06.11.1963
Efri deild: 11. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (1852)

56. mál, launamál o.fl.

Björn Jónsson:

Áður en lengra er haldið, get ég ekki stillt mig um að fara nokkrum og þó fáum orðum um það, sem hæstv. fjmrh. sagði hér um störf tveggja mikilvægra nefnda, sem ég hef haft nokkur afskipti af.

Það var í fyrsta lagi það, sem hann sagði um svokallaða vinnutímanefnd. Eins og kunnugt er, þá eru nú liðin nærri 2 ár síðan Alþ. samþykkti með þál. að kjósa 5 manna nefnd, sem átti að hafa það hlutverk að finna leiðir til þess, að vinnutími verkafólks yrði styttur, og var í þál. bent á nokkur atriði, sem sérstaklega kæmu til greina í því sambandi. Það hefur borið við annað slagið, að hæstv. núv. ríkisstj. og reyndar ýmsir aðrir aðilar hafa þótzt hafa sérstaklega mikinn áhuga á þessu máli, og þar sem hæstv. ráðherra lýsti því nú fjálglega, hversu ríkisstj. hefði mikinn áhuga á því máli, þá get ég ekki stillt mig og tel mér reyndar skylt að upplýsa og sanna um áhuga hæstv. ríkisstj. í þessu máli.

Á s.l. sumri, — ég ætla, að ég muni rétt, að það hafi verið um mitt sumar, — gerði vinnutímanefnd sérstaka till. til hæstv. ríkisstj., till., sem hún taldi algert grundvallaratriði, til þess að starfsemi nefndarinnar kæmi að gagni í framtíðinni. Í sérstöku erindi nefndarinnar til hæstv. ríkisstj. lagði hún til, að ríkið stæði fyrir og kostaði menntun allmargra manna, bæði frá launþegasamtökunum og vinnuveitendasamtökunum, í vinnuhagræðingu og vinnurannsóknum, en hugsun nefndarinnar hefur mjög beinzt að þeim málum. Jafnframt ákvað nefndin, þar sem málaleitan hennar um þetta hafði áður hlotið sérstaklega góðar viðtökur hjá ríkisstj. munnlega, að fresta frekara nefndarstarfi og fundahaldi hjá nefndinni, þangað til svar lægi fyrir frá hæstv. ríkisstj. Síðan gerðist það, sem hæstv. ráðh. hermdi rétt frá, að ríkisstj. vísaði þessu máli til forstjóra Iðnaðarmálastofnunarinnar til athugunar, með ósk um, að hann gæfi henni skýrslu um málið og legði fram till. Þetta gerði forstjóri Iðnaðarmálastofnunarinnar bæði fljótt og vel, eins og hans var von og vísa, og sendi hæstv. ríkisstj. á haustnóttum í fyrra álitsgerð upp á 40 vélritaðar siður um málið. En áhugi stjórnarvaldanna hefur reynzt það mikill í því máli, að enn í dag hefur vinnutímanefnd ekki borizt neitt svar við þeirri málaleitan, sem hún bar fram til ríkisstj. og hún vænti svara við innan fárra daga. Enn síður er það, að um frekari framkvæmdir í þessu máli hafi verið að ræða eða haft nokkurt samráð, hvorki við vinnutímanefndina né við verkalýðssamtökin, og látið nægja, eftir því sem ráðh. upplýsti, að hafa samráð við formann nefndarinnar, Pétur Sigurðsson, og efast ég þó mjög um, að það sé rétt hermt hjá hæstv. ráðh., a.m.k. hefur Pétur Sigurðsson ekki gefið nefndinni neinar skýrslur um það, og ég efast ekki um, að hann hefði gert það, ef um það hefði verið eitthvað að segja. En sannleikurinn er sá, að hæstv. ríkisstj. mun hafa vaxið í augum að leggja nokkurt fé til þessarar starfsemi. — En ég vil lýsa ánægju minni yfir því, ef sinnaskipti hafa orðið hjá hæstv. ríkisstj. í þessum efnum og hún er nú fúsari en hún hefur reynzt hingað til til þess að veita því einhvern stuðning, sem enginn hefur verið fram að þessu.

Þá var það í öðru lagi varðandi störf svokallaðrar kjararannsóknarnefndar. Það er að vísu svo með þá nefnd, að hún ber enga ábyrgð, hvorki gagnvart hæstv, ríkisstj. né heldur gagnvart Alþ., og þess vegna alveg rangur vettvangur hér að ræða störf hennar ýtarlega. En þar sem mér hefur fundizt hæstv. ráðh. hafa á mjög villandi hátt gert grein fyrir hlutverki nefndarinnar, vil ég upplýsa það, sem hæstv. ráðh. hlýtur auðvitað að vita, að þessi nefnd hefur aldrei tekið að sér það hlutverk að kveða upp neinn úrskurð um það, hvaða kaupgjald ætti að vera í landinu, hvorki hjá verkafólki né öðrum, og ég veit, að hæstv. ráðh, þarf ekki annað en að lesa orðsendingaskiptin milli ríkisstj. annars vegar og Alþýðusambandsins hins vegar, til þess að honum hljóti að vera þetta fullljóst eins og hverjum öðrum. Hitt er annað mál, að Alþýðusambandið vildi fallast á það og það fúslega að taka þátt í rannsóknum á ýmsum þáttum okkar efnahagsmála, sem gætu létt fyrir gerð kjarasamninga. Það er auðvitað hin fráleitasta firra sem hugsazt getur, ef menn halda, að nefnd eins og þessi eða nokkur annar aðili geti fundið einhverja formúlu fyrir því, hvað kaup eigi að vera. Mér er ekki kunnugt um það, að hún hafi enn þá fundizt í þeim löndum, þótt leitað sé um alla veröld, þar sem alls konar hagfræðilegar upplýsingar eru þó miklu fyllri en hér í okkar landi, en hér eru þær vægast sagt ákaflega bágbornar, öll statistik óábyggileg eða þá, — en svo er í mjög mörgum greinum, — að hún er alls engin til. Og mér er ekki heldur kunnugt um það, að þó að starfsemi álíka og sú, sem þessari nefnd er ætlað að vinna, hafi farið fram árum eða jafnvel áratugum saman, hafi það út af fyrir sig komið í veg fyrir það, að atvinnurekendur og launþegar þyrftu að semja með eðlilegum hætti um hlutina, né heldur að það hafi komið í veg fyrir, að skoðanir hafi verið skiptar milli atvinnurekendasamtaka annars vegar og launþegasamtaka hins vegar um það, hvað kaupgjaldið ætti að vera. Þetta veit ég, að hæstv. ráðh. hlýtur að vita alveg eins og allir aðrir.

Það er mikið talað um gjaldþol um þessar mundir, og í framhaldi af því tali er svo ályktað, að nefnd eins og kjararannsóknarnefnd eigi að geta gengið algerlega úr skugga um það, hvert þol atvinnuveganna sé til þess að greiða þessa eða hina kauphæðina. Þetta er önnur firran til. Það er auðvitað hægt með talsverðum líkindum að áætla, hvert gjaldþolið er, ef vitað er fullkomlega um tekjurnar, og við vitum það í mörgum tilfellum í okkar atvinnurekstri, a.m.k. að nokkru leyti. En það er bara að gæta þess, að það eru fleiri kostnaðarliðir atvinnurekstrar en vinnulaun, og í mjög mörgum tilfellum er þar um aðeins brot af kostnaði að ræða, og því fer auðvitað víðs fjarri, að kaupgjaldið eitt út af fyrir sig sé það eina, sem er hreyfanlegt í kostnaði atvinnuveganna, og ég kem nánar að því síðar. En þrátt fyrir þetta reynir hæstv. fjmrh. og ríkisstj. og ýmsir aðrir, sem hafa áhuga á því að villa fyrir mönnum, að telja mönnum trú um, að gjaldþolið komi allt saman fram, geti ekki komið fram nema gagnvart kaupinu. En það liggur auðvitað í hlutarins eðli, að ef hægt er að lækka aðra kostnaðarliði en kaupgjaldið, þá væri hægt að hækka kaupið sem því svaraði, þ.e.a.s. miðað við þær forsendur, að atvinnureksturinn a.m.k. berjist í bökkum við þau skilyrði, sem athugunin fer fram við.

Þessa athugasemd tel ég, að mér hafi verið nauðsynlegt að gera við það, sem hæstv. ráðh. sagði sérstaklega um störf þessara tveggja nefnda, og ætla ég ekki að fjölyrða frekar um það að sinni.

Það hafa nú undanfarna daga, sem þetta mál hefur legið hér fyrir hæstv. Alþ., fallið mörg þung orð innan þingveggjanna um þetta frv. En ég ætta þó, að það, sem hér hefur verið sagt um frv., sé mildin ein samanborið við það, sem fólk segir um það á heimilunum, á vinnustöðunum og í verkalýðsfélögunum, þ.e.a.s. fólkið í landinu, það fólk, sem þessu frv. er alveg sérstaklega beint að og ætlað er að búa við ákvæði þess og ákvæði þess hljóta að bitna fyrst og fremst á. Það hefur komið því betur í ljós, sem lengra hefur liðið, og eru þó ekki margir dagar liðnir, að í þessu máli, í afstöðunni til þessa frv. skiptist fólkið í landinu ekki í pólitíska flokka, og er þó flokkstryggðin mikil á Íslandi og auðvelt í flestum málum að skipa mönnum í pólitíska flokka eftir afstöðu til mála, en í þessu máli hefur reyndin orðið sú, að það á ekki við, því að hvar sem maður hittir mann um þessar mundir, þá falla um þetta ofbeldisfrv. fordæmingarorð, hvar sem menn eru í flokki eða hafa verið áður.

Fyrsta daginn, sem þetta frv. var til umr. hér á hv. Alþ., gerðist það, að allir hafnarverkamenn í Reykjavík lögðu niður vinnu. Vörurnar hættu að streyma upp úr skipunum, fiskurinn hætti að koma upp úr togurunum, viðgerðirnar við skipin í slippnum og í vélsmiðjunum stöðvuðust, og hundruð manna komu hér upp að alþingishúsi til að vita, hverju fram yndi um þetta mál. Og ég verð að segja það, að oft hefur verið minni ástæða til þess, að menn fylgdust með því, sem gerðist innan þingveggja, heldur en í þessu máll. En það var táknrænt, vil ég segja, að þegar fyrstu mennirnir birtust hér við þinghúsið í vinnugallanum sinum, þá var hurðum skellt í lás og kallað á fjölmennt lögreglulið, enda þótt nægilegt húsrými væri hér fyrir fleiri áheyrendur en þá voru. En það er það sama, þetta er táknrænt að því leyti, að það er verið að slá slagbröndum fyrir það, að verkamenn geti rétt hlut sinn. Og allar athafnir hæstv. ríkisstj. í þessu máli bera vott um vonda samvizku.

Síðan þetta gerðist, hefur ekki linnt mótmælaaðgerðum af hálfu verkafólks og af hálfu verkalýðssamtaka. Stöðugur órói hefur verið á vinnustöðum, menn hafa ýmist mætt hálfan dag eða alls ekki til vinnu, og framleiðslan og atvinnuvegirnir hafa látið á sjá strax nú þessa dagana. Þessar mótmætaaðgerðir náðu svo hámarki sínu í gær með einum fjölmennasta útifundi, sem haldinn hefur verið í Reykjavíkurborg, þar sem mættu a.m.k. 10–15 þús. manna og samþykktu einróma mótmæli gegn frv. og skoruðu á hv. Alþ. að fella það. Algert verkfall var í höfuðborginni og einnig á ýmsum öðrum stöðum, eins og í Hafnarfirði og á Akureyri, þar sem haldinn var fjölmennasti fundur, sem nokkurn tíma hefur verið haldinn í sögu Akureyrarbæjar. Áður en fundurinn hófst, hafði fundarsóknin sprengt af sér fundarhúsið, og miklu fleiri stóðu utan dyra og hlýddu þar á mál ræðumanna og tóku þátt í störfum fundarins heldur en þeir, sem inn komust, og slíkt hefur ekki, svo að ég viti, áður átt sér stað í sögu Akureyrar. En allt þetta, sem gerzt hefur þessa daga, er þó aðeins litill fyrirboði þess, sem verða mun, ef þetta frv. verður knúið í gegnum þessa hv. þingdeild.

Verkalýðssamtökin hafa mótmælt með ýmsum fleiri hætti en ég hef nú nefnt. Þau hafa haldið fundi um allt landið og samþykkt sín mótmæli. Og mér er ekki kunnugt um það, að á einum einasta fundi í öllum þeim tugum verkalýðsfélaga, sem hafa rætt málið, hafi verið nokkurt atkvæði á móti mótmælunum. Og það er vissulega enn ein sönnun þess, að menn skiptast ekki í flokka í þessu máli. Verkalýðshreyfing, sem oft hefur verið klofin í afstöðu til ýmissa mála og þar sem ólíkar pólitískar skoðanir hafa ár eftir ár og áratug eftir áratug barizt sín í milli, aðilar, sem hafa barizt um forustuna í verkalýðsfélögunum, þeir sameinast í þessu máli. Hv. Alþ. hefur þegar borizt mikið af þessum mótmælum, og ég er hér með nokkur dæmi um þau, en ég hygg þó, að miklu fleiri mótmæli hafi verið gerð og séu aðeins ókomin hingað til þingsins eða hafi verið birt almenningi með öðrum hætti. Vegna þess að ég veit, að hæstv. ráðh. hafa haft öðrum hnöppum að hneppa undanfarið en reyna að kynna sér viðhorf fólksins í landinu til þessa máls, þá vil ég aðeins vekja athygli á nokkrum þeim aðilum, sem mótmæli hafa sent. (Forseti: Ég hafði hugsað mér að gera fundarhlé núna til kl. 5, ef hv. þm. vili fresta máli sínu.) Þá fresta ég máli mínu. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég vil nú til að byrja með lýsa óánægju minni yfir því, að hæstv. ríkisstj: skuli sýna deildinni þá lítilsvirðingu, að hafa engan ráðherra hér viðstaddan, meðan umr. fara fram um þetta stórmál, og ég hygg, að þó að það, sem ég og aðrir stjórnarandstæðingar hafa að segja um þetta mál, fái kannske ekki mikinn hljómgrunn hjá þeim, þá mundu þeir ekki bíða heilsutjón af því að hlusta á það, sem við höfum fram að færa. Ég vildi eindregið mælast til þess, að hæstv: forseti hlutaðist til um það, að hæstv. ráðh. gegndu þingskyldu sinni hér eins og aðrir þingmenn, og lýsi mig reiðubúinn að gera hlé á máli mínu, meðan hann gerir ráðstafanir til þess. — Það gleður mig, að hæstv. ráðh. skuli sýna deildinni þá virðingu að vera viðstaddir, á meðan afgreiðsla málsins fer hér fram. En ég hafði haft þau ummæli, að jafnvel þó að það, sem við stjórnarandstæðingar hefðum fram að færa um málið, fengi kannske ekki mikinn hljómgrunn hjá hæstv. ráðh., þá mundu þeir þó ekki bíða heilsutjón af því að hlusta á það, sem við höfum að segja:

Ég hafði komið þar máli mínu, áður en fundarhlé var gert, að minna á, hvernig viðtökur þetta mál hafði fengið, og ég tel rétt að gera því nokkru nánari skil, áður en ég vik að sjálfu efni málsins, vegna þess að þess munu engin dæmi, hvorki fyrr né síðar, að nokkurt mál, sem ríkisstj. í landinu hafi borið fram, hafi hlotið jafneinróma mótmæli og þetta mál. Ég hef fulla vissu fyrir því, að eftirtalin verkalýðsfélög hafi ekki aðeins mótmælt frv., heldur líka boðað vinnustöðvun frá n. k. mánudegi, þ.e. Verkamannafélagið Dagsbrún í Reykjavík, Hlíf í Hafnarfirði, Eining á Akureyri, Járniðnaðarmannafélag Reykjavíkur, Bílstjórafélag Akureyrar, Iðja í Hafnarfirði, Iðja í Reykjavík, Verkalýðsfélagið í Sandgerði, Gerðahreppi, Verkamannafélagið Bjarmi á Stokkseyri, Verkalýðsfélag Hveragerðis, Verkakvennafélagið Snót í Vestmannaeyjum, Verkalýðsfélag Vestmanneyinga, Verkamannafélagið Rangæingur, Verkamannafélagið Árvakur á Eskifirði, Verkamannafélög Vopnafjarðar og Norðfjarðar og Stöðvarfjarðar, Verkamannafélagið Þróttur á Siglufirði og Verkakvennafélagið Von á sama stað, Verkalýðsfélag Dalvíkur, Verkalýðsfélagið Fram á Seyðisfirði, Verkalýðsfélag Borgarness og Bilstjórafélagið á Selfossi. Það kann að vera, að það séu fleiri félög en þetta, sem ekki hafa aðeins mótmælt þessu frv., heldur einnig boðað vinnustöðvun, en um þessi félög er fullkunnugt. Og ég verð að segja það, að mér er ekki kunnugt um það, að nokkurt verkfall á Íslandi hafi verið víðtækara en verkfall, sem háð væri af þessum félögum, sem ég nú taldi, þ.e.a.s. það er greinilegt, að ríkisstj. er að stofna til stórfelldustu verkfalla og stéttaátaka, sem átt hafa sér stað í sögunni.

Þá eru allmörg félög, sem að vísu hafa ekki boðað vinnustöðvanir, en hins vegar haft í frammi mjög ákveðin mótmæli gegn frv., og eru á meðal þeirra Sókn í Reykjavík, Verkakvennafélagið Framsókn, Iðja í Reykjavík, Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík, Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, Félag húsgagnasmiða og Félag húsgagnabólstrara. Og enn er að nefna Bókbindarafélag Íslands og Hið Íslenzka prentarafélag, en það síðarnefnda er nú þegar í verkfalli til þess að knýja fram hækkuð laun, enda þótt það verkfall mundi enga þýðingu hafa, ef lögin ná fram að ganga, og ber þess vegna að skoða fyrst og fremst að svo komnu sem mótmælaverkfali gegn þessum lögum, og hefur ekkert félag enn þá haft uppi harðari aðgerðir gegn málinu en þetta eitt elzta stéttarfélag landsins, sem eins og kunnugt er lýtur einlitri forustu Alþfl., annars stjórnarflokksins.

En það hefur, eins og ég sagði, ekki aðeins verið látið sitja við mótmælin ein, heldur hafa verið boðaðar virkar aðgerðir hjá a.m.k. 23 verkalýðsfélögum þrátt fyrir bann þessa frv. Það er þess vegna alveg óhætt að fullyrða það, að hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsmenn geta ekki huggað sig við það, sem ég hef heyrt þá fleygja á milli sín, að hér væri um einhverja fundaæsingu að ræða. Það, sem nú er að gerast, á vissulega ekkert skylt við slíkt. Það er alveg öruggt, að á mánudaginn kemur hefjast verkföll bæði hér í Reykjavík og víða hér um land. Í Reykjavík er að nefna félög eins og Dagsbrún, Trésmiðafélagið, málara, A.S.B., járniðnaðarmenn o. fl. Svo að segja öll verkalýðsfélög á Austfjörðum hafa boðað vinnustöðvanir. Á Norðurlandi er a.m.k. um að ræða 3 félög á Akureyri, enn fremur 2 félög á Húsavik og 2 félög á Siglufirði. Og á Suðurlandi Vestmannaeyjar, Hafnarfjörður; bæði hjá Hlíf, verkamannafélaginu, og Iðju, en í því félaginu, sem ég nefndi siðast, fór fram allsherjaratkvæðagreiðsla um vinnustöðvunina og var samþykkt gegn 4 mótatkvæðum, og hygg ég það vera nokkurn veginn einsdæmi, að svo fá mótatkvæði komi fram gegn vinnustöðvun, og alveg sérstaklega er það athyglisvert, eins og allt er nú í pottinn búið.

En þetta er, eins og ég áður sagði, langt frá því að vera nokkurt fullkomið yfirlit. Það kann að vera, að átökin, sem ríkisstj. er beinlínis að efna til, kunni að verða miklu víðtækari en það, sem ég nú hef sagt, gefur hugmynd um. Og það er vissulega saga til næsta bæjar, að í undirbúningi skuli vera víðtækasta verkfall í sögu verkalýðshreyfingarinnar, einmitt við þær aðstæður, að lögbann er lagt við því, að vinnustöðvanir séu framkvæmdar. Og það er ekki síður athyglisvert, að þetta sætir ekki andstöðu í félögunum, heldur eru ákvarðanir um það teknar einróma af mönnum úr öllum flokkum. Það má að vísu segja, að vinnudeilur og e.t.v. verkföll hafi verið í uppsiglingu og hefðu skollið á, þrátt fyrir það þótt ríkisstj. hefði ekki gripið til þeirra ráða, sem í þessu frv. felast, hitt sýnist mér þó alveg augljóst, að þessar ráðagerðir, sem uppi eru í þessu frv., hafi orkað mjög til þess að gera þessi átök miklu víðtækari en ella hefði orðið.

En það er líka óhætt að fullyrða, að það hafa ýmsir fleiri tekið snögg viðbrögð við það, að þetta frv. var lagt fram hér á hv. Alþingi, heldur en sjálf verkalýðsfélögin, sem í hlut eiga. Ég nefni til dæmis mjög einörð mótmæli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem e.t.v. og áreiðanlega af þeim, sem eru launtakar, eiga þó kannske frekast eitthvað undir því, að ríkisstj. takist að halda kjörum láglaunamanna niðri. En þessi samtök hafa sýnt fullan skilning á því, hvað hér er í húfi fyrir verkalýðshreyfinguna og fyrir hagsmunasamtökin í landinu, og tekið sínar ákvarðanir samkvæmt því, en ekki eftir því, sem þeirra eigin hagsmunir hefðu kannske frekast boðið, a.m.k. stundarhagsmunir. Það er sannast mála, að jafnvel stuðningsmenn ríkisstj. standa agndofa, hneykslaðir og agndofa gagnvart þeim aðgerðum, sem hér eru í frammi hafðar, og ummæli sumra stjórnarsinna í andstöðunni við þetta mál hafa orðið mjög fleyg, eins og t.d, þau, sem Jón Axel Pétursson bankastjóri viðhafði á miðstjórnarfundi Alþfl., þegar hann sagði: Svona er ekki hægt að fara með verkamenn. — Og það hafa líka orðið fleyg orð sjálfstæðiskonunnar í stjórn Iðju, sem sagði, að ef þessi ríkisstj. þyrfti að haga sér svona, eins og þetta frv, bæri vott um, þá mætti hún fara til staðar, sem ég tel ekki virðingu þingsins samboðið að nefna. mikilsvirtur sjálfstæðismaður á Akureyri sagði við mig — og bað mig ekki fyrir það, að þessar aðgerðir væru í einu orði sagt, það væri ekki hægt að lýsa þeim betur í einu orði heldur en þær væru svívirðing, og sagði jafnframt, að það væri skoðun flestra flokksbræðra sinna á Akureyri.

Svo hefur það einnig gerzt, sem kannske er furðulegast af öllu, sem gerzt hefur enn þá í málinu, að sama daginn og frv. var lagt fram hér á Alþingi, m.a. með þeim ákvæðum, að ákvæði þess skyldu gilda frá þeirri stundu, þegar það var lagt fram, að lögin voru þverbrotin, þ.e.a.s. annars vegar af verkakvennafélögunum á Akranesi, í Hafnarfirði, Keftavik og Reykjavík. En hver halda menn nú, að hafi verið hinn aðilinn, sem braut lögin og samdi um kauphækkun þrátt fyrir bann laganna? Það var sjálfur forseti eða formaður Vinnuveitendasambandsins, bróðir hæstv. forsrh., Kjartan Thors, og vissulega duga engar langsóttar lögskýringar hæstv. fjmrh. um þetta efni. Það er eins augljóst og við erum hér allir staddir, að svo var til ætlazt, að allar launahækkanir yrðu bannaðar, frá því að lögin voru lögð fram á Alþingi, og viðkomandi því, að aðilar hafi ekki vitað um, hvað í lögunum stóð, þá geta menn nú gizkað á það, hvað hæft er í því, þegar sá maður átti í hlut, sem ég nefndi.

Nei, sannleikurinn er sá, að það er að skapast þjóðarsamstaða gegn því, sem hér er á ferðinni, og það þarf áreiðanlega mikið til að skapa þjóðarsamstöðu í landi, þar sem menn yfirleitt láta skipa sér í pólitíska flokka eftir málefnum, eins og ég áðan sagði. Og það þarf sjálfsagt enn þá meira til, þegar svo er ástatt eins og nú, að sjálf landsstjórnin telur þær ráðagerðir, sem hún hefur hér á prjónunum, helzta, ef ekki eina bjargráðið í miklum og aðsteðjandi þjóðarvanda. Þegar slíkt gerist undir þeim kringumstæðum, þá eru vissulega ástæður til að staldra ofur lítið við og skoða, hvað er að gerast. En enn þá a.m.k. virðist þetta, sem hverju barni ætti þó að liggja í augum uppi, vera hæstv. ríkisstj. alveg hulið. Hún virðist ekki vita, hvað er að gerast. Hún heldur áfram að sigla fullum seglum með þessar aðgerðir beint inn í brimgarðinn, og það er vissulega engu líkara en að það væru blindir menn, sem stæðu við stjórnvölinn. Það má sannarlega segja um þá, að vitandi vita þeir ekki og sjáandi sjá þeir ekki.

Það ræður svo auðvitað af líkum, að þegar svo er ástatt sem ég nú hef lýst, þá getur það ekki átt sér stað, að neitt smámál sé á ferðinni, heldur stórmál, sem getur valdið miklum örlögum og miklum umskiptum, og það er a.m.k. óhætt að fullyrða, að það er dómur fólksins í landinu þessa dagana. Eða halda menn kannske eða reynir hæstv. ríkisstj. að hugga sig við það, að þetta sé bara allt saman ímyndun úr fólkinu, hugarórar, að það vaði í villu og svima um það, sem hér er að gerast, — eða er það raunsærra en hæstv. ríkisstj. sjálf? Ég held, að það sé rétt að athuga það mál ofur lítið nánar, og ber þá sjálfsagt fyrst að líta á efnisatriðin í þessu frv.

Það er þá í fyrsta lagi, að með frv. eru bannaðar allar launahækkanir, frá því að það er lagt fram og til næstu áramóta. Í öðru lagi eru allar vinnustöðvanir, sem miða að því að knýja fram breyt. á launum eða vinnutíma, bannaðar í jafnlangan tíma. Í þriðja lagi eru svo ákvæði um verðlag, sem mér virðast vera þess eðlis, að verðhækkanir séu leyfðar — fullkomlega leyfðar eftir sömu eða svipuðum reglum og áður hafa gilt, nema hvað bannað er að hækka í prósentum talið álagningu í smásölu og heildsölu. En annars sé ég ekki annað en þessi ákvæði heimili verðhækkanir nákvæmlega með sama hætti og gilt hefur í landinu að undanförnu. T.d. er það um iðnaðinn að segja, að eftir ákvæðum verðlagsnefndar má ekki hækka neinar iðnaðarvörur í landinu nema með samþykki verðlagsyfirvalda. Þetta hefur að vísu verið gert hér að meira eða minna leyti, sérstaklega hjá iðnrekendum hér í Reykjavík, og kannske að miklu leyti, og það hefur verið séð í gegnum fingur við þá af verðlagsyfirvöldum og stjórnarvöldum. En engu að siður ber þeim að senda verðlagsyfirvöldunum sína útreikninga og skýrslur og beiðast leyfis, í hvert skipti sem þeir hækka verð á sínum vörum. Og ég get ekki betur séð en sem sagt hvaða tilkostnaður sem vex hjá fyrirtækjum, enda er það beinlínis tekið fram, geti valdið verðhækkunum, og sama er að segja um þjónustu. Ég sé þess vegna ekki, að þetta frumvarpsákvæði hindri það, að yfir skelli yfirvofandi hækkanir á t.d. ýmissi þjónustu, sem er almenningi mjög mikils virði og hefur mikla þýðingu, við hvaða verði er seld, eins og t.d. rafmagn, hitaveitugjald og sitthvað fleira. Ef þetta er rangur skilningur hjá mér, þá verður hann vafalaust leiðréttur. En það er auðvitað langt frá því, að ég telji það nokkurt höfuðatriði, hvernig þetta verður skilið, en hitt er alveg augljóst, að um allsherjarbann við verðhækkunum á nauðsynjum og þjónustu er ekki að ræða.

Skv. bókstaf laganna er gildistíminn svo til 31. des. eða til áramóta. En í grg. frv. er þó gefið mjög greinilega í skyn, að um það leyti eða áður muni launamálunum í landinu almennt hafa verið skipað með löggjöf til lengri frambúðar en til áramóta. T.d. segir svo í grg. með frv. í 2. mgr.:

„Nú hafa hins vegar á undanförnum dögum og vikum orðið þeir atburðir, að gerðar hafa verið kröfur um miklar kauphækkanir og vinnustöðvanir boðaðar. Ef ekki er nú þegar gripið til aðgerða í launa- og verðlagsmálum, er hætt við, að ókleift reynist að treysta á ný efnahag þjóðarinnar“ o. s, frv. Og undir lok grg., í næstsíðustu mgr., segir svo um fyrirhugaða samningsgerð eða hugsanlega samningsgerð launþega og atvinnurekenda: „Jafnframt munu aðilar að kjaradeilum fá ráðrúm til að ræðast við og átta sig á afleiðingum þeirra kröfugerða, sem nú eru uppi.“

Ráðrúmið á ekki að nota til að semja, vegna þess að þess þarf ekki, það á að skipa málunum með lögum. Aðilarnir eiga bara að fá ráðrúmið til þess að átta sig á því, hvað kröfugerðin er vitlaus, ekki til annars. Það er hvergi minnzt á það í þessu, sem þó lægi alveg beint við, að það eigi að nota tímann til þess að semja, og það verð ég að segja, að það gefur a.m.k. alveg ótvírætt í skyn, hver meiningin er, þ.e.a.s. sú, sem hæstv. ríkisstj. þorir ekki að láta koma fram í frv., að það sé meiningin að lögfesta kaup að þessum tíma liðnum, sem í frv. er gert ráð fyrir. Þetta styðst svo enn þá við þær hugmyndir, sem fram hafa komið, sérstaklega frá forustumönnum Alþfl., um það, að það eigi að koma á einhvers konar lágmarkskaupi, — ég get ekki séð, hvernig það mætti verða öðruvísi en með löggjöf, og þá um leið, að annað kaupgjald yrði bundið í lögum, og enn fremur við það, að sjálfur hæstv. forsrh. hefur lýst yfir, að það ætti að leysa þessi mál öll án launahækkana eftir öðrum leiðum en samningum við verkalýðssamtökin, þ.e.a.s. eftir lagaleiðum.

Það er auðvitað alveg auðsætt, að kjarni málsins og aðalatriðið í þessu frv. er annars vegar bannið við launahækkunum og hins vegar bannið við vinnustöðvunum.

Hv. 3. þm. Norðurl. v, gerði hví í sinni ræðu allveruleg skil, að þessar aðgerðir eigi sér ekki fordæmi, eigi sér ekkert fullkomið fordæmi, og það auðvitað stoðar ekki neitt, þegar fortiðin er skoðuð, fyrir hæstv. ríkisstj. eða hæstv. ráðh. að halda því fram, að það séu einhver óteljandi fordæmi fyrir slíkum hlutum sem hér eru á ferðinni. Þeir segja að vísu, að margar aðgerðir, sem hafa verið gerðar á undanförnum árum og undanförnum áratugum, séu að öllu eðli og tilgangi svipaðar og þessar, sem núna eru fyrirhugaðar, enda séu vandamálin, eins og einn hæstv. ráðh. orðaði það, þau sömu og úrræðin furðulega fá.

Það má auðvitað finna sannleikskorn í þessu, en það er ákaflega litið sannleikskorn. Það er í því fólgið, að það er auðvitað rétt, að verkalýðshreyfingin og verkafólkið í landinu hefur á undanförnum áratugum orðið að þola margs konar búsifjar af hendi stjórnarvalda, og það er vissulega rétt, að húsráðin hafa verið hver öðrum lík.

Við höfum kynnzt ýmsum réttindaskerðingum, eins og t.d. afnámi sérstakra samningsatriða. Ég nefni t.d. verðlagsvísitöluna, verðlagsbæturnar, sem nokkuð oft hafa verið skertar að meira eða minna leyti, stundum í fullkominni óþökk við verkalýðssamtökin og í önnur skipti í samkomulagi við þan, og við höfum einnig orðið að þola gerðardóma í einstökum, takmörkuðum kjaradeilum, og við höfum orðið að þola nýjar tollaálögur af svo að segja hverri einustu ríkisstj., sem hefur setið í landinu, og svo mætti lengi telja. Það hefur margt verið gert af hendi stjórnarvalda, sem út af fyrir sig hefur rýrt kjör verkafólksins í landinu.

En þetta frv. hefur, hvernig sem málið er skoðað, algera sérstöðu. Og sérstaðan er fólgin í því, að engri ríkisstj. a.m.k. siðan lýðveldið var stofnað á Íslandi, hefur hugkvæmzt að afnema í einu lagi, með einu pennastríki, allan frjálsan samningsrétt allrar verkalýðshreyfingarinnar og banna þar að auki kauphækkanir. Og í öðru lagi, sem er líka alger sérstaða með þetta frv., að a.m.k. yfir þann tíma, sem í orði kveðnu er ætlað, að ákvæði þess eigi að gilda, þá beinast ákvæði frv. eingöngu gegn þeim, sem verst eru settir í þjóðfélaginu, ekki öðrum.

Það er auðvitað sannast mála, að frjáls samningsréttur verkalýðshreyfingarinnar, tryggður með rétti til þess að selja vinnu sína eða selja hana ekki, sá réttur er eitt af grundvallaratriðunum í lýðræðisþjóðfélagi, einn af hornsteinunum, sem lýðræðisþjóðfélag hlýtur að byggjast á. Það er líka einn helzti og traustasti hornsteinninn undir hverju ríki, sem vill láta kalla sig velferðarríki, og það er helzta trygging lýðræðisins gegn ofurvaldi og ofstjórn, gegn ofstjórn og ofurvaldi harðsvíraðs ríkisvalds, sem treystir sér ekki til að stjórna öðruvísi en með bolabrögðum, öðruvísi en að fleygja fyrir borð lýðræðislegum leikreglum. Í augum verkalýðshreyfingarinnar og þeirra, sem hana skipa, er þetta m.a. af þessum ástæðum helgur réttur og dýrmæt eign, sem ekki verður látin af hendi, hvað sem í boði væri, — réttur, sem öll eða flest önnur þjóðfélagsréttindi verða rakin til og einnig má rekja til flesta eða alla ávinninga, sem verkalýðshreyfingin bæði hér og annars staðar hefur náð fyrr og síðar.

En nú á að afnema þennan rétt og afnema um leið þær leikreglur, sem gilt hafa, ég vil segja frá upphafi verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi og fram til þessa dags, um samskipti hagsmunasamtakanna, samskipti launþega og atvinnurekenda, og líka þær leikreglur, sem þrengdu réttindi verkalýðshreyfingarinnar með vinnulöggjöfinni, — leikreglur, sem sjálf borgarastéttin á Íslandi setti 1938, og ég held, að mig misminni það ekki, að það voru foringjar Sjálfstfl., eins og Thor Thors og aðrir, sem þá báru uppi merki þess flokks hér á Alþingi, sem sérstaklega beittu sér fyrir því, að þessar leikreglur væru settar. En nú í dag eru þessar leikreglur, sem Thor Thors setti 1938, orðnar of frjálslyndar fyrir Sjálfstfl. og fyrir þá stjórn, sem nú er í landinu, og það er vissulega lærdómur út af fyrir sig.

Hitt er svo annað, að það er mikið færzt í fang að ætla að ræna þessum rétti, og viðbrögð almennings í landinu, viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar og viðbrögð einstaklinga, sem henni eru þó ekki neitt nátengdir, sýna það mjög greinilega, að réttur skilningur er á því meðal allrar Íslenzku þjóðarinnar, hvers virði þessi réttur er fyrir sjálft lýðræðið í landinu. Og viðtökurnar sýna líka, að fólkið í landinu telur flest tilvinnandi til að verja þennan rétt.

Hæstv. ríkisstj. og talsmenn hennar reyna að færa sér það til málsbóta, að þessi réttindaskerðing eigi bara að gilda í tvo mánuði. En ég vil spyrja: Ef menn sætta sig við það, að þessi réttur sé tekinn í tvo mánuði, geta þá ekki næst komið alveg jafnfullgildar röksemdir fyrir því, að verkalýðshreyfingin sé svipt þessum rétti í aðra tvo mánuði eða í eitt ár eða í tvö ár? Ég get ekki betur séð en að sjálft „prinsipið” er brotið og ef það getur verið rétt einu sinni að afnema þann rétt, þá getur það verið rétt í annað skipti. Og það er þetta, sem menn skilja, og það er það, sem menn skilja, að ef verkalýðshreyfingin missir einu sinni þennan rétt, þótt í stuttan tíma sé, þá er lifi þessa réttar hætt, það kann að vera, að þá nái hún honum aldrei aftur um mjög langa framtíð. Og eins og ég rakti áðan, hefur hæstv. ríkisstj. afhjúpað það, að það er alls ekki meiningin, að þessi þvingunarlög eigi bara að gilda í tvo mánuði. Þau eiga að gilda áfram. Það á að skipa launakjörunum með lögum. Það á að taka samningsréttinn af verkalýðshreyfingunni. Það er þetta, sem hæstv. ríkisstj. lýsir yfir.

Það er þess vegna alveg rétt ályktað hjá fólkinu í landinu, hjá verkalýðshreyfingunni, að hér er um frambúðarskerðingu samningsréttarins að ræða, og þá vaknar sú spurning: Á að láta réttinn, eða á að standa á réttinum, verja hann? Og það er það, sem verkalýðshreyfingin hefur ákveðið. Hún hefur ákveðið að verja þennan rétt.

Ég hygg, að það sé fyllilega réttmætt að athuga það svo nokkuð nákvæmlega, hver þróunin hefur verið í launamálunum nú upp á síðkastið og hvort sú þróun gefi hæstv. ríkisstj. og öðrum þeim, sem vilja berja þetta frv. í gegn, einhver rök í hendur. Það helzta, sem hefur gerzt almennt í kjaramálunum, er það, að opinberir starfsmenn hafa fengið 20–90% kauphækkun, eða að meðaltali, eftir því sem ríkisstj. reiknast, 45%. Þessar hækkanir eru að vísu í þeim stíl, sem viðreisninni hæfir, að þeir, sem lægst höfðu launin af opinberum starfsmönnum, fá minnstar hækkanir eða í kringum 24%, en þeir, sem ríflegast báru frá borði áður, fá allt upp í 90%, en það er út af fyrir sig önnur saga. Í kjölfar þess, að opinberir starfsmenn fengu sínar hækkanir, komu svo blaðamenn, sem fengu 30% hækkun. Bankastjórunum var sleppt inn fyrir þröskuldinn daginn áður eða kannske í sumum bönkunum tveimur dögum áður en lögin gengu í gildi, því að það var álit stjórnarinnar, að þjóðfélagið mundi sporðreisast, ef þeir yrðu lokaðir úti, enda höfðu þeir afskaplega lág laun áður. Þeir fengu 35% og standa nú í launum, sem eru ekki nema um 360 þús. kr. á ári, og var vissulega skiljanlegt, að þrír af ráðh. ríkisstj., sinn í hverju bankaráði, gætu ekki borgið þjóðarhagnum nema hækka laun þessara manna, á sama tíma og þeir voru að semja þetta frv. Næstir blaðamönnunum komu svo starfsmenn bæjarfélaganna, fyrst Reykjavíkur, og þar var um kjarasamninga eða kjaraákvörðun að ræða, sem í flestum greinum yfirbauð kjaradóminn, þannig að a.m.k. alls staðar, þar sem einhver vafi lék á, að maður ætti að vera í launaflokki eftir kjaradómi, þá var hann settur einum flokki ofar, svo að það væri alveg öruggt, að enginn bæjarstarfsmanna yrði verr úti en þeir, sem hjá ríkinu ynnu. Og í kjölfar bæjarstarfsmanna Reykjavíkur hafa svo komið starfsmenn bæjarfélaganna yfirleitt um allt landið, og hygg ég mjög fáa starfsmenn mjög fárra bæjarfélaga hafa orðið úti, þegar þetta frv. var lagt fram á Alþingi. Það er líka vitað, að í kjölfar þessa hafa líka forstjórar svo að segja allra fyrirtækja í landinu, jafnt ríkisfyrirtækja sem einkafyrirtækja, fengið stórkostlegar launahækkanir; og það mun nú varla vera talað um forstjóralaun, sem ekki séu sambærileg við það, sem ráðh. bera úr býtum. T.d. var ráðinn forstjóri fyrir útgerðarfyrirtæki í Hafnarfiði núna nýlega, og honum voru ákveðin laun af bæjarstjórn Hafnarfjarðar, sem svöruðu til launa forsrh., eða 24 þús. kr. Og þannig er þetta í einkafyrirtækjunum um landið allt, að forstjórarnir og einnig allir, sem eru þar í einhverju fyrirsvari eða bera einhverja ábyrgð, hafa fengið stórkostlegar hækkanir. Og þetta allt saman hefur gerzt með góðu samþykki og tilstuðlan hæstv. ríkisstj.

Þegar opinberir starfsmenn höfðu lagt fram kröfur sínar á s.l. vori, bauð ríkisstj. þeim 30% kauphækkun að meðaltali, og þegar hún bauð það, hlýtur hún að hafa gert sér fulla grein fyrir því, að það var auðvitað algerlega útilokað, að kjaradómur dæmdi opinberum starfsmönnum ekki altverulega hærri launabætur en ríkisstj. hafði boðið. Auðvitað hlaut það að hafa mikil áhrif á úrskurð kjaradóms, hvaða tilboð lá fyrir frá hæstv. ríkisstj. En það var, eins og ég segi, um 30% hækkun. En um þetta þarf ekki í raun og veru að hafa neinar ágizkanir. Það er kunnugt, að einn af þeim, sem skipuðu kjaradóm, var Jóhannes Nordal bankastjóri, sem er annar helzti ráðgjafi hæstv. ríkisstj, í efnahagsmálum. Gerði hann sératkv. í málinu? Lýsti hann sig andvígan því, að opinberir starfsmenn fengju 45% kauphækkun að meðaltali? Taldi hann, að þjóðarbúið þyldi það ekki? Eða taldi hann, að það mundi setja allt launakerfið í landinu úr skorðum? Nei, Jóhannes Nordal, aðalráðunautur ríkisstj. í efnahagsmálum næst Jónasi Haralz, áleit það ekki. Hann greiddi þessu atkv., og það þarf enginn, hvorki mér að segja eða öðrum, að hann hafi tekið þessa afstöðu öðruvísi en í samráði við ríkisstj., maður í hans stöðu.

Saga gengur um ráðh., saga um það, þegar ráðh. voru óvenjulega snemma á fótum hér á haustmorgni, flýtandi sér niður í banka til þess að halda fund, ekki út af því, að sparifjáraukningin væri komin niður í 5 millj. kr. á mánuði, ekki af því, að bankaútlánin hefðu vaxið um einn milljarð, á meðan sparifjáraukningin var 500 millj., — nei, nei, þeir höfðu engar áhyggjur af því. Þeir höfðu aðeins áhyggjur af því, hvort bankastjórnin gæti fengið hækkuð laun, áður en ríkisstj. legði þvingunarfrv. sitt fyrir Alþingi. Og þess vegna voru þeir svona snemma á fótum. Og svo ætla menn að koma og halda því fram, að ríkisstj. hafi ekki borið nokkra einustu ábyrgð á því, sem hefur gerzt í launakjörum opinberra starfsmanna, eða beri neins konar ábyrgð á því, hvernig allt launakerfið í landinu hafi farið úr skorðum á þessu ári. Það þarf vissulega meira en litla trúgirni til þess að trúa slíku. Nei, það hefur sem sagt verið alveg fram að þessu trú hæstv. ráðh., trú ríkisstj., að þjóðfélagið hefði fullkomlega efni á því að verja 400—500 millj. kr. til þess að bæta kjör embættismannanna og hátekjumanna í þjóðfélaginu. Það er langt frá því, að ég sé að flokka alla opinbera starfsmenn undir það, að þeir séu hátekjumenn. Margir þeirra hafa ekki meiri laun en þeim ber og ekki meira en lifvænlegt er. En hitt er auðvitað alveg auðséð, að verulegur hluti af opinberum starfsmönnum fær miklu hærri laun en nokkur ástæða er til og miklu hærri laun en á nokkurn hátt verður verjandi, t.d. bankastjórarnir með sína 6 tíma vinnuviku. Ég hef allgóðar heimildir fyrir því, að bankastjórarnir hér í Reykjavík, sem hanga yfir hálftómum bönkum, sem yfirleitt gera ekki mikið annað, upp á síðkastið a.m.k., heldur en að segja „nei“ við fólk, og það er frekar fljótlegt, vinni í bönkunum a.m.k. 6 klst. á viku. Og þá fara nú launin að verða allrífleg, þegar tillit er tekið til vinnutímans. En sannast að segja efast ég um, að sumir bankastjórarnir vinni svo langa vinnuviku.

Það er svo á hinn bóginn að athuga, hvað verkafólkið í landinu hefur fengið í sinn hlut, á meðan þessu fór fram með kjör opinberra starfsmanna og kjör hálaunastéttanna í landinu. í janúarmánuði sömdu verkalýðsfélögin eða fengu öllu heldur án samninga 5% kauphækkun, án þess að samningar væru undirritaðir og með því fororði, að þau gætu tekið upp samninga, hvenær sem væri. Þessum samningum eða þessari kauphækkun eða samkomulagi eða hvað þið viljið kalla það, því var ákaflega vel tekið af stjórnarliðum. Mér er það í minni, að Morgunblaðið skrifaði daginn eftir leiðara, sem hét „Raunhæfar kjarabætur“. Það var daginn eftir að samkomulagið tókst milli verkalýðsfélaganna á Akureyri og atvinnurekenda þar um þetta. Og farið er alveg sérstaklega lofsamlegum orðum um hófsemina í þessu. Nú skyldi það sjást, að þessar kjarabætur yrðu raunhæfar, af því að þeim væri stillt svo í hóf.

Ég hef nú ekki Hagtíðindin hérna fyrir framan mig, en ég held, að það hafi ekki verið liðnir tveir mánuðir, þegar verðhækkanir höfðu étið upp þessa hækkun. Hún var horfin eins og dögg fyrir sólu eftir 1—2 mánuði og var þess vegna úr sögunni sem nokkur kauphækkun. Svo þegar leið á vorið, tóku verkalýðssamtökin upp samninga að nýju, og endirinn á þeim samningum varð sá, að það tókust samningar um 71/2 % hækkun, og atvinnuvegunum var forðað frá öllum vinnustöðvunum. Að þessu gekk verkalýðshreyfingin, alveg sérstaklega vegna þess, að þetta var í upphafi síldarvertíðar og hún vildi ekki leggja á nokkurn hátt stein í götu þess, að síldveiðar gætu hafizt og fært þjóðarbúinu þær miklu tekjur, sem síldarvertíðin hefur fært okkur undanfarin ár. Þessu samkomulagi var líka alveg sérstaklega fagnað af stjórnarliðinu og Morgunblaðinu, og það var ekki nein dónanafngift, sem þessum samningum var gefin í stjórnarherbúðunum og stjórnarmálgögnunum. Þetta voru kallaðir „þjóðhátíðarsamningar“. Og þeir áttu nú aldeilis að verða raunhæfir. Það átti nú að sýna það í eitt skipti, að einmitt þessi leið, að fara vægilega í sakirnar og spenna bogann ekki of hátt, yrði farsælli fyrir verkalýðshreyfinguna en stórkostleg kröfugerð.

En reynslan hefur nú orðið svolítið önnur. Það fór alveg eins með þessa 71/2% hækkun og 5% áður. Hrósyrði Morgunblaðsmanna og stjórnarliðsins dugðu ekki nokkurn skapaðan hlut til þess að halda verðgildi peninganna áfram í horfinu og gera þessar lítilfjörlegu hækkanir raunhæfar fyrir verkafólkið, sem átti að búa við þær. Og í dag stöndum við andspænis því, að verðhækkanirnar hafa étið báðar þessar hækkanir og töluvert meira til, þannig að á þessu ári, sem ýmsar stéttir þjóðfélagsins hafa fengið allt að 90% kauphækkun, hefur verkafólkið í landinu ekki fengið neina kauphækkun það hefur fengið kauplækkun, það hefur fengið raunverulega kauplækkun.

Það hefur þess vegna komið í ljós, sem flestir hefðu í raun og veru átt að sjá fyrir, að meðan sú stjórnarstefna ræður í landi, sem nú ræður, þá standa loforðin ekki lengi, hvorki loforðin um þetta né annað.

Þegar rætt er um launakjörin, er auðvitað margs að gæta, og ég ætla mér auðvitað ekki þá dul að fara út í alla þá sálma, sem við ættu í sambandi við það. En ég hygg þó, að tvö atriði þurfi alveg sérstakrar athugunar við, í hvert skipti sem launamál eru vegin og metin.

Það er, hvernig launahlutföllin eru í landinu og hvernig verðlagið hefur þróazt með tilliti til launa. Það auðvitað skiptir ákaflega miklu máli, hvernig þeim hluta af okkar þjóðartekjum, sem til launa fer, er skipt milli allra þeirra mörgu, sem á launum lifa. Ég hygg, að það sé talið almennt, a. m. k, erlendis, að um 70% af þjóðartekjum fari til launa, — og það gefur auðvitað auga leið, að það skiptir miklu fyrir hverja einstaka starfshópa, hvernig sú skipting fer fram. Og þó að það skipti auðvitað miklu, hvað yfirleitt er hægt að láta til launa, hvað mikið fjárfestingin tekur, hvað mikið fjármagnið tekur, hversu mikill gróðinn er og annað því um líkt, þá skiptir þetta þó líka miklu máll. Ég hygg þess vegna, að það sé rétt að athuga það ofur lítið, hvernig launakjörin, hvernig launahlutföllin hafa þróazt í landinu síðustu árin. Ég ætlaði ekki að fara langt út í þá sálma, en mun þó leitast við að gefa af því ofur litla mynd, — ofur litla mynd. af því, hvernig þetta hefur verið allra síðustu árin.

Vegna þeirra tímamóta, sem urðu, þegar vinstri stjórnin sáluga hrökk upp af klakknum, vegna þeirra tímamóta, sem þá urðu, og þeirrar nýju stefnu, sem þá var tekin upp, tel ég sérstaklega rétt að athuga, hvernig launakjörin hafa þróazt á þessu tímabili viðreisnarinnar, því að það er vissulega ekki þýðingarminna en annað, hvaða áhrif þessi stjórnarstefna hefur haft á þessa þróun, og vissulega her stjórnarstefnan á henni mikla ábyrgð. Sú viðmiðun, sem ég hef hér, er þannig, að það er miðað við kaupgjald eins og það var í október 1958 og eins og það var núna í s.l. mánuði, okt. 1963, eftir 5 ára viðreisnartímabil, því að vissulega var millibilsástandið, meðan Alþfl: stjórnin var, eins og fyrirboði viðreisnarinnar, og í mínum augum er ekki þar mikill munur á gerandi. Þó hófst samstarf þessara flokka mjög bróðurlega, og þeir hafa stjórnað landinu síðan, þó að ein stjórnarskipti hafi orðið. En það er þá skemmst frá að segja, að á þessu tímabili, frá því 1. okt. 1958 og þangað til 1. okt. 1963, hefur kaup verkamanna hækkað eftir töxtum frá 26—27%, og er þó ekki talinn þar með hæsti taxti verkamanna, sem hefur hækkað minna. En það er öll hækkunin, sem hefur orðið á launum verkamanna. Kaup verkakvenna hefur aftur á móti hækkað nokkru meira, m.a. fyrir baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir því að jafna laun kvenna og karla, og ég hygg líka, að þau lög, sem voru sett hér á þingi að tilhlutan ríkisstj., — hún má eiga það, sem hún á, — þau hafi haft nokkur áhrif í þessa átt. En laun verkakvenna hafa sem sagt hækkað um 48—52%, mismunandi eftir því, hvaða kauptaxta um er að ræða. Á þessu tímabili hafa kjör iðaverkafólks hækkað — eða laun í krónum öllu heldur — frá 33–49%, mismunandi eftir því, hvaða taxta er um að ræða, iðnaðarmanna um 40–45% minnst og 50% mest, þó hygg ég, að múrarar á tímakaupi, ef ég man rétt, séu þarna kannske örlítið lægri en 40%. En á sama tíma hafa opinberir starfsmenn og aðrir, sem ég áðan tilgreindi, fengið hækkanir frá minnst 66%, og þá verður maður að fara alla leið niður í kaup vinnumanna á ríkisbúum til þess að finna svo litla hækkun, og upp í 141%, sem kaupið hefur hækkað hjá hæst launuðu opinherum starfsmönnum, á meðan verkamenn hafa fengið 26–27% hækkun.

Ef maður byggi til vísitölu, — það er mikið tíðkað að fara með alls konar vísitölur, — ef maður byggi til kauphækkunarvísitölu og setti kauphækkunarvísitölu verkamanna sama sem 100, þá er kauphækkunarvísitala ráðh. 503, kauphækkunarvísitala þeirra manna, sem koma nú fram fyrir þing og þjóð og segja, að ekkert geti bjargað landinu annað en að halda kaupi verkamanna niðri. Ef þessir menn kynnu að skammast sín og mætu einhvers þann málflutning, sem þeir fara með, hefðu þeir átt að afsala sér a.m.k. þriðjungnum af þessum launum. En það er ekki annað vitað en þeir hafi tekið við því og hafi auk þess fengið verulega kauphækkun út á önnur störf, sem þeir vinna, þannig að þeirra föstu laun eru nú mánaðarlega ekki bara 22 þús., eins og ákveðið er í launalögunum, heldur 29 þús., allra, og þar að auki bitlingatekjur.

En mismunurinn á milli láglaunamanna, sem hafa fengið allt niður í 26% hækkun á sínum launum á 5 árum, og annarra er þó í raun og veru miklu meiri en þessar tölur, sem ég nefndi, benda til. Þar kemur ýmislegt fleira til, t.d. það, að öll yfirvinna hjá öllum opinberum starfsmönnum, hverju nafni sem nefnast, er miðuð við vinnumánuði upp á 150 stundir og sama álag á það og gildir hjá verkafólki. Og meðan svo er, eins og nú, að flestar stéttir vinna meiri eða minni yfirvinnu, þá er stórkostlegt misræmi, sem skapast vegna þessara ákvæða. Mér er t.d. kunnugt um það, að menn, sem vinna nákvæmlega sömu störf, annar sem opinber starfsmaður, hinn sem verkamaður á kaupi viðkomandi verkalýðsfélags, hafa algerlega mismunandi launakjör, og þar er ekki sízt yfirvinnan, sem kemur til greina. Jafnvel er hægt að nefna dæmi þess um starfsmenn hjá Reykjavíkurbæ, sem vinna sömu störf, jafnvel menn, sem vinna við sömu vélina, að annar er á kaupi sem opinber starfsmaður og hefur 30—40% hærra kaup en maðurinn, sem vinnur við hliðina á honum nákvæmlega sama starf, og á yfirvinnunni munar þetta miklu meira af ástæðunum, sem ég nefndi. Þannig hefur á öllum sviðum, alveg ofan frá sjálfum toppnum og niður í verkamannavinnu, eins og sorphreinsun hjá Reykjavíkurborg, skapazt alveg stórkostlegt misræmi, — misræmi, sem er algerlega útilokað að verði lagfært nema með stórfelldum kauphækkunum til handa þeim, sem þarna hafa sérstaklega orðið fyrir barði þess.

Það er í raun og veru ekki hægt að nefna þá staðreynd, að há laun í landinu hafa hækkað fimmfalt a.m.k. prósentvís, samanborið við láglaunastéttirnar, — það er ekki hægt að kalla það annað en að verið sé að skapa nýja stéttaskiptingu á Íslandi. Það er verið að meta störfin í þjóðfélaginu á allt annan hátt en hefur tíðkazt um áratugi. Annars vegar á að skipta þjóðinni í verkafólk, sem lifir á skammarlaunum, sem á engan hátt geta fullnægt brýnustu þörfum þess, og hins vegar í vel alda embættismanna- og yfirstétt. Það er þetta, sem er að gerast, og það er þetta, sem í dag er í raun og veru orðin staðreynd í okkar litla þjóðfélagi. Við, sem höfum hrósað okkur af því, að hér væri minni launamismunur en í flestum öðrum löndum, og talið okkar þjóðfélagi það til gildis, það er nú svo komið, að launamismunur er orðinn meiri á Íslandi en víða annars staðar, jafnvel meiri en þar, sem hefur ríkt rótgróin stéttaskipting öld fram af öld. Og það er þessi stéttaskipting, sem nú á að verja með harðstjórnaraðgerðum eins og þeim, sem eru ráðgerðar í þessu frv.

Ég ætla ekki að fara lengra en ég gerði áðan út í það, hvernig misræmið hefur verkað. En einu atriði vil ég þó bæta þar við, og það er það, að þeir eru sérstaklega hlunnfarnir í öllum þessum launamálum, sem vinna að framleiðslustörfum. Og ég veit það vel, að forsjármenn framleiðslunnar, ekki sízt fiskiðnaðarins, eru farnir að finna fyrir því, að þeir standast ekki samkeppnina um vinnuaflið við þessi launakjör, sem hafa verið sköpuð fyrir opinbera starfsmenn og aðra, sem vinna hægari, rólegri vinnu, vinnu, sem hefur ekki í för með sér kulda, vosbúð og annað, sem auðvitað verður sérstaklega að meta og greiða fyrir. Menn forðast þá vinnu, vegna þess að hún er ekki aðeins versta vinnan, heldur er hún líka verst borguð. Og það verð ég að segja, að þó að ég sé ekki að telja eftir kaup, eins og t.d. kaup skrifstofustúlkna, þá þykja mér hlutirnir vera farnir að snúa einkennilega, ef þjálfaður verkamaður, sem stjórnar stórri vinnuvél, sem kostar millj. kr., og afkastar eftir því, á að hafa minna kaup en vélritunarstúlka með gagnfræðapróf, sem sezt í fyrsta skipti á skrifstofu, en þannig er launakerfið orðið. Svo halda menn, að hægt sé að leiðrétta allt saman með skattafvilnunum eða einhverju slíku.

Nei, það er eins og ég sagði áðan, það liggur ekki fyrir það, sem ég heyrði hæstv. viðskmrh. segja hér í umr. í Nd., að þetta sé einhver sérstök heimsþróun, sem hér er að eiga sér stað, því að það liggi í því, að sjálf uppbygging þjóðfélagsins sé að breytast, verkafólkið sé smátt og smátt að hverfa úr sögunni og sérmenntaðir menn, tæknifróðir menn og aðrir slíkir séu að taka við á öllum sviðum og þeir þurfi að fá hærra kaup, til þess að einhver vilji læra þau störf. Það er nefnilega ekki þannig, að viðreisnin hafi valdið því, að það hafi orðið nein straumhvörf í þessu. Sannleikurinn er sá, að það er fólkið, sem vinnur á sjónum við nákvæmlega sömu skilyrði og það gerði fyrir viðreisn, fólkið, sem vinnur í frystihúsunum, mennirnir, sem standa við flökunarhnífinn, mennirnir, sem standa við beitinguna, og mennirnir, sem draga línuna og netin úr sjónum, mennirnir, sem kasta síldarnótinni, það eru þeir, sem standa undir aukinni framleiðslu þjóðfélagsins í dag, og þannig mun það verða áfram. En vegna þess að því er haldið fram, að þessi launabylting, sem hefur átt sér stað í landinu, og þessi nýja stéttaskipting, sem hér er að skapast, eigi sér einhvern jafningja erlendis, við séum bara að fylgjast með tímanum og tízkunni, þá er rétt, að það komi fram, sem rétt er og ég áðan sagði, að launamismunurinn er orðinn meiri hérna en í okkar nágrannalöndum.

Á þetta er oft lagður sá mælikvarði, að það eru tekin hæstu laun, t.d. meðal opinberra starfsmanna, og deilt í með lægstu launum, og sé þetta gert, þá fáum við það út, að hlutfallið í Danmörku er 3.7, þ.e.a.s. 3.7 sinnum hærri laun í hæsta en lægsta launaflokki, í Noregi 4.5, en á Íslandi eftir þá byltingu, sem hér hefur átt sér stað, 4.8. Í fyrsta skipti áreiðanlega á þessari öld liggur það fyrir, að launamisrétti er orðið meira á Íslandi en í þessum löndum. (Fjmrh.: Er miðað við opinbera starfsmenn?) Já, það er miðað við opinbera starfsmenn.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að ef verkamennirnir, daglaunamennirnir, eru teknir inn í þetta dæmi, þá verður myndin af þessu enn þá hroðalegri, því að mismunur á launum verkamanna hér á landi og í okkar nágrannalöndum er orðinn gífurlegur. Hann er orðinn það mikill, að verkamenn í nágrannalöndunum hafa allt að því 100% hærri laun en á Íslandi, a.m.k. í mjög mörgum tilfellum, og áreiðanlega 70—80% hærri að meðaltali. Þessi þróun, sem verið hefur að eiga sér stað hér á landi, er áreiðanlega bæði andstæð íslenzkum hugsunarhætti og íslenzkum erfðavenjum. Og þess er engin von fyrir þá, sem fyrir þessu standa, að þeim muni haldast það uppi. Launastéttirnar á Íslandi munu ekki þola það þjóðfélagsmisrétti, sem hér er skapað. Og ég hygg, að langt út fyrir raðir verkalýðshreyfingarinnar muni vera til harðir baráttumenn gegn þeirri óhæfilegu stéttaskiptingu, sem verið er að reyna að efna hér til.

Ég sagði áðan, að þróunin í verðlagsmálunum annars vegar og kaupgjaldsmálunum hins vegar yrði að skoðast samtímis, þegar rætt væri um launamálin. Og það er rétt að lita ofur lítið á það, hvernig verðlagsþróunin í landinu hefur verið á viðreisnartímabilinu. Ég skal ekki þreyta hv. þdm. með mörgum tölum um þetta, því að málið er tiltölulega einfalt og ekki ástæða til þess að orðlengja sérstaklega um það, en þróunin hefur í skemmstu máli orðið sú, að það hefur hver dýrtíðarholskeflan eftir aðra dunið yfir þjóðina, fyrst og fremst fyrir aðgerðir ríkisstj. Þar hafa tvennar gengislækkanir og stórkostlegar breytingar á skattakerfinu verið það, sem hefur haft langsamlega mesta þýðingu og valdið mestu. En í stuttu máli hefur neyzluvöruverð í landinu breytzt, eins og ég nú segi, á árunum 1958—1963:

Á árinu 1958, þ.e.a.s. síðasta ári vinstri stjórnarinnar, því árinu, þegar ýmsir sáu gínandi hyldýpi fyrir fótum sér og héldu, að við færum að steypast fram af brúninni, þjóðfélagið væri að farast fyrir það, hvað verðhækkanir væru örar í landinu, þá hækkaði neyzluvöruverðlag, þ.e. meðaltalsverðlag fyrir árið, um 7.2%. Árið 1959 hækkaði neyzluvöruverðlagið um 0.7%, en það ár var, eins og kunnugt er, verðlagi haldið niðri með sérstökum lögum, en kaupgjald aftur á móti lækkað að krónutölu um 13.4 eða 13.6%. Það ár var að vísu ár mikillar kjaraskerðingar, en stöðugt verðlag. Og það var auðvitað svo, að hagur launastéttanna versnaði á þessu ári frá því, sem var í ársbyrjun, allverulega, en hinu verður ekki neitað, að verðlaginu var haldið stöðugu það ár og neyzluvöruverðlagið hækkaði, eins og ég sagði, ekki nema að meðaltali um 0.7%. En árið 1960, fyrsta viðreisnarárið, fer neyzluvöruverðlagið að taka við sér. Þá fer viðreisnarstefnan að sýna sig í verki, og þá hækkar neyzluvöruverðlagið um 9.5%. Árið 1961 heldur þróunin enn þá örar áfram og neyzluvöruverðið hækkar um 11.1%, 1962 mjög svipað, um 10.6%, og það sem af er þessu ári um 13%, og er árið þó ekki liðið, þ.e.a.s. að á öllum þessum 5 árum hefur verið slegið alveg nýtt met og sérstakt met núna á þessu árí. Það er hvorki meira né minna en það, að verðhækkunin, sem hefur orðið á þessu ári og verður á þessu ári, er bara tvöfalt hengiflugið frá 1958. Það er bara tvöfalt hengiflugið, það er ekkert annað á einu ári.

Miðað við, að verðlag neyzluvarnings 1957 sé sett sama sem 100, hefur það á viðreisnartímabilinu frá 1958–1963 hækkað úr 111 stigum í 213 stig, eða um 102 stig. Á sama tíma og þessi þróun hefur orðið, hefur svo kaup almenns verkafólks breytzt þannig, að á árinu 1959, þegar verðlag var stöðugt, hvorki hækkaði né lækkaði, svo að teljandi væri, var kaupið lækkað um 13.4%. Næsta ár, þegar verðlagið hækkaði um 9.5%, fengu launastéttirnar enga hækkun og urðu að þola þessa hækkun á neyzluvarningi algerlega bótalaust. Árið 1961 verða svo kauphækkanir, sem fara langt í það, en þó ekki alveg, að ná hækkuninni á neyzluvöruverðlaginu, kauphækkun upp á 10%, hækkun neyzluverðlags upp á rösk 11%. Og 1962, þegar félög láglaunamanna fengu frá 5–91/2 % kauphækkun, hækkar neyzluvöruverðlagið um 10.6%. Og svo er mönnum kunnug þróunin á þessu ári, að ég sé ekki ástæðu til að rekja það.

Það er sem sagt niðurstaðan, að á viðreisnartímabilinu, frá því í okt. 1958 og hangað til í okt. 1963, hefur neyzluvöruverð hækkað um 62%, en um 65%, ef maður miðar við ástandið eins og það var eftir niðurfærslulög Alþfl. í ársbyrjun 1959. Og það, sem kannske sérstaklega er athyglisvert við þetta, er það, að hraðinn hefur farið sívaxandi. Á árunum 1956—1958, á árum vinstri stjórnarinnar, hækkar vísitala neyzluverðlagsins um 13 stig. Á árunum 1958–1960, jafnlöngum tíma, um 15, en á árunum 1960—1962 um 33 stig. Þróunin er sú, að hækkun verðlagsins er eins og snjóskriða, sem rífur meira og meira með sér og verður umfangsmeiri, eftir því sem hún kemur neðar í hlíðinni.

Það er auðvitað ekki eingöngu að líta á þróunina í verðlagsmálunum, heldur verður líka að hafa hliðsjón af kaupgjaldinu og meta það saman. Og ég hef að nokkru leyti svarað því áður, er ég sagði, að kaup verkamanna hefði hækkað um 26–28%, en embættismannanna upp í 141%. En það liggur auðvitað alveg í augum uppi fyrir alla, sem aðgæta þetta, og raunar í sjónhendingu, það þarf ekki neinnar nákvæmrar athugunar við, að engin láglaunastéttanna í þjóðfélaginu hefur fengið bætta upp dýrtíðina, þ.e.a.s. þær hafa raunverulega allar orðið fyrir stórfelldum launalækkunum á þessu tímabili. Og það er sama, hvernig þetta dæmi er reiknað og hvaða viðmiðunartími er valinn, það er nákvæmlega sama. Niðurstaðan verður alltaf sú, að bilið á milli eðlilegs tilkostnaðar við framfærslu og launa fyrir ákveðna tímaeiningu, sem er það eina, sem hægt er að reikna með, og eina, sem rétt er að teikna með, hefur farið vaxandi ár frá ári og er orðið nú svo óbærilega breitt, að það er ekki nokkur von til þess, að láglaunastéttirnar geti unað við það.

Ef við athugum þetta eftir svolítið annarri leið en ég fór áðan og tökum breytingarnar á útgjöldum vísitölufjölskyldunnar, sjáum við, að miðað við marz 1959 og grundvöllinn, sem þá var lagður, eru útgjöld vísitölufjölskyldunnar á ári 66 181 kr. En launin með því kaupi, sem þá gilti, þ.e.a.s. eftir að Alþfl. hafði lækkað það um 13.4%, urðu 49 600 kr. yfir árið, þ.e.a.s. að þá, eftir niðurfærslulögin, vantaði verkamenn í almennri vinnu 16 581 kr. á það að hafa fyrir útgjöldunum, eins og þau eru reiknuð hjá vísitölufjölskyldunni. En núna í dag stendur málið þannig, að útgjöld vísitölufjölskyldunnar eru 95 500 kr., en kaupið í almennri verkamannavinnu gefur 67 200 kr. yfir árið með því að vinna 8 klst. á hverjum degi, þ.e.a.s. að núna vantar ekki 16 500 kr. eins og 1959, heldur 28 300. Við þennan mismun vil ég svo bæta og tel rétt að bæta hækkun húsnæðiskostnaðar á þessu tímabili, en í útreikningi framfærsluvísitölunnar er ekki gert ráð fyrir meiri aukningu en svarar til viðhaldskostnaðaraukningar á meðalstóra íbúð, og þar af leiðandi hefur ekki komið nein hækkun, sem talizt geti, inn í vísitöluna í því sambandi. Og ég hygg, að það sé sanngjarnt og meira að segja farið mjög vægt í sakirnar að segja, að húsnæðiskostnaður hafi vaxið um 1500 kr. á mánuði. Ég held, að það geti enginn vefengt það, að hækkunin er í raun og veru miklu meiri. En þá kemur út, að bilið hefur ekki aukizt um mismuninn á 29 þús. og 16 þús., heldur hefur það aukizt um 12 þús. plús 18 þús., þ.e.a.s. um 30 þús. kr. Bilið milli útgjalda vísitölufjölskyldunnar og launa verkamanas hefur vasið sem algert lágmark um 30 þús. kr. frá því 1959.

Þetta er svo auðvitað allra mildasta aðferð til samanburðar, sem nokkur möguleiki er á að gera, vegna þess að kaupgjaldið hefur hækkað miklu minna, ef maður miðar t.d. við okt. 1958, eða jan. 1959, heldur en frá marzmánuði 1959, vegna niðurfærslulaganna, sem þá eru gengin í gildi.

Nú vil ég ekki draga það í efa, að verkalýðurinn í landinu mundi kannske taka ýmsu með þögn og þolinmæði, ef það lægi fyrir, að þjóðarbúið hefði orðið fyrir einhverjum stórkostlegum skakkaföllum á þessu tímabili, því að ég held, að það hafi aldrei staðið á verkalýðnum eða bændum að taka á sig réttlátar byrðar, þegar illa gengur í þjóðfélaginu, og kannske hefðu þær stéttir sætt sig við þá miklu kjaraskerðingu, sem orðin er, ef einhver sérstök óáran hefði gengið yfir landið. En það er nú ekki aldeilis, að svo hafi verið. Á þessu tímabili hefur hvert góðærið komið eftir annað. Aflamet hafa verið sett sumar eftir sumar og ár eftir ár. Framleiðsla þjóðarinnar hefur farið sívaxandi. Þjóðartekjurnar hafa farið sívaxandi. Hreinar þjóðartekjur á mann hafa farið sívaxandi og hafa þrátt fyrir alla óstjórnina, sem verið hefur í landinu, lagt grundvöll að því, að vinnustéttirnar ættu að geta búið við betri kjör en nokkurn tíma áður. Þannig jukust hreinar þjóðartekjur á mann á árinu 1960 um 5%, 1961 um 4% og 1962 um 8%, eftir því sem Efnahagsstofnunin segir okkur. En á sama tíma gerist það svo, eins og ég rakti, að kjör verkafólks fara síversnandi.

Nú hygg ég, að hæstv, ráðh. komi og segi eitthvað á þá leið, að vinnutíminn hafi bætt þetta allt saman upp, menn hafi getað unnið svo langan vinnudag, að tekjurnar hafi getað orðið nægilegar af þeim ástæðum. En um þessa röksemd er það fyrst að segja, að auðvitað er vinnutíminn einn hlutinn af lífskjörunum og jafnvel einn sá allra mikilvægasti. Ef vinnutíminn er lengdur, þýðir það, að lífskjörin eru verri. Eða halda menn, svo að maður taki þetta nú algerlega viðskiptalega, að kaupmanni sé alveg sama um það, þó að hann, ef hann vill fá eitthvað meira fyrir sína vöru, bæti ótakmarkað við vörumagnið? Hlýtur hann ekki alltaf að miða söluverðið við sjálft vörumagnið, hverja einingu? Og hlýtur ekki verkamaðurinn, sem selur vinnu sina, að meta það eitt, hvað hann fær fyrir hverja vinnueiningu? Ég held, að þetta sé svo ljóst sem nokkur hlutur getur verið.

Í þessu sambandi er ekki úr vegi að athuga það, að krafan um tiltölulega stuttan vinnudag, ekki lengri en 8 stundir, var sett fram um allan heim um síðustu aldamót. Og hún er orðin raunveruleiki í öllum hinum menntaða heimi fyrir langalöngu, og viðast hvar er vinnutíminn miklu styttri, jafnvel meira en helmingi styttri. Og krafa verkalýðshreyfingarinnar í Evrópu er nú að stytta vinnutímann niður í 36-40 stundir. En meðan þessu fer fram úti í heimi, telja íslenzk stjórnarvöld sjálfsagt, að íslenzkir verkamenn vinni ekki bara 8 tíma, ekki 10 tíma, heldur vinni á nóttunni og helgidögum líka til þess að geta haft fyrir brýnustu nauðsynjum sínum, og ætla sér að setja sérstök lög um það, að þessu ástandi skuli halda áfram. Það er áhugi þeirra fyrir að stytta vinnudaginn á Íslandi.

Ég vil svo bæta því við um þessa röksemd, sem oft hefur verið tengd í málflutningi hæstv. ráðh, við svonefndar úrtaksrannsóknir, sem hafa verið gerðar í sambandi við verðlagningu landbúnaðarvara, að þær gefa auðvitað algerlega falska mynd af því, hver kjör verkamanna eru. Það er nú í fyrsta lagi, að þar er slengt saman þremur ólíkum kaupgreiðslukerfum, í fyrsta lagi tímakaupsmanna, verkamanna, og hins vegar ákvæðisvinnukerfi iðnaðarmanna og loks hlutaskiptakerfi sjómanna. Og úr þeim hrærigraut fæst auðvitað enginn mælikvarði á það, hvernig launatekjur eða launakjör þessara stétta eru hver fyrir sig. Og það er ekki fyrr en núna alveg nýlega, að á þessu hefur fengizt nokkur sundurgreining, þó að hins vegar hæstv. ráðh., eins og t.d. hæstv. viðskmrh., hafi ár eftir ár verið að nota tölur um þetta úrtak kaupskerðingarstefnu sinni til framdráttar, bæði hér á hv. Alþingi og á opinberum vettvangi annars staðar.

En jafnvel þó að við tökum nú gott og gilt það, sem við fáum út úr þessu, þá sést, að um mjög verulega skerðingu á sjálfum launatekjunum, án þess að nokkurt tillit sé tekið til vinnutímans, hefur verið að ræða hjá verkamönnum á viðreisnartímabilinu. Ef launatekjur verkamanna hér í Reykjavík eru færðar til verðlags 1961, fáum við út, að 1959 hafi launatekjurnar verið á því verðiagi 86 600 kr., árið eftir fara þær niður í 80 655 kr., árið 1961 enn þá niður í 72 695, það er enn þá lækkun um 8 þús. yfir árið, jafnvel þó að menn leggi miklu harðar að sér við eftirvinnu og næturvinnu en áður, og það er ekki fyrr en á árinu 1962, sem um svolítinn bata er að ræða, en þá hækka tekjurnar miðað við þetta verðlag upp í 80 þús., en eru samt, þrátt fyrir aukna vinnutímann og þrátt fyrir allt, sem menn hafa lagt á sig til þess að geta séð heimilum sinum farboða, þá er um lækkun upp á hálft sjöunda þúsund að ræða frá 1959. Þetta er sannleikurinn í málinu. Þegar búið er að taka út úr dæminu iðnaðarmennina og sjómennina, þá stendur þessi mynd eftir af kjörum verkamannanna, svo að það dugir ekki lengur fyrir hæstv. ráðh, og fyrir hæstv. ríkisstj. að verja kjaraskerðingarstefnu sína með því, að menn geti lagt meira að sér við vinnu en áður, enda held ég nú, að svo sé komið, að engum detti í hug, að menn geti þolað frekari kjaraskerðingar með því að bæta á sig meiri vinnu en orðið er. En það kalla ég hámark í falsi, þegar hæstv. fjmrh. kemur svo fram, eins og hann gerði hér áðan, og telur sig hafa sérstakan áhuga á því, að vinnutími verkafólks á Íslandi sé styttur. Ýmislegt má nú bjóða manni, en ekki þetta.

Það liggja nefnilega alveg óyggjandi heimildir fyrir því, að yfirvinna og næturvinna verkafólks er orðið svo ofboðsleg, að ég efast um, að dæmi til nokkurs hliðstæðs finnist í okkar þjóðfélagi, þó að við leitum allt aftur til aldamótanna síðustu. Samkv. alveg óyggjandi heimildum liggur það fyrir, að á árinu 1961 höfðu verkamenn ekki nema 66.1% af tekjum sínum með dagvinnunni einni, 13.6% með eftirvinnu og 20.3°ó með næturvinnu, eða samanlagt með eftir og næturvinnu höfðu þeir um 34% af launatekjum sínum, — verkakonurnar 21% af launatekjum sinum, iðnverkamenn 27%, en iðnverkakonur, sem eru þarna lægstar, aðeins 5.8%. Þetta eru auðvitað bara kaldar tölur, en þær segja okkur ískyggilega og ljóta sögu. Þegar svo er komið, að verkafólk verður að vinna fyrir röskum fimmta partinum af launum sínum á þeim tíma, sem á að notast til svefns og hvíldar, þá er orðið eitthvað athugavert við sjálft þjóðfélagið, þá er orðið eitthvað athugavert við hlutina. Og það verður að gæta vel að því, að þarna er bara um meðaltalstölur að ræða. Hvað þýðir það? Það þýðir, að a.m.k. helmingur af mönnum eða mjög stór hluti manna verður að leggja miklu harðara að sér við yfir- og næturvinnu heldur en þetta. Og hvað þýðir þetta gagnvart hinum? Það þýðir, að þeir eru lengra frá því en með nokkrum tölum verður talið að ná þeim launum fyrir vinnu sína, sem þarf til þess að tifa allt árið.

Af þeim tölum, sem ég áðan fór með um launatekjur verkamanna, liggur það alveg ljóst fyrir, að þrátt fyrir þessa ofboðslegu yfirvinnu, þrátt fyrir þessa ofboðslegu næturvinnu og það ofboðslega álag, sem lagt er á menn, álag, sem er ekki bara að eyðileggja heilsu manna, heldur allt eðlilegt heimilislíf og allt menningarlíf þessa fólks, þá ná þeir ekki endunum saman, þá nást ekki þær tekjur, sem lægstar verða áætlaðar, til þess að hægt sé að framfleyta fjölskyldu. Þessir hlutir gætu a.m.k. hvergi átt sér stað í Evrópu, og ég hygg, að miklu lengra þyrfti að leita til þess að finna nokkur hliðstæð dæmi við það ástand, sem skapazt hefur í þessum málum. Og svo koma hæstv. ráðh. hér fram fyrir hv. Alþingi og fullyrða það hver um annan þveran, að þjóðin hafi aldrei haft það betra, þjóðinni hafi aldrei liðið betur en núna. Hvaða þjóð er það, sem þeir eru að tala um? Halda þeir, að þeir séu sjálf þjóðin með sína 141% kauphækkun, eða er það verkafólkið, sem borgar þeim launin?

Ég hygg, að jafnframt því sem við athugum verðlagsþróunina og launaskiptinguna í landinu, eins og ég hef gert í mjög stuttu máli, þá sé rétt að fara nokkrum orðum um þau efnahagslegu röku, sem liggja fyrir því, að beita á nú láglaunastéttirnar í landinu þeim þvingunaraðgerðum, sem nú eru fyrirhugaðar, og fram eru færð fyrir því, að það eigi að banna allar kauphækkanir, og meira að segja gengið svo langt að banna atvinnurekendum að borga af fúsum og frjálsum vilja það kaup, sem þeir vilja gjarnan láta sitt starfsfólk njóta, því að það er ekki leyfilegt skv. þessum lögum. Þó að einhver reki fyrirtæki, sem skilar stórkostlegum gróða, og atvinnurekandinn vilji láta verkafólkið njóta einhvers í af því, þá er honum bannað það með lögum, og það er sú sama hæstv. ríkisstj., sem ber þessi firn fram, sem hét því við valdatöku sína að skipta sér ekki nokkurn skapaðan hlut af því, hvað atvinnurekendur og launamenn semdu um, Það væri verk hagsmunasamtakanna, sagði ríkisstj.

Bæði hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hafa hér í þessari hv. þd. fært fram tvenn meginrök til þess, — ég verð að setja gæsalappir utan um „rökin“ — tvær meginástæður fyrir því, að til þessara aðgerða á að gripa, og þessar tvær meginástæður eru annars vegar stórkostlegur gjaldeyrishalli við útlönd og of mikil fjárfesting, í sviga aftan við það, og í öðru lagi staða útflutningsatvinnuveganna og samkeppnisaðstaða þeirra við aðrar þjóðir. Það er auðvitað fullkomlega réttmætt að athuga þessi rök þeirra.

Okkur er sagt, og því trúum við a.m.k. vel, þó að við trúum öðru miður, sem þessir hæstv. ráðh. segja, að gjaldeyrishallinn við útlönd sé geigvænlegur, vöruskiptajöfnuðurinn hafi orðið óhagstæður um, að mig minnir, 700 millj. kr. á sjö mánuðum, þ.e.a.s. að eftir að viðreisnarstjórnin, sem setti sér það fyrst takmark af öllum takmörkum að jafna viðskipti okkar við aðrar þjóðir, hefur setið að völdum í 4–5 ár, þá verður jafnmikill greiðsluhalli á sjö mánuðum af einu ári, rösku hálfu ári, eins og hann var öli árin 1955—58, að báðum meðtöldum. Ég viðurkenni, að þetta er ekki fært til sama verðlags, en það breytir ekki því, að menn sjá, hvernig þessi hæstv. ríkisstj. hefur haldið á spilunum. Og þessi greiðsluhalli á árunum 1955–58, sem talinn var nema 776 millj., eftir því sem segir í þeirri víðfrægu bók Viðreisn, hann var talinn svo óskaplegur, að grípa þurfti að dómi þeirra flokka, sem þá voru að taka við völdum í landinu, til alveg sérstakra og óvenjulegra aðgerða til mikillar kjaraskerðingar fyrir fólkið í landinu, og það átti sem sagt að vera megintilgangur viðreisnaraðgerðanna 1960 að ráða bót á þessum óskaplega greiðsluhalla, sem hafði, að því er þeir sögðu, fyrirgert öllu trausti þjóðarinnar erlendis.

Það er nú svo aftur kapítuli út af fyrir sig, að um leið og þessu var haldið fram, þá var vinstri stjórnin skömmuð alveg sérstaklega fyrir það, hvað hún tæki mikil erlend lán, svo að eitthvað var nú ofur litið bogið við röksemdafærsluna, en það er önnur saga. Og líka hitt, að í þessum röksemdum hæstv. ríkisstj. fyrir viðreisninni var því auðvitað alveg sleppt, að vinstri stjórnin var á góðum vegi með að jafna þennan halla og hafði því sem næst tekizt það á árinu 1958. En það er ekki ástæða til þess að fara lengra út í þá sálma við þetta tækifæri.

Ástæðurnar fyrir þessum mikla greiðsluhalla telur svo ríkisstj. vera þær, að þjóðin almennt krefjist of mikils, við förum of geyst í það að heimta til okkar öll lífsins gæði, og við verðum að stanza og þrengja að okkur, og hún er með læknisráðið alveg tilbúið, það er það, sem birtist í þessu frv., þ.e.a.s. að skerða laun þeirra lægst launuðu í þjóðfélaginu með þvingunarlögum, það er húsráðið, sem hæstv, ríkisstj. hefur við því, að henni hefur tekizt að koma svo málum þjóðarinnar, að á viðskiptum hennar verður jafnmikill halli á rösku hálfu ári og fimm árum fyrir valdatöku hennar. Það er húsráðið að lækka laun verkafólksins í landinu, til þess að það fái ekki ávísanir á allt of mikið af lífsgæðum frá útlöndum.

Ég veit ekki, hvað á að kalla þetta, en vægara orð en ranga sjúkdómsgreiningu á ástandinu, held ég, að sé varla hægt að viðhafa, og það sé ekki mjög líklegt, þegar læknirinn fer svo villur vegar, um hvaða sjúkdóm er að ræða, að það sé ekki líklegt, að hann sé fær um að lækna hann, því að sannleikurinn er auðvitað sá, eins og ég þykist hafa sannað fyrr í minni ræðu, að verkalýðurinn í landinu fær ávísanir á miklu minni lífsgæði en nokkurn tíma áður. Hann hefur aldrei búið við lægri laun og fær þess vegna raunverulega ávísanir á minni erlendan gjaldeyri eða hver önnur gæði, sem um er að ræða, jafnvel þótt hann leggi nótt við dag við framleiðsluna og við sína vinnu. En það skyldi nú aldrei vera, að aðrir aðilar í þjóðfélaginu hefðu fengið helzt til háar ávísanir?

Hvernig skyldi það t.d. vera með verzlunarstéttina? Henni hefur af núverandi stjórnarvöldum verið gefinn kostur á því á undanförnum árum að taka stutt vörukaupalán erlendis. Ég bið hæstv. fjmrh. að leiðrétta það, ef það er ekki rétt hjá mér, að núna á þessu ári hafi verzlunarstéttin notað sér þetta þannig, að hún hafi fengið þessi lán aukin, hún hafi aukið þessi lán um 300 millj. kr., og ég bið hann líka að leiðrétta það, ef það er ekki rétt hjá mér, að á sama tíma og innflutningsverzlunin, heildsalarnir, hefur fengið þannig 300 millj. kr. á lágum vöxtum til þess að gera innkaup á ýmiss konar varningi, þörfum sem óþörfum, þá hafi verzlunin fengið í sinn hlut á þriðja hundrað milljóna af útlánaaukningu bankanna, þ.e.a.s. að verzlunin hafi í heild núna á þessu ári fengið hátt í 600 millj. kr. af auknu lánsfé, þ.e.a.s. 500–600 millj. kr. í falskri kaupgetu, til þess að kaupa inn vörur til landsins. Og það skyldi nú aldrei vera, að orsakir greiðsluhallans gæti að einhverju leyti verið að rekja til þessara furðulegu hluta, að verzlunarstéttin fái á einu ári í útlánaaukningu jafnmikið fé eða því sem næst jafnmikið fé og nemur allri sparifjáraukningunni í landinu á sama tíma? En framleiðslan, sjávarútvegurinn, hvað ætli hún hafi fengið? Ég held, að ég hafi tekið rétt eftir því, að sjávarútvegurinn hafi fengið minni aukningu útlána en nemur birgðaaukningunni í landinu, þ.e.a.s. að bankakerfið, peningakerfið hafi dregið við sig við sjálfan aðalútflutningsatvinnuveginn og landbúnaðurinn hafi á sama tíma fengið 36 millj.

Nei, það er vissulega ekki nein furða, þó að ýmislegt gangi úrskeiðis í okkar þjóðfélagi og ýmislegt þurfi lægfæringar og hreingerningar við, vil ég segja, þegar svona er haldið á málunum, þegar aðalstéttin í þjóðfélaginu, eins og heildsalarnir, er látin valsa á einu ári með alla sparifjáraukningu landsmanna, en atvinnuvegirnir eru sveltir, þeir sem eiga að útvega féð og standa undir allri verðmætasköpun í þjóðfélaginu. (Fjmrh.: Má ég spyrja: Hvaðan hefur hv. þm. þessar tölur?) Ég bað hæstv. ráðh. að leiðrétta þetta, ef þetta væri ekki rétt, og ég vona þá, að ef þessar tölur eru rangar, þá komi hann með hinar réttu tölur í sinni ræðu. Ég sé enga ástæðu til þess, að ég standi hér frammi fyrir hæstv. ráðh, sem einhverjum rannsóknardómara. Hér er enginn rannsóknarréttur um það, hvaðan ég hef mínar heimildir. (Fjmrh.: Þessar tölur eru meira og minna rangar.) Þær réttu tölur koma þá og það verða þá dregnar réttar ályktanir af þeim. Ég held því miður, að þessar tölur séu ekki fjarri sanni.

Það var tekið lán í Bretlandi snemma á þessu ári, rétt fyrir kosningar. Það þótti ákaflega þægilegt fyrir hæstv. ríkisstj., fyrir ráðherrana og aðra frambjóðendur stjórnarflokkanna að geta mylgrað þessu út í ýmsar framkvæmdir, megnið af því að vísu vafalaust þarfar framkvæmdir, en þar var einnig um stórar upphæðir að ræða. Ég man þær ekki upp á tug, en örugglega var þar um að ræða meira en 200 millj. kr. Og það skyldi nú aldrei vera, að með t.d. þessu láni, ofan á aukninguna til verzlunarinnar, hafi verið gefnar heldur meiri ávísanir á verðmæti, á erlendan gjaldeyri, heldur en hollt var fyrir okkar efnahagskerfi? Og þegar það bætist svo við, hvernig miklu af þessum gjaldeyri hefur verið varið, þá verður myndin, vil ég segja, töluvert óhugnanlegri en sú, sem ég hef verið að reyna að draga hér upp. Þegar það kemur upp, að mjög mikill hluti af þessu er látinn í jafnarðbæra hluti og lúxusbíla og annað slíkt, eða þegar sjónvarpstæki eru keypt, kannske fyrir 100 millj. kr., til þess að yfirstéttin hér í Reykjavík geti horft á hermannasjónvarpið frá Keflavík, og þessu fé, sem tekið er af sparifé landsmanna og látið í hendur heildsalanna hér í Reykjavík, er varið á slíkan hátt, þá er varla von, að vel fari. Og þegar það gerist á sama tíma og þetta, að atvinnuvegunum er neitað um það í bönkum að fá lán til að geta komið framleiðslu sinni á hagkvæmari grundvöll, fengið lán t.d. til þess að auka framleiðni og annað slíkt, til þess þarf oft mikla fjárfestingu, — þegar atvinnuvegunum er neitað um það að reyna að nýta vinnuaflið betur en áður í þeirri eklu og eftirspurn, sem er eftir vinnuafli, á sama tíma og verzlunarstéttinni er fengið ótakmarkað fé til hverrar ráðstöfunar sem vera skal, þá er varla von, að vel fari.

Nei, ég held, að það liggi alveg ljóst fyrir, að gjaldeyrishallinn í líkingu við það, sem hann hefur orðið fyrir tilverknað núverandi stjórnarvalda, verður ekki læknaður með því að lækka laun láglaunastéttanna, og ég held, að þó að þær fengju mjög verulegar kjarabætur, þá mundi það ekki skapa stórkostlega aukna eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri. Ég held þvert á móti, að kjarabætur til handa þeim lægst launuðu mundu fyrst og fremst þýða það, að það yrði svolítið auðveldara fyrir fólkið í landinu að koma sér upp sæmilegu húsnæði, koma þaki yfir höfuð sér. Það kostar að vísu nokkurn gjaldeyri, en það er gjaldeyriseyðsla, sem hvort sem er verður aldrei komizt hjá til lengdar, og það hlýtur að vera alger villa að ætla sér að hindra það, að eðlileg aukning húsnæðis í landinu eigi sér stað. Og ég held, að aukin eftirspurn eftir því, sem svarað væri með eðlilegum hætti og með kjarabótum til þeirra, sem erfiðast eiga í þessum efnum, yrði alls ekki til þess að auka gjaldeyrishallann, svo að mikið tjón hlytist af. Ég held, að gjaldeyrishallinn verði hvorki nú né síðar læknaður með öðru en því, að einhverri stjórn verði komið á það, hvernig gjaldeyri okkar er varið. Ég held, að það hafi sýnt sig, að þetta svokallaða verzlunarfrelsi, sem hæstv. ríkisstj. hefur gumað svo mikið af, það er ekkert annað en tóm vitleysa, og í því ber að leita fyrst og fremst orsakanna til þess, hvernig komið er í gjaldeyrismálunum. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni?) Ég er rétt að byrja. (Forseti: Eins og hv. þm. veit, þá hefjast nú útvarpsumr. kl. 8, og ég hafði hugsað mér að vera ekki lengur en til kl. 7, þannig að ef hv. þm. er ekki nema hálfnaður með ræðu sína og er búinn að tala eitthvað í tvo tíma, þá held ég, að við verðum að hætta núna og hann verði þá að fresta ræðunni.) [Frh.]