19.12.1963
Efri deild: 30. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

95. mál, vegalög

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Það var aðeins út af aths. við 60. gr. frá hv. 3. þm. Norðurl. v., sem ég vildi segja hér nokkur orð, vegna þess að ég kom þar sjálfur lítils háttar við sögu.

Eins og kunnugt er, unnu samgmn. saman að því að yfirfara þetta frv., meðan það var til meðferðar í Nd. Þegar farið var yfir 60. gr., benti ég á í sambandi við 2. mgr. þeirrar gr., að það hefði fyrir nokkrum árum fallið hæstaréttardómur, sem mig minnti að væri á þá leið, að slíkt ákvæði væri talið brjóta í bága við stjórnarskrána. Ráðuneytisstjóranum í samgmrn., sem starfaði með n., var falið að athuga þetta nánar, enda geri ég ráð fyrir því, að hann hafi fyrst og fremst séð um hina lögfræðilegu hlið á þessu frv. En hann sagði, að þessi 60. gr., 1. og 2. mgr., væri ýmist óbreytt frá eldri vegalögum eða það hefðu verið teknar upp reglur úr öðrum hliðstæðum lögum, og mig minnir, að hann vitnaði þar í hafnarbótalög. Honum var falið að taka þetta til athugunar. Ég vil taka það fram, að ég fletti þessum hæstaréttardómi ekkert upp núna í sambandi við þetta mál og kynnti mér það ekkert nánar, en hann gerði það hins vegar eftir þessari ábendingu, og þegar hann hafði athugað þetta, taldi hann rétt að fella 2. mgr. 60. gr. niður, og ég hygg þá, þori að vísu ekki að fullyrða það, að hann hafi verið þeirrar skoðunar, að kostnaður við yfirmatið lenti þá væntanlega á vegagerðinni í öllum tilfellum, eða það minnir mig, að hann segði. Þegar svo þessi niðurstaða var komin frá ráðuneytisstjóranum, þá samþykkti nefndin eftir hans athugun að fella þessa 2. mgr. niður.

Þá benti hv. 4. þm. Austf. á það á nefndarfundi, hvort niðurlagsákvæðið í 1. mgr. 60. gr., sem hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði hér að umtalsefni, mundi þá ekki einnig brjóta í bága við stjórnarskrána og það leiða af þessum dómi. Ég var honum alveg sammála um það, að þessi aths. hans væri réttmæt og það væri sjálfsagt eða ástæða til þess að fella þetta ákvæði einnig niður. En við umr. í n. skildist mér, að nm. hölluðust nú einna helzt að því, að þó að væri fyrir hendi ótvíræður hæstaréttardómur um 2. mgr., þá væri ekki fyrir hendi hæstaréttardómur varðandi þetta ákvæði, niðurlag 60. gr., og þess vegna væri eiginlega rétt að láta það standa, þó að þetta gæti verið álitamál.

Ég taldi aðeins rétt, af því að þessi fsp. kom fram, að rekja gang málsins, eins og hann kom mér fyrir sjónir í nefndarstörfunum. En ég tek undir það, að ég tel þessa aths. frá hv. 3. þm. Norðurl. v. varðandi niðurlagsákvæði 60. gr. vera réttmæta.