07.11.1963
Efri deild: 12. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í C-deild Alþingistíðinda. (1855)

56. mál, launamál o.fl.

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þeir, sem flytja þetta mál, þ.e.a.s. hæstv. ríkisstjórn, legg,ja megináherzlu á, að nú sé við mikinn vanda að etja í efnahagslífi þjóðarinnar. Þetta hafa a.m.k. þrír hæstv. ráðh. tekið greinilega fram í ræðum sínum, og nál., sem gefið er út af meiri hl. fjhn. Nd., leggur einnig ríka áherzlu á þetta. Það er því ekki ófyrirsynju að minnast þess með nokkrum orðum, hvert upphafið er að þeirri stjórnarstefnu, sem þannig hefur komið málefnum þjóðarinnar að dómi hæstv. ríkisstj. sjálfrar. Og mér finnst það sérstaklega tilhlýðilegt að minnast upphafsins að valdaferli núv. hæstv. stjórnar vegna þeirra ummæla siðasta ræðumanns, hv. 9. landsk., að hann hefði í blaðaviðtali fyrir síðustu kosningar bent á það, að nú kynni að þurfa að gripa til svipaðra leiða í efnahagsmálum og farnar voru á árinu 1959. En upphaf valdaferils stjórnarflokkanna hefst með myndun minnihlutastjórnar Alþfl. 1958, þá undir árslokin. Það var markmið þeirrar ríkisstj. í efnahagsmálum að reyna að halda verðlaginu í skefjum með auknum niðurgreiðslum og niðurfærslu verðlags og launa. Það, sem gerði þetta kleift, var góður arfur frá vinstri stjórninni. tekjuafgangur frá ríkissjóði, sem færður var sem sérstakur liður inn í fjárlagafrv., sem minnihlutastjórnin stóð að, og allmikill gjaldeyrisforði, sem notaður var, og raunar ýtt undir innflutning á hátollavörum með því að eyða gjaldeyri og skapa að verulegu leyti þann gjaldeyrishalla, sem talinn var vera fyrir hendi í ársbyrjun 1960. En því er ekki að neita, að þessi aðferð tókst um skamman tíma, þ.e.a.s. á árinu 1959. Svo er gengið til kosninga haustið 1959, og þá er þjóðinni lofað hátíðlega af hálfu stjórnaflokkanna annars vegar að fara leiðina til bættra lífskjara, sögðu sjálfstæðismenn, en Alþfl.-menn sögðu, að það ætti að fylgja stöðvunarstefnunni. Í Alþýðublaðinu 16. okt. 1959 segir t.d. Eggert G. Þorsteinsson: „Alþfl. heimtar óbreytt ástand. Við í launþegasamtökunum styðjum þá stefnu. Þjóðin veit, að hverju hún gengur. Hennar er að velja á milli. Og í útvarpsræðu 20. okt. 1959 sagði hæstv. núv. félmrh. svo: „Kosningarnar, sem nú fara í hönd, eru örlagaríkar. Þær eru bað vegna þess, að þær skera úr um það, hvort freistað verður að leysa vandamál framtíðarinnar með svipuðu hugarfari og á sama hátt og gert hefur verið á þessu ári.“ Það var á árinu 1959. — Með svipuðu hugarfari og á sama hátt, þetta er sagt þjóðinni 20. okt. 1959.

Þegar kosningarnar eru svo um garð gengnar, þá er stjórnin, sem sjálf kallaði sig viðreisnarstjórn, mynduð í nóv. 1959, og þá er stefnan ekki sú sama, sem fylgt var árið 1959, heldur gerólík. Þá er stefnan sú, að leita skuli jafnvægis, sem kallað er, í þjóðarbúskapnum með því að láta verðlagið stórhækka fyrir aðgerðir ríkisvaldsins, en halda kaupgjaldi og afurðaverði bænda niðrí. Þetta er leið viðreisnarstjórnarinnar í efnahagsmálum. Menn geta svo getið sér þess til, hvort ekkert hafi verið farið að hugsa fyrir þessari meginstefnu í okt., þegar kosningaloforðin voru gefin! Ég skal ekki fjölyrða um það. En eftir að viðreisnarstjórnin var m,ynduð, var gefin út bók, eins og kunnugt er, með nafninu Viðreisn. Þar kennir margra grasa, og það er efni í langt mál að rekja það, sem þar segir. Ég ætla ekki að gera það. En til þess að mér sé ekki brugðið um að rangfæra, þá ætla ég að leyfa mér að lesa hér orðrétt fjórar tilvitnanir.

Á bls. 1 segir: „Af þessum sökum er það megintilgangur þeirrar stefnubreytingar, sem ríkisstj. leggur til, að framleiðslustörfum og viðskiptalífi landsmanna sé skapaður traustari, varanlegri og heilbrigðari grundvöllur en atvinnuvegirnir hafa átt við að búa undanfarin ár — Og svo er þetta útfært í lengra máli.

Á bls. 20 segir, að kjaraskerðingin af viðreisnarráðstöfununum muni verða mjög litil. Vísitalan muni hækka um 13%, ef ekkert annað kæmi til greina, en sú hækkun vísitölu framfærslukostnaðar um 13%, sem að framan er getið, sýni þau áhrif, sem gengisbreytingin muni hafa á lífskjör almennings, svo framarlega sem engar aðrar ráðstafanir verði gerðar samhliða. Slík hækkun framleiðslukostnaðar hlyti að sjálfsögðu að verða öllum almenningi afar þungbær. En svo er gerð grein fyrir öðrum ráðstöfunum jafnhliða, tryggingabótum o.fl., og niðurstaðan er þessi: „Er gert ráð fyrir, að hækkunin verði tæplega 3% í stað hér um bil 13.% ella.“

Á bls. 2 er gefið það fyrirheit, að það verði að gera nauðsynlegar breytingar til varanlegrar viðreisnar í atvinnulífi landsmanna og jafnframt víðtækar ráðstafanir í félagsmálum og skattamálum, en tilgangur þeirra er sá að dreifa byrðunum af þeim breytingum, sem óhjákvæmilega verði að gera, sem réttlátast á þjóðarheildina og vernda hagsmuni þeirra, sem umfram aðra ber að forða frá kjaraskerðingu,.

Og á bls. 23 segir, að „ákvörðun grunnlauna verður eftir sem áður háð frjálsum samningum á milli atvinnurekenda og stéttarfélaga.“ Aðrir hafa minnt á þetta hér í umr. um þetta mál, en til þess að taka af öll tvímæli þá les ég þessar tilvitnanir orðrétt. Og hvað var sagt fyrir síðustu kosningar á þessu ári? „Viðreisnin hefur tekizt, og veljið viðreisn, en hafnið ríkisafskiptum:` Þetta var kjörorðið fyrir kosningarnar s.l. vor.

Þá er þessu næst að athuga, hvernig tekizt hefur um þessa 4 meginþætti, sem ég hef drepið á.

Ræður hæstv. ráðh. nú bera þess ljóst vitni, hvort það hefur tekizt að skapa atvinnuvegum landsmanna traustan, varanlegan og heilbrigðan grundvöll. Það er þvert á móti færð fram sem meginröksemd fyrir þessu frv., að svo sé ekki, og ástæðurnar, eins og ástandið er núna, eru settar fram í mjög stuttu máli á þessa leið: Innflutningurinn hefur vaxið of mikið. Greiðslujöfnuðurinn fer versnandi. Of mikil bankaútlán. Óheillaþróun er í launamálum. Neyzla og fjárfesting meiri en framleiðslan þolir. Of miklar framkvæmdir í landinu. Sparifjáraukningin fer minnkandi. Lánsfjáreftirspurnin fer vaxandi. Og horfur eru á, að gjaldeyrisvarasjóðurinn minnki þrátt fyrir hækkandi verðlag á útflutningsvörum. Hvað hefur gerzt? Hefur þjóðin dregið af sér við framleiðslustörfin að undanförnu? Nei, ekki er það. Allir vita, að vinnutíminn er langur, og allir vita, að framleiðslan er mikil, aflamagnið sérstaklega mikið og engin veruleg áföll í atvinnulífinu. Það er því í sjálfu sér ekki þörf á að hafa fleiri orð um þennan þáttinn.

Þá kem ég að næsta þætti. Það er um kjaraskerðinguna. í bókinni Viðreisn segir, að kjaraskerðingin af gengisbreytingunni muni, þegar aðrar ráðstafanir ern teknar til greina, nema 3%. Það fékkst raunar fram, mönnum mun vera það í minni, að það fékkst raunar fram sú játning í umr, um efnahagslöggjöfina 1960, að söluskatturinn væri þá ekki tekinn inn í þetta dæmi og ýmsar aðrar álögur, sem ákveðnar voru samtímis, þannig að loforðið, sem í upphafi var hjá ríkisstj., var ekki heldur að þessu leyti óskeikult. En 13% kjaraskerðing var talin þjóðinni þá afar þungbær, eins og segir í Viðreisn. En hvað segir vísitalan nú? Hún segir nú, að framfærslukostnaður hafi hækkað um 44% frá 1959, og það hefur komið fram í umr. um þetta mál, sem ekki hefur verið vefengt og ég hef fyrir satt, að á sama tíma hafi kaupgjald almennra verkamanna hækkað um 26–27%. Við sjáum þá, hvernig þetta hlutfall er.

En það er hægt að bregða upp fleiri myndum af þessu, ef við tökum t.d. einstaka þætti, sem eru mjög áhrifamiklir eða veigamiklir í lífsafkomu manna. Ég tek byggingarkostnaðinn sem dæmi. Það er reiknuð út vísitala byggingarkostnaðar, og það er hægt að fylgjast með eftir þeim vísitöluútreikningi öllum breytingum á þessu sviði frá því fyrir stríð, alla leið frá 1939. Og ef við skoðum dæmið á þennan hátt, þá hafði á 20 ára skeiði, frá 1939 og þar til í árslok 1953, þegar vinstri stjórnin lét af völdum, byggingarkostnaðurinn samkv. Hagtíðindum tæplega tólffaldazt. Á öllu þessu skeiði, stríðsgróðatímabilinu, með bátagjaldeyri og öllum þeim ráðstöfunum, sem vinstri stjórnin gerði þá, hafði það þessi áhrif á byggingarkostnaðinn. En nú sýna sömu Hagtíðindi og allra síðustu upplýsingar, sem ég hef fengið beint frá hagstofunni, að nú hefur byggingarkostnaðurinn rúmlega nítjánfaldazt, ef miðað er við þennan grundvöll frá 1939.

Við skulum gera þetta enn þá augljósara með því að bregða upp annarri mynd. Það er einnig reiknuð út byggingarvísitala, og sú byggingarvísitala, sem nú er í gildi, er miðuð við grundvöllinn 100 1955. Byggingarvísitalan eftir þessum grundvelli var 31. okt. 1958, þ.e.a.s. rétt áður en vinstri stjórnin fór frá, 123. En sama vísitala er fimm árum siðar, 31. okt. 1963, 183. Hækkun byggingarvísitölunnar á tímabili viðreisnarstjórnarinnar er 60 stig, en á þrem árum, frá 1955 til ársloka 1958, 23 stig. Og mér er sagt, ég fékk þær upplýsingar beint frá hagstofunni, að hraðinn á þessu sé svo mikill, að nú sé byggingarvísitalan raunverulega komin upp í 197, eða verði næst þegar sú tala verður gefin út. Þessar tölur eru ein myndin af ástandinu, sem skapað hefur verið á viðreisnartímabilinu.

Þá er á það að líta, til hvaða þátta í starfseminni þessar miklu hækkanir eiga rót sína að rekja. Svo vill til, að Hagtíðindin skýra einnig frá því, því að árlega er reiknuð út sundurliðuð byggingarvísitala, þar sem verðhækkanirnar eru flokkaðar annars vegar í vinnuliði og hins vegar í efnisliði. Og nú skulum við líta á þá þróun á viðreisnartímabilinu.

Ég ber saman vísitöluna júlí—okt. 1958 annars vegar og hins vegar vísitöluna júlí—okt. 1963. Og þá lítur samanburðurinn þannig út: Vísitala mótauppsláttar og trésmíði utanhúss 1958 125, 1963 161. Vísitala trésmíði innanhúss 1958 125, 1963 155. Múrvinna 1958 124, 1963 143. Verkamannavinna 1968 124, 1963 161. Þetta eru vinnuliðirnir. Svo kem ég að efnisliðunum. Timbur alls konar 1958 123, 1963 240. Hurðir og gluggar 1958 120, 1963 240. Sement, steypuefni, einangrunarefni, grunnrör o.fl. 1958 112, 1963 184. Þakjárn, steypustyrktarjárn, vír, hurða og gluggajárn 1958 126, 1963 229. Saumur, gler, pappi o. fl. 1958 130, 1963 261.

Á þessum sundurliðaða reikningi hagstofunnar er alveg auðsætt, hvert verðhækkanir við byggingar eiga fyrst og fremst rót sína að rekja. Þar vega efnisliðirnir miklum mun meira heldur en vinnuliðirnir, en þetta er nokkur spegilmynd af ástandinu eins og það er í þjóðfélaginu og bregður nokkru ljósi á allt þetta mál, sem hér er til meðferðar.

Hér hefur í sambandi við þetta mál verið mikið rætt um kjaradóm. Ég ætla ekki að gera hað að umtalsefni að öðru leyti en því, að ég ætla í leiðinni að minnast á eitt atriði, sem er næsta eftirtektarvert. Ég geri ráð fyrir því, að þeir menn, sem settir voru til þeirra vandasömu starfa, sem kjaradómur fékk til meðferðar eða hafði með höndum, hafi kostað kapps um að leysa það starf sitt vel og samvizkusamlega af hendi, og ég vil á engan hátt gera þær niðurstöður, sem þar fengust, að umtalsefni tölulega séð. En það er eitt atriði í því sambandi, sem ég vil vekja sérstaka athygli á við þessar umr., að kjaradómur var settur á laggirnar og hann kom í kjölfarið á samningsrétti, sem opinberum starfsmönnum, hafði verið veittur nú nýlega með löggjöf, en það hafði um langt árabil verið áhugamál opinberra starfsmanna að fá samningsrétt um kaup sitt og kjör. Alþingi varð við því að veita þennan takmarkaða samningsrétt, þannig að lakaúrskurður yrði í höndum kjaradóms. En það er það eftirtektarverða í þessu samhandi, að nú, tiltölulega skömmu eftir að opinberum starfsmönnum hafa verið veitt þessi mannréttindi, sem þeir um langa tíð höfðu óskað eftir að fá, þá stefnir þetta frv., sem hér er til umr., að því að svipta aðra launþega, verkalýðshreyfinguna, mannréttindum, sem hún hafði fengið með ærinni baráttu fyrir mörgum árum og vill fyrir engan mun láta niður falla. Þetta er atriði, sem menn geta ekki komizt hjá að hugleiða í sambandi við þetta mál.

Þá kem ég að þriðja þættinum, sem ég minntist á, það er, hvernig hefur tekizt að dreifa byrðunum á þjóðfélagsþegnana, eins og fyrirheit var gefið um, þannig að verndaðir séu hagsmunir þeirra, sem umfram aðra ber að forða frá kjaraskerðingu. Ég skal fúslega játa, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur haft uppi nokkra viðleitni í þessu skyni í sambandi við tryggingalöggjöfina. En því miður er það svo, að hraðinn á dýrtiðinni, sem stefna ríkisstj. hefur skapað, hefur verið svo mikill, að um kaupmátt tryggingarfjárins mun hafa gengið erfiðlega að halda í horfinu að undanförnu. En um tekjuskattslækkunina er það að segja, að hún hefur reynzt miklu meira til hagsbóta þeim, sem miklar tekjur hafa, heldur en almennum verkamönnum. Og þetta frv. sýnir ljóslega, hvað fyrirhugað er um tekjuskiptinguna framvegis milli stéttanna í landinu. Með þessu frv. er stefat að vaxandi mun tekjuskiptingarinnar milli stéttanna, en ekki minnkandi, og aðferðir hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkanna með gengisfellingu og fleiri aðgerðum eru til þess fallnar að breyta eignaskiptingunni í landinu til hags fyrir þá efnameiri, en um leið til ógagns fyrir þá, sem eru efnaminni og hafa veikari aðstöðu í þjóðfélaginu. Stefnan miðar að þessu alveg augljóslega.

Þá kem ég að fjórða þættinum, sem ég ætla að gera hér að umtalsefni, og það er fyrirheitið um, að frjálsir samningar skuli gilda um ákvörðun launa, samningar, sem atvinnurekendur og verkalýðssamtökin eða samtök launþega geri.

Á þetta reyndi nokkuð á árinu 1961. Þá tókust samningar um hóflegar kauphækkanir, þegar miðað er við alla aðstöðu, eins og hún var þá orðin, og miðað við þann starfsfrið, sem ríkisstj. hafði verið veittur, þrátt fyrir stórhækkandi verðlag um alllangt skeið. En þegar þeir samningar höfðu verið gerðir, þá liðu ekki nema fáir dagar, að mig minnir, þangað til ríkisstj. greip harkalega þar inn í með þeirri gengislækkun, sem hún ákvað 1961 og ýmsir ræðumenn hafa gert að umtalsefni, þ. á m. hv. 9. landsk. að nokkru, sem talaði hér næst á undan mér. Ég get ekki, vegna þess að hv. 9. landsk. fór sérstaklega að minnast á þetta, komizt hjá að fara fáum orðum um þetta mál, af því að það er með svo sérstæðum hætti.

Í skýrslu Seðlabankans fyrir árið 1961 segir um þetta mál: „Til þess að koma í veg fyrir þessa þróun”, — þ.e.a.s. sem áður er lýst, „ákvað ríkisstj., að breyting á gengi krónunnar væri óumflýjanleg”. Menn taki eftir þessu orðalagi seðlabankastjórnarinnar: „Ríkisstj. ákvað, að breyting gengisins væri óumflýjanleg. — Og þegar ríkisstj. er búin að ákveða þetta, þá felur hún stjórn Seðlabankans, Seðlabankanum, að framkvæma verkið, þ.e.a.s. reikna út hið nýja gengi, og eru svo gefin út brbl. í því sambandi. Fyrir þessari gengislækkun hafa aldrei verið færð nein hagfræðileg rök, svo að frambærileg séu, og hæstv. ríkisstj. mun hafa fundið það, þegar frá leið, að hún stóð höllum fæti við að skýra þetta frumhlaup fyrir þjóðinni.

Síðan gerist það í september, þegar hið nýja gengi hafði gilt rúman mánuð, að þá gefur ríkisstj. sjálf út grg. um málið, og þá er í þeirri grg. vikið að allmörgum þáttum í þjóðarbúskapnum, en sérstök áherzla lögð á sjávarútveginn með tilliti til þess, að annars vegar er stillt upp í dæminu gjaldeyrisöfluninni og hins vegar tekjuaukningunni innanlands, til þess að jafnvægi sé þar á milli. Það er því út af fyrir sig alveg rökrétt að líta á sjávarútveginn, gjaldeyrisöflunina, í þessu sambandi. En það er gert með þeim sérstæða hætti, að ríkisstj. birtir fyrir fram tekjur eða aflaverðmæti sjávarútvegsins 1961 og segir, að það muni verða 2431.3 millj. kr., það varð að standa á 300 þús. náttúrlega, þetta er svo hárnákvæmt, og hún gerir meira, hún birtir vísitölu framleiðslumagnsins á árinu 1961, og sú vísitala er þannig, að 1959 er sett 100, 1960 verður það 92.6 og 1961 96.8, þ.e.a.s. ríkisstj, segir í sept. 1961, að það muni ekki eða eigi ekki að fiska meira á árinu 1961 en svo, að vísitala framleiðslumagnsins verði 96.8, og þetta er látið þjóðinni í té sem hagfræðilegur grundvöllur undir gengislækkuninni 1961.

Svo nokkrum vikum síðar kemur skýrsla Seðlabankans, eftir áramótin, þegar 1961 er liðið, og þá segir í henni, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar á heildina er litið, hefur verð á útflutningsafurðum batnað verulega á árinu 1961: Og um aflamagnið: „Heildarfiskaflinn á árinu 1961 var skv. bráðabirgðatölum 634 þús. tonn á móti 514 þús. tonnum 1960, og er þetta mesti ársafli, sem orðið hefur: ` Og þar segir enn fremur: „Áætlað er, að heildarframleiðsluverðmæti sjávarafurða á árinu 1961 hafi numið nærri þrjú þúsund millj. kr. á móti 2628 millj. kr. 1960 og 2838 millj. kr. 1959, og eru þá allar tölurnar umreiknaðar til sama verðs og þess gengis, sem nú er í gildi.“

M.ö.o.: bæði vísitalan um aflamagnið og áætlunin um verðmæti sjávarútvegsins, sem ríkisstj. sagði þjóðinni í sept. 1961, það er rangt. Það er sannanlega rangt. Það hefur stjórn Seðlabankans sýnt fram á.

Afleiðingarnar af þessari stjórnarráðstöfun, sem er byggð á jafnveikum grundvelli og ég hef nú fært nokkur rök að, hafa verið að koma fram í þjóðlífinu og þjóðarbúskapnum nú undanfarin missiri, og það eru þær afleiðingar, sem við erum ekki sízt að fást við nú, og þetta mál, sem hér liggur fyrir, á að vera þáttur í að leysa, og það á að gera með þeim hætti að binda kaup um tilt~kinn tíma, að sagt er í frv., en þó jafnframt sniðgengið að gefa hreina yfirlýsingu um, að hér sé í raun og veru um bráðabirgðaúrræði að , ræða, og það er gert með þeim hætti að skerða mannréttindi, sem verkalýðshreyfingin hefur talið og telur dýrmætust af þeim réttindum, sem hún félagslega hefur fengið í hendur í hinu íslenzka lýðveldi. En það er nú ekki síður en 1961, að hæstv. ríkisstj, þykist sjá svo langt fram á veginn, að þessa þurfi með. Það kemur í hug, það sem sagt er um Heimdall að fornu, að hann sér jafnt nótt sem dag hundrað rasta frá sér og hann heyrir það, er gras vex á jörðu eða ull á sauðum, og allt það, er hærra lætur.

Þá vil ég þessu næst með nokkrum orðum minnast á, hvað reynslan sýnir um afgreiðslu mála, sem með einhverjum hætti má líkja við það mál, sem hér liggur fyrir, þó að nákvæmt fordæmi eða fullkomin hliðstæða við þetta frv. muni ekki verða fundin í þingsögunni. Það hefur sérstaklega verið minnzt á tvö tilvik, sem átt hafi sér stað á Alþingi áður og líkja megi við það frv., sem hér liggur fyrir. Annað er brbl. frá 1956 og hitt er gerðardómslögin frá 1942. Í umr. nm þetta mál hefur verið gerð svo tæmandi grein fyrir málinu frá 1956, að ég tel ástæðulaust, að ég sé að tefja tímann með því að endurtaka það og rekja það í einstökum atriðum, en ég vil leyfa mér, með leyfi .hæstv. forseta, að minnast nokkru nánar á gerðardómslögin frá 1942 heldur en gert hefur verið.

Þess er þá fyrst að geta, að þau lög voru sett, þegar heimsstyrjöldin var í algleymingi og Ísland í þjóðbraut milli stríðandi stórvelda. Það liggur í augum uppi, að hv. Alþingi, hæstv. ríkisstj. og þjóðin verða oft að gripa til ráða eða sætta sig við úrræði á slíkum tímum, sem alls ekki eiga við, þegar venjulega stendur á og kalla má friðartíma. Á þessum tíma, á styrjaldartímunum, voru og margar þvingunarráðstafanir eða takmarkanir settar á athafna- og viðskiptafrelsi manna á fleiri sviðum. Ég minni á húsaleigulög, sem þrengdu mjög umráðarétt og tekjumöguleika fasteignaeigenda af húsnæði sinu. Þetta sættu þeir sig við, og þetta varð þjóðin að láta sér lynda á styrjaldarárunum. En hver er það nú, sem vildi beita sér fyrir slíkum ráðstöfunum í húsnæðismálum eins og þá þótti óhjákvæmilegt? Og hvað skyldu fasteignaeigendur segja ef hæstv. ríkisstj, beitti sér fyrir húsaleigufrv. á svipaðan hátt og lagaákvæði voru ströngust í því efni á stríðsárunum? Hefur hæstv. ríkisstj. íhugað það? Þegar litið er á allar ástæður, þá er þetta mál þegar af þeim sökum ekki sambærilegt við það, sem gert var 1942.

Í annan stað er þess að geta, að gerðardómurinn var ekki allsherjarkaupbinding, alveg skilyrðislaus, því að í lögunum er dómnefndinni veitt heimild til að hækka kaup í vissum tilvikum til lagfæringar og samræmingar. En þrátt fyrir þessar ástæður og þó að þessi gerðardómslög væru sett af ríkri nauðsyn og þjóðinni gerð mjög skýr grein fyrir því, lögð mjög rík áherzla á nauðsyn þeirra í umr. um málið, þá reyndust þau ekki framkvæmanleg. Ég minni t.d. á, að núv. hæstv. forsrh., sem nú beitir sér fyrir þessu máli, það féll í hans hlut einnig að mæla fyrir gerðardómslögunum 1942, og hann tók þá mjög sterkt til orða um dýrtíðarskrúfuna og var það þá ekki síður ljóst en nú, hver vandi væri á ferðum. Hæstv. forsrh. segir svo 1942:

„Þetta er dýrtíðarskrúfan, — þ.e.a.s. eins og hann hefur lýst. — „Í rauninni hækkar hún hvorki afurðaverðið né kaupgjaldið. Hún lækkar verðgildi peninganna, hún ræðst á spariféð, ellitrygginguna, líftrygginguna, peningakröfuna, í hverju formi sem er, gerir peningana stöðugt verðminni, þar til þeir eru að engu orðnir. En sá, sem berst fyrir dýrtíðinni, er ekki aðeins fjandmaður sparifjáreigandans, gamalmennisins, ekkna og munaðarleysingja og annarra, er afkomuvonir hafa byggt á peningaeign eða peningakröfum. Nei, hann er einnig böðull framleiðenda og launamanna og raunar alþjóðar. Við okkur Íslendingum blasir bölvun framtíðar óvenjuskýr og ótviræð, sé verðbólgan látin óhindruð:

Já, það vantaði ekki sannfæringarkraftinn, þegar mælt var fyrir þessu máli. En hæstv. núv. forsrh. er svo reyndur stjórnmálamaður, að mig furðar stórkostlega á, að hann skuli standa að því frv., sem hér er til umr., því að það kom í hans hlut að eiga að framkvæma gerðardómslögin, sem sett höfðu verið af jafnríkri nauðsyn og hann sjálfur hafði sagt og ég hef vitnað til.

En fimm mánuðum eftir að gerðardómslögin voru sett, þ.e. á aukaþinginu 1942, leggur núv. hæstv. forsrh., sem þá var einnig forsrh., fram frv. til gerbreytingar á gerðardómslögunum, þar sem kaupbindingin, svo langt sem hún náði áður, er tekin út, en í staðinn á að koma dómnefnd í verðlagsmálum. Það er eingöngu til þess að halda niðri verðlagi, og í grg. fyrir því frv., sem lagt er fram 6. ágúst 1942, segir þáv. ríkisstj. þetta:

„Lögin um dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum voru sett í þeim tilgangi að koma í veg fyrir vöxt dýrtíðar í landinu, er sýnt þótti, að þeim tilgangi yrði ekki náð með frjálsum samtökum og samningum. Enda þótt því verði ekki á móti mælt, að þessi lög hafi tafið vöxt dýrtíðarinnar, kom það í ljós frá byrjun, að þau mundu ekki vera einhlít í þessu efni, og hin geysilega eftirspurn eftir vinnu, samfara stóraukinni peningaveltu í landinu, hefur smám saman og í vaxandi mæli gert það að verkum, að kaupgjald hefur hækkað, án þess að lögin gætu náð til þess í framkvæmdinni eða komið í veg fyrir það. Þær atvinnugreinar, sem lögin gátu bezt náð til, stóðu þá uppi með kaupgjald í fullu ósamræmi við það, sem hægt var að fá annars staðar, og gat ekki svo staðið. Var sýnt, að nema yrði brott þann hluta laganna, sem bannaði hækkanir á grunnkaupi, þar sem að öðrum kosti var ekki unnt að fá menn til ýmislegra nauðsynlegra starfa.“

Og hinn 10, ágúst mælir samráðherra Ólafs Thors, núv. og þáv. forsrh., Magnús Jónsson, einn af forustumönnum Sjálfstfl., fyrir þessu frv., og ummæli hans um reynsluna af kaupbindingunni, svo langt sem hún náði, eru næsta eftirtektarverð. Með leyfi hæstv. forseta, sagði Magnús Jónsson:

„Þegar fram á vorið dregur, kemur það í ljós, að flokkar manna, sem vinna hjá hinu opinbera eða fyrirtækjum, sem lögin gátu einna bezt náð til, eru komnir í verri aðstöðu en ýmsir aðrir að því er kaupgjald snertir, og þeir segjast fara úr vinnunni, ef þeir fái ekki hækkað grunnkaup. Hér skapast það einkennilega ástand, að menn rísa upp án verkfalla, krefjast launahækkunar og segja: Við vinnum hér ekki lengur, nema okkur sé greitt betra kaup. Þegar svo var komið, var óhugsandi annað en vinna stöðvaðist við ýmis þau fyrirtæki, sem engan veginn máttu stöðvast, nema gengið væri að þessum kröfum. Dómnefnd treysti sér ekki til að kveða upp úrskurð í þessum málum, og öngþveitið jókst því meir sem lengra leið. Það var augljóst, að lögin gátu ekki staðizt lengur í þessu formi. Þau voru orðin að hneisu fyrir þjóðfélagið, þar eð þess var enginn kostur að framfylgja þeim:

Þetta var reynsla á fimm mánaða skeiði, að sú kaupbinding, sem ekki var skilyrðislaus, en lagt var út í á tímum heimsstyrjaldarinnar, þau lög voru orðin að hneisu að dómi forustumanna Sjálfstfl. að fimm mánuðum liðnum.

Þegar þetta er rifjað upp, þá tel ég það furðu gegna, að maður með mikla pólitíska reynslu, eins og hæstv. forsrh., skuli leggja út í að flytja það mál, sem hér er til umr. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvort hann á mikið eftir af ræðu sinni?) Já, ég á nokkuð eftir. (Forseti: Ætli við verðum þá ekki að fresta fundinum núna til kl. 5.) Það er ekkert því til fyrirstöðu. [ Fundarhlé. ]

Ég lauk máli mínu, áður en fundi var frestað, á því að lýsa, hvernig fór um gerðardómslögin 1942, og ég lét í ljós, að mig furðaði, að hæstv. forsrh., með jafnmikla pólitíska reynslu eins og hann hefur, skyldi leggja út í að beita sér fyrir því máli, sem hér er til umr., því að mér virðist, að það sé öllum augljóst, að ástandið í þjóðlífinu er að sumu leyti svipað og 1942, þannig að það er þensla í efnahagslífinu og eftirspurn eftir vinnuafli mjög mikil. Ég skil það svo, að stjórnarandstæðingar og hæstv. ríkisstj. séu sammála um þetta, og ég ætla, að það hafi komið fram sú skoðun í ræðu hæstv. fjmrh. hér í d., enda segir í nál. meiri hl. fjhn. Nd.: „Þensla í efnahagslífinu hefur vaxið hröðum, skrefum undanfarna mánuði, og eftirspurnin eftir vinnuafli hefur farið langt fram úr því, sem hægt hefur verið að sinna: `

Hv. 9. landsk. leitaðist við að gefa nokkra skýringu á afstöðu Alþfl. til gerðardóma og í leiðinni til þessa máls, sem hér liggur fyrir. Ég sakna þess nú, að hann er ekki kominn á fundinn. En þó að það megi telja óeðlilegt eftir þá reynslu, sem fékkst af gerðardómslögunum, að Sjálfstfl. og ráðh. hans beiti sér fyrir þessu máli, þá er það þó enn furðulegra um Alþfl. Meðan Alþfl. var allstór flokkur og í allgóðu gengi með þjóðinni, var það höfuðbaráttumál hans að koma hér á 8 stunda vinnudegi t.d., koma á orlofi fyrir verkamenn og auknum mannréttindum í ýmsum greinum, t.d. að lækka aldursskilyrði um kosningarrétt og kjörgengi o. fl. Þetta voru þau höfuðmál, sem Alþfl. barðist fyrir, og vitanlega samningsfrelsi verkalýðsfélaganna um kaup og kjör. Það var hornsteinn í þjóðfélagsbyggingunni að dómi Alþfl.

En nú er svo komið, að forustumenn Alþfl. telja það fjarstæðu, eða það verður ekki skilið á annan veg en að þeir telji það fjarstæðu, að 8 stunda vinnudagur eigi í raun og veru að vera í gildi, það þurfi miklu lengri vinnutíma til þess að afla þeirra tekna, sem óhjákvæmilegt er fyrir alþýðuheimilin í landinu. Og það verður sérstaklega áberandi, hvernig afstaða Alþfl. Til kaupbindingar og gerðardóma var annars vegar fyrr á árum, en hins vegar nú, eins og kemur fram í sambandi við þetta frv. og hefur raunar komið fram í smærri stíl á undanförnum missirum í sambandi við önnur mál.

Þegar settur var gerðardómur með löggjöf 1938, dró Alþfl. ráðh. sinn úr ríkisstj., og þegar settur var gerðardómur 1942, var Alþfl. algerlega andvígur því. Það var þó, að ég ætla, ekki fyrst og fremst kauphæðin, sem lá til grundvallar þessum skilningi Alþfl. á gerðardómum og afstöðu til þeirra, heldur miklu fremur „prinsipið“ eða aðferðin sjálf. Það hefur víða komið fram í málflutningi ,Alþfl.-manna frá fyrri árum, og mætti rekja það í löngu máli, en til þess að gera langt mál stutt, þá ætla ég að láta nægja eina tilvitnun, sem tekur af öll tvímæli í þessu efni. Það er í nál. eins forustumanns Alþfl., sem átti sæti í þessari hv. d. um langt árabil, nál. eftir Sigurjón Á. Ólafsson um gerðardómslögin 1942. Þar segir svo um viðhorf Alþfl. um aðferðina og „prinsipið“ sjálft, með leyfi hæstv. forseta:

„Með brbl., sem þingið svo á að leggja blessun sína á og samþykkja, var stofnað til innanlandsófriðar milli stéttanna í þjóðfélaginu. Lögunum er fyrst og fremst stefnt gegn verkalýðssamtökunum, svo og gegn öðrum launþegum landsins, hvort heldur þeir eru í þjónustu ríkis, bæja eða einstaklinga. Höfuðmarkmiðið er að banna alla grunnkaupshækkun hjá öllu launafólki, án tillits til þess, hvernig grunnlaunin voru hjá einstökum stéttarfélögum og launaflokkum á þeirri stundu, er lögin voru sett. Sjálfsákvörðunarrétti verkalýðsfélaganna og einstaklinga um að setja verð á vinnuafl sitt, samningsréttinum, verkfallsréttinum er burtu kippt með einu pennastríki. Hinum lögboðna rétti verkalýðsfélaganna, er þeim var veittur með lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, er vikið til hliðar og að engu hafður. Löggjöf, sem átti að tryggja og tryggði þjóðfélaginu friðsamlega lausn hinna viðkvæmustu deilumála, sem uppi hafa verið með þjóð vorri: um tugi ára, — baráttan um kaup og kjör launastéttanna. Atvinnurekandanum, sem jafnvel vill greiða verkamanni sinum hærra kaup og að öðru leyti veita honum betri lífskjör en hann bjó við, honum er bannað að semja við stéttarfélag verkamannsins, þótt hann telji atvinnurekstri sínum það kleift og til meiri ávinnings fyrirtæki sínu.“ Og enn fremur: „Ríkisstj. hefur með setningu brbl. brotið eina meginreglu, sem ríkisstj, meðal lýðræðisþjóða mundu ekki hafa leyft sér að gera, þar sem líkt hefði staðið á og hér, að knýja fram ráðstafanir í beinni andstöðu við eina fjölmennustu og þýðingarmestu stéttina fyrir allt athafnalíf landsins, verkalýðsstéttina, ráðstafanir, sem ganga gegn hagsmunum hennar, svipta hana rétti, sem þjóðfélagið hefur veitt henni að lögum, og þar með sett hana skör lægra en þær stéttir, sem fyrst og fremst hafa fleytt rjómann af því óvenjulega ástandi, er ríkir í landinu:

Mér sýnist, að það, sem hér er sagt, eigi vel við í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir. En það sýnir bezt Alþfl. fyrr og nú, hina ólíku afstöðu flokksins til svipaðra mála fyrir 20 árum þeirri afstöðu, sem hann hefur nú. En svo virðist sem hæstv. núv. forsrh. hafi fyrir löngu komið auga á þessi sinnaskipti. Hann getur sjálfsagt tekið sér í munn hin fornu orð: Ég þekki mína. — Í umr. 1942 lýsir hæstv. forsrh. Alþfl. þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er þessi löggjöf, sem Alþfl. hefur tekið upp baráttu gegn. Jafnframt hefur hann bætt nýjum titli við sitt virðulega nafn, svona eins og þegar menn hengja í hnappagatið nýtt heiðursmerki, og kalla sig flokk launastéttanna. Nákvæmara heiti hefði þó verið flokkur hálaunastéttanna, þ.e.a.s. flokkur forkólfa Alþfl.”

Höfundarréttur er verndaður í þessu landi, og ég vil á engan hátt hafa hann af hæstv. forsrh. Ég sakna þess, að hann er hér ekki, en vildi gjarnan leita samkomulags við hann um það að stytta þetta nafn, forkólfa Alþfl., og hafa það forkólfaflokkur.

Þá skal ég þessu næst fara fáum orðum um markmiðin, sem stefnt er að með þessu frv. Það er öllum ljóst, sem um efnahagsmál hugsa, hvar í flokki sem þeir standa, að það er ekki hægt að veita þjóðinni öll lífsins gæði ótakmarkað, eins og menn geta teygað andrúmsloftið eða ausið af úthafinu. Skoðanamunurinn er um það, hvernig eigi að setja takmörkin. Stefna núv. hæstv. ríkisstj. er sú að leita jafnvægis, sem kallað er, í þjóðarbúskapnum með því að hækka verðlagið, en halda kaupgjaldinu niðri. M.ö.o.: takmörkuð kaupgeta almennings á að vera skömmtunarstjóri í þjóðfélaginu og harðleikin skömmtunarstjórn. Og þetta frv. miðar að því, eftir því sem ég fæ bezt séð, að ríkisvaldið efli tök þessa harðleikna skömmtunarstjóra við alþýðuheimilin í landinu. Á sama tíma sem verzlunin hefur fengið aukið fjármagn með útlánum bankanna og lántökum erlendis, á að binda kaupgjald verkamanna og bænda í því skyni að halda við hinu svokallaða jafnvægi. í þessu sambandi er mikið talað um greiðsluþol og greiðslugetu, bæði atvinnuveganna og ríkisins, en við framsóknarmenn viljum ekki eingöngu horfa á greiðslugetu ríkisins og atvinnuveganna, heldur jafnframt horfa á greiðslugetu heimilanna, því að rétturinn til að lifa, réttur þjóðarinnar til að lifa í landinu, er þó sá frumburðarréttur, sem ekki má glata. Og til þess að hafa hófsamleg takmörk eru til önnur ráð og aðrar leiðir en sú að láta hina mjög takmörkuðu kaupgetu almennings vera skömmtunarstjóra í þjóðfélaginu. Það er hægt að hafa meiri stjórn á meðferð gjaldeyrismála í landinu heldur en gert hefur verið hjá núv. ríkisstj., og það er hægt að flokka framkvæmdir meira en gert hefur verið og hafa þannig nokkurt vald á fjárfestingunni, neyzlu eða fjárfestingu einstaklinganna, umfram það, sem gert hefur verið, og þessum ráðum ber að beita, að dómi okkar framsóknarmanna, fremur en að binda kaupgjald almennings í landinu.

Hér hefur í þessum umræðum verið rætt allmikið um vörukaupalánin, sem veitt hafa verið að undanförnu og nema nú hundruðum millj. kr. Þessi vörukaupalán hafa veitt verzluninni aukna peningaveltu. Hún kemur þeim til góða, sem viðskiptin annast, og jafnframt þeim, sem kaupgetu hafa til að kaupa þann varning, sem inn er fluttur. En öll þessi vörukaupalán eru í rauninni ávísanir á framtíðina, og þær ávísanir eiga þeir að borga, sem gjaldeyrisins afla í þ,jóðarbúið. Það eru vinnustéttirnar, sem framleiða verðmætin úr skauti lands og sækja þau í greipar ægis. En í sambandi við vörukaupalánin og þessa miklu veltu hjá verzluninni vil ég nefna aðeins eitt dæmi um það óhóf, sem á sér stað í þessum efnum. Störfum mínum hefur verið háttað þannig, að ég hef átt leið hingað til bæjarins um rúml. 20 ára skeið á hverju hausti. Nú þegar ég kem til bæjarins þessa haustdaga, þá sé ég hér mjög nýstárlega sjón. Það er hægt að sjá hér skammt frá bænum og í útjaðri bæjarins breiður af gljáandi bifreiðum, sem eru undir beru lofti, flekkir, sem glampar á, þegar sólin skín, og það eru nýjar bifreiðar, sem verzlunin hefur fengið að flytja inn. En það virðist vera búið að metta kaupgetu hinna ríku í þjóðfélaginu, sem geta keypt þessa bíla, en verkamenn með 67 þús. kr. árskaup fyrir 8 stunda vinnu, þeir hafa ekki kaupgetu til þess að kaupa svona tæki. Slíka sjón hef ég ekki séð áður á 20 ára skeiði, en þannig blasir myndin við nú á þessum haustdögum.

Það er fleira, sem kemur í hugann, þegar þessi mál eru rædd. Það hefur verið skýrt frá því, og það sjá raunar allir, hve mikil útþensla er hjá bönkunum, byggingar, fasteignakaup, á sama tíma sem hinn almenni þjóðfélagsþegn berst í bökkum við að byggja sér heimili. Það hefur verið skýrt frá því opinberlega, að það hefur verið keypt hér í miðbænum lóð undir eitt hús fyrir 10 millj. kr. Þessi blettur hér í Reykjavík undir eitt hús er þá að verðgildi svona eins og 20 bújarðir í allgóðri sveit á Íslandi, og ég veit ekki, hvað marga tugi bújarða þyrfti til þess að jafngilda þessari fjárhæð, t.d. á sumum svæðum á Vestfjörðum eða Austurlandi, þar sem samgöngur eru tregar og eftirspurn litil. Það væri stór hreppur, sem þyrfti til þess að jafngilda að verðmæti þessum eina bletti hér í höfuðstað tandsins.

Svo er talað, þegar málum þjóðarinnar er komið í þetta horf, um jafnvægi, allt sé gert fyrir jafnvægið í þjóðfélaginu. Við skulum athuga dálítið nánar, hvernig þetta jafnvægi er, sem þannig fæst. Við hvert aðalmanntal á hverjum áratug vinnur hagstofan úr manntalinu þannig, að hún greinir þjóðina í atvinnustéttir m.a. Nú er mér sagt, að ekki séu til enn þá lokatölur að þessu leyti yfir manntalið 1960, og af því leiðir, að ég vil ekki fara hér með neinar tölur í þessu sambandi, þar sem þær liggja ekki fyrir alveg óvefengjanlegar. En það hef ég fyrir satt, að skipting þjóðarinnar í atvinnustéttir sé á þá leið, að þróunin stefni ört frá framleiðslunni, undirstöðuatvinnuvegunum, yfir í verzlun, opinber störf og ýmsa þjónustu. Þetta er mjög ískyggileg þróun. Og það verður aldrei fengið jafnvægi í þjóðfélaginu með því að ýta undir hana. Ef fólkið flýr frá undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar, þá fer fyrr en varir fyrir þjóðfélaginu eins og fara mundi, ef sjálf uppsprettulindin þornaði, þá minnkar rennslið. Og svo framarlega sem þessi þjóð ætlar sér að verða íslenzk þjóð áfram og lifa á eigin framleiðslu, en ekki fé, sem fengið er frá öðrum þjóðum, verður að gefa þessari þróun gaum. En hvert skyldi nú stjórnarstefnan leiða að þessu leyti? Hinn aukni straumur fjármagns til verzlunarinnar og sú tekjuskipting milli þjóðfélagsstéttanna, sem stefnt er að því að lögfesta með þessu frv., skyldi það ekki draga fólkið frá framleiðslunni yfir í milliliðastörfin, og hvaða áhrif skyldi þetta hafa á jafnvægið í byggð landsins, sem oft er talað um? Nei, stjórnarstefnan leiðir ekki einungis til jafnvægisleysis og röskunar í tekjuskiptingu milli stéttanna, ekki einungis í atvinnuskiptingu innan þjóðfélagsins, heldur jafnframt til röskunar og öfugþróunar í byggð landsins. Það liggja fyrir tölur, og það opinberar tölur, um það, að á sama tíma sem þjóðarfjölgunin í heild var rúml. 51%, þá var fjölgunin hér á þéttbýlissvæðinu við Faxaflóa 117%, en annars staðar, t.d. á Norðurlandi með höfuðstað Norðurlands innan vébanda sinna, 121/2%, og í sumum landshlutum bein fækkun, eins og á Vestfjörðum. Skyldi nú þetta frv., þetta mál, sem miðar að því að fastbinda tekjur vinnustéttanna, sem bera hita og þunga dagsins úti í landsfjórðungunum, miða að því að breyta þróuninni að þessu leyti eða að því að örva hana? Það er alveg áreiðanlegt, að það örvar þessa þróun um röskun jafnvægisins í byggð landsins.

Þegar litið er á heildarmyndina í þjóðfélaginu og þetta mál skoðað í því ljósi, þá er það næsta alvarlegt. En ef við lítum svo á þetta frá öðru sjónarmiði, ekki jafnviðtækt, og skoðum, hvernig þetta mál ber að, þá blasir sú staðreynd við, að launastéttir og bændur hafa sýnt þessari hæstv. ríkisstj. mikið þolgæði, því að tekjur þeirra hafa ekki vaxið í sama hlutfalli og verðlagshækkanir hafa orðið í landinu. Það liggur einnig fyrir, að núv. ríkisstj. var veittur fjögurra mánaða frestur á s.l. sumri til athugunar á þessum málum og tillögugerðar. Og hvernig hefur sá frestur verið notaður. Meðal annars þannig, að flutningsgjöld á millilandaskipum hafa verið gefin frjáls og hækkuð. Það kemur í verðlagið. Á þessum tíma hefur verið ákveðið, eins og fjárlagafrv. ber með sér, að lækka niðurgreiðslur á nauðsynjavörum um milli 90 og 100 millj. kr. Það kemur fram í hækkuðu verðlagi á neyzluvörum til almennings. Þessi frestur hefur einnig verið notaður til þess að hækka að verulegum mun póstgjöld og símagjöld, til þess að þessar ríkisstofnanir standi að fullu undir fjárfestingu sinni, að mér skilst, en sú var venja fyrr á árum, að það var oft greitt til þeirra beint af ríkisfé til að styðja fjárfestingu þessara ríkisstofnana. Og vitað er, að í athugun er breyting á töxtum með strandferðaskipum ríkisins, og það má alveg búast við eftir annarri þróun í þessum efnum, að á næsta leiti sé hækkun á þeim töxtum. Það kemur inn í verðlagið á vörunum, sem fluttar eru með strandferðaskipunum út um land. Og kerfið er svo margslungið, að söluskatturinn í smásölu er svo reiknaður af verði hverrar vörueiningar, eins og það er orðið, þegar flutningskostnaðurinn er kominn inn í verðið og varan er seld. Með þessu kerfi greiða þeir, sem búa við erfiðar samgöngur og kostnaðarsama flutninga, í raun og veru hærra gjald í söluskatt af hverri vörueiningu heldur en þeir, sem eru vel settir með flutninga og samgöngur í landinu. Á þennan hátt er náð sérstöku taki á landsbyggðinni ofan á allt annað. Þannig ber þetta mál að.

Það virðist vera, að ríkisstj, og stjórnarfl. ætli að knýja þetta mál fram. Þeir hafa til þess meiri hluta hér á hv. Alþ. Sú samþykkt, sem gerð verður, ef þeir standa allir að þessu máli, verður lögmæt afgreiðsla, það er ekkert um það að villast. En það er ekki aðeins hinn lagalegi réttur, sem er til og í gildi, það verður oft jafnframt að skoða hinn siðferðilega rétt og þann grundvöli, um hinn lagalegi réttur hvílir á. Og þegar sá grundvöllur er skoðaður í sambandi við þetta mál, kemur í ljós, að hann er ekki vel gerður. Ferill þessarar hæstv. ríkisstj. er því miður viða varðaður blekkingum og brigðmælum við þjóðina, sem berast hefur orðið í sambandi við kosningaloforð, og stefnan, sem mörkuð er í þessu frv., leiðir af sér misrétti milli þjóðfélagsstétta og öfugþróun, m.a. í byggðaskipuninni í landinu og aðstöðu fólksins úti um landsbyggðina.

Það var búið að veita 4 mánaða frest til umhugsunar og tillögugerðar, og á þeim tíma, á meðan sá frestur stóð, er gripið til að ákveða verulegar verðhækkanir, sem ríkisstj. hafði á sínu valdi, eins og ég hef áður drepið á. Allmiklar og í sumum greinum stórfelldar launahækkanir höfðu átt sér stað til ýmissa manna og stétta í þjóðfélaginu alveg fram á siðasta dag, þangað til þetta frv. var lagt fram. Og þrátt fyrir áskoranir hér á hv. Alþ., fæst ríkisstj. ekki til þess að gefa skýlausa yfirlýsingu um, að kaupbinding komi ekki til greina eftir áramótin. Þegar þetta er skoðað, þá er hinn siðferðilegi grundvöllur, sem þetta mál allt hvílir á, mjög veikur.

En það, sem er allra alvarlegast og að mínum dómi átakanlegast við þetta mál, er þó ekki í sjálfu sér efnahagslegs eðlis. Hér er stefnt að skerðingu á mannréttindum, skerðingu á réttindum, sem hin fjölmennasta stétt þjóðfélagsins hefur unnið með langri baráttu og telur sér ákaflega dýrmæt. Það er eðli Íslendinga að una ekki misrétti eða skerðingu á frelsi eða mannréttindum. Það sýnir öll saga þjóðarinnar, og; það mætti rekja stig af stigi allt frá söguöld til þessa dags, ef maður gæfi sér tóm til þess að ræða það mál til hlítar. Og ég hygg, að þetta sé í raun og veru kannske ekki séreinkenni á Íslendingum, þó að ég þekki það bezt. Ég hygg, að þetta sé mjög ríkt í mannlegu eðli. Þetta tel ég allra alvarlegast við þetta mál og það, sem mótar afstöðu mína meira en annað, þó að hitt vegi líka þungt.

Sagan sýnir okkur, að þeir valdsmenn hafa verið til, sem finnst þá sigurinn sætur og þá ljóma um salina þjóðheiður sinn, þar sem nábúinn fátæki látinn var liðsmunar gjalda. Það erum við, alþýðustéttirnar, sem í þessu falli er um nábúinn fátæki, svo að talað sé á líkingamáli. Það getur verið og það litur helzt út fyrir það í sambandi við þetta mál, að hæstv. ríkisstj, og stjórnarfl. hér á hv. Alþ. vilji skipa sér í flokk þessara valdsmanna. En þó að þeir geri það og hér megi teljast afgreidd lögmæt samþykkt, þá er ég viss um, að þetta mælist illa fyrir meðal Íslendinga, því að Íslendingseðlið er og verður samt víð sig eins og það hefur verið öldum saman. Hér er stefnt að skerðingu á mannréttindum, en það stríðir gegn réttlætiskennd og réttarmeðvitund almennings. Þess vegna er þetta mál reist á veikum grunni, og það mun gera gæfumuninn, þegar frá líður.