07.11.1963
Efri deild: 12. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í C-deild Alþingistíðinda. (1856)

56. mál, launamál o.fl.

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Þegar hæstv. fjmrh. gerði hér í framsögu grein fyrir þessu máli í gær, minntist hann í upphafi á þær viðreisnarráðstafanir, sem ríkisstj. hefði lagt fyrir Alþ. í febr. 1960. Tíminn er fljótur að líða, og það er ekki ýkjalangur tími síðan, þótt e. t. v. margir séu farnir að gleyma ýmsu af því, sem þjóðinni var heitið, þegur hin svokallaða viðreisnarstjórn kom til valda og byrjaði á því að veita fjármagni landsmanna í þau fallvötn, sem íhaldsstefnan í landinu taldi sér bezt henta til þess að geta stjórnað eins og henni hentaði bezt. Það er líka búið að margsanna í þessum umr., hvernig farið hefur með þessa stefnu, hvernig hún hefur verkað á atvinnulíf landsmanna, og það er síður en svo, að það hafi farið eftir sem spáð var í upphafi, að þessi stefna mundi jafna kjör fólksins og væri hin eina rétta leið til bættra lífskjara, eins og það var orðað af sjálfstæðismönnum haustið 1959. Og mér finnst þetta frv., sem hér er til umr., vera hrópandi tákn þess, hvað það er fjarstæðukennt að boða leiðina til bættra lífskjara og siðan að hækka laun hjá fjölda fólks, en setja bann við því, að aðrir megi fá launabætur. Það er ekkert til fjarstæðukenndara en það.

Við þetta tækifæri vil ég minna á nokkur atriði í stjórnarstefnunni, sem hæstv. ríkisstj. hefur þó sjálf viðurkennt að mistekizt hafi og hún hefur sannað ýmist með fyrirskipunum, þar sem þær hafa gilt, eða með beinum lagasetningum.

Það var ein af ráðstöfunum ríkisstj., eftir að gengið hafði verið fellt það mikið í febr. 1960, að það átti að nægja til þess að bjarga útflutningsframleiðslunni, að manni skildist um aldur og ævi, að þá voru almennir vextir hækkaðir upp í 12%, og þeir voru hækkaðir það mikið, að það varð að afnema lög, sem áður höfðu gilt í landinu um svokallaða okurvexti. En framleiðslan átti að vera það blómleg, að hún átti að þola allt að 12% vexti, sem sagt sá maður, sem tók lán til sins atvinnurekstrar, átti að hafa það mikið í arð fyrir utan allan rekstrarkostnað annan, að hann gæti borgað lánsupphæðina á 8 árum. Svona blómlegt atvinnulíf átti að verða fram undan hjá íslenzkum atvinnuvegum. En hver varð svo reynslan í þessum efnum? Í árslok 1960 sá stjórnin sér bezt henta að lækka hina almennu vexti niður í 10%, úr 12% niður í 10%, vegna þess að þá voru atvinnuvegir landsmanna búnir að sýna

það og sanna, að þeir þoldu engan veginn þessa vexti. Þetta gat ríkisstj. fyrirskipað vegna þess, að hún var búin að fá vald til að skrásetja krónuna og búin að fá vald til að ákveða stofnlánavexti og aðra vexti, sem ákveðnir höfðu verið með sérstakri löggjöf áður.

Maður skyldi ætla, að þetta hefði orðið nægjanlegt til þess að bjarga framleiðslunni. En svo var ekki, því að á sama vetri eða síðari hl. þings snemma á árinu 1961, minnir mig, var lagt fyrir Alþ. frv. til l. um lausaskuldir sjávarútvegsins eða nokkurs konar skuldaskil í sjávarútvegi. Þessi skuldaskil fóru fram á þann hátt, að það voru lækkaðir vextir, sem áður höfðu verið 10 eða 12%, þeir voru lækkaðir niður í 61/2 % og lánin lengd til margra ára eða fastsett, þar sem þau voru, vegna þess að það var sýnilegt, að sjávarútvegurinn gat ekki risið undir þeirri vaxtabyrði, sem honum var ætlað að gera með 10% vöxtum. Og það er sannast sagna, að hér er hæstv. ríkisstj. að glíma enn þá við sama drauginn, að hún hefur íþyngt atvinnuvegum þjóðarinnar svo mikið með þessari vaxtabyrði, að atvinnuvegirnir eru alltaf kvartandi og kveinandi, vegna þess að þeir geta ekki borið þessa háu vexti.

Um sama leyti og þessi mál varðandi sjávarútveginn voru til umr, hér á hv. Alþ., komu fram till. frá okkur framsóknarmönnum þess efnis, að landbúnaðurinn yrði tekinn hliðstæðum tökum og sjávarútvegurinn, að það yrði veitt lán til langs tíma með hagkvæmum kjörum. En þá var ekki þörf á því. En svo fór með hæstv. ríkisstj. eins og Adam forðum, að hún var ekki lengi í Paradís, því að eftir að Alþ. hafði lokið störfum um vorið, gaf hæstv. ríkisstj. út brbl. um lausaskuldir bænda, og sú löggjöf var fyrir atbeina Stéttarsambands bænda og atbeina framsóknarmanna á Alþingi lagfærð það mikið, að hún kom bændunum að notum og var lögfest um áramótin 1961—62. Og hún fól það í sér að fastsetja skuldirnar, þar sem þær höfðu myndazt, til 20 ára, með þó ekki lægri vöxtum en 71/2 %, eða 1 % hærra en gilti fyrir sjávarútveginn.

Þetta hefur hæstv. ríkisstj. sjálf fundið og sannað, að hefur mistekizt í sinni stjórnarstefnu, að hún ætlaði atvinnuvegunum of þunga og of háa vaxtabyrði í upphafi, þegar viðreisnarstefnan var boðuð og þegar ráðstafanir stjórnarinnar til bjargar atvinnuvegunum voru lögfestar á Alþ. í febr. 1960.

Það hefur alltaf sézt og alltaf skinið í gegnum þessa stjórnarstefnu, að hún hefur spennt vaxtakjörin í landinu það hátt, að þeir, sem hafa frjálsastar hendur með,sinn atvinnurekstur eða sín atvinnutæki, eins og verzlunarstéttin, gætu einir þolað þunga vaxtabyrðarinnar. Og svo er komið t.d. í landbúnaði nú, síðan þessi hæstv. ríkisstj. tók við, að unga fólkið treystir sér ekki, sem vonlegt er, og fær heldur ekki fjármagn til þess að hefja búskap. Og ég er ekki viss um, þegar nokkur ár eru liðin, að þessari hæstv. stjórn verði þakkaðir þessir hlutir, því að ef svo fer fram sem verið hefur hin síðari ár, þá fækkar mönnum það mikið í bændastétt, að framleiðslan hlýtur að dragast saman og það allt of mikið, þegar miðað er við þá fólksfjölgun, sem verið hefur í landinu að undanförnu, því það þarf að haldast í hendur framleiðslan í landbúnaðinum og fólksfjölgunin, svo að hægt sé að sjá þjóðinni fyrir þeirri þjóðhollu fæðu, sem landbúnaðurinn hefur veitt til þessa, þ. e. kjöt- og mjólkurafurðir.

Það hefur sýnt sig, að lánamál landbúnaðarins hafa orðið óhagstæðari með hverju árinu sem hefur liðið. Afurðalánin hafa farið lækkandi. Þó að það hafi verið svipaðar krónutölur, þá hafa þau lækkað mikið, vegna þess að afurðamagnið hefur nokkuð aukizt og verðlagið nokkuð hækkað, þannig að prósentvís út á afurðirnar hefur verið lánað miklu minna fjármagn en var fyrir fimm árum, því að þá komust afurðalánin upp í 67%, en hafa komizt niður fyrir 40% í tíð núv. hæstv. ríkisstj. Og auk þess eru bændurnir látnir lána sér sjálfir, því að það er lagður á þá sérstakur skattur, sem rennur í stofnlánadeild landbúnaðarins, og á 15 árum, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert áætlanir um tekjur þessa sjóðs, þá greiða bændurnir 2 kr. af hverjum 3 kr., sem þessari deild er ætlað að hafa í tekjur á þessum tíma. Og það skiptir mörgum milljónum og verður þó mun meira en áætlað var, ef þróun mála verður framvegis eins og hún hefur verið, að síhækkandi verðlag verður í landinu á komandi árum, eins og hefur verið hin síðari ár, siðan þessi hæstv. ríkisstj. komst til valda, — og hefur þó landbúnaðurinn sízt fengið sinn hlut í því verðlagsflóði, sem yfir þjóðina hefur dunið.

Ég hef nefnt hér þrjú atriði, tvenn lög og eina fyrirskipun frá hæstv. ríkisstj., og þetta frv. finnst mér vera það fjórða mál, sem hæstv. ríkisstj. er að sanna með, að viðreisnin hafi mistekizt. Og þetta er kannske bezta sönnunargagnið, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram af sinni hálfu til að sanna, að viðreisnarstefnan gat ekki bjargað þjóðinni. Sé það nú svo, að hæstv. forsrh. reikni nú, að þetta sé pennastríkið, sem hann sagði eitt sinn að hægt væri að lækna dýrtíðina með, þá er hann orðinn æði sjóndapur, því að nokkuð er vist, að þetta litla pennastrík getur ekki orðið til að lækna neitt, en það getur hins vegar orðið til þess að auka á það dýrtíðarflóð, sem þegar er orðið í landinu og sýnilegt er fram undan. Og þetta frv. er kóróna að mínu áliti á öllum þeim gjörðum, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert í dýrtíðarmálum, og liggja til þess margar orsakir, að svo er.

Ég held, að það væri gott fyrir hæstv. ríkisstj. að hugleiða þær ályktanir, sem koma frá ýmsum mannfundum, þar sem þeir, sem eiga að standa í eldi lífsins og eiga að sjá atvinnulífi landsins borgið, gera sínar ályktanir og lýsa ástandinu eins og það raunverulega er í atvinnumálum þjóðarinnar. Á s.l. vori komu saman fulltrúar hjá sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og lýstu þá ástandinu og sendu sínar ályktanir til hæstv. ríkisstj. í trausti þess, að hún gerði eitthvað til bjargar atvinnulífinu það fljótt, að það þyrfti ekki að stöðvast af þeim orsökum. Þessi fundur mun hafa verið haldinn í júnímánuði s.1., og það er liðið mikið á fimmta mánuð siðan, og aftur þann 22. og 23. okt. komu þessir sömu aðilar saman á ný til þess enn á ný að ítreka þær till., sem þeir höfðu áður lagt fram fyrir hæstv. ríkisstj. Ég ætla, að þessir menn séu ekki óvinveittir hæstv. ríkisstj., og ég hef ekki heldur heyrt, að þær tillögur, sem frá þeim fundi komu, hafi fengið nein mótatkvæði, og sá maður, sem stýrði þessum fundi, var hvorki meira né minna en hv. 4. þm. Vesturl. (JÁ), og ég ætla, að þar sem hann hefur atvinnurekstur með höndum, sé honum eins kunnugt og hann sjái eins þær leiðir, sem færar eru út úr þeim ógöngum, sem atvinnulifið er komið f, eins og hæstv. ríkisstj., og vil ég, með leyfi forseta, lesa hér upp þær ályktanir, sem samþ. voru á fundi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna:

„Aukafundur Sölumiðstöðvar hraðfrystihús. anna, haldinn í Reykjavík 22.-23. okt. 1963, ítrekar fyrri ályktanir frystihúsaeigenda um hið alvarlega ástand í hraðfrystiiðnaði landsmanna vegna síhækkandi rekstrarkostnaðar, á meðan sáralitil verðhækkun hefur orðið á frystum sjávarafurðum á erlendum mörkuðum. Niðurstöður nefndar, sem kjörin var á aðalfundi SH í júní s.l. til að gera reikningslega athugun á starfsgrundvelli hraðfrystihúsanna, leiða í ljós, að við núverandi ástand er rekstrartap; sem nemur um 14% af söluverðmæti. Hlýtur það óhjákvæmilega að leiða til algerrar rekstrarstöðvunar.

Til þess að leiðrétta starfsgrundvöli frystihúsanna bendir fundurinn m.a. á eftirfarandi atriði: Að vextir Seðlabanka Íslands á afurðalánum verði lækkaðir í 3 % og útlán hans aukin í 2/3 af fob.-verði. Að útflutningsgjöld, 7.4%, verði afnumin og tekna í þeirra stað aflað á annan hátt. Að aðstöðugjald af fiskvinnslu verði afnumið. Að tollar á vélum og varahlutum til frystingar og annars fiskiðnaðar verði afnumdir. Að frestað verði í eitt ár að innheimta afborganir af stofnlánum sjávarútvegsins. Að rafmagn til fiskvinnslu verði lækkað.

Að því leyti sem framangreindar ábendingar nægja ekki til þess, að heildarlagfæring á núverandi starfsgrundvelli frystihúsanna nemi a.m.k. 14 % af söluverðmæti miðað við núverandi hráefnisverð og kaupgjald, þá verði það bætt á annan hátt.

Fundurinn tekur það skýrt fram, að frekari kaup- og verðhækkanir en þegar eru orðnar er óhugsandi, að frystihúsin taki á sig þrátt fyrir umrædda 14% leiðréttingu, nema til komi sérstakar bætur í einu eða öðru formi til þess að mæta stikum hækkunum. Fáist ekki samkomulag um rekstrargrundvöll fyrir hraðfrystihúsin, sem að dómi stjórnar SH er viðunandi, samþykkir fundurinn að fela stjórn SH að leita umboðs frystihúsanna til rekstrarstöðvunar.“

Þá samþykkti fundurinn svo hljóðandi ályktun :

„Aukafundur SH, haldinn í Reykjavík í okt. 1963, samþykkir, að unnið verði að því ásamt öðrum hagsmunafélögum sjávarútvegsins að stofna stéttarsamband framleiðenda sjávarafurða.“

Mér finnst, að þarna komi skýrt fram ástandið, sem ríkir hjá aðalatvinnuvegi og varðandi aðalútflutningsframleiðslu þjóðarinnar, þ.e. sjávarútveginn, og þarna sé líka bent á leiðir til bjargar þeim rekstri, svo að betur megi fara en verið hefur. Og ég held, að það sé ekki hægt fyrir hæstv. ríkisstj. að fá meira vantraust en þessar ályktanir, sem hún hefur fengið og það frá sínum ágætu stuðningsmönnum, sem mjög margir voru á þessum fundi: Að viðreisnarstefnan hefur leitt til þess eftir tæp 4 ár, að það er enginn grundvöllur lengur fyrir því að gera út á Íslandi. — Og ég hef áður lýst því, að það er í raun og veru engin leið fyrir Íslenzka bændur að búa, nema þá, sem voru búnir að koma fjárhagslega fyrir sig fótunum, áður en viðreisnin hófst, og geta búið án þess að leggja nokkurn verulegan skerf til framkvæmda, sem kosta sem neinu nemur, siðan viðreisnarstefnan hófst í landinu. Og það er undarlegt, að þetta skuli hafa komið fram í júnímánuði s.1., rétt eftir kosningarnar. En nokkuð er það vist, að sendisveinar hæstv. ríkisstj. riðu gandreið um allt landið á s.l. vetri og s.l. vori til að lýsa ágæti ríkisstj. og hversu vel og ágætlega viðreisnarstefnan hefði tekizt. En tæpum mánuði eftir kosningar er svo komið, að það er ekki neinn grundvöllur fyrir því að gera út á Íslandi.

Hvað skeði á þessum stutta tíma, sem leið frá kosningunum og þar til fulltrúar komu saman hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna? Hvað skeði? Mér er nær að halda, að það hafi ekkert skeð á þeim tíma. Það, sem skeði, var komið fram þegar fyrir kosningar, en mátti ekki verða landslýð kunnugt, vegna þess að það var ekki í samræmi við þá stefnu, sem ríkisstj. þurfti að lýsa fyrir þjóðinni, svo að hún gæti með einhverjum brögðum, þótt bolabrögð væru, haldið velli, sem kallað er, á sviði stjórnmálanna.

Stjórnarstefnan, eins og hún var lögð fyrir þjóðina og eins og hún hefur verið framkvæmd, var dauðadómur fyrir allan atvinnurekstur landsmanna. Og þetta hefur hæstv. ríkisstj. alltaf verið að sanna sjálf betur og betur, að því er varðar atvinnulífið. Ég hef nefnt hér fjögur atriði, sem ríkisstj. sjálf hefur bent á að hafi mislukkazt í sinni stefnu, og þessi fjögur atriði eru öll varðandi atvinnurekstur landsmanna fyrst og fremst. Og sú ríkisstj., sem tekst ekki að koma grundvelli undir atvinnulífið, er dauðadæmd, vegna þess að það er þýðingarlaust að ætla sér að búa, án þess að það sé hægt að sjá atvinnulífinu í landinu fyrir sómasamlegum vaxtarskilyrðum.

Það má líka lita á aðra þætti þessa máls og aðra þætti í stjórnarstefnunni. Frelsi hefur töngum verið hjartkært orð í eyrum okkar íslendinga, og það er ekki heldur að undra, vegna þess að við vorum einokaðir af erlendum þjóðum um aldaraðir, og orðið frelsi var því eitt af þeim orðum, sem bezt hafa hljómað í eyrum okkar Íslendinga allt fram á þennan dag. Það vantaði ekki heldur á það, að þessi nýja þjóðfélagsstefna, íhaldsstefnan, boðaði frelsi. Hún boðaði mikið frelsi í heimi viðskiptanna. Og vera má, að margur hafi haft gott af því frelsi, en því miður held ég, að hinir séu fleiri, sem hafa síður en svo gott af því frelsi.

Þegar litið er á þetta frv., þar sem það felur í sér launastöðvun hjá nokkrum hluta þjóðarinnar auk skerðingar á mannréttindum, þá er rétt að íhuga, hvað gerzt hefur bara á þessu ári í launamálum í landinu. Það er búið að hækka taun opinberra starfsmanna að meðaltali um 45% og miklu meira hjá stórum fjölda þeirra, þannig að launamismunur hér er nú meiri en hann hefur nokkru sinni verið áður. Það er í öðru lagi — og það er ekki þýðingarminna — búið að gefa álagningu, t.d. á bifreiðaverkstæðum, frjálsa, þannig að verkstæði, sem hefur menn fyrir verkamannakaup, getur lagt ótakmarkað á þá vinnu og selt sína þjónustu á margföldu verði, án þess að hinn kauplági verkamaður njóti þar nokkurs. Þetta sýnir bezt, að það frjálsræði, sem er að skapast á verzlunarsviðinu, er að verða óbærilegur baggi á þjóðinni og mjög erfiður draugur fyrir ríkisstj. að glíma við. Það er í þriðja lagi frjáls álagning á mörgum vörutegundum frá s.l. vori, miklu fleiri vörutegundum en nokkru sinni hefur áður verið í landi voru. Það var gefin út reglugerð eða tilkynning 18. maí, rétt fyrir kosningarnar í vor, um stórfelldan vöruinnflutning, sem ekki átti að vera háður neinu hámarki að því er álagningu snertir. Og þessar vörur eru bæði matvörur, fatnaður alls konar, búsáhöld, byggingarvörur, járnvörur, rafmagnsvörur, ritföng og ýmsar aðrar nauðsynlegar vörur. Það er ekki að undra, þótt blómlegt sé sums staðar um að litast hjá verzlunarstétt þessa lands. Auk þess er hámarksálagning á vörum, sem leyfileg er, þar sem hún er takmörkuð, allt upp í 42–43% á fjöldamörgum nauðsynjum. Og nokkuð er víst, að ef á að bæta lífskjör almennings í þessu landi hliðstætt því, sem verzlunarstéttin lifir, þá má bæta lífskjörin nokkuð mikið, því að svo virðist þar vera rúmt nm hendur, og við þurfum ekki annað en aka hérna niður Laugaveginn og eftir Suðurlandsbrautinni til þess að sjá, hverjir hafa haft aðgang að lánsfénu á undanförnum áram og hverjir það eru, sem geta borgað þá vexti, sem hæstv. ríkisstj. ætlar atvinnulífinu að borga.

Mér finnst, að skýringin sé nokkuð augljós, þegar maður kemur til höfuðborgar landsins. Þá sér maður, hvert fjármagnið streymir og að vel hefur tekizt að veita fjármagninu í þau fallvötn, sem íhaldsöflin ætluðu sér í upphafi, þegar þau mynduðu ríkisstj. haustið 1959, og unnið hefur verið að alltaf síðan.

Ég hef drepið hér á nokkur atriði í viðskiptalífinu, þar sem frjálsræði ríkir, að mér finnst, úr hófi fram. Og hæstv. ríkisstj. telur sig vera talsmann frelsis í viðskiptaheiminum. En þetta frelsi hæstv. ríkisstj. er að leiða þjóðina út á hála braut, sem erfitt mun að fóta sig á, því að þetta frelsi er að verða fjötur um fót margra þegna þessa þjóðfélags, og það er líka fjötur um fót atvinnulífsins til lands og sjávar. Það er frelsi sumra þegna þjóðfélagsins, sem er að soga til sín of stóran hlut úr atvinnurekstrinum, svo að hvorki frystihúsaframleiðsla né önnur þjóðarverðmæti frá undir því risið.

Það eru mennirnir í hinum frjálsa viðskiptaheimi hér á landi, sem geta borgað það, sem ríkisstj. ætlar almenningi að borga, en aðrir ekki. Og þessir menn þurfa ekki heldur að spyrja Pétur né Pál, hvað þeir leggja sér til neyzlu daglega. Það er enginn vafi á því, að það er of mikið af fjármagni bankanna bundið í þessum ónauðsynlega varningi, sem hefur verið fluttur til landsins að undanförnu, og of mikið af fjárfestingu bundið í því húsnæði, sem er yfir þennan óþarfa varning. Innflutningurinn er skipulagslaus og skapar öryggisleysi fyrir landslýð. Ef gjaldeyrir er ekki nægur, hvaða trygging er þá fyrir því, að þjóðinni verði séð fyrir helztu nauðsynjavörum, svo sem mjölvörum og sykri og alls konar fatnaði, sem inn er fluttur? Er nokkur trygging fyrir því, að þessar vörubirgðir, sem jafnan þurfa að vera til í landinu, séu nægjanlega miklar? Mér er sagt nú, að það sé skortur á sumum vörutegundum hér í landinu þrátt fyrir hina miklu gjaldeyrissjóði, sem til eiga að vera erlendis, að því er sagt er. Og erum við Íslendingar það efnuð þjóð, að við getum veitt okkur frjálsræði viðskiptalífsins ótakmarkað? Er ekki aðalatriði okkar að treysta grundvöll atvinnulífsins og miða siðan okkar viðskipti við það, sem atvinnureksturinn færir okkur í aðra hönd? Sú þjóð, sem metur lýðræði sitt að verðleikum, verður jafnan að huga vel að hornsteinum atvinnuveganna. Á það hefur mikið skort hjá núv. hæstv. ríkisstj., og hún virðist ekki hlusta á raddir þeirra, sem til þekkja.

Ég las hér áðan ályktanir frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Þar er farið fram á það, að vextir af afurðalánum lækki niður í 3% og lánaðir séu 2/3 af fob.-verði afurðanna. Í hvað hefur spariféð farið, þegar það er komið nokkuð á fjórða milljarð og hefur því sem næst tvöfaldazt, að því er hæstv. fjmrh. tjáði, í tíð hæstv. núv. ríkisstj.? Vilja þeir, sem til þessara hluta þekkja og eru hér viðstaddir, upplýsa það í stórum dráttum, í hvað fjármagnið hefur farið, því að það er gott fyrir þjóðina að vita sannleikann í þessum efnum?

Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna benti á fleira en vaxtalækkun. Hún benti á, að það þyrfti að afnema þessi háu útflutningsgjöld, sem nú gilda og eru 7.4%, og enn fremur benti hún á, að það þyrfti að lækka tolla og skatta á þeim tækjum og varahlutum til þeirra, sem sjávarútvegurinn nauðsynlega þarfnast. Það er enginn vafi á því, þegar litið er á ríkisreikninginn á undanförnum árum og eftir því sem hæstv. fjmrh. hefur lýst fjárhag ríkisins fyrir yfirstandandi ár, að þar er um verulegan afgang að ræða, og út af fyrir sig á maður kannske ekki að lasta það, að einhvers staðar séu til digrir sjóðir, eins og það er orðað. En of mikið má þó af öllu gera. Og sé það svo, að atvinnureksturinn sé svo skattlagður, að hann þoli ekki skattgreiðsluna, ber ríkissjóði að innheimta minna af atvinnulífinu og sjá atvinnurekstrinum betur borgið en verið hefur. Er það forsvaranlegt að láta ríkissjóð safna stórum sjóðum, á sama tíma og skuldir myndast við margvíslegar framkvæmdir ríkisins, t.d. vegagerð, brúargerð,

hafnargerð, skólabyggingar ásamt ýmsu fleiru, því að þau bæjar- og sveitarfélög, sem hafa tekið á sig að sjá um þessar framkvæmdir, verða að taka á sig stórar byrðar vegna þeirra lána, sem tekin eru upp í framlagið, sem ríkið á að inna af hendi lögum samkv. til þessara framkvæmda? Mér virðist, að sé svo, að ríkissjóður hafi rúmt fé til umráða, þá eigi hann fyrst og fremst að greiða áfallnar skuldir í þessum efnum og þar með létta á hlutaðeigandi aðilum þær byrðar, sem þeir hafa á sig tekið. Þá er það vitað mál, að aðaltekjur ríkissjóðs eru fengnar með svokölluðum neyzlusköttum, og þar borgar almúgamaðurinn engu minna en hinn, sem hefur betri ráð, og oft meira, og honum verður það tilfinnanlegra en öðrum, ef hann hefur fyrir stórum fjölskyldum að sjá.

Mér datt í hug út frá þeirri sögn hæstv. fjmrh., þegar hann var að lýsa hinum digru sjóðum, sem orðið hefðu til í hans stjórnartið, saga, sem ég heyrði fyrir mörgum árum af bónda einum, sem var að hæla sér af því að vori til við gesti sína, að hann hefði verið eini bóndinn í sveitinni, sem hefði átt miklar heybirgðir um vorið, allir aðrir hefðu orðið heylausir, og ástandið var siður en svo gott hjá hans nágrönnum vegna tíðarfarsins og þess, að heybirgðirnar nægðu ekki, en hann hefði sjálfur miklu getað bjargað, ef hann hefði viljað sjá af sínu til þeirra hluta. En sonur þessa bónda, sem heyrði á sögn föður síns, sagði: „Þú átt að skammast þin, pabbi,fyrir að vera að segja nokkrum manni frá þessu, því að þú gazt bjargað öllu saman.“

Ég vil minna hæstv. fjmrh. á, að það er rétt fyrir hann að hugsa til þeirra, sem verst eru staddir í þessu þjóðfélagi, og hann hefur möguleika á að rétta hjálparhönd, um leið og hann handfjatlar sína digru sjóði, sem myndazt hafa í stjórnartíð hans. Og ég held, að það mundi borga sig fyrir hæstv. ríkisstj. að gá að sér að skattleggja ekki þjóðina meira en nauðsynlegt er, á meðan sýnilegt er, að atvinnulif landsmanna getur ekki staðið traustum fótum. Eða er nokkur mismunur á því, sem láglaunamaðurinn greiðir til þess opinbera í sinni neyzlu eða hálaunamaðurinn? Ég held, að það sé ekki, nema ef um einhvern lúxusvarning er að ræða, sem hann verður að neita sér um, en þarfnast alveg jafnt og hinir, sem betri möguleika hafa á að veita sér hlutina.

Það, sem hér er að gerast, er það, að einræðiskennd sjálfstæðisforingjanna er að brjóta af sér skelina. Með ósannindum í kosningunum í vor fékk ríkisstj. nauman meiri hl, á Alþingi, og þennan nauma meiri hl. á nú að nota til þess að skerða rétt nokkurs hluta þjóðarinnar, eftir að búið er að hlusta á kröfur annarra og verða að verulegu leyti við þeirri bón. Það kom fram í útvarpsumr. í gærkvöld og hefur komið fram hér einnig í umr., að það eigi að bæta kjör láglaunamanna á raunhæfan hátt. Eftir því eru þær kjarabætur, sem veittar hafa verið til margra á þessu ári, ekki raunhæfar. En hver trúir því nú, að það sé hægt frekar að veita láglaunamönnum raunhæfar kjarabætur en öðrum? Ég held, að eftir núv. skattalöggjöf greiði láglaunamenn ekki það mikið í beina opinbera skatta, að það sé hægt að ívilna þeim mikið umfram það, sem verið hefur í þeim efnum. Og fari svo, að skattalöggjöfinni verði breytt, hygg ég, að það verði ekki siður þeir, sem háu launin hafa, sem fá þar sinn skerf, en láglaunamennirnir. í neyzlusköttum sé ég ekki fram á, að það verði auðvelt að ívilna láglaunamönnum frekar en öðrum, meðan þetta skattakerfi gildir. Þá hefur verið minnzt á tryggingalöggjöfina. Þar held ég, að allir séu jafnréttháir fyrir löggjöfinni án tillits til tekna og án tillits til eigna. Og sú þróun, sem hefur orðið í þeim málum í tíð núv. hæstv. ríkisstj., er á þann veg, að hún spáir ekki heldur góðu um það, að láglaunamönnunum verði ívilnað eða þeir látnir njóta hærra hlutar hjá Tryggingastofnun ríkisins en aðrir. Ég veit ekki annað en sá ríki fái jafnt með sínu barni og hinn fátæki og hinn tekjuhái fái jafnt og hinn tekjulitli íbúi þessa lands. Og ég sé ekki fram á, að með þeirri löggjöf verði hægt að sjá láglaunamönnum sérstaklega fyrir raunhæfum kjarabótum, án þess að aðrir njóti þeirra þá einnig. Og ofan á það, að kaup láglaunamanna er fastsett nú, bætist það, að þeir sjá fram á réttindamissi, þeir hafa ekki rétt til að semja um kaup sitt og kjör, og það á líka að taka af þeim það sterkasta vopn, sem þeir hafa haft í höndum í baráttunni hin siðari ár fyrir lífskjörum sinum. Og það er líka þeim mun lakara fyrir þá, þegar þeir hugsa til þess, að það er ekki einungis, að þeir verði við þetta að búa þá tvo mánuði, sem þessari löggjöf er ætlað að gilda, heldur fást engin loforð um það, að þetta verði numið úr lögum, þegar þessi lög falla úr gildi, miklu frekar ástæða til að ætla, að þeir verði við þetta að búa í framtíðinni, a.m.k. í nokkur ár.

Þegar litið er á þetta frv. og litið er á stjórnarstefnuna eins og hún hefur verið á undanförnum árum, spáir það ekki góðu um framtíðina. Mér er sagt, að kona ein hafi átt að segja í vor, þegar kosningaúrslitin voru kunngjörð: „Guð hjálpi íslenzku þjóðinni að þurfa að búa við þetta stjórnarfar áfram.” Margir hlógu að þessu orðatiltæki konunnar og gerðu gys að því. En sannleikurinn er sá, að hún hefur séð lengra fram í tímann en margir aðrir, því að það er alltaf að koma betur og betur í ljós, að ef guð almáttugur verndaði ekki íslenzku þjóðina, þá væri ekki búandi í þessu landi. Við höfum haft góðæri til lands og sjávar, og það er það fyrst og fremst, sem hefur haldið líftórunni í okkur Íslendingum undir því lélega og slæma stjórnarfari, sem við höfum búið við, siðan núv. stjórnarstefna öðlaðist gildi.