08.11.1963
Efri deild: 13. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í C-deild Alþingistíðinda. (1862)

56. mál, launamál o.fl.

Helgi Bergs:

Herra forseti. Eins og hv. þdm. hafa séð á þskj. 64, stend ég ásamt hv. 1. þm. Norðurl. e. að nál. minni hl. fjhn. í þessu máli. Það er ekki vegna þess, að ég hafi svo miklu að bæta við ágæta framsöguræðu hv. frsm. fyrir áliti minni hl., sem ég kveð mér hljóðs, heldur vegna hins, að það eru ýmis atriði í sambandi við þetta frv., sem hér er til umr., og þær umr., sem fram hafa farið fram að þessu, sem ég vil gera að umræðuefni. En áður en ég kem að því, langar mig til þess að fara nokkrum orðum um nokkur atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl. fjhn., hv. 10. þm. Reykv., hér í dag.

Hv. 10. þm. Reykv. gerði nokkuð að umræðu efni störf þeirrar nefndar, sem hér er starfandi undir nafninu kjararannsóknanefnd. í sambandi við það nefndi hann ódrengileg ummæli stjórnarandstæðinga í þessum umr. Ég skal ekki velja því, sem hann hafði að segja um kjararannsóknanefndina, nein lýsingarorð, vegna þess að ég veit, að hv. 10. þm. Reykv. vill gjarnan hafa það heldur, sem sannara reynist í þessu efni, og ég geri ráð fyrir, að ummæli hans hafi stafað af ókunnugleika. En ég get hins vegar bent honum á drengileg ummæli um kjararannsóknanefnd og hennar störf, og þau er að finna í útvarpsræðu hæstv. forsrh. um vantrauststill. í fyrrakvöld. Hæstv. forsrh. sýndi þar fullan skilning á því, sem þarna er um að ræða, og ég vil ráðleggja hv. 10. þm. Reykv. að kynna sér þessi ummæli. En til þess að leiðrétta þann misskilning, sem kom fram í ræðu þessa hv. þm. og því miður er orðinn allt of útbreiddur, má ég til með að fara hér örfáum orðum um það, með hvaða hætti þessi nefnd er til komin, og kanna það lítillega út frá því, hvort ástæða hafi verið til að vænta þess, að hægt væri að bíða eftir áliti hennar með lausn þeirra vandamála, sem fyrir liggja. En hv. 10, þm. Reykv. virtist í sinni ræðu telja það eðlilegt og sjálfsagt, að eftir því væri beðið.

Upphaf þessarar starfsemi er að rekja til þess, að ríkisstj. sendi samninganefndum launþega og vinnuveitenda, sem sátu að samningum hér í Reykjavík, hinn 16. júní s.l. tilmæli um það, að þeir létu í sameiningu fram fara athugun á því, hversu mikil kauphækkun megi verða, til þess að hún komi að gagni fyrir launþega. Ríkisstj. hét stuðningi sinum við þá athugun, m.a. með því að greiða kostnað. Samtök vinnuveitenda svöruðu orðsendingu ríkisstj. með yfirlýsingu, sem þau gáfu út daginn eftir, á þá lund, að þau lýstu sig fús til þess að taka þátt í þess háttar athugun. Samninganefnd verkalýðsfélaganna á Akureyri og Siglufirði, sem var hinn aðilinn að þeim samningaumleitunum, sem þarna var um að ræða, svaraði orðsendingu ríkisstj. hins vegar þann 18. júní, og í því svari var m.a. tekið fram, að samninganefndin mælti með því við miðstjórn A.S.Í., að hún tæki upp viðræður við fulltrúa samtaka atvinnurekenda um sameiginlega hagfræðilega athugun, sem að gagni mætti koma til að létta fyrir kjarasamningum. Sumir hv. stjórnarliðar leggja þetta út á þann veg, að samtökin, sem þarna áttu hlut að máli, hafi fallizt á að setja niður nefnd til þess að reikna út, hvað atvinnuvegirnir gætu borgað og hvað kaupgjald skyldi vera. M.a. minnist ég þess, að fyrir nokkrum vikum skrifaði hæstv. landbrh. grein í málgagn sitt, Suðurland, þar sem hann nefndi þessa nefnd röngu nafni, kallaði hana gjaldþolsnefnd til þess að gefa þetta í skyn, og Morgunblaðið tók nokkrum dögum síðar þessi ummæli upp. En það, sem fallizt var á af hálfu Alþýðusambandsins á þessu stigi, var að taka upp sameiginlega athugun á atriðuna, sem að gagni mættu koma til þess að auðvelda kjarasamninga. Samninganefnd verkalýðsfélaganna hafði fyrir sitt leyti lofað að mæla með þessu við stjórn Alþýðusambands Íslands, og með tilliti til þess tilkynnti svo Alþýðusamband Íslands með bréfi, dags. 16. júlí, samtökum atvinnurekenda, að Alþýðusambandið væri reiðubúið til þess að taka upp viðræður um sameiginlega rannsókn, sem gæti stuðlað að því að auðvelda kjarasamninga — aftur þetta orðalag — að uppfylltum ýmsum skilyrðum. Næsta dag tilkynnti Vinnumálasamband samvinnufélaganna, að það væri reiðubúið til þátttöku, og tilnefndi sinn fulltrúa til þessa starfs þann dag, 17. júlí. Vinnuveitendasamband Íslands á hinn bóginn mun ekki hafa tilnefnt sinn fulltrúa til þessa starfs fyrr en 30. júlí, og 31. júlí koma svo fulltrúar þessara samtaka saman í fyrsta sinn. Þá kom í ljós, að Alþýðusamband Íslands hafði ekki valið af sinni hálfu þá menn, sem að þessu skyldu starfa, heldur mættu fulltrúar stjórnar Alþýðusambandsins til viðræðna um þetta á þessum fundi, og það dróst í nokkra daga, að þeir tilnefndu sína fulltrúa, m.a. sökum þess, að einn af þeim mönnum, sem þeir óskuðu eftir að hafa í þessu starfi, var utanbæjarmaður, sem ekki gat brugðið skyndilega við og komið til Reykjavíkur fyrirvaralaust.

Þannig stóð á því, að störf þessarar nefndar hófust ekki fyrr en um miðjan ágúst, og raunar ekki af fullum krafti fyrr en nokkurt undirbúningsstarf til viðbótar hafði verið unnið.

Nú er eðlilegt, að menn spyrji sjálfa sig um það, hvort ríkisstj. hafi verið ljóst, að nefndin skildi ekki verkefni sitt á sama hátt og það var skilgreint í hinum upprunalegu tilmælum ríkisstj., nefnilega að athugun færi fram á því, hversu mikil kauphækkun mætti verða, til þess að hún kæmi að gagni fyrir launþega, eins og það var þá orðað. Var ríkisstj. ljóst, að það var alls ekki fallizt á að gera þetta, heldur hitt, sem ég er búinn að segja frá, nefnilega að athuga ýmis atriði, sem talið var að kæmu að gagni við gerð samninga? Og nú skulum við athuga, hvort ríkisstj. hefur verið þetta ljóst eða ekki.

Hinn 16. ágúst, rétt um það leyti sem nefndin var að hefja sín störf, óskaði hún eftir fundi með hæstv. forsrh. til þess að gera honum grein fyrir því, hvernig hún hygðist haga störfum sínum, og einnig til þess að fá staðfestingu á því, að ríkissjóður mundi taka á sig kostnað af þeim störfum, sem nefndin hugðist taka fyrir. í bókun nefndarinnar frá þessum fundi með forsrh. segir frá því, að „Björn Jónsson kvaðst vilja taka það fram til þess að forðast misskilning, að nefndin ætlaði sér alls ekki að gera útreikninga á því, hver kauphækkun mætti verða, heldur væri það skilningur hennar, að hún ætti að vinna að sameiginlegri hagfræðilegri athugun, sem að gagni mætti koma til þess að létta fyrir kjarasamningum,“ ótímabundið í bili. Forsrh. kvað það þá enn fremur skilning sinn á hlutverki n., „að hún aflaði sér sem fyllstra og víðtækastra upplýsinga um það, sem máli skipti og að gagni mætti koma til þess að auðvelda næstu kjarasamninga," segir forsrh. að vísu, en hann kvað „engan misskilning vera um það að ræða, er laut að verkefni nefndarinnar“. í ræðu sinni í fyrradag, sem ég gat um áðan og ráðlagði hv. 10. þm. Reykv. að kynna sér, gat forsrh. þess, að sér væri kunnugt um, að n. hefði þegar aflað Ýmislegra gagna, sem mundu koma samningsaðilum að gagni. En þó verður að draga það í efa, að hve miklu gagni þau koma þeim, eftir að búið er að samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir.

Að gefnu tilefni frá hv. 10. þm. Reykv. sá ég mér ekki annað fært en leiðrétta hér þann misskilning, sem ég nú hef verið að leiðrétta.

Ég fylgdist af nokkurri athygli með ræðu hv. 10. þm. Reykv. Því miður var ég truflaður tvívegis, svo að ég gat ekki fylgzt með henni frá upphafi til enda, en í þessari ræðu sinni ræddi hv. þm. nokkuð um vexti til útgerðarinnar og taldi, að þeir væru ekki það stórmál, sem við framsóknarmenn höfum viljað gera þá að, og tók sem dæmi máli sínu til stuðnings, að í rekstri bátaútvegsins mundu vextir ekki vera nema innan við 1 % af framleiðsluverðmætinu. Þetta væru vextir til rekstrar. Og það mun enginn véfengja hjá hv. þm., að vextir til rekstrar hjá bátaútveginum séu ekki háir, vegna þess að bátaútvegurinn fær engin lán, hann á engar vörubirgðir. Það mun tíðkast, að hver bátur fái smávægilegt lán, kannske 100-150 þús., í nóvembermánuði eða svo, og síðan borgi hann það upp á næstu vertíð. Þessir vextir eru því ekki háir. Ef hv. þm. hefði viljað gefa sannari mynd af vaxtabyrði sjávarútvegsins, hefði hann átt að líta á vexti þeirra greina, sem eiga birgðir langtímum saman. Hann hefði átt að líta á vexti hraðfrystihúsanna, vexti söltunarstöðvanna og skreiðarverkunarstöðvanna. Hv. ræðumaður gat þess að vísu, að stofnfjárvextir bátanna væru ekki meðtaldir í þessu 1%, heldur mundu þeir vera kannske 2—3%. Ég vil nú ráðleggja hv. þm. að kanna þetta töluvert betur. Það kann að vera, að það séu til einhverjir gamlir bátar, sem ekki hafi stofnkostnaðarvexti nema 2—3% af framleiðsluverðmæti sínu, en á hinn bóginn munu líka vera til nýir bátar, sem hafa allt upp í 15% af framleiðsluverðmæti sínu í vaxtagjöld, og ég mundi ráðleggja hv. þm. að kynna sér þetta betur, og þá mundi ég spá því og hef nokkuð fyrir mér í því, að niðurstaðan mundi verða 6%, en ekki 2—3%.

Hv. frsm. meiri hl. sagði í ræðu sinni, að framsóknarmenn héldu því fram, og ég skrifaði orðrétt eftir honum, „að lækkun vaxta mundi leysa allan vanda“. Nú vil ég biðja hv. þm. um að finna þessum orðum sinum stað, að framsóknarmenn haldi þessu fram, eða taka ella ráðum mínum um það að fara varlegar með tilvitnanir í aðra. Sannleikurinn er sá, að framsóknarmenn hafa aldrei haldið því fram, að lækkun vaxta leysi allan vandann, heldur hafa þeir haldið því fram, að lækkun þeirra gæti orðið liður í því að leysa nokkurn vanda. Við höfum yfirleitt ekki lagt það í vana okkar, framsóknarmenn, að gera tillögur, sem eigi að leysa allan vanda. Ég minnist þess hins vegar fyrir 4 árum, að þá voru menn hér á hv. Alþingi, sem voru að tala um að horfast í augu við allan vandann í einu.

Síðan ræddi hv. frsm. meiri hl. nokkuð um það, að lækkun vaxta mundi ekki hafa lækkunaráhrif á verðlagið, eins og við framsóknarmenn höfum haldið fram, heldur öfugt. Og þetta sagði hann, að við mundum vita sjálfir, og studdi þetta með tilvitnunum í ræður manna, sem höfðu látið í ljós þá skoðun, að óhófleg útlán styddu að verðbólgu og verðhækkun. Og hann lét bara þegjandi liggja að því, að lækkaðir vextir mundu þýða aukin eða óhófleg útlán. Þetta kann að vera rétt í hinni hagfræðilegu „teoríu“ á frjálsum peningamarkaði. En á hinum knappa peningamarkaði okkar verðbólgulands er þessi „teoría“ ekki rétt, og ég mun koma nánar að því síðar í ræðu minni.

Viðreisnin er nú komin á það stig, að hæstv. ríkisstj., sem kennir sig við hana, leggur nú fram frv. til þvingunarlaga á hv. Alþingi, sem banna frjálsa samninga milli samtaka launþega og atvinnurekenda. Af sumum ræðumönnum hefur þetta raunar verið kallað lög um stöðvun kaupgjalds og verðlags. En ég vil vekja athygli á því, að þau ákvæði, sem fjalla um verðlag í þessu frv., eru svo götótt, að þar er gert ráð fyrir ýmsum verðhækkunum. Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja það. Það nægir í því sambandi að minna á, að hæstv. sjútvmrh. gerði ráð fyrir því í ræðu sinni í útvarpsumr. í gærkvöld, að vísitalan mundi enn eiga eftir að hækka á næstunni þrátt fyrir þessi lög. Eins og rakið hefur verið af öðrum hv. þm. stjórnarandstöðunnar, eru þessi lög, eins og þau birtast í þessu frv., algerlega fordæmalaus og eiga ekkert sammerkt með því, sem gert var, hvorki 1956, 1950 né 1942. En þetta hefur verið rætt svo mikið, að ég skal ekki tefja tímann á því að fara að ræða það ýtarlegar.

Að mínum dómi mótast afstaðan til þessa frv. af því, hvernig menn vilja svara þeirri spurningu, hvort þeir vilji hafa áframhaldandi frjálsa kjarasamninga milli samtaka atvinnurekenda og launþega eða hvort menn vilja taka upp aðra hætti. Mér er eins ljóst og sjálfsagt hverjum öðrum, að það ástand, sem við höfum búið við um tveggja áratuga skeið a.m.k. í þeim málefnum, sem samtök vinnuveitenda og launþega fjalla um, er gallað. Það hefur svo oft verið rakið, hversu mikla erfiðleika við höfum átt við að stríða í kjaramálum og vinnumálum á undanförnu löngu tímabili af þeim ástæðum, að þetta fyrirkomulag okkar hefur reynzt gallað. En ég vil halda því fram, að grundvallarreglan sé rétt og þeir erfiðleikar, sem verið hafa hjá okkur á undanförnum tveimur áratugum í framkvæmd hennar, eigi rót sína að rekja til fyrirkomulagsgalla, sem réttlæti það á engan hátt, að frá grundvallarreglunni sé vikið, heldur beri að leitast við að leiðrétta þessa fyrirkomulagsgalla. Við vitum það, og það hefur komið fram hér í umr., að skipulag A.S.Í. er alls ekki það hentugasta, sem það gæti verið. Heildarsamtökin hafa ekki samningsrétt fyrir hönd einstakra félaga o.s.frv. Afleiðingin er svo mismunandi samningstímar, þannig að einn samningur gengur úr gildi í dag og kannske búið að koma honum saman aftur eftir nokkra daga, og nokkrum dögum siðar gengur úr gildi samningur fyrir aðra launþega, jafnvel á sama vinnustað o.s.frv. Einnig eru á hverjum vinnustað, eins og nú er háttað, meðlimir margra félaga, og þetta er auðvitað allt gallað. Mér dettur ekki í hug að neita því, að þetta er gallað. En ég vil jafnframt vekja athygli á því, að það hefur verið alveg ljóst nú um skeið, að það er vilji fyrir því, bæði í launþegasamtökunum og líka í atvinnurekendasamtökunum, að gera þær lagfæringar á skipulagi þessara samtaka, sem nauðsynlegar eru til þess að sníða verstu vankantana af því fyrirkomulagi, sem við höfum búið við um skeið. Þessi vilji er fyrir hendi, þó að dregizt hafi úr hömlu að gera þetta, og ég vil vekja athygli á því alveg sérstaklega, — ég sé nú, að hv. 4. þm. Norðurl. e. er hér ekki, en hann hefði gjarnan mátt heyra það, sem ég ætla nú að segja, því að ég vildi gjarnan vekja alveg sérstaka athygli á því, að sá dráttur, sem orðið hefur á þessum lagfæringum á skipulagi og fyrirkomulagi, er hættulegastur A.S.Í. sjálfu. Það hefur stefnt sjálfu sér í mesta hættu með því að láta þetta dragast úr hömlu. Á það kannske nokkurn þátt í því, að lagt hefur verið í að leggja svona frv. fram.

En allir þessir erfiðleikar, sem eiga rót sína að rekja til skipulagsmála þessara samtaka, standa til bóta. Það réttlætir ekki með neinu móti, að þeirri grundvallarreglu, sem hér hefur ríkt, síðan verkalýðsfélög fóru að verða hér til, nefnilega frjáls samningsréttur þeirra við samtök atvinnuveitenda, sé kastað fyrir borð og teknar upp þær reglur um ákvörðun kaups og kjara, sem gilt hafa í ríkjum Stalíns sáluga og Hitlers.

Nú kann mönnum að finnast og einhver mundi sjálfsagt segja, að það sé nokkuð djúpt tekið í árinni að gera því skóna, að þessi grundvallarregla um frjálsa samninga sé úr sögunni, þótt lögfest sé frv. af þessu tagi um tveggja mánaða skeið. En ég er þeirrar skoðunar og þáð er bjargföst sannfæring mín, að verði þetta frv. lögfest núna, þá verður ekki hægt að afnema slík lög um næstu áramót, hversu gjarnan sem ríkisstj. kynni að vilja það. Það er ekki hægt vegna þess, að þessi löggjöf mundi ýta vandamálunum á undan sér, þau mundu hópast upp og þau mundu verða stærri í janúarmánuði en þau eru núna, enda er það mála sannast, að hæstv. forsrh., sem er grandvar maður og gætinn, vildi ekki lýsa því yfir, að þessi lög yrðu úr gildi felld um áramót, án þess að önnur ný kæmu í staðinn. Hann taldi óráðlegt að gefa slíka yfirlýsingu. Og ég skil hann mætavel. Ég veit upp á hár, að ef þetta frv. verður lögfest, þá verða mikil vandkvæði á því að ætla að gera þessa hluti frjálsa aftur eftir tvo mánuði, enda er raunar greinilegt á fleiru en yfirlýsingu hæstv. forsrh., að hæstv. ríkisstj. hefur það fyllilega í huga að framlengja þessi lög eða setja önnur lög af þessu tagi. Þetta kemur fram í sjálfri grg. frv. að nokkru leyti, þar sem sagt er, að sá frestur, sem þessi lög gefi, sé tilvalinn fyrir launþegasamtökin til þess að átta sig á afleiðingum þeirrar kröfugerðar, sem nú er uppi. Varla verður hægt að gera ráð fyrir því, að afleiðingar þeirrar kröfugerðar yrðu nokkuð aðrar í desember en í nóvember eða í janúarbyrjun. Nei, verði þetta frv. samþ. og takist framkvæmd þess með þeim hætti, sem hæstv. ríkisstj. væntanlega gerir ráð fyrir, þá er ég sannfærður um, að það verður ekki hin gamla grundvallarregla okkar Íslendinga, sem ræður úrslitum í kjaramálum hér á næstunni, nefnilega hinir frjálsu samningar, heldur verða það reglur af svipuðu tagi og þeir látnu höfðingjar, sem ég nefndi áðan, notuðu í sínum ríkjum.

Þegar það liggur fyrir, eins og ég hef nú gert grein fyrir, að eðlilegt er, að afstaða manna til þessa frv. mótist af grundvallarspurningum af þessu tagi, þá er það dálitið einkennilegur málflutningur, sem kom fram hjá einum hæstv. ráðh., sem hér er ekki viðstaddur núna, í umr. í Nd., þar sem hann lýsti því yfir, að andstaða framsóknarmanna gegn því frv., sem hér liggur fyrir, jafngilti því, að framsóknarmenn styddu að framgangi 43% launahækkana, því að þær kröfur, sem uppi væru, væru um 43% hækkun. Nú er það að vísu ný kenning, að ekki sé nema tvennt til í kjaradeilu, annaðhvort að ganga að fyllstu kröfum annars aðilans eða samþykkja lög, sem banna samningsréttinn. Það er skemmst að minnast, t.d. frá árinu 1961, þegar kjarasamningar voru gerðir skömmu fyrir gengislækkunina, eins og menn muna, þá um sumarið, þá voru uppi kröfur frá verkalýðsfélögunum á Norðurlandi, sem höfðu forgöngu af hálfu verkalýðsfélaganna í þessum efnum, um um það bil 35% kauphækkanir. Þá var samið um 10% kauphækkun og nokkur fríðindi, sem menn geta metið mismunandi hátt, en ég geri ráð fyrir, að sanngjarnt teljist að meta þá kjarabót, sem þar varð, um 12—13%. Þetta er bara dæmi um, að það er auðvitað út í hött að fullyrða, að annaðhvort styðji menn fyllstu kröfur, sem fram hafi komið, 100%, eða þá menn verði að standa að því að samþykkja lög, sem banni alla samninga. Það hefur komið fram við þessar umr., að þessar 43% kröfur, sem verið er að tala um, mundu ná til launþega í sjávarútvegi, sem fái nú greitt kaup um 1800 millj. kr., og hækkunin mundi þess vegna þýða fyrir sjávarútveginn 700 millj. kr. í árlegar kaupgreiðslur. Þetta dæmi er út í hött. Það hefði verið alveg jafnrétt að segja, að hækkunin næmi 1400 millj. eða 2100 millj., vegna þess að hér er dæmið reiknað þannig, að hækkunin færi hringinn á eftir til allra, sem alls ekki eru með kröfur uppi nú, og ef hægt væri að gera ráð fyrir því, væri eins hægt að gera ráð fyrir, að hækkanirnar færu t.d. tvo hringi eða þrjá. Slíkt dæmi er út í hött. Ef menn vilja reikna þetta dæmi, þá verður að reikna með þeim einum, sem þær kröfur ná til, sem uppi eru. Og þá kemur annað út fyrir sjávarútveginn, vegna þess að í dæmi ráðh., sem ég var hér að vitna til, vega sjómennirnir langþyngst. Það er ekki vitað, að uppi séu kröfur frá sjómönnunum, og hvað sem sá hæstv. ráðh., sem flutti þetta mál, sem ég er nú að vísa til, álitur um það, þá er ég viss um hitt, að hæstv. dómsmrh. er ekki þeirrar skoðunar, að röðin sé komin að síldarsjómönnum, þó að verkamenn fengju einhverja lagfæringu. Og af hverju fullyrði ég nú, að ég sé svo viss um þetta? Ég er viss um þetta vegna þess, að fyrir nokkru flutti hæstv. dómsmrh. ræðu í félagi sjálfstæðismanna hér í Reykjavík, þar sem hann gerði grein fyrir þeim vandamálum, sem ríkisstj. taldi sig nú eiga við að etja. Og þessi vandamál áttu, að sögn hæstv. dómsmrh., rót sína að rekja til óróans á vinnumarkaðinum. Og í ræðu hæstv. dómsmrh. er

pistill, sem er birtur undir undirfyrirsögninni „Orsakir óróans“, og hann hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á síðustu tveimur árum hafa þeir atburðir gerzt, sem ýtt hafa undir ójafnvægi í íslenzku efnahagslífi. 1962 var meiri síldveiði en nokkru sinni áður í sögunni. Þjóðin öll hagnaðist á því, en einkanlega var það þó tiltölulega lítill hluti þeirra, sem sjávarútveg stunda, sem hlaut mjög ríflegar tekjur. Tekjur þessara manna voru miklar“, — og hæstv. dómsmrh. bætir við drengilega, eins og hans var von og vísa: „Ég tel þær að vísu ekki eftir, þeir voru vel að þeim komnir, og þeim, sem öðru halda fram, má nú svara því, að þeir gætu sjálfir snúið sér að þessum störfum og fengið þá þær tekjur, sem við þau er hægt að fá. En við verðum samt að gera okkur rétta grein fyrir eðli hlutanna," sagði hæstv. dómsmrh. Og hann hélt áfram: „Þegar þessi starfshópur fékk miklar tekjur og miklu meira en nokkurn tíma áður, þá tóku aðrir að bera sig saman við þá. Þar að auki gátu þessir menn lagt fram meira fé til þess að bæta hag sinn, ekki sízt til húsbygginga, sem leiddi til þess, að þær urðu miklu meiri en vinnuafl var til að sinna. Af því leiddi svo yfirborganir, sem aftur sköpuðu enn meiri óróa á vinnumarkaði.“

Þetta sagði hæstv. dómsmrh. Hann telur hinar háu tekjur síldveiðisjómanna vera a.m.k. þátt í orsökum óróans, og ég geri þess vegna ráð fyrir því, að hann sé alveg ósammála starfsbróður sinum um það, að þó að verkamenn fengju einhverja leiðréttingu, þá væri það óhjákvæmilegt, að sjómenn fengju hana líka. Sannleikurinn er sá, að ef þetta dæmi, sem ég var að tala um, væri reiknað rétt og athugað, hvað launagreiðslur eru háar til þeirra starfsmannahópa, sem nú hafa kröfur uppi, og hvað þær mundu þýða fyrir útflutningsatvinnuvegina, þá er ekki um að ræða kaupgreiðslur, sem eru 1800 millj. eða 1600 millj., eins og ég held, að ég hafi tekið rétt eftir, að annar ráðh. nefndi í útvarpsumr. í gærkvöld, heldur innan við þriðjung af þessum upphæðum.

Því hefur verið haldið fram, að framsóknarmenn hafi engar tillögur gert til lagfæringar og leiðréttingar á þeim vandamálum, sem útflutningsframleiðslan virðist eiga við að stríða. Sannleikurinn er þó sá, að forstöðumenn hraðfrystihúsa á vegum beggja þeirra samtaka, sem slík frystihús hafa með sér hér í landi, komu saman til fundar fyrir skömmu hvorir í sínu lagi og samþykktu þar tillögur, sem voru nærri alveg samhljóða frá báðum þessum fundum. Og hverjar voru svo þessar till.? í fyrsta lagi um lækkun vaxta. Hafa menn heyrt þá till. áður? Og ef menn hafa heyrt hana áður, frá hverjum hefur hún komið? Þetta er ein af till. framsóknarmanna til leiðréttingar á vandamálum útvegsins. Lækkun eða jafnvel afnám útflutningsgjalda var önnur till. þessara samtaka beggja. Hafa menn heyrt þá till, áður, og þá frá hverjum? Svo koma menn og halda því fram í þessum umr., að framsóknarmenn hafi ekki borið fram neinar till., þegar þó, eftir að framsóknarmenn hafa borið þær till. fram margsinnis, kemur í ljós, að þeir menn, sem gerst ættu að vita, í hvaða ráðstöfunum lækning er fólgin, stinga upp á einmitt því hinu sama.

En þessum tveimur till., sem ég hér nefndi, og raunar fleiri raunhæfum till., — og raunar viðurkenndi hæstv. viðskmrh. það í fyrsta sinn nú í umr. í Nd., að vaxtalækkun væri þó raunhæf till., þó að hann teldi á henni ýmis tormerki, — þessum raunhæfu till. framsóknarmanna er gersamlega visað á bug og því er haldið fram, að þeir hafi engar till. lagt fram í málinu. Ég skal fúslega endurtaka það, sem ég sagði áðan, að við framsóknarmenn höfum aldrei lagt fram till., sem við teljum vera lausn á öllum vandanum. Það höfum við ekki gert. En við höfum lagt fram till., sem við teljum, að liggi inn á þá braut að færa okkur drjúgan spöl nær lausn á vandanum.

En ríkisstj. segir: Það kemur ekki nema tvennt til greina: kaupbinding hinna lægst launuðu eða að öðrum kosti blasir gengislækkunin við. Með þessum fullyrðingum hæstv. ríkisstj. og talsmanna hennar hefur enginn rökstuðningur af neinu tagi fylgt, — enginn. Engir útreikningar af neinu tagi hafa verið lagðir fyrir hv. Alþingi til þess að leiða rök að því, að þetta sé svona. Ég vil vekja athygli manna á því, að útflutningsframleiðslan á sjálfsagt í erfiðleikum, ég vefengi það ekki. En erfiðleikar útflutningsframleiðslunnar út af fyrir sig eru engin sönnun fyrir því, að gengislækkun sé nauðsynleg. Þeir eru engin rök fyrir gengislækkun. Sannleikúrinn er náttúrlega sá, eins og allir sjá í hendi sér, ef málið er athugað, að miklu fleira kemur til. Svo misskipt gæti þjóðartekjunum verið, að útflutningsframleiðslan bæri skarðan hlut, þó að þjóðarheildin fengi nóg. Og er raunar ekki ýmislegt í okkar efnahagslífi, sem bendir til þess, að svo sé? Það þykir nauðsynlegt nú að binda kaupið í útflutningsframleiðslunni við 28 kr. verkamannakaup á tímann. En það er staðreynd, sem enginn mælir gegn, að í fjölmörgum öðrum atvinnugreinum hefur að undanförnu verið greitt 40—50 kr. kaupgjald um tímann fyrir sams konar vinnu.

Ég hef skilið þetta frv., sem hér liggur fyrir, þannig, og ég vildi biðja hæstv. fjmrh. að leiðrétta það, ef það er ekki rétt skilið, að það heimili þær yfirborganir, sem hafa tíðkazt, því að það stendur í 1. gr., að það má ekki „hækka endurgjald fyrir unnin störf frá því, sem um var samið eða greitt, þá er frv. þetta var lagt fram: Og hæstv, fjmrh. staðfestir, að þetta sé rétti skilningurinn. En þessi staðreynd, að sumar atvinnugreinar geta borgað um 40-50 kr. á tímann fyrir verkamannavinnu, þegar talið er, að útflutningsframleiðslan geti ómögulega borgað meira en 28, bendir nokkuð til þess, að það kunni að vera þannig misskipt milli atvinnugreina í þjóðfélaginu, að erfiðleikar útflutningsframleiðslunnar þurfi ekki nauðsynlega að þýða það, að gengislækkun blasi beint við, þó að kaup yrði ekki stöðvað með lögum. Ég hafði hugsað mér að gera þetta atriði og allmörg atriði fleiri að umræðuefni í þessum umr., en af hagkvæmnisástæðum fyrir hv. þdm. er ég reiðubúinn til þess að geyma mál mitt til 3. umr., ef hæstv. forseti telur það henta.