05.11.1963
Neðri deild: 12. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (1846)

56. mál, launamál o.fl.

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Í ræðu, sem ég flutti hér í gær, gerði ég í megindráttum grein fyrir afstöðu minni til þessa frv. og þarf ekki miklu við það að bæta. Ég mundi því sennilega ekki hafa tekið til máls við þessa umr., ef seinasti ræðumaður hefði ekki beint mjög alvarlegum fsp. til hæstv. forsrh., sem ég tel sjálfsagt að hæstv. forsrh. muni svara við þessa umr. En að sjálfsögðu er sú spurning, sem lögð er fyrir hæstv. forsrh., þannig vaxin, að það er ekki með öllu óeðlilegt, að hann taki sér nokkurn umhugsunarfrest, og ég vil því nota tímann, meðan hæstv. forsrh. er að hugsa sig um, til þess að segja hér nokkur orð.

Það hefur verið einkennandi, bæði við 2. og 3. umr. þessa máls, að ráðh. hafa lagt ótrúlega litið til mála. Ég man ekki eftir því, siðan ég tók sæti hér á þingi og reyndar alllengi áður, vegna þess að ég hafði aðstöðu til að fylgjast með störfum þingsins sem blaðamaður, að ráðh. hafi verið jafnþögulir við 2. og 3. umr. í jafnmiklu stórmáli sem þessu eins og þeir hafa verið nú. Og ég get líka vel skilið það, vegna hvers hæstv. ráðh. eru svona þögulir og hafa litið til málanna að leggja. Ástæðan er einfaldlega sú, að þetta frv. hefur hlotið strax í upphafi meiri mótspyrnu, — ég held, að það sé óhætt að segja það, — heldur en nokkurt annað frv., sem hefur verið lagt fyrir Alþingi, a.m.k. um mjög langt skeið. Ég minnist þess ekki, a.m.k. svo að áratugum skipti, að jafnsterk andúðaralda hafi risið strax í upphafi gegn nokkru frv. eins og þessu, og það getur að sjálfsögðu gefið sína skýringu á því, hve þögulir ráðh. hafa verið hér við 2. og 3. umr. þessa máls.

En það er ekki fjarri lagi nú við lok þessarar seinustu umr. hér í hv. d. að rifja það upp, vegna hvers þetta frv. hefur sætt slíkri mótspyrnu og andúð sem raun ber vitni um. Ég skal aðeins minnast á þessar ástæður í örstuttu máli.

Ég hygg, að fyrsta ástæðan sé sú, að það hefur sennilega aldrei verið lagt fyrir Alþ. frv., sem felur í sér öllu meira ranglæti en það mál, sem hv. d. hefur nú til umr. Það er meginefni þessa frv. að koma því til vegar, að eftir að flestir hátekjumenn landsins hafa fengið mjög riflegar kauphækkanir og kjarabætur, þá skuli þeir, sem lægst launaðir eru og verst eru settir í þjóðfélaginu, engar svipaðar bætur fá. Þetta er slíkt ranglæti, að það er ekki óeðlilegt, þó að gegn slíku ranglætismáli risi sterk andúðaralda, eins og líka hefur orðið. Það er ekki hægt að hugsa sér öllu meira óréttlæti en það, þegar hæstv. ráðh. um seinustu helgi flýta sér að því í bankaráðum landsins að hækka laun bankastjóranna um 40% hæst launuðu mannanna í þjóðfélaginu, koma svo 2—3 dögum eftir hingað niður í Alþingi og leggja fyrir frv. um það, að lægst launuðu stéttirnar skuli engar svipaðar bætur fá. Það er ekki að undra, þótt slíkt frv. mæti sterkri andúðaröldu hjá þjóðinni.

En þetta er þó ekki nema ein ástæðan til þess, að þetta frv. hefur mætt slíkri andúð sem raun ber vitni um. Önnur ástæðan er sú, að með þessu frv. er ráðizt gegn mikilvægasta rétti launastéttanna í landinu, því að það er óumdeilanlegt, að mikilvægasti réttur launastéttanna í landinu er verkfallsrétturinn. Það sjáum við aðeins með því að bera saman kjör launastéttanna í þeim löndum, þar sem verkfallsréttur er og þar sem verkfallsréttur er ekki. Launakjörin eru yfirleitt svo miklu lakari í þeim löndum, þar sem ekki er verkfallsréttur, að það þarf ekki að bera það saman. Svo mikill er munurinn, að hann sést strax við fyrstu sýn. Og af hverju stafar þessi munur? Hann stafar fyrst og fremst af því, að í þeim löndum, þar sem verkfallsréttur er ekki leyfilegur, þar hafa launastéttirnar, hinar vinnandi stéttir, ekki aðstöðu til þess að knýja réttmætar kjarabætur fram og verða þess vegna að sætta sig við það, sem valdhafarnir og atvinnurekendurnir skammta þeim. Og þess vegna er það ekki undarlegt, að launastéttir landsins risi upp til mótspyrnu, þegar á að taka þennan rétt af þeim.

Það hefur ekki sízt valdið ólgu og andúð í þessu sambandi, að það er komið greinilega í ljós, að til þess er ekki ætlazt af valdamönnunum, þó að svo sé látið í veðri vaka í þessu frv., að þetta eigi aðeins að gilda 2 næstu mánuðina, — það hefur komið greinilega fram, að það er ætlunin að framlengja þessa réttarskerðingu. Formaður Framsfl. bar þá fsp. fram við 1. umr. hér í d. til hæstv. forsrh., hvort það væri ætlun hæstv. ríkisstj., þegar þeir 2 mánuðir væru liðnir, sem þessum lögum er ætlað að gilda, og það bann á þess vegna að falla niður gegn verkfallsréttinum, sem er í þessum lögum, — hvort hæstv. ríkisstj. vildi þá lýsa því hiklaust yfir, að frá næstu áramótum skyldi samningsrétturinn og verkfallsrétturinn gilda að nýju. Svör forsrh. við þessari spurningu voru þau, að hann gæti engu svarað um þetta atriði og það væri alveg eins líklegt, að þetta þyrfti að haldast áfram. Ég hygg, að þetta svar hæstv. forsrh. gefi það fullkomlega til kynna, að það sé ætlun ríkisstj., ef henni tekst að komast í gegn með þessi lög næstu 2 mánuðina, að láta þennan órétt gilda áfram, og það eru ekki sízt þessar upplýsingar, sem hafa valdið því, að andúðin gegn þessu frv. hefur enn magnazt frá því, sem áður var.

Þær ástæður, sem ég nú hef greint, valda því að sjálfsögðu, að það er ekki óeðlilegt, eins og ég hef áður sagt, að það hafi risið sterk andúðaralda gegn þessu máli, svo sterk andúðaralda, að ráðh. hafa séð það ráð vænst að vera þögulir hér við 2. og 3. umr. málsins í Nd. Af hálfu hæstv. ráðh. hefur nokkuð verið haldið fram, að það væri ekki ástæða til þess að hamra svo mjög gegn þessu máli, vegna þess að slíkar aðgerðir hefðu stundum verið gerðar áður af Alþingi. Það er búið að sýna fram á það hér hvað eftir annað, að þetta er algerlega rangt. Það hefur aldrei áður á Alþingi verið samþykkt neitt mál, sem er svipað því frv., sem hér liggur fyrir. Það er algerlega rangt, að í þeim lögum, sem bundu vísitöluna 1956, þegar vinstri stjórnin kom til valda, hafi nokkuð verið svipað þessu máll. Þá var aðeins bundin vísitalan, grunnkaupið var látið óheft, verkfallsrétturinn var látinn óheftur. Það er líka algerlega rangt að gera samanburð á þessu frv, og t.d. gerðardómsl. 1942, því að þá var leyfilegt að hækka grunnkaup og þá var ákveðið, að gilda skyldi full dýrtíðarvísitala. Auk þess verða menn að gera sér grein fyrir því, að ástandið 1942 var allt annað en það ástand, sem nú er í landinu. 1942, þegar gerðardómurinn var settur, stóð heimsstyrjöldin sem hæst. Þá var veldi Þjóðverja og nazista allra mest. Og ástandið var svo þannig, að það mátti búast við því, að þá og þegar kynnu aðflutningar til landsins alveg að stöðvast, framleiðslan í landinu kynni að stöðvast af styrjaldarástæðum, og það var að sjálfsögðu ekkert vit undir þeim kringumstæðum að láta, t.d. vegna verkfalls, safnast saman mikið af óafgreiddum skipum hérna í höfninni, láta samgöngur úti um land stöðvast, og svo kynni það að gerast einn góðan veðurdag, að bærinn yrði fyrir árás og það væri ógerningur að bjarga þeim verðmætum, sem hér hefðu safnazt saman, vegna þess að verkfall hefði staðið yfir. Undir slíkum kringumstæðum varð að sjálfsögðu að gera ráðstafanir til þess, að ekki kæmi til verkfalla, jafnframt því sem það er yfirleitt föst regla í þeim löndum, þar sem styrjöld vofir yfir eða voru styrjaldarsvæði, eins og Ísland var þá, að gera sérstakar ráðstafanir til þess að halda verðlagi í skefjum, vegna þess að enginn veit, hvað fram undan kunni að vera. Það má t.d. benda á það, að á þessum tíma voru gerðar margháttaðar ráðstafanir í Svíþjóð, svipaðar og hér voru gerðar þá. En það dettur að sjálfsögðu engum í hug í Svíþjóð, þó að slíkar ráðstafanir væru gerðar þar á styrjaldartímum, að það eigi við að gera slíkar ráðstafanir nú. Þess vegna er það hrein fjarstæða að vera að reyna að bera saman ráðstafanir, sem gerðar eru á styrjaldartímum, við ráðstafanir, sem eru gerðar undir allt öðrum kringumstæðum en þá eru. Það dettur engum í hug að láta ráðstafanir, sem eru sérstaklega gerðar af styrjaldarástæðum, gilda, þegar friðartímar eru komnir. Þess vegna er það hrein fjarstæða að vera að gera samanburð á gerðardómslögunum 1942 og því frv., sem hér liggur fyrir.

Það er staðreynd, sem ekki verður á móti mælt, að aldrei áður hefur verið gerð ákveðin tilraun til þess á friðartímum að gera hvort tveggja í senn að banna verkföll og banna allar kauphækkanir. Það er algert nýmæli á Íslandi, það hefur aldrei verið gerð tilraun til þess fyrr en nú. Þess vegna er það fullkomlega tilgangslaust af hæstv. ráðh. að vera að bera það fyrir sig, að það sé hægt að finna eitthvert fordæmi fyrir slíkum ráðstöfunum og þeim, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Það er alveg rétt, sem hefur komið fram í máli hæstv. ráðh., að okkur er nú nokkur vandi á höndum vegna þess ástands, sem hefur skapazt í efnahagsmálum og hefur leitt af stjórnarstefnunni, ástands, sem er afleiðing stjórnarstefnunnar. Okkur er nokkur vandi á höndum af þessum ástæðum. En það er líka jafnvist, að þær tvær leiðir, sem ríkisstj. hefur helzt bent á til lausnar á þessu ástandi, eru fullkomlega ófærar. Önnur leiðin, sem hæstv. ríkisstj. hefur bent á, er það frv., sem hér liggur fyrir, kaupbinding og skerðing verkfallsréttar, sem fyrst og fremst bitnar á þeim láglaunuðu í landinu. Þetta frv. er þegar búið að hljóta slíkar móttökur hjá verkalýðshreyfingunni, hjá verkalýðsfélögunum um allt land og hjá launastéttum um allt land, að það er fyrirsjáanlegt, að þessi stefna, sem í frv. felst, er óframkvæmanleg. Hæstv. ríkisstj. má vera það fullkomlega ljóst af þessum undirtektum, að hún getur ekki framkvæmt þá stefnu, sem felst í þessu frv., vegna þess, hve ranglát hún er, og vegna þeirrar andstöðu, sem hún mætir, ef ríkisstj. ætlar ekki beinlínis að efna til fullkomins upplausnarástands í landinu og þá að sjáifsögðu miklu meira og verra en þess ástands, sem nú ríkir.

Hin leiðin, sem hæstv. ríkisstj. hefur bent á, er gengislækkunin, og ég verð satt að segja að lýsa undrun minni yfir því, að ríkisstj. skuli benda á þessa leið. Ríkisstj. hefur með skömmu millibili framkvæmt tvær gengislækkanir, 1960 og 1961, og afleiðingarnar af þessum gengislækkunum eru þær, sem nú blasa við. Það er komin fullkomin reynsla af þessum tveimur gengislækkunum, að ný gengislækkun mundi ekki neinn vanda leysa. Ný gengislækkun mundi aðeins skapa aukinn vanda, alveg eins og gengislækkunin 1960 gerði það og gengislækkunin 1961 gerði það. Og það má hverjum og einum vera ljóst t.d., að gengislækkun leysir síður en svo þann vanda, sem útflutningsframleiðslan á við að glíma, einfaldlega af þeirri ástæðu, að mikill meiri hluti af rekstrarkostnaði útflutningsframleiðslunnar er greiddur í erlendum gjaldeyri og gengislækkunin hefur engin áhrif til hagsbóta fyrir útgerðina hvað þann hluta rekstrarkostnaðarins snertir. Sá kostnaður, sem er greiddur innanlands og er fyrst og fremst kaupgjaldið, mundi að sjálfsögðu hækka mjög fljótlega, eins og reyndin hefur orðið á undanförnum árum, vegna þess að versnandi kjör, sem hlytust af gengislækkun, yrðu launþegar að bæta sér upp aftur með kauphækkunum. Þess vegna er það ekkert annað en að gera vandann enn meiri og erfiðleikana enn meiri að leggja út í nýja gengislækkun. Þess vegna verð ég að segja það,að ég er furðu lostinn, að ríkisstj. skuli leyfa sér að nefna gengislækkun eins og eitthvert úrræði í þeim vandamálum, sem nú er glímt við. Ný gengislækkun er jafnmikið óráð og sú leið, sem ríkisstj. leggur til að farin sé í þessu frv. Báðar þessar leiðir eru fullkomlega ófærar.

Af hálfu stjórnarandstöðunnar hefur hins vegar verið bent á fullkomlega færa leið í þessum málum hvað eftir annað í þessum umr. Það hefur verið bent á, að það, sem ætti að gera, væri að semja um eðlilega kauphækkun við þá lægst launuðu og þá, sem nú eru lakast settir, og gera svo ráðstafanir til þess að gera atvinnuvegunum mögulegt að risa undir þessum kauphækkunum. Það hefur verið bent á mjög ákveðnar leiðir til þess að gera atvinnuvegunum þetta kleift. Það hefur verið bent á margar lækkunaraðgerðir til þess að gera atvinnuvegunum þetta kleift. Það hefur verið bent á lækkun vaxta, á lækkun útflutningsgjalda og lækkun tolla. Ef þetta hefði allt verið gert, sem búið er að sýna fram á hér í þessum umr. að er fullkomlega mögulegt, þá er jafnframt hægt að gera atvinnuvegunum mögulegt að rísa undir þeim kauphækkunum, sem eru óhjákvæmilegar, vegna þess að láglaunastéttirnar verða að fá sömu bætur og hinir hálaunuðu hafa fengið. Og ég er alveg sannfærður um það, að ef slíkar ráðstafanir verða gerðar, þá mundi ekki standa á launastéttunum að gera jafnhliða einhverjar þær ráðstafanir, sem kæmu í veg fyrir það, að þær víxlhækkanir á kaupgjaldi og verðlagi héldu áfram, sem nú eiga sér stað.

Ég bendi aðeins á samningana frá 1961, sem þá voru gerðir milli launastéttanna og atvinnurekendanna, sem dæmi um, að það mundi ekki undir slíkum kringumstæðum standa á launastéttunum að gera þá framtíðarsamninga, sem mundu eiga sinn mikla þátt í því að stöðva það verðbólguhjól, sem hefur verið að ganga í landinu á undanförnum árum, því að það er alveg víst, að ef þeir samningar, sem voru gerðir 1961, hefðu fengið að standa, þá hefði verðbólguhjólið stöðvazt á þessum tíma, þá hefði verið búið við stöðugt verðlag á næstu árum, traustan gjaldeyri, batnandi afkomu atvinnuveganna og batnandi afkomu almennings í landinu. En vegna þess að ríkisstj. eyðilagði þessa hagfelldu samninga jafnt fyrir launastéttir sem atvinnurekendur með gengislækkuninni 1961, var árangurinn af þessum samningum alveg eyðilagður. Það er sem sagt í þessum umr. hvað eftir annað búið að benda á úrræði og lausn á þeim vanda, sem nú er glímt við, lausn, sem er auðvelt að ná, ef vilji er fyrir hendi hjá valdhöfunum til að fara þá leið. Valdhafarnir hafa enn ekki svarað því neinu, hvort þeir vilji fara þessa leið. Það hefur helzt komið fram hjá þeim, að þeir vildu það ekki, og þeir hafa haldið áfram að klifa á annarri hvorri af þeim tveimur leiðum, sem þeir hafa bent á, — þeirri leið, sem felst í þessu frv., eða gengisfellingarleiðinni, sem búið er að sýna fram á, bæði af mér og öðrum, að eru fullkomlega ófærar og munu aðeins leiða til aukinna vandræða frá því, sem nú er.

Ég vil þess vegna nota tækifærið við lok þessara umr. til að skora á ríkisstj. og til að skora á þm. stjórnarflokkanna að íhuga nú vel þau úrræði, sem hér hefur verið bent á, og láta ekki þráa og metnað stjórna sinum gerðum í þessum efnum, láta skynsemi og dómgreind ráða um það, sem gert er. Það hefur iðulega komið fyrir, að menn hafi hafið upp rangt merki, eins og ríkisstj. hefur gert í þessu máli, en þegar þeir hafa við nánari athugun séð, að þetta var rangt, hafa þeir látið það niður falla og tekið upp það merkið, sem rétt var. Og þeir, sem það hafa gert, hafa orðið menn að meiri, en ekki minni, af því að gera þetta. Og ég er sannfærður um það, og sem pólitískur andstæðingur stjórnarinnar ætti ég ekki að vera að óska eftir því, en ég er sannfærður um það, að ef ríkisstj. grípi til þessa ráðs, ef ríkisstj. léti skynsemina ráða og færi eftir þeim skynsamlegu forsendum, sem hún hefur heyrt í þessum umr., og færi þá leið, sem henni hefur verið bent á af stjórnarandstæðingum, þá mundi ríkisstj. vaxa jafnmikið af því máli sem hún hefur minnkað af því frv., sem hér liggur nú fyrir.

Það sanna í þessum málum er það, að þótt ríkisstj. hefði að mörgu leyti ranga stefnu, þegar hún kom til valda, hafði þó ríkisstj. að einu leyti rétta stefnu. Það var rétt stefna hjá ríkisstj., sem hún setti upp þá, að hún ætlaði ekki að hafa afskipti af kaupsamningum eða samningagerð milli atvinnurekenda og launþega. Ef ríkisstj. hefði fylgt þessari stefnu sinni, þá mundi vandinn í þessum málum ekki vera slíkur sem hann er í dag. Þá hefðu kaupsamningarnir, sem voru gerðir 1961, fengið að standa. Og þá væri ástandið annað í þessum málum en það er í dag, og þá hefðu ekki gerzt atburðir eins og gerðust hér á s.l. sumri, þegar járnsmiðir og atvinnurekendur voru búnir að ná samkomulagi um kaup og kjör, en ríkisstj. hindraði það á seinustu stundu, svo að af því hlauzt fjögurra mánaða verkfall járnsmiða. Og ég er líka alveg sannfærður um það, að ef atvinnurekendur og launþegar hefðu fengið að vera einir um samninga á þessu sumri og hausti, þá væri þegar komið samkomulag á milli þessara aðila. En vegna þess að ríkisstj. hefur skorizt í leikinn og hefur hvatt atvinnurekendur til þess að setja nú hnefann í borðið og segja, að þeir gætu enga hækkun fallizt á, þá hefur enn ekki náðst þetta samkomulag. En atvinnurekendur, þó að þeir séu að frumkvæði ríkisstj. látnir samþykkja það, að þeir geti enga hækkun veitt á kaupgjaldi, þá hafa langsamlega flestir atvinnurekendur brotið gegn þessari samþykkt sinni í reynd, því að ég hygg, að t.d. hérna í bænum sé það mikill meiri hl. atvinnurekenda, sem greiðir miklu hærra kaup en það, sem stendur í kaupgjaldssamningum verkalýðsfélaganna. Atvinnurekendur brjóta sem sagt sjálfir gegn þessari samþykkt, sem ríkisstj. hefur fengið þá til að gera, vegna þess að þeim hefur líka verið vel fært að gera það.

Ég sagði áðan, þegar ég kvaddi mér hljóðs, að ég ætlaði ekki að tala langt mál að þessu sinni, ég ætlaði aðeins að nota tækifærið, meðan hæstv. forsrh. væri að hugsa sig um svörin við þeirri spurningu, sem hér hefur verið lögð fyrir hann, og þess vegna skal ég nú fljótlega láta máli mínu lokið. En það, sem ég vildi að seinustu segja, er þetta: Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni, að ég vænti þess, að ríkisstj. geri sér ljóst það hættuástand, sem nú er að skapast í landinu. Það hafa þegar fjölmörg verkalýðsfélög lýst yfir verkfalli strax, svo að segja í upphafi næstu viku, og það eru miklar horfur á því, að frá þessum verkfallsboðunum verði ekki horfið. Það má að sjálfsögðu deila fram og aftur um, hvort það, sem er hér fram undan, sé löglegt eða ekki löglegt. Um það má að sjálfsögðu mikið deila, og ég ætla ekki að taka þátt hér í þeirri deilu. En það er ekki það, sem er meginatriði í þessu sambandi. Það, sem er meginatriði í þessu sambandi, er, að það er búið að halda þannig á þessu máli, — og ég skal ekki að þessu sinni ræða um það, hverjir hafi haldið á þessu máli, — en það er búið að halda á þessu máli þannig, að það er bersýnilegt, að það eru mjög stór og hættusöm átök fram undan. Og nú er spurningin: Hvað ætlar hæstv. ríkisstj. að gera? Ætlar hún að reyna að fylgja þessum lögum sínum fram með hervaldi, með lögregluvaldi og láta af því hljótast þau átök, sem slíku getur að sjálfsögðu fylgt? Ætlar ríkisstj. að fara hér sömu leiðina og farin var í Noregi á árunum 1920—1930, þegar beitt var fangelsisdómum og sektardómum, ekki aðeins gegn foringjum verkalýðssamtakanna og þm. Verkamannaflokksins norska, heldur gegn fjölmörgum verkamönnum, þegar þeir voru hnepptir í fangelsi og það í svo stórum stíl, að fangelsin voru ekki nógu stór fyrir þá, vegna þess að þeir höfðu brotið gegn einhverjum gerðardómum, sem kveðnir voru upp? Ætlar ríkisstj. raunverulega að láta slíkt ástand skapast og grípa til slíkra ráðstafana og norsk stjórnarvöld beittu á þessum tíma?

Það kann vel að vera, að hæstv. ríkisstj. kunni að geta haldið því fram, af því að þessi lög hafa verið samþ., að hún standi þar á lagalegum grundvelli. En ég held, að það væri gott fyrir hana að staldra dálítið við og athuga, hvernig þetta fór í Noregi. Þetta fór þannig í Noregi, að verkamenn unnu að lokum fullan sigur, og þetta fór þannig, þetta hafði þau áhrif, að það var lagður þá í þessum átökum sá grundvöllur að Verkamannaflokknum norska, að hann hefur verið ósigrandi í öllum kosningum siðan. En burt séð frá því held ég, að það séu ekki slík átök, sem við eigum að sækjast eftir nú hér á landi. Ég held, að það séu ekki slík átök, sem séu líkleg eða líklegust eða vænlegust til að leysa þann vanda, sem nú er glimt við. Ég held, að þetta mundi ekki aðeins auka þennan vanda, heldur miklu frekar margfalda hann.

Og ég vil benda hæstv. ríkisstj. á annað dæmi. Það reis upp verkfallsalda í Frakklandi hjá námumönnum þar á s.l. vetri, sem mjög mátti um deila, hvort væri lögleg eða ekki lögleg. Hinn sterki einræðisherra þar í landi hugðist í fyrstu brjóta þessi verkföll aftur með stjórnaraðgerðum og með hervaldi og með lögregluvaldi, eða með því að kalla námumennina í herinn. En við nánari athugun ákvað þessi hyggni einræðisherra, þó að hann hefði margfalt sterkari aðstöðu til að framkvæma sínar fyrirætlanir en hin íslenzka ríkisstj., þá ákvað hann við nánari athugun að láta skynsemina ráða. Hann féll frá öllum sínum fyrirætlunum um að beita ofbeldi og kaus heldur að fara samningaleiðina og semja við námumenn um hóflegar kjarabætur. Og það er áreiðanlegt, að hann óx af því að fara þessa leið heldur en að láta kenna aflsmunar í þessari deilu, þó að hann hefði kannske getað orðið ofan á í þeim átökum til að byrja með.

Ég held, að hæstv. ríkisstj. ætti að hugsa vel um fordæmi þessa hyggna stjórnmálamanns og sjá, hvort hún mundi ekki geta af því lært. Og ég vil segja það hér að lokum, að það, sem við þurfum til að leysa þann vanda, sem nú er fram undan, er ekki að stofna til slikra átaka eins og hér geta orðið, ef ríkisstj. gerir það í alvöru að reyna að framkvæma þessi lög. Við þurfum allt aðrar vinnuaðferðir til þess að leysa þennan vanda. Við þurfum að leysa hann með sáttum og samkomulagi, með bræðralagi, en ekki með stórum harðnandi átökum frá því, sem nú eru þegar í dag. Og ég vil segja hæstv. ríkisstj. það, að eins og hún hefur minnkað af þeirri tilraun, sem hún hefur gert með þessu frv., mundi hún vaxa af því, ef hún félli nú frá sinum fyrirætlunum, félli frá þeirri stríðsstefnu, sem felst í þessu frv., tæki heldur þann hyggna kost að fara leið samninga og sátta, drægi þetta frv. sitt til baka eða a.m.k. frestaði því, meðan tilraunir væru gerðar til þess að ná samkomulagi við launastéttir landsins um að leysa þetta mái á farsælan og friðsamlegan og giftusamlegan hátt.