt svipað frv., en það er fyrir neðan allar hellur og langt fyrir neðan virðingu þessara hæstv. ráðh. að reyna að hafa þessa aðferð, þegar enginn fótur er þar að auki til fyrir þeirra staðhæfingum. Þetta tiltæki verður algerlega ósæmilegt af þeirra hendi, þegar litið er til þess, að það er með engu móti hægt að halda því fram, að lögin, sem ég setti 1966, séu nokkur hliðstæða við það frv., sem hér er til umr.

Áður en ég skilst við þetta atriði, vil ég líka skýra frá því, sem ég vék að nú í upphafi, að verkalýðsfélögin voru í fyllsta samráði um setningu þessara laga 1956 og voru því samþykk, að verðhækkuninni á landbúnaðarvörum væri ekki hleypt inn 1956 og að vísitöluhækkun á kaup kæmi þar af leiðandi ekki í þeirra hlut. Verkalýðshreyfingin mælti þannig með frv. og lagasetningunni. Hefur hæstv. ríkisstj. núv. haft þann háttinn á að leita til verkalýðshreyfingarinnar og spyrjast fyrir um afstöðu hennar til þessa máls? Nei, eftír að ræðzt hafði verið við í bróðerni nokkrum sinnum við nokkra forustumenn verkalýðssamtakanna, þá er okkur á síðustu stundu skýrt frá því, að ríkisstj. ætli að leggja fram það frv., sem við höfum verið hér að ræða, og þá var svo komið þrátt fyrir aðvaranir okkar, að það var engu hægt þar um að þoka. Það var búið að ákveða það af báðum stjórnarflokkunum, að málið skyldi flutt í því formi, sem þeir þá höfðu fært það f. Og ég held nú, að þeir ættu að spyrja verkalýðsfélögin, hvernig þeim litist á þetta frv., reyna að fá samþykki einhvers stéttarfélags við þessa lagasmíð. Í raun og veru þurfa þeir þess ekki héðan af, því að það hafa dunið á Alþingi íslendinga mótmæli verkalýðsfélaganna úr öllum áttum, úr öllum landshlutum, gegn þessu frv. Þau þykjast þar ekki aðeins þurfa að verjast því, að það á að lögbinda kaup verkamanasins og verkakonunnar óbreytt, eftir að stjórnarvöldin hafa á liðnu sumri haft forustu fyrir að hækka laun annarra stétta, margra hverra allt upp í 90%, en það er ekki það, sem verkalýðsfélögunum þykir þó verst við þessa löggjöf, það er réttindasviptingin, það er misréttið, það er ranglætið, sem þeim þykir verst við að una.

Lögin frá 1956 réðu við sitt hlutverk, þan stöðvuðu allt verðlag fram til áramóta 1956—57, og áður en sá tími var liðinn, vora komnar þær till. í efnahagsmálum, sem vinstri stjórnin stóð að og fékk afgreiddar á Alþingi, og það varð mjög mikið jafnvægi í verðlagsog efnahagsmálum í full tvö ár, á fyrri hluta valdatímabils vinstri stjórnarinnar. Á síðasta hálfa árinu, sem vinstri stjórnin sat að völdum, varð aftur á móti nokkur hreyfing á verðlagi, en þó aðeins sem smámunir að telja á við þann skrið, sem hefur verið á verðlagsmálunum núna á liðnu og liðandi sumri. Þá þóttust menn sjá fram á, að verð mundi hækka á næstu mánuðum um 17 visítölustig, sem nú mundu ekki vera nema 8 stig, ef það væri mælt með núverandi mælikvarða vísitölunnar, og þætti þannig ekki nema smávægileg hreyfing.

Ég hygg, að það hafi einnig verið hæstv. dómsmrh., sem vék svo að endalokum vinstri stjórnarinnar og vék að komu Hermanns Jónassonar á fund A.S.Í. þá um haustið, í nóvember. Það er saga, sem þeir endurhaka oft, og er það þó aðeins sagan um það, að forsrh. ríkisstj. taldi sig ekki lengur hafa þinglegan meiri hl. traustan að baki sér, af því að Alþfl., sem var hluti af Hræðslubandalaginu frá kosningunum 1956, hafði bilazt og fengið nokkra ást á Sjálfstfl., þó að sú ást hafi hitnað allnokkuð á þeim tíma, sem liðinn er síðan. En þá var þetta ástríki byrjað, og það vissi forsrh., hann var búinn að missa stuðningsflokkinn, Alþfl., og þá sagði hann hreinskilnislega: Við höfum ekki lengur þinglegan meiri hluta. Við höfum ekki þingræðislegan rétt til þess að sitja og ekki heldur lýðræðislegan rétt. — Og hann sagði af sér fyrir hönd sinnar stjórnar.

Þeir hafa oft þulið ræðu Hermanns Jónassonar, þáv. forsrh., sjálfstæðismennirnir og Alþfl.-mennirnir, en það er einmitt ræðan, sem hæstv. núv. forsrh., Ólafur Thors, ætti að halda. Hann ætti að halda ræðuna um það, að hengiflug sé fram undan í efnahagsmálum Íslendinga. Hann hefur haldið þá ræðu að þeim hluta, en hann á að halda áfram: Ríkisstj. Sjálfstfl. og Alþfl. koma sér nú ekki saman um úrræði, sem dugi, og við segjum því af okkur. — Það væri eðlilegt. Það væri að lúta og virða lýðræði og þingræði. En það geta þessir núv. hæstv. stjórnarflokkar ekki. Þeir ætla sér að lafa. Þeir eru búnir að segja okkur það, að þeir ætli að hanga á merinni, hvort sem þeir geti lafað á henni með því að halda sér í faxið eða taglið á henni.

Það er einna fruntalegast við það að flytja þetta frv., sem hér er til umr., fyrir Alþingi, að það er flutt áður en almennu verkalýðsfélögin höfðu svo mikið sem boðað verkfall. Samningar almennu verkalýðsfélaganna voru á algeru byrjunarstigi. Ég held, að verkalýðsfélögin hafi verið búin að halda 1 eða 2 viðræðufundi við Vinnuveitendasambandið, þegar frv., sem átti að taka með dularfullum hætti lagagildi strax frá byrjun, um leið og það væri lagt fyrir Alþingi, var komið í þingsalina. Það hefði verið miklu skiljanlegra, að þessu frv. hefði verið kastað fram á Alþingi, eftir að samningar hefðu verið þrautreyndir milli aðila, milli verkalýðssamtakanna og Vinnuveitendasambands Íslands, og ekkert hefði gengið, og verkföll hefðu verið boðuð og verkföll hefðu verið byrjuð og þannig útséð um það, að samningar tækjust og málin yrðu leyst með þeim venjulega og eðlilega hætti, þ.e.a.s. við frjálsa samninga. Þá hefði verið miklu afsakanlegra, þó að stjórnin hefði gripið til einhverra lagasetningaraðgerða til að reyna að bjarga slíku máli, sem í óefni var komið. En þetta var ekki svona. Það blasti tvennt við, sem margsinnis hefur verið minnt á í þessum umr. Í fyrsta lagi voru samningamálin á byrjunarstigi og í annan stað, á þeirri stundu, sem við í verkalýðshreyfingunni vissum um, að til stæði að setja slík þvingunarlög, buðum við forsrh. það, að við skyldum leggja okkur fúslega í allt erfiði nætur og daga til að leysa þessi mál með eðlilegum hætti á næsta hálfum mánuði, leggja þar okkar verk ásamt með fulltrúum vinnuveitenda og ríkisstj., en því var hafnað. Lögunum er kastað fram á byrjunarstigi samninga og eðlilegu tilboði um að leysa vandamálin með eðlilegum hætti er hafnað og kastað fram ofbeldislöggjöf. Þetta eru engan veginn fögur vinnubrögð og sízt af öllu til þess fallin að auðvelda lausn vandamálsins á eftir.

Ég hef margoft sagt, að það sé algerlega öfug stefna í kaupgjalds- og launamálum, sem hæstv. ríkisstj. hefur farið, að ákveða launin í toppinn, síðan ákveða þau niður eftir í þjóðfélaginu, vitandi svo ekkert um það, hvort grundvöllur atvinnulífsins beri það kaupgjald, sem búið sé að ákveða ofan frá. Þannig á auðvitað ekki að fara að. Vitanlega er hitt rétta leiðin, að ákveða því fólki, sem vinnur framleiðslustörfin við helztu framleiðsluatvinnuvegi þjóðarinnar, lífvænleg kjör, þannig að frumatvinnuvegirnir fái nægilegt og umfram allt nýtilegt vinnuafl, af því að það þyki ekkert neyðarúrræði að þjóna grundvallaratvinnuvegunum. Síðan gæti það verið hlutverk talnaspekinga og hagfræðinga að reikna út af sínum vísdómi, hvað þjóðfélagið hefði efni á að borga milliliðaþjónunum í þjóðfélaginu alla leið upp í ráðherrastól, og ef þeir útreikningar sýndu, að þar yrðu launin að vera jafnvel öllu knappari en til fólksins við framleiðslustörfin, þá yrði að hafa það og þá yrði að gera einhverjar sérstakar neyðarráðstafanir, ef enginn fengist til þess að vera forsrh. eða enginn fengist til þess að vera menntmrh. eða viðskmrh. og enginn fengist til þess að vera landbrh. og ekki heldur utanrrh., — gera einhverjar sérstakar neyðarráðstafanir til þess að leysa það. En í slíkum vanda veit ég aldrei til, að íslenzkt þjóðfélag hafi lent. Ég veit aldrei til þess. Þetta er mín skoðun um, að hæstv. ríkisstj. hafi í raun og veru ákveðið þarna algerlega að fara öfuga leið í mótun launamála í þjóðfélaginu, og ég hygg, að flestir muni taka undir það með mér, að það væri sýnu hyggilegra að byggja launamálakerfi þjóðfélags neðan frá og byggja það fyrst og fremst á bæði getu framleiðsluatvinnuveganna sem grundvelli og því, að tryggt yrði, að það fólk, sem þar þjónaði, hefði lífvænleg kjör.

Þá langar mig þessu næst til að fara nokkrum orðum um þá kenningu núv. stjórnarflokka, að verkalýðshreyfingin viðhafi sýnilega röng vinnubrögð, sem ekki séu árangursrík, þar sem það sé nú staðreynd, að þrátt fyrir alla kauphækkunarbaráttu verkalýðsfélaganna um árabil sé kaupmáttur launanna sízt meiri nú en hann var löngum áður. Þetta er villukenning. Hvað er, sem veldur því, og hverjir eru það, sem valda því, að það tekst að ná aftur því, sem verkalýðnum áskotnast með kaupgjaldsbaráttu sinni? Það eru stjórnarherrar landsins, sem reka fjandsamlega verkalýðspólitík, sem reka þá pólitík, sem við það miðast fyrst og fremst, að fólkið við framleiðsluatvinnuvegi þjóðarinnar skuli ekki hafa lífvænleg kjör. Hefur hæstv. ríkisstj., sem nú situr, farið

nokkrar leiðir til þess að reyna að níða niður það kaup, sem verkalýðshreyfingin hefur með baráttu getað áunnið sér? Kannast menn við gengislækkanirnar og þá alveg sérstaklega gengislækkunina 1961, sem beint var til þess framkvæmd að reyna að sýna verkalýðshreyfingunni í tvo heimana, að henni þýddi ekki að vera að fara fram á hækkað kaup, hún ætti og yrði og skyldi sætta sig við þá kaupskerðingu, sem hún þá bjó við, því að ef hún hreyfði legg eða lið, þá skyldi það, sem hún knúði fram með hækkuðu kaupi, vera af henni tekið með gengislækkun. Og það var gert í það skipti. En verkalýðshreyfingin er ekki auðbeygð. Það er neyðin, sem rekur verkafólkið áfram, og ég hef sagt það áður, og ég segi það enn: Það er fávíslegt af einni ríkisstj., hvort sem það er þessi eða einhver önnur, að halda, að hún geti sífellt svarað kauphækkunum verkalýðssamtaka með gengisfellingu. Það er miklu, miklu þunglamalegra, þótt maður líti á ekkert annað en bara formið, að framkvæma gengislækkun slag í slag heldur en að knýja fram kauphækkun slag í slag. Það er auðveldara að skrá kaupið en að skrá gengið, jafnvel þó að Seðlabankanum sé falið einræði til þess. Það er meira að segja nú svo komið, að núv. hæstv. ríkisstj. treystist ekki til að framkvæma þriðju gengislækkunina á skömmum tíma. Bæði er það af því, að hún sér fram á það, að kjósendur mundu varla una því, að ríkisstj. gripi sífellt til gengislækkana, malaði niður gjaldmiðil íslenzku þjóðarinnar með stórkostlegum álitsspjöllum út á við og inn á við, sem núv. hæstv. ríkisstj. virðist fyrst vera að gera sér grein fyrir nú að sé afleiðingin. Og svo er það í annan stað, að húsbændurnir við Alþjóðabankann eru farnir að verða tregir til að veita íslenzku ríkisstj. heimildir til að framkvæma gengislækkun eftir gengislækkun.

Ef hv. stjórnarflokkar kynnu nú einhverjar aðferðir í verkalýðsmálum, sem væru árangursríkari fyrir verkafólkið heldur en sú verkalýðsbarátta, sem háð er í öllum þeim löndum, sem ég þekki til, þar sem verkalýðshreyfing er á annað borð, þá þætti mér afskaplega vænt um, ef einhverjir af þeim verkalýðsmálasérfræðingum hæstv. ríkisstjórnar settu nú ekki sitt ljós undir mæliker, heldur kenndu mér og öðrum þessar nýju, árangursríku aðferðir sínar í verkalýðsbaráttu. Ég mundi reyna að verða góður nemandi að læra þetta hjá þeim, ef þetta væri einhver forláta aðferð, sem skilaði hinum snauðu, sem vinna við framleiðsluatvinnuvegina, betri árangri og skapaði þeim betri lífskjör. Og ég skil ekkert í þessum góðu mönnum, að þeir skuli vera að luma á þessari sérþekkingu sinni.

Hæstv. dómsmrh. komst við, þegar hann gerði sér grein fyrir því, að það væri svo sorglegt með árangurinn af þessari röngu verkalýðsbaráttu verkalýðssamtakanna, að þeir verst settu yrðu alltaf aftur úr, þ.e.a.s. þeir lægst launuðu, þeir yrðu alltaf aftur úr. Ef þetta væri svo, þá ætti að vera orðinn hér alveg gífurlegur munur á kaupi ófaglærðra verkamanna og hinna faglærðu og þeirra, sem eru aftur í hærri launastigum í samningum stéttarfélaganna. En hvort sem við berum okkar stéttarfélagasamninga saman við stéttarfélagasamninga nágranna okkar í Danmörku, í Noregi eða í Svíþjóð, þá er þó niðurstaðan sú, að það er minni munur hér á landi á kaupi faglærðra iðnaðarmanna og almennra verkamanna heldur en í hverju þessara landa, sem ég nefndi. Það er meira bil á milli kaups hins ófaglærða verkamanns í Danmörku, Noregi og Svíþjóð samanborið við kaup iðnaðarmannsins heldur en hér er, svo að staðreyndin er þó sú, þrátt fyrir þessar fullyrðingar hæstv. ráðh., að hér hefur ekki myndazt meira bil, heldur minna milli kaups ófaglærðra verkamanna og faglærða verkamanna eða iðnaðarmanna. En það, sem mig rak í rogastanz yfir hjá hinum rökvísa hæstv. dómsmrh., var það, að úr því að hann hafði komizt við út af hinum aumu kjörum hinna ófaglærðu verkamanna á Íslandi, þá var þó aðstoðin, sem hann ætlaði að veita þeim, sú og sú ein að binda kaup þeirra, að mikilli hækkun launa hjá öllum öðrum undangenginni. Það fannst mér vera nöturlegt, úr því að hjarta hans hafði komizt við og hann hafði meðaumkun með þessu fólki, sem svona hafði orðið hart úti í verkalýðsbaráttunni, að þá ætlaði hann að koma til hjálpar á þennan hátt, að lögbinda þetta auma og vesæla kaup hinna verst launuðu. Ég hefði getað vænzt hins af honum, að hann hefði viljað skörulega hækka kaup hinna lægst launuðu til þess að bæta úr um það, sem úrskeiðis hafði farið vegna hinna röngu vinnubragða í verkalýðsbaráttunni.

Ég varð undrandi á því, þegar ég heyrði það, að hæstv. dómsmrh. átti engin góð orð til um sitt afkvæmi, kjaradóm. Það var ljóta fyrirtækið, sagði hann. Hann var mjög á móti verkum kjaradóms. Það er þó víst og satt, að á það lagði hæstv. ríkisstj. mikið kapp, að í l. um samningsrétt opinberra starfsmanna væri einmitt tekið upp þetta fyrirkomulag um kjaradóm. Það var ekki hugmynd frá stjórnarandstöðunni. Það er því algerlega ómögulegt að koma ábyrgðinni á kjaradómi yfir á stjórnarandstöðuna. Þetta er hugsun núv. ríkisstj., að í staðinn fyrir verkfallsrétt aðila, sem hafa frjálsan samningsrétt um launamál, sé miklu affarasælla að setja dóm, gerðardóm, til að ákveða það, sem á milli ber, og skera þar úr. Hvað sem hæstv. dómsmrh. segir um kjaradóminn og andúð sína á honum, þá er kjaradómurinn skilgetið afkvæmi núv. ríkisstj. og þá líklega fyrst og fremst dómsmrh. Og það er hart að bera þetta barn út.

Mér skildist á hæstv. ráðh., að hann teldi sig þurfa undan því að kvarta, að við í Alþb. hefðum hrakið stjórnarflokkana til að hækka laun langskólamanna, alveg sérstaklega verkfræðinga, og að við hefðum verið miklir talsmenn þess, að laun þessara manna væru hækkuð. Hann sagði: Við urðum fyrir hörðu höggi, vegna þess að við værum að reka langskólamenn úr landi. — Það, sem við í Alþb. gagnrýndum í viðureign hæstv. ríkisstj. við verkfræðingana, var, að það var ekki skorið úr þeirra málum við frjálst samningaborð, þeim var neitað um samninga, og þeir voru ekki einu sinni, heldur tvisvar, beittir gerðardómsharðræði. Þetta gagnrýndum við. Þessi hörkubrögð leiddu til þess, að sumir verkfræðingar vildu ekki una þessu og fóru heldur úr landi. Og það verð ég að segja, það er mín skoðun, að það sé tjón fyrir íslenzku þjóðina að missa vel menntaða menn úr landi til annarra þjóða og það alveg sérstaklega menn hámenntaða á verklega sviðinu, þar sem við megum engan mann missa. Og ég fullyrði það, að hæstv. ríkisstj. var ekki nógu glöggskyggn á þetta og lagði sig ekki nóg í líma við að leysa þann vanda, sem þarna skapaðist. Hún gafst þar upp og eigi góðu heilli, gafst þar upp fyrir verkfræðingunum, því að niðurstaðan varð sú, að þegar hlaupizt var frá samningum við þá, þá var farið að eiga við þá skipti upp á kröfur þeirra. Þeir skyldu taka að sér verkin í eins konar ákvæðisvinnu, þeir reiknuðu verkin út samkv. sínum kröfum, eins og þær höfðu verið fram bornar, án afsláttar, og það var kaupið, sem verkfræðingarnir síðan fengu og búa við það, nema þeir verkfræðingar, sem síðar komu undir kjaradóm og fengu sin laun ákveðin þar, vafalaust með hliðsjón af verkfræðingunum, sem unnu í sambandi við sinar eigin kröfur.

Þegar ríkisstj. var komin í hörkudeilu við læknana við sjúkrahúsin hér í Reykjavík, er það einnig rétt, að við gagnrýndum það, Alþb.-menn, hvernig að var farið í þeim málum. Það var beitt valdi, alls ekki lausu við fruntaskap, og ekki sýnd sú samningalipurð og það þolgæði í samningum, sem verður að beita, þegar hagsmunaárekstrar gerast, eins og iðulega í slíkum málum. En það tók ég a.m.k. alltaf skýrt fram, að ég teldi, að hæstv. ríkisstj. væri á villigötum, þegar hún þættist vera að stímpast við þessar stéttir manna, eins og verkfræðinga og lækna, út af því, að ef samið yrði við þá um allhátt kaup, þá væri það hættulegt fordæmi vegna verkamanna. Ég veit aldrei til þess, að verkamenn hafi mælt sinar kaupkröfur við kaupkröfur verkfræðinga eða lækna, og ég held, að hæstv. ríkisstj. hefði ekki verið í neinni hættu, þótt hún hefði sýnt bæði læknum og verkfræðingum sanngirni í samningum, með tilliti til þess, að það yrði ekki fordæmi til almennra kauphækkana verkamanna í neinu hlutfalli við það.

Eitthvað vék hæstv. dómsmrh. að því, að ég hefði sem forseti Alþýðusambands íslands verið óhollur lýðræðinu. Ég mundi nú vilja biðja hæstv. dómsmrh. að nefna þess einhver dæmi, að ég hafi viðhaft ólýðræðisleg vinnubrögð í Alþýðusambandi íslands, ef hann hefur þekkingu til og getur nefnt þess nokkur dæmi. Mér er ekki kunnugt um, að ég hafi þar beitt neinum öðrum vinnubrögðum en þeim, sem lýðræði samrýmast, og stjórnað t.d. alþýðusambandsþinginu eftir réttum þingsköpum okkar stofnunar, þegar ég hef setið þar í fundarstjórasæti, og engin mál þar vitað afgreidd öðruvísi en eftir réttum lýðræðisog þingræðisreglum. Svívirðingar órökstuddar um þetta þoli ég hvorki hæstv. dómsmrh. né öðrum, og ég fullyrði, að hann fer með rangt mál, byggt sjálfsagt á frásögnum óhlutvandra manna, sem honum væri þó nær að sannprófa, áður en hann kastar þessu fram sem ásökunum í sölum Alþingis, það er honum ekki sæmandi, án þess að vita fyrst, hvort hann er að fara með rétt mál eða rangt.

Eitt af því, sem hæstv. dómsmrh. taldi vera orsök þess, að kjaradómur hefði kveðið upp þann dóm, sem hann gerði, voru tekjur síldarsjómanna. Tekjur síldarsjómanna voru neistinn, sagði hann. Háir hlutir síldarsjómanna ollu því, að kjaradómur hækkaði kaup hæst launuðu embættismannanna í landinu um 90%. Þetta er alrangt, áreiðanlega rangt. Ég veit nokkuð um orsakir þess, að kjaradómur komst að þessari niðurstöðu, að það væri ekki út í hött að hækka laun hálaunaðra embættismanna ríkisins svo mjög sem dómurinn gerði. Það var nefnilega búið af stjórnarstefnunni á undanförnum árum að hlynna allnotalega að kaupsýslustéttunum. Það var orðið kunnugt tvö s.l. ár, að kaupsýslumenn og kaupsýslufyrirtæki í Reykjavík voru farin að yfirkaupa fólk, bæði úr þjónustu Reykjavíkurborgar og ríkisins og ríkisstofnana. Það var ekkert óalgengt um unga menn, sem höfðu einhvers konar trúnað eða forstöðu fyrir verzlunarskólum hér inni á Laugaveginum, með verzlunarskóla- eða samvinnuskólaprófi, ef þeir voru álitnir álitlegir starfsmenn, að þeir væru með 14—16 þús. kr. á mánuði, þegar menn í opinberri þjónustu voru með 7—8—9 þús. kannske. Á þetta var áreiðanlega horft af kjaradómsmönnunum miklu fremur en á hluti síldarsjómanna á fáeinum skipum í aflagóðæri eins sumars. Það er og vitað, að einn forstjóri hafði verið með laun, sem námu eitthvað 1 millj. kr. í íslenzkum krónum, — einn forstjóri hjá íslenzku fyrirtæki. Og þau laun voru greidd af hinum þrautpínda sjávarútvegi íslendinga. Þegar hann svo var leystur frá störfum, þá er kunnugt, að þá voru ráðnir þar þrír forstjórar, hver um sig með 30 þús. kr. á mánuði og allmikil fríðindi að auki. Þetta dæmi var kunnugt og fleiri, áður en kjaradómurinn kvað upp sinn dóm, svo að hann hafði a.m.k. á fleira að líta úr því gósenlandi misskiptingarinnar, sem núv. hæstv. ríkisstj. hafði skapað. Það var neistinn, segi ég.

Svo mikið er víst, að ég held, að það sé ákaflega fjarlægt verkafólki að miða kaupkröfur sínar við ákaflega mismunandi háa eða rýra hluti sjómanna. Það er fullkomlega viðurkennt af verkafólki, að stéttarbræður þess á sjónum eigi að bera meira úr býtum en verkamaðurinn í landi, og það er á því fullur skilningur hjá verkafólki, að hlutur sjómannsins fari eðlilega langt upp fyrir kaup verkamanns annað slagið, en það er líka vitað af þeim, að hlutur sjómanasins getur líka orðið öllu rýrari en kaup verkamannsins í landi, sem hefur þó undir flestum kringumstæðum allverulega betri vinnuaðsstöðu en sjómaðurinn. Ott að þessu athuguðu finnst mér furðuleitt, ef háembættismenn þjóðarinnar hafa byggt kröfur sínar nm 90% kauphækkun á því, að það hafði hent á einu sumri, að nokkrir tugir skipa höfðu skilað allgóðum síldarhlut, og að dómararnir hafi ætlað að byggja launakerfi á því, því trúi ég ekki, og mér finnast þetta vera of fáránlegt til þess að geta ímyndað mér, að hæstv. dómsmrh. hafi þessa skoðun, að háir síldarhlutir á einn sumri hafi orðið grundvöllurinn fyrir dómi kjaradóms.

Hæstv. forsrh. talaði nokkuð um, að það væri áform og ásetningur ríkisstj. að bæta kjör hinna lægst launuðu, án þess að til gengislækkunar þyrfti að koma. Af hverju geta þessar bætur á kjörum hinna lægst launuðu ekki komið fyrr en eftir 2 mánuði? Af hverju gátu þessar bætur til hinna lægst launuðu ekki komið nú sem einn liður í þessu frv.? Hálaunamenn þjóðfélagsins eru búnir að fá kjarabætur frá 1. júli s.l. Verkafólkið á samkv. þessu frv. að lifa í voninni um það að fá einhverjar kjarabætur eftir hálft ár. 41/2 mánuður er liðinn síðan þeir hálaunuðu fengu sínar kjarabætur, og ekki var hirt um það á öllum þessum tíma að undirbúa neina kjarabót til hinna lægst launuðu, þeim aðeins gefin lausleg fyrirheit og þó engin grein gerð fyrir því, í hverju þær launabætur eigi að vera. Þetta vekur tortryggni. Það eru vafalaust fáir í verkalýðsstétt, sem trúa því, að þarna sé af heilindum mælt, að þarna sé ekki verið að blekkja. Ég fæ engum rökum skotið undir það, að ekki sé hægt að koma með þessar kjarabætur nú, ef það á að vera hægt innan tveggja mánaða. Svo mikið er vist, að þess sér engin merki á þessu frv., sem hér er um að ræða, í hverju þessar væntanlegu kjarabætur til láglaunafólksins eigi að vera fólgnar.

Ég hafði skrifað orðrétt eftir hæstv. forsrh., að hann sagði: Hannibal Valdimarsson lækkaði kaupið og festi það svo í fjóra mánuði. — Ég ræddi um þetta áðan í sambandi við fullyrðingar hæstv. dómsmrh. og skal því ekki víkja að því frekar. En rangt hefur hann þarna farið með og tekið dýpra í árinni en hæstv. dómsmrh. þó gerði.

Ein var sú athugasemd, sem hæstv. forsrh. gerði við mína ræðu við 1. umr. þessa máls, og hún var sú, að ég hefði fullyrt, að gengislækkunin 1960 hefði verið hin mesta í sögunni, og um það sagði hann, að svo hefði ekki verið, um þetta skyldi ég fara heim og læra betur: Nú get ég sagt hæstv. forsrh., hverju þessi gengislækkun nam. Hún var 59—79%. Er það lítil gengislækkun að áliti hæstv. forsrh.? Að mínu áliti er þetta gífurlega mikil, stórfelld gengislækkun, upp undir 80%. En ég mátti náttúrlega vita það, að þegar gengislækkanir eru til umr., þá kallar hann ekki allt ömmu sina, þessi okkar viðkunnasti gengislækkunarráðherra fyrr og síðar. Og það er út frá því, sem hann kallar þetta smávægilega gengislækkun.

Sama var niðurstaðan hjá hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh., að hann hafði ekkert nema heldur kuldaleg orð að flytja fram um kjaradóm, fordæmdi hann nánast. Niðurlag ræðu hans var það, að hann vonaðist til þess, að verkafólkið vildi una óbreyttu kaupi. Ég verð að segja, að eftir þeim undirtektum, sem verkalýðsfélögin hafa nú þegar veitt þessu frv., þá held ég, að hann megi vera frekar vondaufur um það. Því gengur einhvern veginn erfiðlega að skilja, að það sé betra að vera með óbreytt, lágt kaup heldur en að fá það hækkað, t.d. í réttu hlutfalli við það, sem aðrar stéttir hafa talið nauðsynlegt að taka sér eða þeim verið dæmt, og því hlutskipti vilja verkamenn frekar una.

Hér hefur því verið haldið fram, að það séu ofsalegar kröfur, sem verkalýðshreyfingin hafi nú borið fram. Hverjar eru þessar ofsalegu kröfur? Það er krafan um það, að tekjur 8 stunda vinnudags nægi til að framfleyta meðalfjölskyldu, standi undir nauðsynlegum útgjöldum meðalfjölskyldu. Við erum sem sé þeirrar skoðunar í verkalýðshreyfingunni, að það sé alger lágmarkskrafa, sem aldrei megi hvika frá eitt andartak, að verkamaðurinn geti lifað nokkurn veginn mannsæmandi lífi af þeim launum, sem hann fær fyrir 8 stunda vinnudag. Og þetta er ekki óbilgjörn krafa. Raunar er krafan um 8 stunda vinnudag orðin úrelt krafa. Nágrannalönd okkar hafa lögfest og fest í samningum milli heildarsamtaka atvinnurekenda og verkalýðssamtakanna 45 stunda vinnuviku, og það þykir hafa gefizt vel. í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er nú stefnt að 42 stunda vinnuviku. 40 stunda vinnuvika er orðin algeng í mörgum löndum, og dæmi eru um 36 stunda vinnuviku við ýmiss konar erfið eða áhættusöm störf. Við erum á pappírnum með, 48 stunda vinnuviku og gerum kröfur um, að hægt sé að lifa af því kaupi fyrir það vinnuframlag, sem þannig er látið í té. Og þetta þykja á Íslandi óbilgjarnar kröfur. Hér má verkalýðshreyfingin ekki slaka á klónni. Þetta er krafa, sem er alger lágmarkskrafa, og ætti þó í raun og veru að gera strangari kröfur. Það er ekkert nýtt, að barizt sé á móti kröfum verkalýðsins. Það var barizt á móti því, þegar togarasjómönnum var helguð 6 tíma hvíld á sólarhring, Það var líka barizt á móti því sem ósanngjarnri kröfu, sem mundi binda endi á alla togaraútgerð hér við land, ef sjómenn ættu að fá 8 stunda hvíld. Og þá voru rekin upp óp hér á Alþ. fyrir nokkrum árum, þegar sjómönnum tókst loks að löghelga sér 12 stunda hvíld á togurunum. Alltaf hafa þetta verið taldar óbilgjarnar kröfur og sagt, að atvinnuvegurinn væri í voða, ef þetta gengi fram.

Verkalýðsfélögin almennu gera kröfu um, að kaupið verði 40 kr. á klst., og ég hef áður bent á það, að 2400 vinnustundir á ári, og fleiri eru þær ekki til á einu ári, ef miðað er við 8 stunda vinnudag og unnið alla virka daga, þá gefur það ekki nema 96 þús. kr. tekjur. Og ykkur mun, hv. alþm. og hæstv. ráðh., ganga erfiðlega að framfleyta ykkar fjölskyldum á því, 96 þús. kr., það er ég sannfærður um, það veit ég. Og þó hyggizt þið, sem skipið hér meiri hluta, standa gegn því, að verkafólk geti fengið a.m.k. um sinn breytt kaupi sínu úr 28 kr. á tímann, sem gefa ekki nema 67 200 kr. á ári, og af því skal verkafólkið lifa. Það er a.m.k. ætlun þeirra, sem þessu frv. geta fylgt. Það er staðreynd, að að óbreyttu kaupi, eins og þetta frv. kemur til með að skammta íslenzkum verkamanni, ef það verður að lögum, þá vantar 40 300 kr. til, að meðalfjölskylda verkamanns hafi fyrir viðurkenndum útgjöldum vísitölufjölskyldunnar, og það er hvorki meira né minna en 16.83 kr. á tímann, sem þarna vantar til.

Í ræðu minni við 1. umr. sýndi ég nokkuð fram á það, að verkamenn hefðu fengið tiltölulega smávægilegar bætur í hækkuðu kaupi móts við vöxt dýrtíðarinnar, og var þá nokkurn veginn sama, við hvaða ár var miðað, hvort það var 1956 eða 1958 eða bara tekin þrjú árin frá 1960 og nú til 1963. En niðurstaðan er þessi, ef miðað er við árið 1959, þá hafa laun verkamanns hækkað 35%, en sé miðað við árslok 1958, áður en Emil Jónsson, þáv. hæstv. forsrh., hafði lækkað kaupið, þá hefur kaup verkamannsins þangað til í dag aðeins hækkað um 17%.

Þegar litið er á skýrslur yfir tekjur verkamanna og hvernig þeirra er aflað, kemur í ljós, — ég mun hafa getið þess við 1. umr., en ég endurtek það, — þá kemur í ljós, að verkamaðurinn hafði aflað sér meir en þriðjungs tekna sinna í næturvinnu og á helgidögum, þ.e.a.s. þessi hluti teknanna var fenginn með vinnu á þeim tíma, sem menn eiga að hvílast, eiga að nota til hvíldar. Þetta er óræk sönnun þess, að verkamenn búa við óviðunandi launakjör og verða að gangast undir þrældóm til þess að geta framfleytt sér og sínum.

Ein af ástæðunum til þess, að verkamenn bera nú fram hærri kröfur um kjarabætur en þeir hafa áður gert, er, að þeir vilja ekki una því, að í þjóðfélagi okkar skapist sá reginójöfnuður í launum hinna hæst launuðu og lægst launuðu, sem mótaður er með kjaradómnum. Við höfum oftlega stært okkur af því, að hér væri ekki til staðar stórkostlegur launamunur launastéttanna, og á undanförnum árum, t.d. tímabilinu frá 1950–1958, mátti heita, að innbyrðis samræmi væri nokkurn veginn viðunandi til staðar. En á þeim tíma, sem síðan er liðinn, og einkanlega á stjórnartímabili núv. hæstv. ríkisstj., hefur orðið stórkostleg gerbreyting á þessu, svo að það er engin eldri hliðstæða til. Það var áreiðanlega tilgangurinn með niðurstöðu kjaradóms og að minni hyggju að vilja og vitund ríkisstj., að hér yrði gerð tilraun til að mynda nýja stéttaskiptingu í þjóðfélaginu meðal launastéttanna eins og á öðrum sviðum þjóðfélagsins.

Ég álít það vera hagsbótamál fyrir verkalýðshreyfinguna að hindra þau áform, að hér skapist slíkt regindjúp á milli hinna hæst launuðu og hinna lægst launuðu. Ef verkalýðshreyfingin sættir sig við það, þá væri hún að taka þátt í því að afmá eitt bezta einkenni íslenzks þjóðfélags, sem sé þann launajöfnuð, sem hér hefur verið, og með því væri verið að gerbreyta skiptingu þjóðarteknanna. Frá fornu fari þótti það vera eðlilegt, að maður, sem hafði nokkra sérþekkingu, bar ábyrgð jafnvel á lífi manna, sem hann vann með, hefði tvo hluti á móts við starfsmanninn, sem undir hans stjórn vann. Það var talið hæfilegt hlutskipti formanns eða skipstjórnarmanns, og þetta var svo um aldir, allt þangað til kjaradómur kvað upp sinn dóm. Þá urðu laun hinna hæst launuðu hæfilega metin fimmföld til sexföld á við þá lægst launuðu.

Hér er mjög hafður uppi sá málflutningur, að verkafólkið verði að sætta sig við óbreytt kaup, því að ef — það ekki geri það, þá komi gengislækkun, það verði allir góðir Íslendingar að slá skjaldborg um krónuna, vernda krónuna. Ef maður ætti að taka þessa kenninau trúanlega, þá held ég, að það væri æskilegt að fá nánari útskýringar á þeirri hættu, sem sé á nýrri gengislækkun. Við höfum heyrt það sagt, að núv. ríkisstj. langi ekkert til þess að fella krónuna einu sinni enn. Ég hef heyrt það orðað svo, að nýtt gengisfall nú væri heilt helvíti og það verði að forðast þetta víti auðvitað eins og unnt sé. Hve mikil mundi nú þessi gengislækkun verða? Við skulum segja, miðað við það, að orðið væri við kröfum hinna almennu verkalýðsfélaga um 40 kr. á klst. eða þannig, að heildarárstekjur verkamanns stæðu nokkurn veginn undir vísitölufjölskylduútgjöldum, hvað mundi þá krónan hrapa mikið? Geta ekki reikningsmeistararnir sagt það? Hvað mundi hún hrapa mikið, ef þessi kauphækkun ætti sér stað, ef það er eins beint og krókalaust samband milli launagreiðslna verkafólks og gengislækkana, sem ég efa stórlega? Og mundum við ekki geta fengið svar við annarri spurningu líka: Hve lengi dygði gengislækkun, hve lengi væri hún bjargráð? Hafa undanfarnar gengislækkanir ekki reynzt vera skammvinn bjargráð? Mér heyrist það a.m.k. á útgerðarmönnum, að verkanir gengislækkunarinnar 1960 hafi ekki dugað þeim nema fram á árið 1961, og gengislækkunin frá árinu 1961 dugi ekki lengur, því að nú vanti þá 56% til að standast launagreiðslurnar, þá vanti meir en helminginn til að geta borgað þau laun, sem núna eru greidd.

Útgerðarmann hitti ég á liðnu sumri, sem sagði: Ja, gengislækkun, hún hjálpar bara í bili, kannske eitt ár eða rúmt ár, en svo er það búið, þá hafa allir tilkostnaðarliðir orðið fyrir slíkri hækkun og launin auðvitað fylgt með, að það er ekkert auðveldara að ná endum saman en áður. — Þetta er sem sé eftir þessum vitnisburði ákaflega svipuð aðgerð og að pissa í skó sinn í frosti. En e.t.v. geta þeir sagt okkur, að næst ætli þeir að framkvæma gengislækkun, sem hafi varanlegra gildi en þær, sem þeir hafa framkvæmt á þessu stjórnartímabili, sem eiginlega ber að lita á sem eitt. Og ég mundi vilja bæta þriðju spurningunni við og spyrja: Telur hæstv. núv. ríkisstj. ítrekaðar gengislækkanir vera færa, þjóðholla og raunhæfa leið í efnahagsmálum þjóðarinnar? Eru þeir enn þá trúaðir á gengislækkun sem bjargráð í efnahagsmálum? Mig furðar á því, ef svo er. Ég held, að við séum búnir að fá næga reynslu af gengislækkunum og vitum það ósköp vel, hvers eðlis þær eru. Þær eru tilfærsla á verðmætum milli stétta, hafa verið notaðar til misskiptingar á þjóðartekjunum, og þær hafa alltaf rýrt álit þjóðarinnar út á við og því meira sem þær eru oftar framkvæmdar, og af tvennum gengislækkunum á seinustu árum er íslenzka þjóðin búin að fá nóga vansæmd erlendis, svo að þeirri þriðju er áreiðanlega ekki við bætandi.

Eitt af þeim vandamálum, sem framleiðsluatvinnuvegirnir eiga nú við að búa, er skortur á vinnuafli. Hvernig á atvinnulífið að leysa þann vanda? Verkafólkinu væri áreiðanlega ekkert kærara en það, ef atvinnurekendur væru jafnvel ötulli í því en þeir eru að efla og bæta tækni við öll framleiðslustörf og framkvæma hagræðingaraðgerðir til betri nýtingar véla og vinnuafls og til viturlegri og hagkvæmari vinnubragða á sérhvern hátt, og það er áreiðanlegt, að þetta verða atvinnurekendurnir fyrst og fremst að hafa forustu um. Þetta gæti áreiðanlega sparað vinnuafl, en það mundi ekki nægja. Það, sem mundi helzt nægja til þess, að atvinnureksturinn fengi nægilegt vinnuafl, væri hækkað kaup, bætt kjör þess fólks, sem framleiðsluatvinnuvegunum á að þjóna. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að ef verkalýðshreyfingin færi nú að beiðni hæstv. ríkisstj. og segði: Gott og vel, við skulum sætta okkur við óbreytt kaup verkafólks, 28 kr. á klst., að óbreyttu öllu launakerfinu, sem búið er að skapa á liðnu sumri, — þá mundi stórkostlega versna aðstaða sjávarútvegs og fiskiðnaðar að fá fólk til starfa. Margar starfsgreinar í þjóðfélaginu hafa aðstöðu til að yfirborga verkafólk, kaupa til sín vinnuafl og mundu enn ganga á það lagið, auka yfirgreiðslur, tryggja sér þannig fólk, toga það frá sjávarútvegi og fiskiðnaði, toga það frá gjaldeyrisöfluninni, og þá gæti svo farið, að launakerfi hálaunamannanna hvíldi áður en langir tímar liðu á hálfgerðum brauðfótum. Ég fullyrði það, að þetta væri engin þjóðholl starfsemi. Ef kenningin um sambandið milli launagreiðslu verkafólks og gengis krónunnar er rétt, þá væri kannske nokkuð unnið við það að halda launum verkafólksins niðri, en það mundi a.m.k. koma harðlega niður á frumatvinnuvegum þjóðarinnar að öðru leyti, og það væri þó að minnsta kosti neikvætt við það.

Ég hefði miklu fremur haldið, að það væri nú eins og sakir standa hlutverk ríkisstj., sem eitthvað hugsaði um framleiðslustörfin, sem eitthvað hugsaði um gjaldeyrisöflunina, þótt ekki væri nema bara vegna gjaldeyrissjóðanna blessaðra, sem eru að rýrna, að koma frumatvinnuvegunum til liðs einmitt á þann hátt, að þeir gætu fengið meira og betra vinnuafl, en að mínu áliti verður það vandamál ekki leyst nema með því að bæta kaup og kjör verkafólksins.

Það kom fram hér hjá einhverjum hv, alþm. í umr. í kvöld eða í nótt, að yfirbyggingu í þessu þjóðfélagi okkar væri þegar orðin fullmikil. Ef það launakerfi verður ríkjandi, sem stjórnarvöld landsins hafa skapað á liðnu sumri, og ef þau koma þeirri breytingu í gegn, fá hana viðurkennda til langframa, þá verða það fleiri, sem sækjast eftir milliliðastörfum í hinum hálaunuðu starfsgreinum. En það er áreiðanlega röng bygging okkar þjóðfélags, að það séu miklu, miklu fleiri, sem stunda skrifstofu og verzlunarstörf í þessu landi, heldur en sjómannastéttin og bændastéttin til samans, og það er röng samsetning þjóðfélagsins. Stjórnarvöld geta á hverjum tíma haft áhrif á þessa skiptingu þjóðfélagsins og eiga að gera það. Þessi þróun launamálanna, sem ég hef hér verið að ræða um, mundi hins vegar gera þessa skiptingu þ,jóðfélagsins millí starfsgreina, milli fram

leiðslustarfa og milliliðastarfa, enn þá óskynsamlegri.

Það er mín sannfæring, og ég hef gert mitt til að reyna að sannfæra ráðh. í hæstv. ríkisstj. um það, að eitt sé óumflýjanlegt, úr því sem komið er, og það er, að þær launahækkanir, sem hafa verið látnar fara yfir hvern starfshópinn og hverja starfsstéttina á fætur annarri á liðnu sumri, verði, úr því sem komið er, að fara yfir alla línuna. Það ranglæti að skilja hina lægst launuðu eftir verður aldrei þolað, og það er á engrar ríkisstj. færi að knýja það ranglæti í gegn.

Það má vel vera, og þó er ég ekki handviss um það, að hæstv. ríkisstj. hafi afl til að koma þessu frv, gegnum Alþingi og gera það þannig að lögum að nafninu til. Það getur vel verið, en ég efa það. En hitt er ég sannfærður um og það veit ég, að þótt þetta frv. komi til með að heita lög, þá verður það aldrei annað en aumt pappírsgagn, og þá segi ég: Væri þá ekki allt eins gott fyrir hæstv. ríkisstj. að losna við þá smán og lögin, sem hún fái samþ. á Alþingi, verði aldrei lög, eins og þurfa kannske eins og eitt dæmi er til áður í þingsögunni að ganga þá Kanossagöngu að biðja þingið að afnema þau aftur.

Það er alveg áreiðanlegt, að þessu máli verður ekki ráðið til lykta þannig hér innan þingsalanna, að það hafi nein áhrif í íslenzku þjóðfélagi. Það gerist ekki, þó að hæstv. ríkisstj. takist að fá alla sína stuðningsmenn til að rétta upp hendurnar með því. Það verður aldrei virkt afi í íslenzku þjóðfélagi, þótt það fái laganafn. Örlög þess ráðast í veruleikanum, úti í atvinnulífinu, og ég er sannfærður um það, að eins og ástandið er á íslenzkum vinnumarkaði, þá verður það svo, hvað sem lagastafnum liður, hvaða refsing sem skv. lögum á að vofa yfir atvinnurekendum, að þegar þeir sjá, að verðmætin, sem sjómennirnir koma með að landi, eða varan, sem þeir eru búnir að hafa til verkunar og gera margfalt verðmætari en hún var, þegar hún kom á land, en þeir koma henni ekki frá sér, geta ekki losnað við hana vegna skorts á vinnuafli, þá fara þeir hvorki eftir samningsbundnu né lögbundnu kaupi. Þeir geta það ekki. Og þeir bjóða í vinnuaflið það, sem þeir þurfa að bjóða í það, til þess að geta aukið gjaldeyrisverðmæti framleiðslunnar og komið þeirri framleiðslu, sem þeir þegar hafa, af höndum sér og fengið greiðsluna fyrir hana. Það mundi ekkert þýða að segja atvinnurekendunum á Austfjörðum, sem eru með síldina óafskipaða þar og þurfa að fá fólk til að vinna nótt og dag, þangað til búið er að koma síldinni í skip, þó að það væri að viðlögðum sektum og refsingum, að segja þeim, að þeir mættu ekki borga nema 28 kr. á tímann. Þeir eru löngu hættir því. Þeir borga núna um 40 kr. á tímann og frítt fæði, og þá fer þetta að nálgast 50 kr. á tímann, og ef þeir ekki með því móti fá nægilegt fólk til að koma þessum verðmætum frá sér, þá vita þeir, að það er aðeins eitt úrræði til, og það er að borga meira, fá þá fólk úr öðrum byggðarlögum til að annast þessa vinnu, og þetta verður hæstv. ríkisstj. að skilja. Það þýðir ekkert að vera með refsivönd reiddan á loft yfir atvinnurekendum, sem eru í því þjóðholla hlutverki, að bjarga verðmætum og byggja grundvöllinn, sem íslenzkt þjóðfélag hvílir á, í samstarfi við verkafólkið.

En það getur annað leitt af því, ef engir nýir samningar takast um greiðslu vinnulauna og lögin eiga að halda öllu kaupi í þeim skorðum, sem nú er skv. samningum. Það getur farið svo, einmitt af því að samningar væru ekki fyrir hendi, að kauphækkunin verði miklu tilviljanakenndari og ofsafengnari og þjóðfélaginu þannig bundnir þeir baggar á herðar, að kaupgreiðslurnar verði meiri en ella, einmitt af því, hvernig ástatt er á íslenzkum vinnumarkaði. Og ég er alveg sannfærður um það, að þannig fer um fyrsta vinnuhópinn, sem mér er sagt að lögin hafi sérstaklega verið sett til þess að bremsa, prentarana. Þeir eru þannig staddir núna, að bókaútgefendurnir, prentsmiðjueigendurnir, þeir eru með sína höfuðvertið yfirstandandi, þeir eru að gefa út bækurnar undir jólamarkaðinn og þeir láta ekki eyðileggja þetta fyrir sér, hvorki með löggjöf né neinu öðru. Þeir munu til þessarar fámennu stéttar, sem þarna er um að ræða, hækka þær yfirgreiðslur, sem verið hafa, sem hafa verið 25–30%, í 60, 70 eða 80% til þess að fá prentara til að vinna, svo að þeir komi bókunum sínum út fyrir jólamarkaðinn. í þessu verða þeir ekki hindraðir með neinu, en fyrir vikið, að ekki verður frjálsræði til að ganga þarna frá heildarsamningum með eðlilegum hætti um kaup og kjör milli prentsmiðjueigenda og prentara, þá er það algerlega tilviljun háð, hvort þarna verður ekki niðurstaðan miklu ofsafengnari kauphækkanir en ella.

Ég veit ekkert, hvort núv. hæstv. ríkisstj. trúir mér um þetta, og á enga heimtingu á því, en ég veit, að þetta getur alveg eins orðið afleiðingin af frv. hennar, vanhugsuðu á allan hátt. Og það eitt er vist, að það mun ganga miklu erfiðlegar að ná hófsömum og sanngjörnum samningum við verkalýðshreyfinguna í heild eftir þau hörkubrögð, sem við eru höfð með að koma slíkum lagafjötrum á þá lægst launuðu í landinu. Það vekur gremju, það vekur heift, sem erfitt verður kannske að draga úr, a.m.k. á næstunni. En hjá þessu var öllu hægt að komast, ef það hefði verið tekið í framrétta hönd verkalýðssamtakanna um að leggjast allir á eitt, atvinnurekendur, ríkisstj. og verkalýðssamtök, að koma heildarskipulagi á kaupgjaldsmálin núna t.d. á næsta hálfum mánuði. Hefðum við t.d. verið komnir langt á leið, en ekki búnir að hálfum mánuði liðnum, þá er ég alveg sannfærður um, að þá hefði ekki verið gefizt upp við þá lausn málsins, heldur veittur nokkurra daga frestur í viðbót til þess að ganga frá málinu að eðlilegum hætti.

Það var einhver hér í kvöld, ég hygg, að það hafi verið 3. þm. Reykv. (EOl), sem sagði, að menn ættu að sjá sig í spegil. Þá datt mér í hug bók, sem ég heyrði oft lesið i, þegar ég var ungur drengur, og ég síðar hafði mikið yndi af að lesa í, það er Húspostilla Jóns meistara Vídalíns, og þar er einmitt klausa, sem ég hef ekki getað gleymt, sem er um spegil og um vissa menn, sem eigi að skoða sig í spegli. Klausan er svona, a.m.k. nokkurn veginn orðrétt, þó að ég ha£i nú ekki Húspostillu Jóns Vídalíns hér við höndina: Skoðið þér yður í spegli, ó, þér stoltu gæðingar veraldar þessarar, og hugleiðið, hversu fánýtir þér eruð, nær þér viljið troða lítilmagnann undir fótum. — Já, skoðið þér yður í spegil, þér stoltu gæðingar í hæstv. ríkisstj., og hugleiðið, hversu fánýtir þér eruð, nær þér viljið troða lítilmagnann undir fótum. Og nú er það einmitt áform ykkar að troða lítilmagna Íslands, íslenzka erfiðismenn undir fótum, undir járnhæl ofbeldis, réttarskerðingar og kúgunar. En ég öfunda ykkur ekkert af spegilmyndinni ykkar, ef þið hafið hugrokki til að skoða ykkur í spegli við þessa iðju.