26.11.1963
Efri deild: 17. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í C-deild Alþingistíðinda. (1911)

77. mál, mat á matjessíld og skoskverkaðri síld

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Sú breyting, sem farið er fram á að gera á l. um mat á matjessíld og skozkverkaðri síld í þessu frv., er einvörðungu sú, að þar er lagt til, að matsgjaldíð verði hækkað upp í 6 kr. á tunnu. Þetta nafn á 1. og þar af leiðandi á þessu frv. er að sumu leyti kannske villandi, vegna þess að matjessíld og skozkverkuð síld er ekki lengur framleidd í þessu landi, a.m.k. ekki sem neinu nemur. En í þeim lögum eru einnig ákvæði um svokallað frjálst mat á síld, þ.e.a.s. þegar síldarsaltendur sjálfir óska eftir því, að mat verði framkvæmt á framleiðslu þeirra, eða síldarútvegsnefnd telur, að þetta mat sé nauðsynlegt, þó að ekki sé um matjessíld eða skozkverkaða síld að ræða. Þetta mat hefur verið framkvæmt að undanförnu á ca. 200 þús. tunnum af síld og allvíða á landinu, eftir því sem lengra hefur liðið, eða eftir því sem síldarverkunarstöðvum hefur fjölgað. Það er nú tekið matsgjald af þessari þannig metnu síld, sem nemur 50 aurum á tunnu. En það hrekkur ekki til nema fyrir broti af tilkostnaði við matið. T.d. er matskostnaðurinn áætlaður í ár tæp 11/2 millj. kr. Upp í það gengur svo tímakaup; sem matsmönnunum er reiknað, og svo skattgjaldið eða matsgjaldið á hverja tunnu. Ef gjaldið verður hækkað eins og hér er lagt til, fæst væntanlega á þann hátt ca. 1.2 millj. upp í kostnaðinn, og afgangurinn er svo gert ráð fyrir að komi með tímakaupi matsmanna. Auk almennrar hækkunar, sem orðið hefur í landinu, kemur hér einnig til greina mjög kostnaðarsamur liður, sem er fjölgun söltunarstöðvanna, sem hefur í för með sér mjög aukinn ferðakostnað. Þá er sú regla höfð um mat á útflutningsvörum sjávarútvegsins, að undirmatið er í flestum eða öllum tilfellum kostað af útflytjendum, en yfirmatið aftur kostað af ríkinu. Fjmrn. hefur haft orð á því, að það væri nauðsynlegt, til þess að það fengi sinn útlagða kostnað við undirmatið greiddan, að þetta gjald yrði hækkað, svo að jöfnuður fengist þarna á, og vegna þessara tilmæla fjmrn. er þetta frv. fram borið.

Aðrir útflytjendur, eins og útflytjendur freðfisks, skreiðar og saltfisks, greiða allan kostnað af undirmatinu á þeim vörutegundum, og þykir þess vegna hlýða, að einnig hér sé fylgt sömu reglu.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.