19.12.1963
Efri deild: 30. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

95. mál, vegalög

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að ræða hér stuttlega þær brtt., sem ég hef leyft mér að flytja við frv. til vegalaga. Um málið í heild vísa ég til þess, sem ég sagði hér við 1. umr. í gærkvöld.

Það er enginn efi á því, að það er vilji þeirra, sem samið hafa þetta frv., að umbætur geti orðið sem fyrst og sem mestar á vegakerfi landsins, og það kemur einnig fram að ýmsu leyti, að þeir hafa haft skilning á því, að einna fyrst þurfi að gera verulegar umbætur á þeim vegum, þar sem umferðin er mest, þar sem hún er orðin svo mikil, að vegakerfið er algerlega ófullnægjandi til þess að sinna henni, eins og hún er orðin.: Í frv. er m.a. á það bent í grg., að 30% af allri umferð fellur á einungis 1.7% af öllu vegakerfi landsins. Og það eru engar ýkjur, að sums staðar, þar sem umferðin er mest, er að komast á algert öngþveiti í þessum málum. Þess vegna tel ég, að hefði þurft að tryggja enn þá betur en gert er með frv. í þeirri mynd, sem það er nú, að nægilegt fjármagn eða eins mikið fjármagn og mögulegt er að afla fari fyrst og fremst til þessara staða, þar sem umferðin er þegar komin í algert öngþveiti. Þar með er ekki sagt, að allar aðrar umbætur eigi að bíða, en að verulegur hlutur af hinu aukna fjármagni til vegabóta fari til þess að bæta þarna úr hálfgeru og jafnvel algeru neyðarástandi. Þær umbætur, sem með þeim hætti eru gerðar, koma flestum sem fyrst að gagni.

Nokkur bæjar- og sveitarfélög hafa algera sérstöðu að því er það snertir, að þjóðvegir, fjölfarnir í sumum tilfellum, liggja bókstaflega um sjálf bæjar- og sveitarfélögin. Það má benda á staði eins og Kópavog, Selfoss og Blönduós. Á öllum þessum stöðum liggur þjóðvegur milli héraða um kaupstaðina og kauptúnin. Þetta veldur því, að þarna er um sérstöðu að ræða, og veldur þessum bæjar- og sveitarfélögum sérstökum erfiðleikum. Þeir eru vafalaust mestir í Kópavogi, þar sem umferðin er orðin gífurleg og verulegur hluti hennar er umferð til Hafnarfjarðar og Suðurnesja.

Þessi mál, sem þannig stendur á, og þó alveg sérstaklega vandamálið með umferðina í Kópavogi þarf vissulega að taka sérstökum og föstum tökum og það sem allra fyrst. Á þessum stöðum, sem þannig er ástatt um, eins og ég nú nefndi, sem eru fáir, að þjóðvegur milli byggðarlaga liggur um kaupstaðina eða kauptúnin, þá er mjög hætt við því, að sá hluti vegafjárins, sem ætlazt er til samkv, frv. að renni til bæjar- og sveitarfélaga til bættrar vegagerðar, fari í mjög ríkum mæli til þess að endurbæta þessa vegi og hrökkvi þó ekki til, a.m.k. fyrsta kastið, — þessa vegi, sem eru að eins miklu leyti til gagns fyrir önnur byggðarlög, jafnvel heila landshluta, eða fyrir samgöngur yfirleitt. Það virðist því sanngjarnt, að alveg sérstakt tillit sé tekið til þessarar sérstöðu, og að því beinast 1. og 2. brtt. mín á þskj. 168. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 32. gr. bætist. Vegagerð ríkisins skal kosta og annast viðhald og nauðsynlegar endurbætur á þeim þjóðvegum í kauptúnum og kaupstöðum, sem teljast helzta umferðarleið um viðkomandi byggðarlag, hafi hún gert það fram að gildistöku laga þessara.“

Ég vænti þess, að á þetta verði litið af fullri sanngirni af hv. deild. Með hinu nýja frv. um vegalög er auðsjáanlega til þess ætlazt, að brotið sé blað í sögu vegamála, í sögu uppbyggingar vegakerfis landsins, það skuli nú gert samkv. fyrirframgerðri áætlun og með verulega auknum hraða. Og hér þyrfti einnig að verða nokkur breyting á að öðru leyti. Hér þyrfti vissulega að stefna markvisst að því, að allir þeir skattar, sem lagðir hafa verið og lagðir kunna að verða á umferðina, fari til vegabóta, meðan svo er ástatt sem nú er, að þörfin er ákaflega brýn, og það er hætt við, að hún verði það lengi í okkar landi. Verulegt spor í þessa átt er vissulega stigið með því frv., sem hér liggur fyrir. Þó tel ég, að það sé tæpast nægilega tryggt og ekki eins vel tryggt og hægt væri, að þessu stefnumiði verði sem fyrst náð. Það er vitanlega hugsanlegt, að þær tilhneigingar komi upp, e.t.v. ekki á þessu þingi, en þá e.t.v. síðar, að draga úr þeim framlögum hins opinbera til vegamála, sem lögð eru fram með öðrum hætti en þeim, sem þessi lög koma til með að ákveða, þ.e. þeim framlögum, sem ákveðin eru í fjárlögum hverju sinni. Þetta frv., eins og það er nú, tryggir ekki að mínu viti nægilega, að þær fjárveitingar haldist. Til þess að reyna nokkru betur en gert er í frv., eins og það liggur fyrir, að koma í veg fyrir þá þróun, að úr þessum framlögum verði dregið, hef ég leyft mér að flytja á sama þskj., 168, brtt. við 89. gr. frv. Sú gr. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Til greiðslu kostnaðar samkv. lögum þessum skal auk þeirra gjalda, sem um getur í 85.–87. gr., veita árlega sérstakt framlag á fjárlögum.“

Við þessa grein legg ég til, að bætist: „og sé það eigi lægra en ¼ hluti þess fjár, sem fæst samkv. ákvæðum 85:–87. gr.“, en það er mjög nálægt þeirri upphæð, sem um er að ræða nú. Með frv. er gert ráð fyrir, að ríkissjóður hagnist um rúmar 47 millj. á þeim ráðstöfunum, sem nú eru gerðar. Ríkissjóður missir að vísu nokkra tekjustofna, sem nema 92.2 millj., en sparar hins vegar útgjöld, sem nema 139.3 millj. kr. Mismunurinn, 47.1 millj., er hagnaður ríkissjóðs.

Nú er til þess ætlazt, sbr. þá gr. frv., sem ég vitnaði til, 89. gr., og aths. við hana, að þessi hagnaður af breytingunni komi sem sérstakt framlag á 13. gr. fjárl. En mér virðist, að það sé engan veginn tryggt svo vel sem hægt væri, að þessi fjárveiting haldist framvegis í fjárl. Þess vegna er þessi till. flutt, til þess að reyna að tryggja þetta betur en þegar er gert í frv.

Eins og ég lýsti í gærkvöld, tel ég, að svo mikið sé fengið með setningu þeirrar löggjafar, sem hér er á döfinni, að það sé alla vega æskilegt, að framgangur hennar sé tryggður, og er ánægjulegt, að gott samstarf hefur tekizt um þetta mál. Vissulega hefði verið æskilegt, eins og ég sagði þá, að hv. Alþingi hefði fengið betra tóm til þess að fjalla um svona stórt og vandasamt mál heldur en því hefur verið ætlað. En við þetta verður nú að sitja. Af þessu leiðir, að enn þá ríkari ástæða er vafalaust til þess heldur en ella að gera ráð fyrir því, að þessi mikli lagabálkur, sem hefur að geyma mörg nýmæli, þurfi endurskoðunar við, áður en langir tímar líða. Það er eðlilegt og þó sérstaklega þegar þarf að hraða afgreiðslu slíks máls eins og þetta er. Með hliðsjón af því og með hliðsjón af eðli málsins, er ég fylgjandi þeirri brtt. frá hv. 6. þm. Sunnl., sem hér hefur verið lögð fram um, að skipuð verði, áður en langir tímar líða, mþn. til þess að endurskoða þessa löggjöf.