06.11.1963
Efri deild: 11. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í C-deild Alþingistíðinda. (1850)

56. mál, launamál o.fl.

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar hæstv. forsrh. lagði þetta frv. fram í hv. Nd., var ákveðið, að ég fylgdi því úr hlaði í þessari hv, d. Með hliðsjón af hinni ýtarlegu framsöguræðu hæstv. forsrh. og öðrum ræðum hans og annarra ráðh. þar í hv. Nd., sem ég veit að hv. þdm. hér hafa að verulegu leyti fylgzt með, get ég látið nægja nokkru styttri grg. hérna,.

Fyrir 4 árum, eða 20. nóv. 1959, var núv. ríkisstj. mynduð. Fyrsta verkefni hennar og aðalverkefni var allsherjarendurskoðun á efnahags- og fjármálum þjóðarinnar. Ástandið í þeim efnum var mjög viðsjárvert. Gengið var rangt skráð, uppbótakerfið gerði það að verkum, að í rauninni voru einhvers staðar milli 10 og 20 raunveruleg gengi íslenzku krónunnar. Hallarekstur hafði verið árum saman gagnvart útlöndum, stöðugur gjaldeyrishalli. Lánstraust þjóðarinnar út á við á eðlilegum lánamarkaði var þorrið, innflutningshöft á fjölda vara, verðmyndunarkerfið úr skorðum, fjárfestingarhömlur, vísitölubinding eða viðmiðun kaups, sem leiddi til sífelldrar skrúfu verðlags og kaupgjalds sitt á hvað.

Í febrúarmánuði 1960 hafði ríkisstj., réttum þrem mánuðum eftir að hún tók til starfa, tilbúnar till. sínar til viðreisnar efnahag og fjárhag landsins. Meginatriði þeirrar viðreisnar voru þau, að gengið var nú rétt skráð, að viðskiptafrelsi var lögleitt á miklum meiri hl.. innflutningsins, að fjárfestingarhömlum var aflétt, að gagnger breyting var gerð á skattamálum og fjáröflunarleiðum ríkissjóðs og sveitarfélaga og margt fleira, sem ég skal hér ekki upp telja. En árangurinn sagði líka fljótt til sín af þessum viðtæku efnahagsaðgerðum. Þær miðuðu að því að koma þjóðfélaginu á réttan kjöl eftír stórfelldan hallarekstur undanfarinna ára, hafta- og uppbótakerfi og hvers konar skekkjur í viðskipta- og athafnalífi. Tilgangurinn var sá að koma á jafnvægi í sem flestum þáttum efnahagslífsins og tryggja næga og örugga atvinnu til handa öllum landsins börnum.

Þegar litið er á 3 fyrstu ár viðreisnarinnar, árin 1960, 1961 og 1962, er ljóst, að í öllum meginatriðum tókst viðreisnin vel og þeim árangri var náð, sem að var stefnt. Því til sönnunar má nefna þessi atriði: Hallareksturinn gagnvart útlöndum var stöðvaður. Þegar á árinu 1961 tókst að jafna þennan halla og ná hagstæðum greiðslujöfnuði víð útlönd, og sami árangur náðist á árinu 1962. Í staðinn fyrir sífelldan gjaldeyrisskort, gjaldeyrishungur, tókst á þessum árum að safna álitlegum gjaldeyrisforða,. Þegar viðreisnin hófst í febr. 1960, var enginn gjaldeyrissjóður til, heldur var gjaldeyrisskuld bankanna 216 millj. kr. En um síðustu áramót, eftir tæplega 3 ára viðreisn, var gjaldeyrisforðinn orðinn 1150 millj. kr., en með honum var lagður grunnur að lánstrausti Íslands erlendis, eins og verkin sýna, og skapaður varasjóður til þess að mæta örðugleikum, hvort sem væri af markaðstregðu, verðfalli afurða, náttúrunnar völdum eða öðru óláni, sem við getum ekki við ráðið, Sparifjársöfnunin er undirstaða framfara og framkvæmda, því að á henni byggist það, hversu bankar og lánsstofnanir geta lánað út mikið fé til framkvæmda í landinu, en sparifjársöfnunin hefur aukizt frá febrúar 1960 til síðustu áramóta úr 1826 millj. upp í 3531 millj., eða nærri tvöfaldazt. Full atvinna hefur verið allan þennan tíma yfirleitt um land allt. Fjárlög hafa verið afgreidd og framkvæmd hallalaus öll árin, greiðsluafgangur orðið á hverju þessara ára hjá ríkissjóði, en það var eitt af grundvallarskilyrðum þess, að viðreisnin tækist og það jafnvægi næðist, sem að var stefnt. Viðskiptafrelsi var stóraukið í landinu og hagur þeirra, sem verst eru settir í þjóðfélaginu, bættur með meiri umbótum á almannatryggingum en dæmi eru til áður í sögu íslenzku þjóðarinnar.

Þegar litið er yfir þessi nokkur meginatriði viðreisnarinnar, hlýtur dómurinn að verða sá, að á árunum 1960–62 hafi viðreisnin tekizt vel í öllum undirstöðuatriðum. En á þessu ári, sem nú er að líða, stefnir á annan veg en undanfarin 3 ár, og margt hefur gengið úr skorðum. Á þessu ári hefur orðið ískyggilegur halli á viðskiptunum við útlönd, innflutningur hefur aukizt gífurlega og miklu meira en aukningu útflutningsins nemur. Gjaldeyrissjóðurinn hefur hætt að vaxa og er ekki hærri nú en hann var um áramót. Afturkippur hefur komið í sparifjársöfnun landsmanna, þannig að aukning sparifjárins er miklu tregari en áður, eftirspurn eftir vinnuafli í mörgum greinum svo mikil, að enginn vegur er að fullnægja henni, og veldur það að sjálfsögðu margvíslegu tjóni og töfum á framkvæmdum, framkvæmdir verða dýrari en ella o.s.frv. Og frá aðalútflutningsatvinnuveginum, sjávarútveginum, heyrum við þær raddir, að fiskvinnslustöðvarnar telja sig trauðlega geta risið undir þeirri hækkun kaups og annars kostnaðar, sem þegar er orðin, hvað þá að þær geti tekið á sig nýjan kostnaðarauka með hækkuðu kaupgjaldi eða á annan hátt.

Til þess að viðreisnin takist til langframa, eru nauðsynlegar skynsamlegar aðgerðir í þremur meginmálaflokkum og nauðsynlegt, að þær haldist í hendur. Það er í fyrsta lagi í fjármálum ríkisins, það er í öðru lagi í svokölluðum peningamálum, þ.e.a.s. bankamálum og útlánapólitík bankanna, og það er í þriðja lagi í launamálum.

Það er kunnugt, að um alllangan aldur undanfarið hefur það verið skoðun fróðra manna, fjármálamanna og sérfræðinga í efnahagsmálum, að fyrst og fremst ætti að beita aðgerðum af ríkisvaldsins hendi í fjármálum og peningamálum, og ef þær aðgerðir væru skynsamlegar og hnitmiðaðar, ætti með þeim að mega halda jafnvægi í þjóðfélaginu, fullri atvinnu, koma í veg fyrir atvinnuleysi, en koma einnig í veg fyrir ofþenslu og verðbólgu. Þessi hefur verið skoðun manna eða trú í mörgum löndum. En nú upp á síðkastið hafa augu manna viða opnazt fyrir því, ekki aðeins hér á landi, heldur einnig í okkar nágrannalöndum, að þetta tvennt er ekki nægilegt, heldur verður skynsamleg stefna í launamálum að fylgja aðgerðum í fjármálum og peningamálum. Er þess skemmst að minnast, að á þessu og síðasta ári var það orðið ljóst hjá okkar gömlu sambandsþjóð, Dönum, að þar var verðbólga og ofþensla í uppsiglingu. Og menn sáu, að hversu róttækar aðgerðir sem þeir vildu framkvæma annars vegar í fjármálum og skattamálum ríkisins varðandi fjárlög og greiðsluafgang og hins vegar varðandi banka og peningapólitík, þá hafði þetta ekki reynzt nægilegt. Því var það, að lögleitt var á þessu ári frv. um algera stöðvun á kaupgjaldi og verðlagi þar í landi. Og eftir að það hefur verið í gildi, að sjálfsögðu ásamt ýmsum öðrum ráðstöfunum, sem einnig voru gerðar í fyrra, hefur nú á nokkrum mánuðum komið í ljós árangurinn af þessum aðgerðum þar: Verðbólguhættan liðin hjá í Danmörku, a.m.k. í bili, útflutningurinn aukizt að nýju og gjaldeyrissjóðurinn, sem hafði farið hraðminnkandi, hefur nú farið hraðvaxandi.

Það var, eins og kom fram í umr. og grg. fyrir viðreisnarfrv. 1960, von ríkisstj. og stjórnarfiokkanna, að samtök launamanna og atvinnurekenda mundu bera gæfu til að semja svo um launamálin með frjálsum samningum, að jafnvægi gæti haldizt í þjóðfélaginu. Og það er auðvitað ljóst, að til þess að fullur árangur næðist til langs tíma af þessum ráðstöfunum og jafnvægi skapaðist í efnahagsmálum, yrði að fylgja þeirri stefnu í launamálum, að laun hækki í þjóðfélaginu ekki meira en vöxtur þjóðarframleiðslunnar og hækkun á verði útflutningsafurða. Það er auðvitað óhugsandi, að þjóðfélag geti haldið jafnvægi og eðlilegu efnahagslífi, ef laun, ekki aðeins einu sinni, heldur ár eftir ár, hækka meira í þjóðfélaginu en þjóðarframleiðslunni og verðhækkun á útflutningsafurðum nemur. Ríkisstj. hvatti því mjög samtök launþega og vinnuveitenda í upphafi til að fylgja þessari stefnu og staðfesta hana með samningum sín á milli. Því var einnig beint til þessara aðila, að æskilegast væri fyrir þjóðarbúið og fyrir allar stéttir og ekki sízt launamenn, að reynt yrði að semja ekki frá mánuði til mánaðar, heldur til tveggja eða jafnvel þriggja ára í senn til að skapa ró og það jafnvægi, sem atvinnuvegirnir þurfa til þess að halda uppi fullri og eðlilegri samkeppni við keppinauta sína á erlendum mörkuðum og til þess að geta byggt upp sín atvinnufyrirtæki og aukið sína framleiðni og afköst.

Því miður hefur þetta ekki tekizt í okkar þjóðfélagi, og heildarsamningar um laun, sem auðvitað væri æskilegast að koma á, heildarsamningar um laun annars vegar og samningar til langs tíma, eins og tíðkast í mörgum nágrannalandanna, hafa ekki verið gerðir hér á landi og virðast því miður eiga nokkuð í land enn. Til þess liggja að sjálfsögðu ýmsar ástæður, og atvinnulíf íslendinga er, eins og kunnugt er, nokkuð sérstætt og gefur misjafnan afrakstur frá ári til árs. En engu að siður er það nauðsynlegt, að að þessu sé stefnt að koma á heildarsamningum allra launastétta til helzt 2-3 ára í senna Hér hefur hins vegar orðið reynslan sú, að hver stétt, hver starfshópur hefur samið fyrir sig, venjulega til stutts tíma, og þegar einn hefur fengið kauphækkun, fer sá næsti af stað.

Afleiðingar þessa skipulagsleysis um launasamninga á Íslandi eru auðvitað margar og alvarlegar. Fyrsta afleiðingin, eins og reynslan sýnir og sannar, hefur orðið sú, að verkamenn og þeir, sem lægst eru launaðir í þjóðfélaginu, hafa alltaf orðið verst úti. Oft hefur það verið þannig, að verkamennirnir hafa riðið á vaðið, fengið einhverja kauphækkun, kannske eftir langa baráttu og langt verkfall. Þegar þeir höfðu fengið ákveðna kauphækkun, segjum t.d. 10%, koma aðrar stéttir, sem eru hærra launaðar, faglærðir menn og í hærri launaflokkum strax á eftir og fá ekki aðeins sömu prósenthækkun, heldur meiri, þannig að þegar hækkunaraldan er gengin yfir og litið er yfir vígvöllinn, þá er reynslan alltaf sú, að bilið hefur stækkað, hinir lægst launuðu hafa fengið tiltölulega minnst. Önnur afleiðing þessa skipulagsleysis er sífelldur ófriður allan ársins hring, sem truflar atvinnulífið og rýrir lífskjörin, því að vitanlega er það almennt lögmál, að vinnustöðvanir í þjóðfélaginu, þegar allt kemur til alls, draga úr þjóðarframleiðslunni, þannig að eftir árið kemur minna til skiptanna milli landsins barna. Og þriðja afleiðing þessa skipulagsleysis er að sjálfsögðu sú, að þá er litið sem ekkert tillit tekið til greiðslugetu atvinnuveganna, aðstaða þeirra til samkeppni á erlendum markaði því oft gerð miklu verri, og verðbólga siglir svo í kjölfarið með öllum sínum hörmulegu afleiðingum.

En þessi saga hefur því miður endurtekið sig. Ríkisstj. hefur oftar en einu sinni beint því til alþýðusámtaka og vinnuveitendasamtaka að gera þá heildarsamninga, sem ég gerði hér að umræðuefni, en því miður hefur árangurinn orðið sáralitill. M.a. hefur ríkisstj, beint því til Alþýðusambands Íslands, einnig oftar en einu sinni, að það beitti sér fyrir því, að hækkuð væru laun hinna lægst launuðu verkamanna og annarra, sem eru nálægt þeim í launaflokkum, án þess að sú hækkun þyrfti að ganga áfram til allra annarra stétta í landinu. Því miður er það svo, að núverandi forusta Alþýðusambandsins hefur ekki viljað sinna þessum endurteknu tilmælum ríkisstj., og reynslan talar sínu máli, að eftir allar þessar kjara- og kaupdeilur standa þeir lægst launuðu verr miðað við aðrar stéttir en áður. Bilið hefur breikkað.

Það var snemma á þessu ári, að lægst launuðu stéttirnar, þær sem minnsta hækkun fengu á árinu 1962, fengu 5% kauphækkun. Ríkisstj. varð þá ljóst, að með þeim hækkunum var komið nærri þeim mörkum, sem útflutningsatvinnuvegirnir og þjóðarbúið í heild mundi þola án verulegra erfiðleika. En það liðu ekki nema fáir mánuðir, þangað til ný kröfugerð var uppi, svo að útlit var fyrir stórfelldar hækkanir, langvarandi vinnudeilur á mesta bjargræðistíma ársins. Þá beindi ríkisstj. þeim tilmælum til deiluaðila beggja, tilmælum, sem ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa hér kafla úr:

Ríkisstj. telur, að vaxandi þjóðartekjur beri að nota til að tryggja launþegum sem mestar kjarabætur, jafnframt því sem gildi krónunnar sé varðveitt og vöxtur þjóðarframleiðslu örvaður. Ríkisstj. beinir þeim eindregnu tilmælum til samtaka launþega og vinnuveitenda, að þau láti í sameiningu fara fram athugun á því, hversu mikil kauphækkun megi nú verða, til þess að hún komi að gagni fyrir launþega. Ríkisstj. er fyrir sitt leyti reiðubúin að styðja þessa athugun á hvern þann hátt, sem samtökin óska, þ. á m. með því að greiða kostnað hennar. Ríkisstj. fer þess á leit við samtökin, að á meðan athugunin stendur yfir, sé vinnustöðvunum og öðrum aðgerðum af þeirra hálfu skotið á frest.“

Í lok þessarar orðsendingar segir ríkisstj., að hún vilji jafnframt benda á mikilvægi þess, að gerðir séu heildarsamningur um það, hvernig skipta beri í aðalatriðum á milli einstaklinga og einstakra hópa launþega þeirri kauphækkun, sem grundvöllur reynist fyrir. Of oft hefur það að borið, að þeir aðilar, sem mesta þörf voru taldir hafa fyrir kauphækkun og mestu höfðu fórnað til þess að öðlast hana, hafi, þegar allt kom til alls, borið skarðan hlut frá borði, vegna þess að launasamningar voru ekki samræmdir eins og þörf var á. Það tókust samningar í júnímánuði um að koma á fót slíkri rannsókn á greiðslugetu og kjörum stéttanna, og um leið var samið um 71/2 % kauphækkun, og þótt ríkisstj, teldi, að hæpið væri, að aðalútflutningsatvinnuvegurinn gæti borið þessar kauphækkanir til viðbótar, þá taldi hún þó mikilvægum áfanga náð, annars vegar, að vinnufriður fékkst þá um hríð á þessum mesta bjargræðistíma ársins, og auk þess, að fulltrúar launþega og atvinnurekenda féllust á að rannsaka af kostgæfni öll þau gögn, sem fyrir liggja um afkomu íslenzkra atvinnuvega og möguleika þeirra til að bera hærra kaupgjald. Þessi athugun fer nú fram, og hefur sú nefnd, sem að henni vinnur, verið kölluð kjararannsóknarnefnd. Sú nefnd hefur ekki skilað áliti eða till. um greiðslugetu atvinnuveganna eða hvort og þá hverjar kjarabætur þeir þoli, kjarabætur til handa launþegum. En þrátt fyrir það þótt þessari rannsókn sé enn ekki lokið, hafa núna undanfarnar vikur enn á ný, í þriðja sinn á sama ári, verið hafðar uppi launahækkunarkröfur og nú miklu stórfelldari en áður hafa þekkzt. Það var auðvitað augljóst mál, að ef ekkert væri að gert, mundi holskefla nýrra kauphækkana skella yfir þetta land. Og þá hefðu það ekki orðið þeir lægst launuðu fremur en áður, sem hefðu fengið mest út úr þessu, því að meðal þeirra, sem nú voru í fararbroddi um kauphækkunarkröfur, voru starfshópar, sem eru um laun langt fyrir ofan bæði verkamenn, verzlunarmenn og fleiri svokallaðar láglaunastéttir. Ef ekki hefði verið að gert nú, var því augljóst, að þessi nýja kauphækkunaralda hefði ekki fært verkamönnum eða þeim lægst launuðu kjarabaetur, heldur þýtt verulega kauphækkun hjá öllum stéttum þ,jóðfélagsins, og þá, ef að vanda lætur, hefðu verkamennirnir farið verst út úr því, a.m.k. ef má miða við reynsluna frá undanförnum árum.

Það er einnig rétt að geta þess, að ef slík almenn kauphækkun hefði nú orðið, hefðu opinberir starfsmenn samkv. 1. um kjarasamninga getað krafizt enn kauphækkunar, því að í 7. gr. kjarasamningal. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú verða almennar og verulegar kaupbreytingar á samningstímabili, og má þá krefjast endurskoðunar kjarasamnings án uppsagnar hans.”

En kjarasamningur opinberra starfsmanna gildir, eins og kunnugt er, frá 1, júlí s.l.

Það hefur verið á það minnzt og kom fram í umr. í hv. Nd., að forustumenn verkalýðssamtakanna, bæði Alþýðusambandsins og nokkurra stórra verkalýðsfélaga, hefðu boðið frest á öllum kauphækkunarkröfum um hríð og hafi hví þetta frv. verið óþarft. Um þetta segir hæstv. forsrh. svo, en hann átti í þessum viðræðum við forustumenn verkalýðssamtakanna, hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Að lokum þykir mér rétt að geta þess að gefnu tilefni, að ástæðan fyrir því, að ég taldi ekki fært að taka tilboði þeirra þriggja verkalýðsleiðtoga, sem ég átti viðræður við, um viku til 10 daga frest til að reyna að semja um þessi mái án lagasetningar, var m.a. sú, að hvorki þeir né ég gátum tryggt allsherjarfrið þennan tíma né heldur er líklegt, að málinu gæti lokið á svo skömmum tíma: `

Eitt af því, sem veldur vandkvæðum í sambandi við okkar launamál hér, eins og reynslan sýnir, er það, að ekki hefur tekizt að ná samkomulagi innan verkalýðssamtakanna, ég vil segja innan A.S.Í. fyrst og fremst, um rétt hlutfali launa milli hinna einstöku stétta. Slíkt launahlutfall milli starfsmanna er að sjálfsögðu í kjarasamningi eða kjaradómi varðandi opinbera starfsmenn. Mér er tjáð, að slíkt sé einnig komið á varðandi verzlunarmenn. Og að því er unnið af hálfu sjómannasamtakanna að koma þar á svokölluðu kerfisbundnu starfsmati, þannig að starf hvers manna sé metið og þá um leið ákveðið, hvert eigi að vera launahlutfall milli hinna einstöku hópa. Þessu hefur ekki tekizt að koma á í Alþýðusambandi Íslands, og hefur það að sjálfsögðu valdið og veldur, meðan svo er ástatt, miklum erfiðleikum og sífelldum metingi og kapphlaupi milli stéttanna innbyrðis.

Það er í einu af málgögnum stjórnarandstæðinga, Frjálsri þjóð, 2. nóv. s.l., sem Haraldur Jóhannsson hagfræðingur minnist á þessi mál og kemst svo að orði réttilega, að kjararannsóknarnefnd ætti að athuga með tilliti til þess, að launabaráttan er að miklu leyti háð nm hlutfallsleg laun, þá ætti kjararannsóknarnefnd að athuga, hvort launþegasamtökin gætu komið sér saman um launahlutföll, þannig að launahækkanir starfsstétta haldist í hendur og verði síðar e.t.v. tengdar stærð þjóðarteknanna. Að sjálfsögðu væri það mikill fengur bæði fyrir launastéttirnar og þjóðfélagið allt í heild, ef tækist að koma á samningum um slík launahlutföll, þannig að launahækkanir starfsmanna haldist í hendur, og eins og hann bendir á, að það yrði síðan tengt upphæð eða stærð þjóðarteknanna.

Það hefur oft verið á það minnzt í umr. um þetta frv., hvers vegna ekki sé gert eitthvað eða hafi verið unnt að gera eitthvað sérstaklega fyrir þá lægst launuðu. Ég hef svarað því nokkru þegar, að reynslan er sú, að þegar til hefur staðið að veita kauphækkanir til handa þeim lægst launuðu, sem ríkisstj. hefur hvað eftir annað óskað eftir að gert yrði, þá hefur reynslan alltaf orðið sú, að það voru ekki þeir, sem nutu þess, heldur komu aðrir á eftir með meiri launahækkanir, svo að ákaflega örðug virðist í framkvæmd sú leið. En vissulega er það áhugamál ríkisstj. að finna leiðir til þess, að sérstaklega hinir lægst launuðu geti fengið kjarabætur, sem yrðu raunhæfar, en ekki aðeins til að sýnast. Og vissulega er margt í þeim efnum, sem er til athugunar. Það er m.a. nauðsynlegt að leggja á það meiri áherzlu en verið hefur að auka framleiðni og afkastagetu atvinnufyrirtækjanna. Reynslan hefur sýnt það viða, þar sem ein,stök fyrirtæki, hvort sem er í sjávarútvegi eða iðnaði eða annars staðar, hafa tekið upp nýja starfshætti, hagrætt betur sínum vinnubrögðum og starfsháttum en áður, komið á ákvæðisvinnu, nýtt hráefni betur en áður, þá hefur þetta orðið öllum til góðs, starfsmennirnir fengið verulega auknar tekjur og fyrirtækið fengið möguleika til þess að efla sína starfsemi enn meir.

Það er enginn vafi á því, að ef við Íslendingar legðum meiri stund en nú er á umbætur og hagræðingu í rekstri fyrirtækja, en í þessum efnum erum við að verulegu leyti á eftir nágrannaþjóðunum, þá mundi það færa þjóðarbúinu auknar tekjur og verða hinar raunhæfustu kjarabætur fyrir starfsmennina. Það var fyrir nokkru kosin á Alþingi svokölluð vinnutímanefnd, sem átti að athuga möguleikana á því að stytta vinnutíma og í sambandi við það að sjálfsögðu hvers konar hagræðingu atvinnufyrirtækjanna. Vinnutímanefndin beindi því til félmrn., að gerð yrði heildaráætlun um framkvæmdir og kostnað við vinnuhagræðingu og þjálfun vinnuhagræðingarmanna í þágu hagsmunasamtaka vinnuveitenda og verkalýðs. Félmrn. fól þetta verkefni forstjóra Iðnaðarmálastofnunarinnar, sem hefur unnið að undirbúningi þess í samráði við formann vinnutímanefndar, Pétur Sigurðsson, og liggja þegar fyrir till. um, hversu þessu skuli háttað. Á því er enginn vafi, það er staðreynd, að lífskjör þjóða eru að verulegu leyti komin undir því, hversu tekst að nýta vinnuafl, hráefni, framleiðslutæki og aðra þætti framleiðslunnar, þ.e.a.s. hversu framleiðni, eins og það er kallað, er háttað. Og það er að sjálfsögðu tilgangur þessarar hagræðingartækni að auka þessa nýtingu með kerfisbundnum rannsóknum og aðgerðum, sem miða að bættu skipulagi, rekstrartækni og vinnuþróun í hvers konar atvinnurekstri. Víða erlendis eru athyglisverð fordæmi í þessum efnum, þannig að atvinnusamtök hafa með stuðningi ríkisvaldsins stofnað til slíkrar starfsemi innan sinna vébanda í þeim tilgangi að útbreiða þekkingu og hafa á hendileiðbeiningar meðal manna um allt, sem varðar endurbætur og nýjungar á sviði rekstrar og skipulagningar. Hér á Íslandi vantar okkur þjálfaða menn í þessu efni, og geri ég ráð fyrir, að ein af þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj, er nú með til athugunar og undirbúnings, verði sú að veita úr ríkissjóði fé til þess að kosta slíkan undirbúning og slíka þjálfun þeirra manna eða þeirra sérfræðinga, sem að þessu þurfa að vinna. En fyrir því nefni ég þetta hér, að í þessu efni erum við á eftir öðrum þjóðum og hér er mikið verkefni að vinna, sem m.a. og kannske fyrst og fremst gæti orðið til raunhæfra kjarabóta fyrir launamenn. Í þessu sambandi er auðvitað sjálfsagt að nefna ákvæðisvinnuna, sem víða hefur gefið mjög góða raun og þarf að efla enn meir, en fyrir nokkru var samþ. þáltill. hér á Alþingi, flutt af Eggert G. Þorsteinssyni alþm., um nákvæma rannsókn á þeim málum, og ætla ég, að Iðnaðarmálastofnunin hafi þegar lagt í það mikla vinnu.

En auk þessa verðum við auðvitað að hagnýta okkur sem bezt allar tæknilegar nýjungar, sem mættu koma að gagni, bæði fyrir atvinnureksturinn sjáifan og launamenn. Og í sambandi við þær kjarabætur, sem hugsanlegt væri nú alveg á næstunni að koma í framkvæmd fyrir þá. sem lægst eru launaðir, má nefna endurskoðun og lækkun á útsvörum, tekjuskatti og hins vegar hækkun á bótum almannatrygginga, fjölskyldubótum, ellilífeyri o.fl., o.fl. Ég nefni þessi dæmi, sem hafa verið og eru til athugunar h,já ríkisstj.

En einmitt til þess að fá tóm til þess að undirbúa sem bezt þessi mál fer ríkisstj. fram á að fá samþykkta þá stöðvun á verðlagi og kaupgjaldi í landinu, sem þetta frv. fer fram á. Ég gat þess, að ef ekkert hefði verið aðhafzt, hefði mátt búast við verulegri nýrri kauphækkunaröldu, sem hefði stofnað okkar efnahagslega jafnvægi í fullkominn voða og reynzt útflutningsatvinnuvegunum svo dýrkeypt, að hæpið er, að þeir gætu þar undir risið. Og ég vil aðeins að lokum minnast á það, hverjar mundu verðaafleiðingar af slíkri almennri kauphækkunaröldu í landinu. Í fyrsta lagi var það óhjákvæmilegt, að útvegurinn hefði þurft einhverjar ráðstafanir til hjálpar, til þess að hann gæti borið sig og staðizt í samkeppninni við erlenda keppinauta. Leiðirnar, sem þá hefðu komið til greina, eru allar gamalkunnar. Ein er gengisbreyting, sem hvað eftir annað hefur verið farin og ríkisstj. vill einmitt forðast. Önnur leið er uppbótakerfi, eins og reynt var hér á siðasta áratug með þeim hörmulegu afleiðingum, sem af því leiddi.. Þriðja leiðin er lögboðin allsherjarkauplækkun, eins og einnig hefur verið framkvæmd hér á landi, bæði 1956 og um áramótin 1958—59. Þessar þrjár leiðir, gengislækkun, uppbótakerfi og lögboðnar kauphækkanir, eru gamalþekktar leiðir hér, en ríkisstj. er þeim andvíg og fer þess vegna fram á þá stöðvun, sem hér er lagt til í frv., meðan hún er að undirbúa aðrar leiðir til þess að tryggja áframhaldandi jafnvægi og rekstur þjóðarbúsins.

Í þessu frv. er lagt til, að óheimilt verði að hækka hvers konar laun og álagningu á því tímabili, sem lögin eru í gildi, þ.e.a.s. til 31. des. n. k. í þessu felst í raun og veru, að tekjur allra stétta þjóðfélagsins verði óbreyttar á því tímabili miðað við sömu vinnu og áður. Það þótti óhjákvæmilegt að setja inn í þetta frv. ákvæði um það, eins og er í 2. gr., að launahækkanir, sem kynni að verða samið um, eftir að frv. þetta var lagt fyrir Alþingi, skyldu vera ógildar, því að með öðru móti er ekki unnt að tryggja, að ákvæði frv. komi jafnt niður á öllum. Það hefur komið fram fsp. um, hvort samningur um kaupgjald við síldarvinnu hér sunnanlands, sem var undirritaður 31. okt., sé ógildur, vegna þess að hann brjóti í bága við þetta ákvæði 2. gr., en þetta frv. var lagt fyrir Alþingi einmitt 31. okt., sama dag. Út af því vil ég taka það fram, að ríkisstj. lítur svo á, að sá samningur brjóti engan veginn í bága við þetta ákvæði. Ríkisstj. hefur litið svo á, að þetta ákvæði 2. gr. miðist við lok þess dags, sem frv, var lagt fyrir Alþingi, og liggja til þess eðlilegar og raunhæfar ástæður. Frv. var lagt fram eftir hádegið eða kl. 2 þennan dag og er að sjáifsögðu ekki komið til vitundar landsmanna fyrr en síðar þann dag eða um kvöldið, eftir að útvarpið hefur flutt af því fréttir, og þess vegna er það sú eðlilega túlkun á þessari grein, að hún komi þá fyrst til framkvæmda, þegar þessum degi er lokið. Ég skal taka fram hér til skýringar, að þetta sama atriði hefur stundum verið rætt í sambandi við birtingu laga hvort lög ættu að öðlast gildi þá strax á sama degi og þau eru birt eða næsta degi á eftir. Um þetta hafa verið skiptar skoðanir meðal lagamanna, en efnisrök mæla að sjálfsögðu með því, að sá skilningur sé viðhafður, sem ég hér hef lýst.

Ég vil að lokum vitna hér í nokkur orð, sem hæstv. forsrh. hafði í hv. Nd., þegar hann lagði þetta frv. fram. Hann segir svo:

„Frv. það, sem hér liggur fyrir, sýnir glögglega, hve alvarlegum augum ríkisstj. lítur á áframhald þeirrar þróunar í átt til sífellt meiri kröfugerðar og víxlhækkana kaupgjalds og verðlags, sem átt hefur sér stað að undanförnu. Á hinn bóginn er jafnframt nauðsynlegt, að þjóðin mikli ekki fyrir sér þau vandamál, sem hún þarf að leysa, og efli þannig vantrú og vonleysi, einmitt þegar hún býr við betri kjör og liður betur en nokkru sinni fyrr. Sé kröfum nú stillt í hóf og kraftar þjóðarinnar sameinaðir til nýrra átaka til uppbyggingar og aukinnar framleiðslu, er ríkisstj. þeirrar skoðunar, að unnt sé á tiltölulega skömmum tíma að vinna bug á því misræmi, sem um stund hefur myndazt á milli framleiðslugetu þjóðarinnar annars vegar og neyzlu hennar og fjárfestingar hins vegar. Staða þjóðarbúsins er enn þá sterk, framleiðslan mikil og þjóðin á öflugan gjaldeyrissjóð og nýtur trausts umheimsins. Það er því nægjanlegt, ef menn vilja sameinast um að hægja ferðina um stund, fresta kröfugerðum og leyfa þannig áframhaldandi aukningu þjóðarframleiðslunnar að jafna það bil, sem orðið er á milli þess, sem þjóðin aflar, og hins, sem hún eyðir. Kjarni málsins er sá, að ríkisstj. telur, að leggist allir á eitt, sé auðið að bæta hag þeirra, sem verst eru settir, og varðveita jafnframt verðgildi krónunnar. Verði hins vegar orðið við kröfum allra stétta, er krónan þar með fallin og þeir lægst launuðu verða, eins og jafnan hefur reynzt að undanförnu, verr settir eftir en áður.“

Þessi voru orð hæstv. forsrh, í framsöguræðu hans í hv. Nd.

Ég vil svo leggja til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.