05.11.1963
Neðri deild: 12. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í C-deild Alþingistíðinda. (1844)

56. mál, launamál o.fl.

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Senn líður að lokum umræðna í hv. deild um þetta margrædda frv. En ég get ekki látið hjá liða, áður en lýkur, að segja mitt álit um þetta mál.

Það verður eðlilega að líta á þetta frv. ríkisst,j. í ljósi viðreisnarinnar frá upphafi viðreisnar til dagsins í dag. Það er löngu komið í ljós, að það er mikill vandi á höndum þeim, sem hafa tekið að sér að stjórna í þessu landi með viðreisnarstefnu fyrir augum. Það er komið í ljós, að efnahagskerfi ríkisins er sem óðast nú á seinni mánuðum og siðari árum smátt og smátt að liðast í sundur. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er skilgetið afkvæmi viðreisnarinnar, og ekki nema eðlileg afleiðing stjórnarstefnunnar, eða þannig lít ég á það og við framsóknarmenn. Efnahagslöggjöfin frá 1960, gengisbreytingin mikla með ýmiss konar hliðarráðstöfunum, sem gerðar voru, og gengisbreytingin 1961, sem var þó enn þá meira út í hött, þessar hvorar tveggja breytingar á gengi krónunnar hlutu eðlilega að leiða til þeirra erfiðleika, sem komið hafa fram smám saman, síðan þessar breytingar gengu í gildi.

Gengisbreytingin seinni, frá 1961, var talin af mörgum nokkurs konar hefndarráðstöfun á hendur annars vegar þeim launastéttum, sem sömdu þá, voru samningsaðili, og hins vegar þeim atvinnurekendum, sem tóku sér fram fyrir hendur að leysa hagsmunamát launastétta eða viss hluta launastétta á þeim tíma. En fyrir þær sakir, að samningar tókust, var hægt að halda uppi eðlilegri framleiðslu og vil ég þá sérstaklega til nefna í því sambandi síldveiðarnar. Vaxtahækkunin, sem átti sér stað 1960 á vegum viðreisnar, hlaut að leiða til margs kyns erfiðleika í athafnalifi þjóðarinnar. Atvinnuvegirnir urðu aðþrengdir bæði vegna okurvaxtanna og af mörgum öðrum ástæðum, svo sem ofboðslegum sköttum og tollum og síðan lánahöftum af ýmsu tagi. Þannig hefur ríkisstj. sjálf og flokkar þeir, sem hana styðja, alið á dýrtið í landinu og orðið til þess,

að knúðar hafa verið fram kaupkröfur af hálfu launafólks. Ríkisstj. hefur með stefnu sinni efnt til skrúfgangsins milli verðiags og kaupgjalds. Aðgerðir hennar fyrst og fremst hafa verið upphaf hins mikla dýrtíðarflóðs og innihald þess, og þetta mátti vel sjá fyrir, og það gerðum við framsóknarmenn, svo sem kunnugt er. Við beittum viðvörunarorðum við öll möguleg tækifæri, en stjórnarflokkarnir skeyttu því engu. Þannig er, að ríkisstj, getur sakað sig um sjálf, hvernig komið er, en getur engan veginn ásakað almenning, eins og einn ráðh. í ríkisstj. hefur nýlega gert tilraun til, og talið, að fólkið í landinu, beri höfuðábyrgð á því, hvernig komið er. Þetta er vissulega ómaklegt, þjóðin hefur sjaldan eða aldrei unnið meira en á undanförnum árum og aldrei unnið lengri vinnutíma almennt, og 8 stunda vinnudagur hefur má segja verið gjörsamlega óþekktur um nokkurt skeið, kannske ekki af því, að borgararnir hafi svo sérstaklega mikinn áhuga fyrir að vinna sér til óbóta, heldur beinlínis vegna þess, að flestir borgarar hafa þurft að vinna mun lengri tíma en 8 klst. til að geta komið saman endum í sínum einkaefnahagsmálum.

Ekki þarf ríkisstj. að kvarta svo mjög um illt árferði til lands og sjávar, því að árgæzkan hefur verið meiri en oftast áður á seinni áratugum. Þannig hafði ríkisstj. margt það á hendi, að vel mátti fara um efnahag þjóðarinnar, og ég get bætt því við, að hún tók ekki við svo afleitu búi 1958—59, þegar vinstri stjórnin lét af völdum, heldur gildum sjóði. Og landsfólkið hefur verið mjög samstillt, eins og áður, til starfa og verkefnin ærin vegna mokafla og góðæris. Það, sem á skorti, var rétt stjórnarstefna, og þess vegna er komið í óefni. Stjórnin neytti ekki hins einstaka færis á liðnum árum að vinna í haginn og styrkja svo að um munaði atvinnuvegina til lands og sjávar og efla á allar lundir í því skyni að gera þá færari til þess m.a. að standa undir sómasamlegu kaupgjaldi og eðlilegri framþróun atvinnuveganna og uppbyggingu þeirra. Auðvitað þurfti að leggja og þarf allténd að leggja hið mesta kapp á að efla og auka framleiðsluna og afköstin og herða á framleiðni og gæta hagsýni yfirleitt í sambandi við rekstur atvinnuveganna og atvinnufyrirtækja. Hins vegar var stefnt að því að efla sem mest mátti verða fjársterka einstaklinga, og til þeirra var sannarlega og er fjármagni þjóðarinnar beint, arður þeirra er látinn vaxa á kostnað alls þorra fólks. Þessar sterku andstæður, sem stjórnarstefnan hefur skapað í efnahagslegu tilliti, hlutu að auka á auðsætt og loks óþolandi rangiæti í tekjuskiptingu og annarri úthlutun fjármunalegra gæða með þjóðinni. Og þetta játaði hæstv. viðskmrh. nú á dögunum í umr, um þetta mál. Hann sagði, að bilið reikkaði sem óðast milli láglaunastéttanna, þ. á m. bænda og þeirra, sem betur eru launaðar. En það er nú svo, að jöfnun lifsins gæða, svo sem auðið er, hlýtur að vera næst okkar eðli íslendinga eins og flestra annarra vestrænna þjóða, og allt fram á viðreisnarár var þeirri stefnu fylgt eftir mætti á hverjum tíma. En þegar núverandi ríkisstj. tók völdin, var allt annar háttur upp tekinn í veigamiklum atriðum og stefnunni í átt til auðseflingar hinna fáu haldið í síauknum mæli, eftir því sem viðreisnarárin liðu, fjársterkir aðilar þannig efldir, lánakerfið stillt að verulegu leyti inn á þá, og aðstaða þeirra til gróða bætt með ýmsum hætti, svo sem alkunna er. Hins vegar er svo að geta sérstaklega, að ýmis samtök almennings, svo sem samvinnufélög bæði til vörukaupa og til framleiðslu, hafa ekki allténd átt upp á pallborðið hjá viðreisnarstjórninni og þeirra kosti meira en góðu hófi hefur gegnt verið þrengt á ýmsa vegu og einstaklingum almennt gert allt of erfitt fyrir í viðleitni sinni til sjálfsbjargar og sjálfstæðrar atvinnuaðstöðu.

Sakir hinnar röngu stjórnarstefnu hafa efnahagsmálin gengið svo úr skorðum sem raun ber vitni. Við blasir eftir fjögurra ára viðreisnarstjórn þetta: Dýrtíðin hefur aukizt úr hófi, okurvöxtunum er haldið uppi, söluskattar orðnir á annan milljarð króna, en nokkuð verulegur hluti þeirra átti að vera til bráðabirgða, en eru allir orðnir viðvarandi, vöruskiptajöfnuður við útlönd óhagstæður nú þessa stundina samkv. hagskýrslum yfir 700 millj. kr., aukið á skuldir við útlönd og upplausnarástand í launamálum á hinum almenna vinnumarkaði, og lengur mætti upp telja. Það er sannarlega alvarlegt efnahagsástand þjóðarinnar, um það verður ekki villzt.

Það frv., sem hér liggur fyrir til umr., snertir veigamikinn og einn viðkvæmasta hluta efnahagsmálanna. Það eru launamál hinna láglaunuðu vinnustétta til lands og til sjávar. Í frv. ríkisstj. er lagt til að afnema um skeið a.m.k. samningsrétt launastétta, þ. á m. bænda, og kaup þeirra bundið fast um tveggja mánaða skeið. Það hafa verið færðar sannanir að því, að þetta frv. sé eina úrræði stjórnarflokkanna og eigi að verða til frambúðar, ef í gegn kemst.

Hv. 1. þm. Austf. (EystJ) bar í ræðu hér á dögunum fram þá fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort hann, ráðh., þyrði að lýsa því yfir hér í umr., að þetta frv., ef að lögum yrði, yrði fellt og ákvæði þess úr gildi 31. des. í síðasta lagi og síðan teknir upp samningar við launastéttirnar. Ég hef ekki heyrt svar forsrh. enn. Í nál. meiri hl. fjhn. segir, að athugun sú, sem ríkisstj. hafi látið gera á efnahagsástandinu, hafi leitt til þeirrar niðurstöðu, að útflutningsatvinnuvegirnir geti ekki staðið undir frekari kostnaðarhækkun, að frv. sé fram komið til þess að bjarga útflutningsatvinnuvegunum frá yfirvofandi hruni. Verði frv. ekki samþykkt og að lögum gert, sé næstum eða alveg óumflýjanlegt að fella gengið. Þannig er skoðun stjórnarflokkanna þá sú, að hækkað kaup láglaunastéttanna sé útilokað og halda beri þá verkamanninum við árskaupið, sem oft hefur verið nefnt hér áður í umr., 67 þús. kr. Á því kaupi á hann þá að lifa framvegis, hvað sem dýrtíðarflóðinu líður og hvað sem hver segir, og allir vita nú, hversu fráleitt það er.

Í nál. meiri hl. fjhn. segir m.a.: „Augljóst er, að ef orðið yrði við kaupkröfunum, þótt eigi væri nema að hluta, væri hætt við því, að ókleift reyndist að leiðrétta misræmið, sem skapazt hefði þannig, án þess að breyta genginu: Þetta álit stjórnarflokkanna segir bezt til um það, hvernig hag útflutningsatvinnuveganna er komið undir stjórn viðreisnar. Atvinnuvegirnir hafa m.ö.o. ekki þolað stjórnarfarið á undanförnum árum, hafa ekki þolað viðreisnarstefnuna.

Það er satt, efnahagsmálunum er sannarlega illa komið. Lýsingar stjórnarfl. eru hárréttar í flestum greinum, og vist er það, að ekki hefðu þeir viðhaft slíkar lýsingar á niðurstöðum og afleiðingum stjórnarstefnu sinnar, ef þeir væru ekki hart reknir. En slík viðurkenning sem þessi er að sjálfsögðu engan veginn auðveld þeim. Fyrirsvarsmenn stjórnarfl. segja líka: Innflutningur varnings hefur vaxið of mikið, bankaútlán aukizt um of, neyzlan og fjárfestingin meiri en framleiðslan, og horfir illa, framkvæmdir of miklar, sparifjáraukning minnkandi, eftirspurn eftir lánsfé óeðlilega mikil. Þannig kemur það enn fremur í ljós, að stjórnarfl. hafa hvergi nærri laft taumhald á þessum öllum veigamiklu þáttum í efnahagskerfi þjóðarinnar, og því var af okkur framsóknarmönnum líka spáð, að svo mundi fara, og var þá miðað við stefnuskrá viðreisnarfl. þegar í upphafi.

Hvað sagði í „Viðreisn“, pésanum fræga, þ.e.a.s. stefnuskrá stjórnarfl.? M.a. var sagt: Koma skyldi atvinnulífi þjóðarinnar á traustan og heilbrigðan grundvöll. — Enn fremur var lofað stöðvun verðbólgunnar og halda skyldi dýrtiðinni í skefjum. Vextir, þ.e.a.s. okurvextir, áttu vélrænt að hamla á móti útlánaþenslu, þ.e.a.s. þeir áttu að vera hæfir til þess að halda sem mest niðri eftirspurn eftir lánsfé. Lánsfjárhöftin áttu að takmarka enn fremur fjárfestingu. En aldrei hefur verið meiri fjárfesting. Og í hverju hefur hún verið fólgin? Það hefur verið allt of miklu eytt af fé þjóðarinnar í verðmæti, sem fer fram hjá útflutningsatvinnuvegunum. Þetta er alvitað. Og það er búið að benda á þetta hér í mörgum ræðum og mörg einstök dæmi tekin fram og athuguð, og allt sýnir það, að bankarnir hafa opnazt mjög fyrir fjársterkum einstaklingum og jafnvel verið í hendur fengið vald yfir miklum erlendum gjaldeyri. Þannig hafa fjársterkir stuðningsmenn stjórnarfl. fengið fjárhæðir og þær æðistórar og margar til ekki allt of nýtra hluta. Ekki hefur þá ætið verið spurt að því, hver fjárfestingin væri og þótt hún væri til annars en almannaheilla eða í þágu atvinnuveganna, var slíkt talið gott og gilt.

Eitt loforðanna, sem stjórnarfl. gáfu í upphafi viðreisnar, var þetta: Stefna ríkisstj. er m.a. sú, að það sé og eigi að vera verkefni samtaka launþega og atvinnurekenda að semja sín á milli um kaup og kjör. Og það er þetta loforð, sem snertir mjög það mál, sem hér hefur verið til umr. En þetta loforð var ekki fremur haldið en hin, sem ég hef drepið á af mörgum. Og frv., sem hér liggur fyrir, er þar um gleggsta dæmið. Frv: er, eins og ég hef sagt, eðlileg afleiðing stjórnarstefnunnar og um leið tákn þess, að viðreisnin er að falli komin eða gengin sér til húðar. Frv. sýnir úrræðaleysi stj., sem finnur sig hafa misst stjórnartauma úr sinni hendi um veigamikinn þátt efnahagsmálanna. Frv. er stríðsyfirlýsing á hendur launafólki til lands og sjávar, því fólki, sem atvinnuvegir og afkoma þjóðarinnar byggist að mestu leyti á. Með frv. er í einu vetfangi og fyrirvaralaust þetta fólk svipt samningsfrelsi sínu

og eðlilegum rétti til áhrifa og ákvörðunar um lífskjör sín og það skilið eftir í meiri afkomuerfiðleikum og óvissu um framtíðarefnahag sinn en nokkru sinni fyrr. Hér er stefnt til styrjaldar við þann hluta landsmanna, sem býr, svo sem alkunna er, við eitt lakast borð í kjaratilliti. Og það geta allir sagt sér það sjálfir, að með engu móti öðru en því að leggja slíkt frv. fram, ég tala ekki um að samþykkja það, er hægara að efna til ófriðarbáls, sem getur leitt til hinna alvarlegustu slysa.

Og hví er til þessa leiks stofnað? Eins og margrakið hefur verið, er efnahagsástandið ískyggilegt, og eins og ég hef getið, er lýsing stjórnarmanna á því mjög sannleikanum samkvæm. En þetta frv. getur engan veginn bætt úr hið minnsta, að hyggju okkar framsóknarmanna. Það á ríkisstj. enn fremur að vita og eigi siður en við framsóknarmenn og flestir aðrir landsmenn. Frv. er ögrun aðþrengdu fólki, og hins vegar yfirlýsing stjórnarinnar um uppgjöf stjórnarfl. við að leysa þann mikla vanda, sem ríkisstj. stendur nú frammi fyrir. Og ekki er það einungis, að hún leysi engan vanda með þessu frv., heldur eykur hún stórkostlega á vandann.

Hvað var annars ríkisstj. og hennar fólk að gera frá því hinn 17. júní s.1., þegar hún fékk frestinn til þess að athuga kjaramál þeirra launastétta, sem búa við eitt takast borð? Ég vil ekki ætla, að það hafi verið svo, að stjórnarfl. hafi frá upphafi verið staðráðnir í því að beita þvingunarlögum og bera við, að útflutningsatvinnuvegirnir gætu engan veginn þolað hærri kaupgreiðslur. Ég get vart hugsað mér það, að stjórnarfl. hafi frá upphafi verið staðráðnir í því að beita þvingunarlöggjöf í viðskiptum við láglaunastéttirnar. En vissulega ber allt að þeim brunni, að svo hafi verið. Þegar stjórnarfl. ekkert gátu að gert á 41/2 mánuð, hafandi þá ekki þingið eins og sverð vofandi yfir höfði sér eða andstöðuflokkana þar réttara sagt, hvernig getur nokkrum manni þá dottið í hug, að þeim takist að leysa vandann á næstu tveim mánuðum, þegar litið er til þess, að stjórnarfl. sýnast ekki neitt nær lausn þessa mikla vandamáls í dag en þeir voru um miðjan júní s.l.? Í frv. ríkisstj. eru þannig engar till. um raunhæfa og eðlilega lausn á vandamálinu.

Þá er enn fremur spurt að því: er það hyggja stjórnarfl. að binda kaup einnig eftir 31. des. og koma í veg fyrir það, að eðlilegir og sjálfsagðir samningar eigi sér stað milli launastéttanna og atvinnurekenda? Verða þá sömu rök og stjórnarfl. beita nú notuð eftir 31. des.? Þess vegna, þegar hlutirnir eru séðir í þessu ljósi, eru þeir æðimargir, sem líta svo á, að stjórnarfl. ætli sér blátt áfram og hiklaust að innleiða og þreifa fyrir sér áfram stig af stigi um bindingu kaupgjalds með löggjöf og bindingu kaupgjalds þess hluta þjóðarinnar, sem hefur einna ríkasta þörf fyrir verulega hækkun kaups, til þess að eitthvað komist í áttina til móts við hina sífellt auknu dýrtíð.

Það er líklegt og kannske eðlilegt að einhverju leyti, að stj. hafi ekki varað sig á því, að margumtalaður kjaradómur, sem lauk starfi seinni hl. á þessu ári, legði slíkt mat á kjarahlut opinberra starfsmanna sem raun er á orðin. Laun opinberra starfsmanna margra hverra hafa hækkað allverulega. En það er líklegt, og ekki aðeins líklegt, heldur jafnvel auðsætt, að mat kjaradóms er jafnframt að vissu leyti mat á áhrifum viðreisnarinnar á kjaramál launastéttanna yfirleitt. Kjaradómur hefur að mínu áliti opnað mjög augu alþjóðar fyrir ástandinu í kjaramálum launastéttanna almennt, og afleiðingin af þessu mati kjaradóms er eðlilega sú, að aðrar stéttir ætla sér að renna í kjölfarið og heimta sinn hækkunarhlut í þessu kaupgjaldi. Ég tel, að hæstv. ríkisstj. hefði mátt vera þetta ljóst. Hún hefði strax átt að viðhafa þau viðbrögð ein, sem höfðu það að marki að laða láglaunastéttirnar til sanngjarnra samninga um launakjör í ljósi staðreynda, sem blasa við hverjum manni, að því er varðar lífskjör þessara stétta í dag. Og það ber að harma það, og getur haft illar afleiðingar, hversu mjög illa var notaður tíminn frá miðjum júní og þar til í októbermánaðarlok. Sannarlega var á miðju þessu ári lofað úrræðum, sem að haldi mættu koma, og vissulega hafa láglaunastéttirnar beðið allan tímann í eftirvæntingu, og svarið, sem þessar stéttir hafa fengið, er þetta einstæða frv. Fram hjá samningsrétti launastétta verður ekki gengið að skaðlausu fyrir þjóðfélagið. Þess vegna ber vafningalaust að leita samninga við þessar stéttir manna, og það á að freista alls til þess, að viðhlítandi samningar náist, þannig að þessar stéttir njóti sæmilegra tekna, án þess að yfir gangi nauðsynlegan hvíldartíma eða ofbjóði vinnuþreki þeirra. Og það er sannarlega tími til þess kominn. Þetta er sú leið, samningaleiðin, sem ber að fara, og þetta er eina leiðin, sem er í raun og veru fær. En þessa leið hefur ríkisstj. ekki viljað fara eða a.m.k. trassað að reyna að fara, heldur hefur hún gripið til þess óyndisúrræðis að flytja þetta frv.

Um leið og eðlilegir samningar væru gerðir við láglaunastéttirnar, þarf að sjálfsögðu að leggja hina mestu áherzlu á að búa þannig að atvinnuvegum til lands og sjávar, að þeir megi bera slíkar launagreiðslur og annan kostnað svipaðs eðlis. Þetta hlýtur að vera hægt að leysa með þessum hætti: Annars vegar að færa þessar láglaunastéttir úr þeim kút, sem þær eru reyrðar í nú í dag, og hins vegar að auka svo mjög á framleiðslu og framleiðni í atvinnuvegunum, að þeir séu færir til þess að borga þá nauðsynlegu hækkun, sem þannig verður að eiga sér stað. Það þarf að styrkja framleiðsluna meira en gert hefur verið til afkastaauka, og það þarf að létta greiðslubyrðar á atvinnuvegunum, t.d. lækka vexti. Á það hefur margoft verið bent í ræðum manna úr andstöðuflokkum ríkisstj., að koma beri fram lækkun vaxta, og svo að viðhafa hina beztu fyrirgreiðslu í lánum til atvinnuveganna. Þá er að sjálfsögðu hægt að finna mikið af tollum og töluvert að sköttum, sem má lækka í hag fyrir atvinnuvegina. Með því móti að lækka þannig greiðslubyrðar á atvinnuvegunum mætti, eins og ég hef drepið á, hækka við láglaunastéttirnar, eins og sannarlega ber.

Framsóknarmenn hafa oft og iðulega bent á þessar leiðir og reynt að opna augu stjórnarmanna fyrir slíkum eðlilegum viðbrögðum í framkvæmd efnahagsmálanna. En stjórnarflokkarnir hafa virt slík ráð og vinsamlegar ábendingar að vettugi. Í þessu vandamáli viljum við enn benda á ráð, sem má til góðs eins leiða fyrir stjórnarflokkana í þeirri villu, sem þeir eru nú staddir. Við viljum góðfúslega benda stjórnarflokkunum á þetta: Það er þjóðfélaginu hættulegt að gripa til þeirra ráða, sem frv. felur í sér, og það er óverjanleg og ómakleg árás á lögverndaða hagsmuni láglaunastéttanna að lögfesta ákvæði þessa frv., ekki sízt með hliðsjón af því, sem aðrir launþegar í landinu hafa komizt í launamálefnum sinum. Og í þriðja lagi er mjög svo líklegt, að ekki sé unnt að halda til streitu ákvæðum frv., þegar til framkvæmda kemur, því að ákvæði frv. stríða í meginatriðum gegn réttar- og réttlætisvitund þjóðarinnar.

Af því, sem ég nú hef rakið hér lítillega, ber að sjálfsögðu að fella þetta frv., en í stað þess taka upp samninga við láglaunastéttirnar og finna flöt á eðlilegu samkomulagi um vandamálið. Það hygg ég, að verði stjórnarflokkunum fyrir beztu, og það verður áreiðanlega þjóðinni fyrir beztu.