08.11.1963
Efri deild: 13. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í C-deild Alþingistíðinda. (1860)

56. mál, launamál o.fl.

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Fjhn. klofnaði, eins og búið er að skýra frá, í þessu máli. Þess mátti auðvitað vænta. Stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. þrír leggja til, að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir, og hað hafa menn heyrt af framsögu hv. frsm. meiri hl. Við hv. 6. þm. Sunnl., Helgi Bergs, leggjum til, að frv. verði fellt, og rökstyðjum þá till. okkar á þskj. 64.

Mál þetta er nú búið að vera fulla viku til umr. hér á Alþingi og stundum á næturfundum og hefur verið kappsamlega rætt. Einnig var það rætt í útvarpi tvö kvöld í sambandi við vantraust á stjórnina. Litla þýðingu virðist þess vegna hafa að ræða það öllu meira hér, áður en afgreiðsla fer fram.

Ég sé ekki sérstaka ástæðu til að svara frsm. meiri hl., vegna þess að ég varð þess ekki var, að í ræðu hans kæmi neitt fram annað en það, sem búið er að svara undanfarna daga og svara rækilega. Í nál. meiri hl, á þskj. 65 er heldur ekkert, sem í tekur. Hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hér á Alþingi virðast staðráðnir í að gera frv. að lögum, hvað sem tautar og raular og hve illa sem þeim gengur að mæla því bót og hversu margar áskoranir sem þeir fá frá mannfundum víðs vegar að um að gera ekki þessa ósvinnu. Virðast þeir ekki láta sig neinu skipta, þótt áskoranir þessar séu jöfnum höndum frá þeim, er kusu þá til þings í sumar, og jafnvel varaþingmenn flokka þeirra þar með. Engin einasta hjáróma rödd hefur heyrzt, svo að ég viti, í þessum áskorunum. Einhver hv. þm. sagði hér í umr., — ætli það hafi ekki verið hv. 9. landsk.? — að mótmæli hefðu líka komið gegn landhelgismálsafgreiðslunni, en nú væru þau þögnuð, alveg þögnuð. Þetta er vesæl huggun. Um samninginn við Breta um þriggja ára veiðileyfið innan landhelginnar- þýðir ekki að tala. Það er orðinn hlutur og nálega liðið hjá. En á ánauðarákvæðið eilífa í samningnum um, að Íslendingar þurfi jafnan að sækja um leyfi Breta til nýrrar útfærslu íslenzku landhelginnar, er ekkert farið að reyna, En þegar að því kemur, þá mun ekki verða talað lágt eða mildilega um þá mannhópa Alþingis, sem 1961 voru svo ósjálfstæðir og geðlausir að gera þá samninga. Hins vegar mun halda áfram linnulaus ádeila á þá, sem lögfesta frv. þetta um kaupbindinguna og afnám samningafrelsis launþeganna, þangað til frv. er að engu orðið eða lögin. Þetta mál er þess eðlis, að eldur þess logar hvern dag þangað til, þó að þannig sé ekki með landhelgismálið. En landhelgismálið er eins og falinn eldur. Þeir, sem eiga sök á honum, ættu sem minnst um hann að tala.

Hæstv. ríkisstj. hafði á sér hátt ris, þegar hún tók völd í nóv. 1959. Það var eins og hún teldi sig hafa fundið allan sannleika í eitt skipti fyrir öll. Risið er lægra núna, enda eru máttarviðirnir brotnir. Í umr. um þetta stjórnarfrv. er engin sókn af hálfu hæstv. ríkisstj. eða flokksmanna hennar. Allar ræður flm. frv. hafa haft á sér blæ veikrar varnar, siðasta ræðan líka. Málstaðurinn er nefnilega svo vonlaus. Ísinn. sem gengið er á, er orðinn svo háll. Hvar sem verjandinn stígur, er launhálka undir, og svo eru vakirnar.

Hv. 9. landsk. þm. sagði hér í d. í umr. í gær. að ríkisstj. væri með frv. að fá sér frest, frest til að hugsa. Jú, vist mun henni ekki veita af því að hugsa betur. Þessi hv. þm., sem er mikill taflmaður, orðaði þetta þannig í útvarpinu í gærkvöld, þegar hann var að reyna að bera blak af frv. og af hæstv. ríkisstj.: Taflmaður, sem er að tapa tafli, reynir að koma taflinu í bið til þess að hugsa sig um. — Auðvitað er ríkisstj. að tapa tafli sinu, hann viðurkennir það, hinn hreinskilni maður. En hún vili fá að draga taflslokin eitthvað enn og a.m.k. látast hugsa sig um.

Skagfirzk skrýtla er til um mann, sem kom til Sauðárkróks á skuldaskilatíma, hafði ekkert til að borga reikning sinn með, en bað kaupmanninn að lofa sér að fá herbergi til að hugsa í. Hann vildi koma tafli sínu í einhverja bið. Nú er mér spurn: Hefur ríkisstj. tryggt sér herbergi til að hugsa í, þegar liðsmenn hennar eru búnir að samþykkja þetta frv.?

En það eru fleiri taflmenn en hv. 9. landsk., sem viðurkenna, að tafl hæstv. ríkisstj. standi illa. Hæstv. fjmrh., sem er a.m.k. ágætur og mjög þjálfaður or$ræðutaflmaður, sagði, þegar hann nú í upphafi þessa þings gerði grein fyrir í fjárlagafrv.:

„Á þessu ári er orðinn ískyggilegur halli í viðskiptum við útlönd. Innflutningur hefur aukizt gífurlega. Gjaldeyrissjóðurinn hefur ekki. vaxið frá áramótum, sparifjáraukningin er tregari en áður, eftirspurn eftir vinnuafli í mörgum greinum svo mikil, að enginn vegur er að fullnægja henni, og yfirborganir og undandráttur sigla í kjölfarið. Fiskvinnslustöðvarnar telja sig trauðlega geta risið undir þeirri hækkun kaupgjalds og annars kostnaðar, sem orðinn er:

Þetta allt sagði hæstv. ráðh. um árangurinn í lok fjögurra ára stjórnartimans, eftir 2 aflametsár og á síðasta fjórðungi góðs aflaárs. Og þegar svo orðslyngur maður sem hann er og bogvar, bogvar líka fyrir ríkisstj. hönd, gefur svona skýrslu, þá jafngildir það því, að venjulegur maður hefði sagt:

„Tunnan valt og úr henni allt

ofan í djúpa keldu.“

Af því að hæstv. fjmrh. er vel að sér í skáldskap, dettur mér í hug, að hann vilji, að fram komi síðari helmingur þessarar tunnuvísu Jóns skálds á Bægisá, og skal ég ekki draga hann undan. Seinni partur vísunnar er svona:

„Skulfu lönd og brustu bönd,

en botngjarðirnar héldu.“

Þetta með botngjarðirnar svarar einmitt til þess þrálætis hjá hæstv. ríkisstj. að vilja sitja, þó að allt sé úr tunnunni, og þrálætis fylgismanna hennar við að styðja hana áfram tóma. Þetta frv. er augljós þáttur þess þrálætis.

Ég renndi hérna um daginn augum yfir framsöguræðu hæstv. forsrh. frá því 3. febr. 1960, þegar hann lagði hið svonefnda efnahagsmálafrv. núv. hæstv. ríkisstj. fram á Alþingi, frv., sem átti að verða að löggjöf, sem leiddi til öryggis og bættra lífskjara. Margt, sem stendur í þessari ræðu, gæti verið mikið umtalsefni nú. en ég sé ekki ástæðu til þess að lengja mál mitt með því að þessu sinni. En eitt vil ég nefna. Forsrh. biður þar um aðstoð og frest. Hann segir:

Ríkisstj. biður þing og þjóð um aðstoð til að bjarga þjóðinni frá voðanum, og jafnvel þá, sem líta úrræðin öðrum augum en við gerum, biðjum við að fresta mótaðgerðum um nokkurt skeið og gefa með því reynslunni færi á að kveða upp sinn ólygna dóm.“

Þjóðin varð við þessum tilmælum um aðstoð og vann ósleitilega, aflaði og uppskar þau ár öll, sem liðið hafa síðan. Jafnvel gekk hún svo langt í aðstoðinni, að hún veitti stjórninni meiri hl., þótt lítill væri að vísu, í kosningunum í vor sem leið. Þingið hefur hæstv. ríkisstj. haft í hendi sinni þessi ár. Ekki hefur það eyðilagt neitt fyrir henni. Hún hefur haft það í hendi sinni, með því að fylgismenn hennar hafa verið henni auðsveipir eins og lömb. Stjórnarandstaðan og þar með verkalýðssamtökin hafa sannarlega verið þolinmóð líka, og nú er reynslan búin að kveða upp sinn ólygna dóm, mjög skýran og ákveðinn. Sá dómur hefur verið viðurkenndur af hæstv. ráðh. í þessum umr.

Viðreisnin svonefnda hefur misheppnazt. En hvað skeður þá ? Hæstv. ríkisstj. vill ekki hlýða hinum ólygna dómi reynslunnar þrátt fyrir játningar sínar og þinglið hennar ekki heldur. Hún veit, að hún og frambjóðendur hennar við síðustu kosningar breiddu yfir hinn ólygna dóm í kosningunum, eins og togari breiðir yfir nafn og númer, þegar hann er að ólöglegum veiðum. Hún vill ekki segja af sér, ríkisstj., og láta fara fram kosningar til þess að fullnægja lýðræðisreglum. Hún greiddi sjálfri sér traust við nafnakallið í nótt sem leið, og allt hennar þinglið greiddi henni traust. Og hún vill með frv. þessu kúga vinnandi fólk til að veita sér frest til að hefja misheppnað tafl á ný, halda töpuðu tafli áfram.

Við framsóknarmenn sögðum það fyrir, að hin svokallaða viðreisn gæti ekki annað en tapað, gæti ekki annað en misheppnazt. Til þess þurfti enga sérstaka spádómsgáfu. Það sjálfvirka efnahagskerfi, sem hæstv. ríkisstj. þóttist með aðstoð sérfræðinga sinna hafa fundið upp, hlaut að brjóta sig sjálft, það fæddist feigt. Það var byggt upp vélrænt vegna peningavaldsins og hlaut að reka sig á hið lifandi líf og tapa fyrir mætti þess, eins og líka er komið á daginn. En það hékk lengur uppi en ætla mátti, af því að aflametsár gengu í garð. Eðlilegum ávinningi þeirra ára hefur þessi tilraun Sjálfstfl. og Alþfl., sem þeir nefndu viðreisn, grandað að mestu, slegið að mestu úr hendi þjóðarinnar.

Sjálfsagt er að viðurkenna, að vandasamt er að stjórna málum okkar litlu þjóðar, og grundvallarskilyrði til þess, að það megi takast, er, að það sé gert með víðtæku samráði við fulltrúa þeirra, sem mestan bera hitann og þungann í þjóðfélaginu. Núv. hæstv. ríkisstj. er að of litlu leyti fulltrúi þess fólks. Hún hefur beðið skipbrot sitt, af því að hún hefur tekið of mikið tillit til annarra í þjóðfélaginu. Og frv. það, sem hér liggur fyrir um launamál o.fl., er vottur þess, að hún hefur ekki enn gert sér grein fyrir þessu.

Við framsóknarmenn bárum fram rökstudda dagskrá um efnahagsmálafrv., þegar .það var afgreitt. Hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur minnt á þessa till. við þessar umr. Ég vil minna á hana líka, því að ég tel hana sögulega sönnun þess, að við vildum þá þegar, að tekið væri á vandamálunum með víðtæku samstarfi, sem nú er líka í ljós komið, að giftusamlegra hefði orðið. Ég fékk það hlutverk hér í þessari hv. d. að flytja þessa till. og man ákaflega vel eftir þeim undirtektum, sem hún fékk. Tili. okkar var á þessa leið:

„Þar sem deildin lítur svo á, að þjóðarnauðsyn sé, að unnið verði að skipun efnahagsmálanna með sem viðtækustu samstarfi, ályktar hún að beina því til ríkisstj. að skipa nú þegar 8 manna nefnd — 2 frá hverjum þingflokki eftir tilnefningu þeirra — og verði verkefni n.:

1) Að gera till. og leggja þær fram á þessu þingi, innan 3 vikna, um ráðstafanir, er miðist við að halda verðbólgunni í skefjum og atvinnulífinu í fullum gangi.

2) Að starfa milli þinga á þessu ári og hafa tilbúnar fyrir næsta reglulegt Alþingi heildartill. um skipan efnahagsmálanna.

Og með skírskotun til þess, er að framan segir, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá:

Segja mátti, að stjórnarflokkarnir blésu á þessa till. Var það ekki von, að þeir gerðu það, þegar þeir þóttust hafa fundið allan sannleika þessara mála í eitt skipti fyrir öll? Þeir þóttust sannarlega ekki þurfa á víðtækara samstarfi að halda við að finna ráð til að halda verðbólgunni í skefjum og atvinnulífinu heilbrigðu, eins og þeir oft orðuðu það. Þegar hin ólygna reynsla hefur kveðið upp sinn dóm yfir þeim, virðast þeir vera sömu sjálfbirgingarnir enn. Frv. er með öllum einkennum þess, að svo sé. Þar er ekki verið að leita víðtæks samstarfs. Með því ætlar hinn naumi þingmeirihluti að beita þvingunarlagaofbeldi við verkalýð, verzlunarfólk, bændur og sjómenn. Þessi litli meiri hl. virðist ekkert hafa lært, þó að hann hafi tapað tafti sínu, og þykist nógu stór enn til að ráða við þessi viðfangsefni.

Við minnihlutamennirnir í fjhn. teljum afar ranglátt og mjög óheillavænlegt, að Alþingi setji slík þvingunarlög sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Frv. felur í sér brot á samskiptareglum, sem þjóðfélagið hefur bæði hefðbundið í framkvæmd og löghelgað. Það leysir engan vanda, en skapar ófriðarástand innan þjóðfélagsins, eins og þegar er í ljós komið, enda griðrof gagnvart fjölmennustu stéttum þjóðarinnar, verkalýð, verzlunarfólki, bændum og sjómönnum, hvorki meira né minna. Frv. er um bindingu kaupgjalds óhreyfanlega til hækkunar tvo síðustu mánuði þessa árs og algert bann við vinnustöðvunum sama tíma. Hvort tveggja þetta er fordæmalaust í löggjöf landsins. Það, sem af stuðningsmönnum þess hefur helzt verið bent á til samanburðar, nær ekki samanburði og er villandi. Þetta hefur fullkomlega verið sannað, og hlýtur það, held ég, að stafa af því, að hv. frsm. meiri hl. var hér að minnast á gerðardómslögin síðan 1942, að hann hafi ekki verið við þessar umr., hefur ekki verið heima, að mér skilst, fyrr en í gær og ekki hlýtt á mál manna. Hann er svo samvizkusamur maður, að ég efast ekki um það, að ef hann hefði kynnt sér þetta og heyrt þau svör sem fram hafa komið við þessu, með fullri athygli, hefði hann ekki sagt það, sem hann sagði, því að gerðardómslögin voru hreyfanleg. Það var hægt að fá samræmd launakjör, beinlínis leyft að krefjast samræmingar, áskilinn réttur til hess að krefjast samræmingar á launakjörum. Hins vegar reyndust þessi gerðardómslög, þótt þau væru svona hreyfanleg, illa og stóðust ekki. Og hv. 4. þm. Austf. gerði rækilega grein fyrir því hér í umr, í gær, hvaða dóm þessi löggjöf fékk og hvaða örlög hún beið. En þau örlög voru þannig, að hæstv. núv. forsrh. beitti sér fyrir afnámi þeirra og hafði þó mælt fyrir þeim, þegar þau voru sett. Og hv. frsm. Sjálfstfl., Magnús Jónsson, sem var frsm. þeirra breytingartillagna, sem í raun og veru afnámu lögin, lýsti því yfir, að þau hefðu reynzt þjóðarhneyksli. Það lítur út fyrir það, að sjálfstæðismenn hafi ekkert lært af setningu þeirra laga. En framsóknarmenn hafa lært það, að þeir hafa aldrei léð máls á því síðan að setja slík lög, og eins og tekið var fram í umr. í gær, hefur aldrei tekizt af þeim flokkum, sem með framsóknarmönnum hafa starfað, að koma fram slíkri löggjöf, því að framsóknarmenn hafa ekki léð máls á því að standa að henni. Og það er þess vegna rétt að álykta sem svo, að þessi bindingarlög, sem nú á að setja, séu fram komin af því, að nú eftir 20 ár er Framsfl. ekki viðstaddur í stjórn til að koma í veg fyrir þetta. Það kemur því úr ákaflega harðri átt og er órökrétt að áfellast Framsfl. fyrir ofbeldishneigðir í þessum málum, og er þeirri ásökun vísað til föðurhúsa.

Hv. 9. landsk. þm. skaut því að mér í ræðu hér í gær, að ég hefði átt þátt í því að semja till. sem nm., jafnvel formaður n., sem Framsfl. setti 1957, sem hefðu falið í sér bindingu kaups í 2 ár, og mátti skilja á honum, að í þessu frv. kæmi fram glögglega, að það væri vilji a.m.k. minn, hefði a.m.k. verið vilji minn þá, að verkalýðsfélögin væru beitt ofbeldi í þessum efnum. Ég hef hér hjá mér þetta frv., sem hv. þm. miðaði við, og það, sem hann sérstaklega mun hafa hengt hatt sinn á, er þannig, að þar tollir hatturinn ekki. Það er niðurlag l5. gr., sem er bráðabirgðaákvæði, þar stendur:

„Allir gildandi kjarasamningar skulu framlengjast til 1. nóv. 1959: `

Það var mikið atriði hjá okkur, sem vorum að athuga þessa löggjöf 1957, að óheppilegt væri, að samningar hjá verkalýðsfélögunum hefðu gildi til misjafns tíma, og það hafði sérstaklega bitnað hart á atvinnuvegum þjóðarinnar 1957, að smáhópar höfðu gert verkfall, smáhópar starfsmanna á kaupskipum höfðu gert verkföll, sem stöðvuðu allar siglingar. Þá kom það fram, að jafnvel hinir hörðustu verkalýðssinnar töldu það mikil vandræði og óhæfu, að örfáir menn gætu truflað þannig atvinnulíf þjóðarinnar og gert jafnvel félagsbræðrum sínum í verkalýðssamtökunum stórtjón. Við lögðum það til í þessum till. okkar, að allir verkalýðssamningar fengju sama gildistíma, yrðu uppsegjanlegir eftir sama gildistíma, og þetta ákvæði, sem þarna er sett, miðaðist við það að samræma gildistíma samninganna og farið skyldi á stað með nýja samningagerð 1. nóv. 1959. Þetta var lagt til á árinu 1957, og vitanlegt var það, að þessar till., þó að þær hefðu hlotið eitthvert fylgi og meðferð t.d. í Alþingi, þá voru engar líkur til þess, að þetta yrði að lögum 1957, enda till. aðeins gerðar sem umræðugrundvöllur. Og enn ber á það að líta, að á þessum tíma var vísitala gildandi, svo að kaup gat hækkað samkv. vísitölu og hreyfzt með ástandi verðlagsins fullkomlega þrátt fyrir svona ákvæði. í grg, segir:

„Réttur til vinnustöðvana er sem áður, nema að því leyti er snertir fámenna starfshópa, þegar þjóðfélagshagur krefst að beztu manna yfirsýn, og er þá gætt fullkominnar tillitssemi um úrskurðarvald.“

Þetta átti m.a. að leggjast undir stjórn félagssamtakanna til úrskurðar. Og í niðurlagi grg. er sagt:

„Allar breytingar, sem frv. felur í sér, miða að því, að samningar um kaup og kjör megi takast á réttlætisgrundvelli og komið verði, svo sem unnt er án valdbeitingar, í veg fyrir vinnustyrjaldir.“

Finnst nú nokkrum, að í þessu frv., sem ég get ekki verið að lesa hér upp frá orði til orðs, muni vera svipaður andi og er í frv. því „um launamál o.fl:”, sem við erum hér að ræða? Nei, það er fullkomin mistúlkun að vitna í þetta frv., eins og hv. 9. landsk. þm. gerði í gær, vafalaust af því að hann hefur ekki fullkomlega kynnt sér það.

Í frv. þessu, sem heitir „um launamál o.fl:”, er til málamynda ákvæði gegn hækkun vöruverðs og þjónustugjalda, en með þannig fyrirvörum, að ekkert hald er í ákvæðunum. Þessi ákvæði um verðlagsbindingu eru svo teygjanleg, að þau veita ekkert lið, og má í því sambandi vitna í 4. gr., siðari mgr. hennar. Frv. er þannig, að fólkinu, sem kaupbindingin á að bitna á, skal fjötruðu kastað í ljónagryfju dýrtíðarinnar. Það getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér, ef hún er bundin.

Aftur á móti eru þeir stóru starfsmannahópar, sem nýlega eru búnir að semja um kauphækkun fyrir sig, öðruvísi og betur settir, þó að þeir vafalaust gleðjist ekki yfir meðferðinni á hinum, sem í gryfjuna á að kasta. Ég hef ekki heyrt nokkra rödd, sem bendir í þá átt, að þeir fagni því út af fyrir sig að vera orðnir hólpnir í þessu sambandi. En þeir eru býsna vel hólpnir ýmsir.

Hv. frsm. meiri hl. minntist hér á það, að hann hefði heyrt því bregða fyrir í umr. í gær, að það væri talið, að ríkisstj. hefði átt þátt í því, eða eiginlega staðið að því, að bankastjórar hefðu fengið hækkuð laun, að bankastjórar hefðu nú 400 þús. kr. eða meira í laun, um leið og verkamaðurinn almenni fær ekki nema rúmlega 67 þús. kr. fyrir allar virkar vinnustundir ársins samanlagðar, og eru þær þó vafalaust fleiri en vinnustundir bankastjóranna, þó að ég vilji ekki taka undir það, sem sagt hefur verið hér, að þær séu aðeins 6 á viku, þær eru náttúrlega miklu fleiri. Hann sagði það, frsm. hv., að þetta, að ákveða kaup bankastjóra, heyrði undir bankaráð, en ekki ríkisstj., og það er vafalaust alveg rétt hjá honum. En hann var að heiman, eins og ég sagði áðan, og þá hefur hann ekki heyrt umr. fyrr en í gær. Og hann hefur ekki heyrt það, þegar því var lýst án mótmæla, að a.m.k. þrír hæstv. ráðh. hefðu, rétt áður en frv. var lagt fram, hraðað sér til þess að koma á bankaráðsfundum til þess að bjarga bankastjórunum inn fyrir gullna hliðið, eins og kallað var. Þessu hefur ekki verið mótmælt, að þeir hafi beitt sér fyrir því, að þessir — raunar ríkisstarfsmenn, þótt þeir heyri ekki undir löggjöfina um ríkisstarfsmenn, fengju bætur á laun sín, svo að þeir lendi ekki undir öxi frv. Þetta taldi hv. frsm, ótrúlegt, og mér skildist raunar á honum, að honum þætti ótrúlegt, að bankastjóralaunin væru eins há og sagt hefði verið. En þetta, sem ég hef nú sagt, kom fram í umr. og því hefur ekki verið mótmælt, svo að ég hafi heyrt. Það er von, að hinn hrekklausi hagfræðiprófessor verði hissa á því að heyra þetta, en ég held hann mætti verða hissa á fleiru. (Gripið fram í.) Um það hef ég enga skýrslu fengið, en hitt var satt og ómótmælt, að vissir meðlimir ríkisstj. hefðu haft um þetta forgöngu. (Gripið fram í.) Ekki er það lóðið, því að það veit hv. frsm., að eitt er að flytja till. um fríðindi einhverjum til handa, en hitt að beita sér á móti því, þegar till. er komin fram, enda munu þessir bankaráðsmenn ekki hafa vitað, hvað til stóð og hversu mikil þvingunarlög átti að setja í þessum efnum.

Þetta launamisræmi er þannig, að það er algerlega óviðunandi. Það væri undarlegt fólk, sem ekki væri óánægt með að frétta það, að hæst launuðu menn þjóðfélagsins fengju kjarabætur, en slagbrandi væri jafnframt slegið fyrir, að láglaunafólk fengi til samræmis bætt kjör sín.

Einn rökstuðningurinn, sem gengur mjög í gegnum frv. þetta, sem fyrir liggur, í aths. þess, og kemur einnig fram í ræðum þeirra, sem mæla með frv., kom líka fram hjá hv. frsm. meiri hl., er það, að þegar allir krefjist kauphækkunar og fái hana, þá fái enginn kjarabót út úr því. Samkvæmt þessum rökstuðningi á að binda kaup þeirra, sem hafa ekki fengið hækkun nú, til þess að kauphækkun hinna verði fullkomnari kjarabót. Misréttið eitt út af fyrir sig gerir frv. óþolandi. Og eitt af því, sem er ljótur draugur, sem gægist fram í ræðum þeirra, sem tala um þetta frv., og kom líka í ljósmál í orðum hv. frsm. meiri hl., er það, að ef þetta frv. nái ekki fram að ganga, ef þessi lög verði ekki framkvæmd, þá verði gengisfelling að ríða yfir. Jafnvel þessi prúði frsm. meiri hl. hafði þennan draug í fylgd með sér til þess að láta hann depla augum framan í þdm. Manni gæti dottið í hug, að í raun og veru væri það gengisfelling, — það er bara ályktað eftir reynslunni, — að hæstv. ríkisstj. teldi gengisfellingu lausnina og kannske jafnvel æskilegustu lausnina, en óframbærilega nema á eftir svona lagaðri tilraun. Og þá gæti maður jafnvel haldið, að frv. sé svona óbilgjarnt sem það er einmitt til þess, að það veki þá óánægju, sem geri kleifara að fella gengið, að gerast frumkvöðull að því að fella gengið, sem yfirleitt er ákaflega óvinsælt, enda fullkomið neyðarúrræði.

Ákvæði frv. eiga samkvæmt hljóðan þess að vera nú þegar búin að öðlast lagagildi. Þau eiga að hafa fengið það, strax og frv. var lagt fram á Alþ. Þetta er ein af furðum frv. Menn eiga að geta orðið sekir samkv. þessu frv. og eru það þá að sjálfsögðu nú þegar eftir viðburðum síðustu daga, þó að frv. hafi enn þá ekki verið afgr. sem lög frá Alþ, og þó að þessir aðilar hafi á þessum dögum hagað sér samkv. gildandi landslögum. Hvaða vit er þetta? Hæstv. ráðh. sjá vitanlega, að með þessu er nokkuð langt gengið. Og hæstv. fjmrh. var að reyna örlítið að liðka til vegna síldarvinnukvenna, sem gerðu samninga, eftir að frv. var lagt fram, og það var með þeim skilningi, að það hefði ekki verið orðið fullkomlega kunnugt þjóðinni, fyrr en eftir fyrsta daginn. Þetta var náttúrlega mjög fallegt gagnvart konunum, og ég skal ekki lá honum það, þó að hann vilji taka þetta tillit til þeirra. En satt að segja er þetta furðuleg lögskýring eftir hljóðan frv.

Hæstv. dómsmrh. virtist búa yfir svipaðri hugsun, þ.e.a.s. þeirri, að það mundi kannske verða árekstrasamt í þessu sambandi, og heyrði ég hann segja, að meiningin væri ekki að svipta menn þeim yfirborgunum, sem þegar eru tíðkaðar. Sjáið þið til, það er bending um, að það sé hægt að fara fram hjá þessu frv. með yfirborgunum. Er þetta ekki skynsamlegt ? Er þetta ekki í raun og veru ofur lítið mildilegt gagnvart þeim, sem eiga að lúta þessum lögum? Ef það er gegnlýst, þá sér maður samt, að í þessari yfirlýsingu kemur fram sami hugsunarhátturinn, sem hefur gengið í gegnum flestar aðgerðir ríkisstj., að hugsa um þá, sem betur mega. Sjáið þið til, þeir, sem hafa peninga, geta yfirborgað, og þeir, sem eru svo lánsamir að vera á vegum peningamanna, geta þá fengið bætt sín kjör. En hinir, sem hafa ekki peningana yfirfljótandi, þeir verða að búa við lögin. Sá fátæki, sem er að berjast áfram og kaupa vinnu til að koma byggingum sinum eða atvinnurekstri áfram, hann er settur með þessu í gapastokkinn og vinnuaflið vitanlega dregið frá honum eftir lögmálum þeim, að þangað leitar fólkið, sem betur er borgað.

Ríkisstj. og frambjóðendur stjórnarflokkanna sögðu um kosningarnar, að allt væri í góðu lagi. Ég heyrði ekki annað a.m.k. Að vísu sagði hv. 9. landsk. hér í gær, að hann hefði í viðtali við blað Alþýðuflokksmanna á Siglufirði talað um, að það gætu orðið erfiðleikar fyrir hendi. En þetta var svo meinleysislega sagt, eftir því sem hann las það upp, að ég hygg, að það hafi ekki vakið neina athygli, enda sjálfsagt ekki til þess ætlazt. En nú er komið annað hljóð í strokkinn, og nú má ganga út frá því sem vísu, að stjórnin segi það satt, að hún eigi í miklum erfiðleikum. Einstætt góðæri frá náttúrunnar hendi í aflabrögðum og fleiru, það hrekkur ekki lengur til að halda efnahagskerfi ríkisstj., viðreisninni, uppihangandi eða fela galla þess. En þessir miklu erfiðleikar réttlæta engan veginn það frv. um kaupbindingu láglaunafólks og afnám samningafrelsis, sem hér liggur fyrir.

Undirokun stétta á Íslandi er fjarstæða úr fortíð, en það virðist eins og höfundar frv. telji það ekki vera. Það var þægilegt að vera atvinurekandi og stórbóndi á Íslandi, meðan þrælahaldið var, meðan hægt var að hafa fólk fyrir matvinnunga eða litið meira. Slíkt er úr sögunni, sem betur fer, og ekki til neins að hugsa sér að taka upp þá þjóðhætti að ætla vissum stéttum að veita slíka þjónustu. Flm. frv. tala að vísu um kaupbindingu þessa aðeins fyrir tveggja mánaða tímabil, eða tvo síðustu mánuði ársins. Þetta á að vera einhvers konar umþóttunartími. En þegar þeir eru spurðir um það, eins og gert hefur verið í umr. hér á Alþ. undanfarna daga, hvort treysta megi því, að kaup og kjör verði eftir 31. des. 1963 látin lúta frjálsum samningum, þá segja þeir, að það sé ekkert vit í að lýsa því yfir, meðan málið sé í rannsókn, og óvarlegt að fullyrða nokkuð um bað á þessu stigi. Þetta er efnislega svar hæstv. forsrh. við svona spurningu. Þess vegna er óhætt að slá því föstu, að allt er í óvissu um þetta að öðru leyti en því, að það er ljóst, að framlenging bindingarinnar þykir geta komið til greina, enda er hún við nána athugun í samræmi við viðreisnarstefnuna. sem miðar að misréttisog misskiptingarþjóðfélagi.

Ég þóttist heyra það rétt í gærkvöld, að hv. 9. landsk. þm., sem er maður hreinskilinn, segði, að það ætti einmitt svo að vera, að gripið væri til slíkra bindinga öðru hverju. Nú stendur þannig á, að verkalýðssamtökin veittu ríkisstj. umþóttunartíma í þessum efnum frá því um miðjan júní s.l. til 15. okt. Þann tíma hagnýtti ríkisstj. ekki og hafði þó beðið um hann og nefnt veitingu hans til staðfestingar af sinni hálfu í viðhafnarstíl: þjóðhátíðarsamkomulag. Það er einmitt á þessum biðtíma, sem starfsmenn ríkisins fengu með kjaradómi stórhækkuð laun, starfsmenn Reykjavíkurborgar vel úti látin sams konar laun og starfsmenn sumra bæjarfélaga. Á þessum tíma fengu líka blaðamenn bætt laun og bankamenn. Bankastjórarnir urðu vist síðastir inn fyrir dyr, að mér skilst hjá þeim, sem hafa fylgzt vei með í þessum efnum. Þegar 15. okt. var kominn, bu$u forustumenn verkalýðssamtakanna ríkisstj. framlengingu á biðtímanum frá miðjum júní, buðu framlengingu um 10-14 daga, ef ríkisstj. vildi á þeim dögum, að loknu þessu fjögurra mánaða umhugsunartímabili, beita sér fyrir frjálsum samningum um kjarabætur. En ríkisstj. hafnaði því boði og lagði í þess stað fram þetta frv. um bann við frjálsum samningum. Það er eðlilegt, að þeim, sem höfðu gefið frestinn, yrði dálítið um það, er svona var að farið. Það er eðlilegt, að þeir, sem gáfu frestinn, gerðu ráð fyrir því, þegar hækkuð voru laun eins stórlega og raun varð á á biðtímanum, að það mundi ekki standa á því, að hækkað yrði hjá þeim einnig, — það er eðlilegt, að þeir héldu, að það mundi ekki standa á því, að þeir fengju einhverja réttingu sinna mála. En svona fór.

Augljóst er, að hér er um freklegt ranglæti að ræða. Það má segja, að grið hafi verið rofin á hinu lægra launaða fólki í þjóðfélaginu og að það hafi verið stofnað til óþolandi misréttis innan þjóðfélagsins og ófriðarbál verið kveikt, sem enginn veit, hve miklu tjóni kann að valda þjóðhagslega og sambúðarlega. Ég býst við, að ýmsir í flokkum stjórnarinnar hafi tekið þetta nærri sér. Það er augljóst, að Alþfl., þó að hann hafi nú verið talinn nokkuð heilsuhraustur í þessum efnum, hefur fengið innantökur. Sagt er, að hann hafi þurft að halda tvo fundi í miðstjórn sinni til þess að fá samþykki á því að vera með í að leggja fram þetta frv. Og Alþýðublaðið birtir 30. okt. samþykktina, sem gerð var að lokum í miðstjórninni, og hún er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstj. undirbúi aðgerðir til að bæta kjör láglaunafólks með raunhæfum ráðstöfunum, svo sem skatta- og útsvarsívilnunum, lágmarkslaunum, tryggingabótum eða öðrum slíkum aðgerðum, er tiltækilegar þykja, og þessum ráðstöfunum verði komið í kring fyrir n. k. áramót, samþykkir fundurinn fyrir sitt leyti, að verðlag og kaupgjald verði fest, þó ekki lengur en til 1. jan. n.k.“

Þessi yfirlýsing er allmerkileg. Hún er handaþvottur vitanlega. Hún er þannig handaþvottur, að flokkurinn kemur ekki með hreinar hendur upp úr handlauginni. Það er kannske ekki von, því að hann er svo oft búinn að þvo sér úr sömu lauginni. Það er eftirtektarvert, að í samþykktinni er verðlagsbinding nefnd á undan kaupgjaldsbindingu, en nú heitir frv. „um launamál o.fl:” í fyrirsögn er ekki einu sinni verðlagsbindingin nefnd, enda er það ákaflega eðlilegt. Höfundar frv. hafa kunnað þar réttilega að setja upp mál. En Alþfl., sér og sinum til huggunar, setur verðlag fram fyrir. Hann segir, að hann treysti því, að kjör láglaunafólks verði bætt með raunhæfum ráðstöfunum, svo sem skatta- og útsvarsívilnunum, lágmarkslaunum og tryggingabótum. Meira færir hann þetta ekki út. En hvernig hægt er að koma þessu við, að visst fólk fái sérstaklega skatta- og útsvarsívilnanir, tryggingar auknar o.s.frv., án þess að það komi líka hinum til góða, sem komnir eru inn fyrir gullna hliðið, er ekki útskýrt.

Hv. 9. landsk. þm. sagði í ræðu sinni í gær, að það að bæta kjör láglaunafólks án kauphækkunar sé sannarlega vandaverk. Þetta er hreinskilnisleg játning. (Forseti: Hv, þm. Ég hafði hugsað mér að gefa kaffihlé, ef þú vildir fresta ræðunni. Ég býst við, að hún sé ekki svo búin.) Jú, það er velkomið. (Forseti: Þá verður fundarhlé til kl. 5.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Það er ýmislegt fleira en það, sem ég var búinn að minnast á, sem bendir til þess hjá Alþýðublaðinu, að Alþfl. hafi ekki verið alls kostar rótt. $g lái honum það ekki, þó að svo sé. Í nýlegu Alþýðublaði segir, með leyfi hæstv. forseta, „að taka þurfi af þeim, sem mestar launabætur hafa fengið, og flytja til hinna, sem hafa orðið á eftir.“ Mér er nú sem ég sjái hæstv. ríkisstj. og hv. þm. Alþfl. fara að taka sérstaklega af þeim, sem komnir eru inn fyrir gullna hliðið. En blaðið segir einnig, að nú verði að dreifa þeim kjarabótum, sem fengizt hafa, og færa til hinna lægst launuðu. Ákaflega væri gaman að vita, hvernig þetta er hugsað, að fara að dreifa kjarabótunum, sem búið er að veita. Það hefur litið borið á því í umr., að gerð væri grein fyrir því. Þó gerði hæstv. fjmrh. tilraun til þess í útvarpsumr. í gær, Hann taldi upp eina 8 liði, sem væru í athugun og kæmu til greina.

Það var afnám tekjuskatts á þeim lægra launuðu. Nú hefði ég haft gaman af að heyra, hvernig þetta er hugsað. Þegar skattalögunum var breytt seinast og persónufrádráttur hækkaður og mikið auglýst af hæstv. ríkisstj., að gert hefði verið stórátak til að létta sköttum af þeim láglaunuðu, þá kom þetta þannig niður, að að vísu var létt lágum sköttum af, en miklu meira fylgdi í lækkun hjá hinum hálaunuðu, vegna þess að toppurinn lækkaði. Mundi ekki fara líkt nú?

Þá nefndi hæstv. ráðh. verulega lækkun útsvara á þeim láglaunuðu. Það er nú sama sagan um þetta.

Þá talaði hann um hækkun barnalífeyris hjá fólki. Mundi það ekki koma líka til góða þeim, sem eru innan við gullna hliðið?

Þá talaði hann um hækkun elli- og örorkulífeyris. Mundi ekki vera sömu söguna um þetta að segja einnig? Ellilífeyrir er greiddur fólki, hvernig sem tekjum þess er háttað, skerðingarákvæði afnumin. Á að taka upp skerðingu aftur, til þess að þetta geti orðið dreifing tekna milli hinna hálaunuðu og láglaunuðu?

Fleira taldi ráðh. í nokkuð óljósum liðum, en liðirnir voru alls 8. Hv. Alþfl.-menn hafa ekkert fram talið í þessu efni. Gaman væri að heyra t.d. viðskmrh. gera grein fyrir því, hvernig hann hyggst framkvæma uppbæturnar til hinna láglaunuðu án þess að hækka kaup, þannig, að þær komi ekki líka að meira eða minna leyti þeim hálaunuðu til góða. En annars eru þær bara blekking, þegar talað er um þær sérstaklega í sambandi við hina láglaunuðu.

En þessi upptalning hæstv. fjmrh. minnti mig dálítið á það, þegar hann hélt sína fyrstu framsöguræðu fyrir hönd þessarar hæstv. ríkisstj. hér á Alþingi og taldi upp yfir 30 sparnaðarliði, og svo bættu samherjar hans í fjvn. fleiri liðum við, svo að mig minnir ekki betur en þeir væru að lokum orðnir 59, fyrirhugaðir sparnaðarliðir. En svo er nú komið með þessa sparnaðarliði, að þeir hafa horfið sporlaust á þessum árum, sem liðin eru síðan, ekki fyrir það, að sparnaðurinn hafi verið framkvæmdur, heldur fyrir það, að þeir hafa fallið niður þegjandi og hljóðalaust. Það eru til höfundar, sem ég hef heyrt nefnda titilblaðshöfunda. Það eru höfundar, sem byrja á því að semja titilblaðið fyrir auglýsingar, eru sérstaklega snjallir í því að búa út álitleg titilblöð, en þekktir að því að skrifa svo annaðhvort ekki meira eða bók þeirra verður allt annað en á titilblaðinu stendur. Mér finnst hæstv. ríkisstj. minna á þessa titilblaðshöfunda, og upptalning hæstv. fjmrh. í gær minnti mig alveg sérstaklega á þá, af því að ég mundi svo vel eftir hinum mörgu sparnaðarliðum, sem hann lýsti yfir að yrðu framkvæmdir, þegar hann fyrst flutti sína fjárlagaræðu sem ráðh. í þessari stjórn. Við höfum séð titilblaðið. Gaman verður að vita, hvernig bókin verður á bak við titilblaðið.

Það er mikil áherzla lögð á hinn nauðsynlega biðtíma, sem stjórnin þarf að fá. Það er nú reyndar sorglegt, að jólin skuli lenda inn í þennan biðtíma, því að það er helzt útlit fyrir það, að þessir menn fái ekki tækifæri til að njóta jólanna. Ég gæti bezt trúað, að verkefnið væri svo erfitt, að það veitti ekki af jóladögunum líka til þess að leysa það. En þeir fjórir mánuðir, sem liðu í sumar, án þess að nokkuð væri gert, voru alllangur tími. Þeir eru hjá sumum kallaðir bjargræðistími. Þessi tími mátti vera bjargræðistími ríkisstj. Hvernig fór hún með hann? Það er sagt um Hrafna-Flóka, að hann hafi ekki gætt þess að heyja sumarmánuðina, og féll því hjá honum fénaður veturinn eftir. Þeir hafa nú líklega ekki verið við sömu iðju og Hrafna-Flóki, en hins vegar er sagt, að þeir hafi ferðazt víða um lönd og skemmt sér þessa sumarmánuði. Satt að segja finnst mér það, þó að réttmætt sé, að menn taki sér sumarfrí og skemmti sér, ásökunarvert að fella niður að framkvæma það hátíðarsamkomulag, sem gert var um miðjan júní. Þessi vinnubrögð, að hafast ekkert að þennan langa tíma, að þiggja ekki fram boðinn 10—14 daga frest hjá verkalýðssamtökunum og slengja svo á þessu frv., sem á að verða að lögum, um leið og það er lagt fram, minnir nokkuð á söguna um það, sem gerðist í eitt sinn í Perluhöfn. En sleppum því. Ríkisstj. hefur hafnað leið frjálsra samninga, og með því að gera það er hún líkust manni, sem lent hefur t sjóinn, hrindir frá sér bjarghring, en reynir þess í stað að skríða upp á tundurdufl. Skyldi þar verða gott næði til að hugsa? Já, skyldi verða gott næði til að hugsa þar?

Hæstv. fjmrh. spurði mig áðan: Er tundurduflið virkt? Honum fannst það vitanlega skipta nokkru máll. Máske hæstv. ríkisstj. búist við, að samtök hins mikla fjölda vinnandi fólks á Íslandi séu ekki virk. Ja, við bíðum og sjáum, hvað kemur í ljós.

Með því að tala svona er ég ekki að mæla því bót, að lög séu ekki haldin, jafnvel þótt ekki séu réttlát lög. En hins vegar mundi ég ekki lá verkalýðssamtökunum, þó að þau hömluðu á móti þessari löggjöf og sniðgengju hana og eyddu henni og áhrifum hennar þannig.

Það getur nefnilega orðið sprenging, þótt frv. verði lögleitt, og a.m.k. réttlát. Auðvitað mál er það, að ríkisstj. sem stjórn út af fyrir sig væri það frjálst að fara upp á tundurdufl, en hún gerir það í umboði þjóðarinnar, hún telur sig hafa umboð þjóðarinnar til þess, og hún gerir það á kostnað þjóðarinnar. Ég er þess fullviss, að hún hefur ekki nægilega athugað, hvað þetta er dýrt spaug, ef spaug skyldi kalla.

Við minnihlutamenn fjhn. vitum vel, að það er illa komið í efnahagsmálum. En þó að það sé, má ekki eiga sér stað þvílíkt ranglæti, sem hér á að vinna með frv. þessu, og þar að auki er það ekkert úrræði, það er engin lausn vandamáls. Við teljum, að eftir leið hinna frjálsu samninga verði að skapa heildarsamræmi í launamálum, þ.e. rétt launahlutfall, og það verði ekki komizt hjá því að rétta hag þess fólks, sem nú á að fjötra með bindingarákvæðum þessara laga, — rétta hlut þess með því að samræma kaup þess því kaupi, sem búið er að löggilda í landinu. Ég fer ekkert út í það, hvort það kaup er yfirleitt of hátt eða ekki, ég fer ekkert út í það, hvort kjaradómur hefur gengið of langt. Hann er dómur og hans úrskurði verður að lúta. Um hans verk geta sjálfsagt verið skiptar skoðanir. En hitt er alveg víst, að kaupið verður ekki samræmt með því að færa til baka hjá þeim, sem þegar hafa fengið hækkun. Eina leiðin til samræmingar er að hækka til samræmis. laun þeirra, sem á eftir eru. Og einhverjar hómópatalækningar í þessum efnum duga ekki. Þetta hjal um afnám tekjuskatts á lágtekjum, lækkun útsvara, hækkun ellilífeyris og fjölskyldubóta nær ekki tilgangi í þessum efnum. Það getur orðið til hjálpar að einhverju leyti, en það er engin heildarúrlausn. Við teljum, að þetta muni vera hægt og það verði að vera hægt. Við teljum, að einbeita verði kröftum þjóðarinnar og þjóðfélagsins til þess að gera atvinnuvegunum fært að greiða það kaup, sem slik samræming krefst. Við álítum, að þetta hljóti að vera hægt. Land okkar er, eins og það hefur sýnt þessi viðreisnarár, mjög gjöfult land, þrátt fyrir það að gjafir þess hafi ekki komið að fullum notum, vegna þess, hvernig með þær hefur verið farið með rangri stjórnarstefnu. Við teljum, að það verði að leggja af alefli áherzlu á að auka framleiðsluna, auka framleiðni og afköst og ekki sízt auka góða hagnýtingu þess, sem aflað er. En eins og við vitum öll, er hagnýting þess, sem aflað er, mjög frumstæð hjá okkur, og þar eru miklir möguleikar til stórkostlegra umbóta. Við teljum, að lækkun innflutningsgjalda af vörum, sem þjóna þessum markmiðum, eigi að eiga sér stað, og við teljum, að útkoma ríkissjóðs hafi sýnt, að það er vel hægt að lækka þau. Við teljum, að það eigi að gera lánastarfsemina hagfelldari og þar með tel ég vaxtalækkun. Við teljum, að það eigi að afnema útflutningsgjöld, eins og samtökin við sjávarsíðuna hafa líka krafizt, og við teljum, að það eigi að afnema launaskattinn, sem lagður hefur verið á bændur. Margt fleira er hægt að gera, ef mynduð yrðu breið samtök með hagsmuni vinnandi stétta og þeirra, sem bera hita og þunga dagsins sérstaklega í landi okkar, fyrir augum. Svona lög eins og felast í þessu frv., sem við erum nú að ræða, er vitanlega hægt að setja. Það er hægt að gera allt að lögum, ef nógu samstæður meiri hl. fæst. En þetta eru eigi að síður ólög, og með lögum skal land byggja, en með ólögum eyða, segir hið fornkveðna.

Við leggjum til, að frv. verði fellt. Við teljum, að það eigi ekki að samþykkja ólög.