13.04.1964
Neðri deild: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í C-deild Alþingistíðinda. (1922)

23. mál, jafnvægi í byggð landsins

Frsm, minni hl. (Skúli Guðmundason):

Herra forseti. Það frv., sem hér er til 2. umr., var lagt fram í upphafi þessa þings í októbermánuði í haust. 1. umr. um það fór fram hér í þd. 21. okt. og þann dag var því vísað til fjhn. Síðan er nú langur tími liðinn, hátt á sjötta mánuð, og um það bil 5 mánuðir liðu frá því að frv. var vísað til n. og þangað til nál. var skilað. Má því ætla, að málið hafi fengið rækilega athugun hjá okkur nm. í fjhn. Því miður tókst ekki á þessum fimm mánuðum að ná samkomulagi í n. um till. í málinu. Afleiðingin af því er sú, að hér liggja fyrir tvö nál. Annað nál. er á þskj. 381 frá minni hl. n., mér og hv. 11. þm. Reykv. Við mælum þar með því, að frv. verði samþ. Hinir þrír nm., fulltrúar stjórnarflokkanna, leggja til, að frv. verði vísað frá með rökst. dagskrá, sem þeir nefna svo, og er hún birt í nál. þeirra á þskj. 407. Hefur frsm. meiri hl., hv. 6 landsk. þm. (DÓ), þegar gert grein fyrir þeirri till.

Við 1. umr. um frv. hér í d., 21. okt. í haust, flutti 1. flm. þess, hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG), mjög yfirgripsmikla og glögga ræðu um málið. Hann sýndi þar með ljósum rökum þörf þjóðarinnar fyrir þær ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, sem frv. fjallar um. Ég get því verið fáorðari en ella um málið almennt, vil þó með nokkrum orðum rifja upp fyrir mönnum aðalatriði frv.

Frv. er í tveimur köflum. Sá fyrri er um tilgang l. og störf jafnvægisnefndar. Til þess er ætlazt, að Alþ. kjósi að loknum alþingiskosningum hverju sinni fimm aðalmenn og fimm til vara í jafnvægisnefnd. Það sé verkefni n. að annast framkvæmdir samkv. l., en í 1. gr. frv. segir, að tilgangur l. sé að stuðla að jafnvægi í byggð tandsins með rannsóknarstörfum, áætlanagerð og fjárhagslegum stuðningi til framkvæmda og eflingar atvinnulífi í þeim landshlutum, þar sem bein eða hlutfallsleg fólksfækkun hefur átt sér stað undanfarið eða er talin yfirvofandi.

II, kafli frv. er um jafnvægissjóð, sem á að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífi í samræmi við tilgang l. Sjóðurinn á að fá 11/2% af tekjum ríkissjóðs samkv, ríkisreikningi ár hvert til starfsemi sinnar. Sjóðurinn á fyrst og fremst að veita lán til framkvæmda, sem að dómi jafnvægisnefndar eru til þess fallnar að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, en þó er einnig heimilt að veita beina styrki úr sjóðnum, ef sérstaklega stendur á. Samkv. 14. gr. frv. er til þess ætlazt, að jafnvægisnefnd fái einnig heimild, ef sérstaklega stendur á, til að gerast fyrir hönd sjóðsins meðeigandi í atvinnufyrirtæki, sem hún telur nauðsynlegt að koma á fót í samræmi við tilgang 1., enda séu a.m.k. 4 nm. því samþykkir og að þeirra dómi og hlutaðeigandi sveitarstjórnar ekki unnt að koma fyrirtækinu á fót á annan hátt.

Eins og áður segir og fram kemur í nál. á þskj. 381, er það till. okkar í minni hl. fjhn., að frv. þetta verði samþ. Við lítum svo á, að nauðsynlegt sé að hefja nú þegar þær framkvæmdir, sem frv. gerir ráð fyrir, og að það fjármagn, sem til þeirra verður varið, muni skila sér aftur með vöxtum og vaxtavöxtum í vaxandi framleiðslu- og þjóðartekjum til hagsbóta fyrir alla landsmenn. Hér er þó ekki eingöngu um efnahagsmál að ræða, síður en svo. Þær ráðstafanir, sem stefat er að með flutningi frv., eru einnig lífsnauðsynlegar til viðhalds sjálfstæði og menningu þjóðarinnar.

Ekki er það skoðun þeirra manna, sem beita sér fyrir jafnvægi í byggð landsins, að búseta þurfi að haldast á hverju einstöku býli, sem byggt hefur verið að undanförnu, og að því beri að vinna. Aðalmarkmiðið er að koma í veg fyrir. að góðar sveitir og sjávarþorp, þar sem álitleg framleiðsluskilyrði eru, leggist í auðn. Það er mjög óheillavænlegt, ef slíkar byggðir eyðast að fólki, og mikil nauðsyn, að án tafar séu gerðar ráðstafanir til að hindra slíkt. Það er ekki aðeins hagsmunamál þeirra, sem nú búa á þeim svæðum, sem hættan á burtflutningi fólks vofir yfir, heldur er það þýðingarmikið fyrir alla þjóðina og ætti því að vera áhugamál allra landsmanna. Útvega þarf fjármagn til að efla atvinnulíf í þeim landshlutum, þar sem góð atvinnuskilyrði og afkomuskilyrði eru fyrir hendi, en hætta er á fólksfækkun. Það þarf að auka ræktun landsins, framleiðslu í sveitunum, en jafnframt að efla atvinnulifið í sjávarþorpum og kauptúnum á þessum svæðum og koma upp þéttbýlisstöðvum, sem gætu orðið miðstöðvar iðnaðar, viðskipta og menningarlífs fyrir nálægar byggðir. Þetta er sú stefna, sem mörkuð er í frv., sem hér liggur fyrir. Það er sú stefna, að gæði landsins og fiskimiðin umhverfis landið verði notuð, hvar sem þau eru, að svo miklu leyti sem mögulegt er, og að öll byggileg landssvæði skuli setin. Því aðeins getur þjóðin vænzt þess, að hún fái að eiga þetta góða land í framtíðinni, að hún noti gæði þess og haldi við búsetu á öllum byggilegum svæðum þess, en ekki aðeins á litlum hluta landsins. Vitanlega þarf fleira að gera til að stuðla að byggðajafnvægi í landinu en að efla atvinnulífið, eins og stefnt er að með flutningi frv., sem hér er til umr. Það er vel ljóst. Lífsþægindin og lífskjörin þurfa að verða sem jöfnust um land allt. Þess vegna þarf t.d. að ljúka rafvæðingu landsbyggðarinnar á allra næstu árum, einnig að bæta vegakerfið, sjá fyrir sem beztri heilbrigðisþjónustu hvar sem er á landinu og gera möguleika unga fólksins til menntunar sem bezta og jafnasta um land allt. Sé þetta ekki gert, heldur fólkið áfram að flytjast á milli landshluta í leit að betra og þægilegra lífi. Þannig þarf að gera margt fleira en það, sem um ræðir í þessu frv., til að halda landinu í byggð. En það dregur ekkert úr gildi eða þörf þeirra framkvæmda, sem stefnt er að með frv., sem hér liggur fyrir.

Í nál. hv. meiri hl. fjhn. er fyrst nokkuð rætt um orsakir fólksflutninganna milli landshluta. Síðan segir í álitinu, að mönnum hafi verið þessir miklu fólksflutningar áhyggjuefni, þar sem dregið hafi til landauðnar í sumum sveitum og heilir landshlutar hafi orðið að horfa upp á það, að íbúum þar hefur annaðhvort fjölgað mjög lítið eða beinlínis fækkað á síðustu tveimur áratugum, þegar fólksflutningarnir hafa verið hvað örastir. Af þessum ummælum í nál. hefði mátt ætla, að meiri hl. vildi ljá því lið, að gerðar væru ráðstafanir til að stöðva eða draga úr þessum miklu fólksflutningum og létta þannig áhyggjum af mönnum. En því miður er framhaldið hjá þeim á annan veg. Síðar í nál. meiri hl. er getið um lögin um atvinnubótasjóð, er sett voru 1962. Og í framhaldi af því segir svo í nál., með leyfi hæstv. forseta: „Að meginstefnu til er ekki hægt að segja, að neinn teljandi munur sé á þessum lögum og því frv., sem hér liggur fyrir.“

Hér er ekki rétt frá skýrt í áliti meiri hl. En þessi ranga fullyrðing er síðan notuð til stuðnings þeirri frávísunartill., sem meiri hl. leggur fram í nál. sínu. Það er ekki rétt, sem segir í áliti og till. meiri hl., að tilgangur l. um atvinnubótasjóð sé fyrst og fremst að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Þetta sést við athugun á því, hvernig fjárveitingum úr atvinnubótasjóði er hagað, Samkv. l. leggur ríkissjóður atvinnubótasjóði til 10 millj. kr. ár hvert. En í fyrravor þótti nauðsynlegt að hafa nokkru meira fé til úthlutunar úr sjóðnum í það sinn. Ég býst við, að hv. þdm. geti gizkað á, af hverju það stafaði. Þá var gripið til þess ráðs að úthluta rúmlega 5 millj. kr. umfram fjárveitinguna á árinu 1963 og um talað, að sú upphæð yrði dregin frá fjárveitingunni til sjóðsins árið 1964. Ég hef fengið upplýsingar um skiptingu á þessu fé, sem úthlutað var árið 1963 úr atvinnubótasjóði. Heildarupphæð þess var 15 millj. 395 þús. kr. Meira en helmingurinn af því, eða 8 millj. 190 þús. kr., fór sem lán til báta- og skipakaupa. Af því lánsfé fór meira en helmingurinn, eða 5 millj. og 50 þús., til Reykjavíkur, Reykjaneskjördæmis, Akraness og Vestmannaeyja, en samtals 3 millj. 140 þús. til útgerðarstaða annars staðar á landinu. Ég hef hér einnig yfirlit, sem sýnir, hvernig fjárveitingarnar úr atvinnubótasjóði árið 1963 skiptust á milli kjördæma landsins. Sú skýrsla lítur þannig út:

Í Vestfjarðakjördæmi fóru 3 millj. 305 þús.

Í Reykjaneskjördæmi 2 millj. 990 þús.

Í Norðurlandskjördæmi eystra 2 millj. 755 þús.

Í Vesturlandskjördæmi 1 millj. 685 þús.

Í Norðurlandskjördæmi vestra 1 millj. 415 þús.

Í Austurlandskjördæmi 1 millj. 360 þús.

Í Reykjavíkurkjördæmi 985 þús.

Í Suðurlandskjördæmi 900 þús., aðallega til Vestmannaeyja.

Alls eru þetta, eins og ég sagði áðan, 15 millj. 395 þús. kr. Kjördæmunum er hér raðað þannig, að það er sett efst á listann, sem fékk mest úr atvinnubótasjóði, en neðst það kjördæmi, sem minnst fékk. Reykjaneskjördæmi er hér í næstefsta sæti með nærri 3 millj. kr. Það fær meira í sinn hlut en Norðurl. e. og það fær meira en Norðurl. v. og Austurlandskjördæmi bæði til samans. Þó er það svo, að fólksstraumurinn hefur legið til Reykjaneskjördæmis og Reykjavíkur á liðnum árum úr öllum öðrum kjördæmum.

Af því, sem hér hefur verið nefnt, má glöggt sjá, að það er ekki fyrst og fremst verkefni atvinnubótasjóðs að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, þó að meiri hl, fjhn. haldi því fram, að svo sé.

Það, sem ég hef hér sagt, ber alls ekki að skoða sem ádeilu á stjórn atvinnubótasjóðs eða löggjöfina um þann sjóð. Starfsemi atvinnubótasjóðs á rétt á sér og heldur áfram, þó að frv., sem hér liggur fyrir, verði samþ. En ég hef hér sýnt fram á, að atvinnubótasjóður leysir alls ekki þá brýnu þörf, sem er fyrir ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, og því er nauðsynlegt að setja ný lög um þær framkvæmdir og veita fé til þeirra, eins og lagt er til í þessu frv. Og þó að þetta frv. verði samþ., er eftir sem áður þörf á að auka fjárráð atvinnubótasjóðs, því að hann er nú lítils megnugur til að sinna þeim verkefnum, sem hann hefur með höndum, vegna þess, hve fjárveitingar til hans eru takmarkaðar. Eins og áður er nefnt, fór meiri hl. af fé sjóðsins árið sem leið í lánveitingar til báta- og skipakaupa. Hámark einstakra lána til skipakaupa var 200 þús. kr. Það segir lítið til kaupa á skipi, sem kostar allt upp í 10 millj. En í þessari ógurlegu dýrtíð, sem búið er að skapa hér á landi, hafa menn vissulega þörf fyrir stuðning til skipakaupa og annarra framkvæmda vegna framleiðslustarfseminnar, og sá stuðningur þyrfti að vera miklu meiri en atvinnubótasjóður er nú fær um að veita.

Ég hef áður getið þess, að árið 1963 var eytt fyrir fram meira en helmingnum af fjárveitingum ríkisins til atvinnubótasjóðs árið 1964. Þegar búið er að borga þessa skuld frá fyrra ári, hefur atvinnubótasjóður aðeins eftir 4 millj. 605 þús. kr. af fjárveitingunni til ráðstöfunar á árinu, sem nú er að liða. Ekki verða stórvirki unnin fyrir þá fjárhæð nú á tímum, og ekki er ástæða til að öfunda stjórn atvinnubótasjóðs af því viðfangsefni að skipta því fé á milli landsmanna.

Áður en l. um atvinnubótasjóð voru sett, hafði verið veitt fé á fjárl. í nokkur ár til atvinnu- og framleiðsluaukningar. Ég held, að ég muni rétt, að þetta hafi hafizt árið 1955 og verið síðan gert. Hæst var þessi fjárveiting árið 1957, 15 millj. kr. Það var 1.8—1.9% af ríkistekjunum á því ári. Framlagið til atvinnubótasjóðs á þessu ári, 10 millj. kr., verður fráleitt meira en 3—4% af tekjum ríkissjóðs í ár. í frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, að framlagið til jafnvægissjóðs verði 1 1/2% af árlegum tekjum ríkissjóðs. Þannig mundi samanlagt framlag ríkissjóðs á þessu ári til jafnvægissjóðs og atvinnubótasjóðs ekki verða tiltölulega meira en ríkið lagði fram til atvinnu- og framleiðsluaukningar 1957, miðað við heildartekjur ríkissjóðs. Af þessu sést, að allt tal hv. 6. landsk. þm. í framsöguræðunni hér áðan um það, að framsóknarmenn höguðu sér allt öðruvísi í þessum málum, þegar þeir væru í stjórnarandstöðu, en þegar þeir ættu þátt í ríkisstj., er alveg út í hött, hefur ekki við neitt að styðjast. Þó að frv. okkar væri samþykkt og fé veitt samkv. því og þó að þar væri bætt við framlaginu til atvinnubótasjóðs, yrði fjárveitingin ekki hlutfallslega meiri miðað við ríkistekjurnar nú en hún var 1957, á tímum vinstri stjórnarinnar, svo að það er fullt samræmi í þessum till. okkar.

Af því, sem ég hef hér sagt, má sjá, að fjárkröfum á ríkissjóð er mjög stillt í hóf í þessu frv. En þó að ekki sé lengra gengið, er enginn vafi á því, að samþykkt þessa frv. mundi gera stórmikið gagn og bæta verulega úr brýnni þörf fyrir framkvæmdir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins á næstu árum. Ég hafði gert mér nokkrar vonir um, að viðbrögð meiri hl. fjhn. í þessu máli yrðu önnur og betri en nál. á þskj. 407 sýnir. Þær vonir byggði ég einkum á því, að í blöðum stjórnarflokkanna hafa stundum að undanförnu birzt ritstjórnargreinar og pistlar um þessi efni, þar sem virtist koma fram skilningur á því, að þörf væri fyrir ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Þetta hefur t.d. mátt sjá í Morgunblaðinu í vetur. Og laugardaginn 4. þ. m. birtist ritstjórnargrein í Alþýðublaðinu, sem var eftirtektarverð. Þar segir í upphafi, að á síðari árum hafi oft verið talað um jafnvægi í byggð landsins, en í því felist sú ósk íslenzku þjóðarinnar að byggja landið allt og tryggja öllum sem jafnasta aðstöðu í lífsbaráttunni, hvort sem er á Vestfjörðum, Austurlandi eða í Reykjavík. Síðan segir í blaðinu í þessari ritstjórnargrein, að hér sé stefnt að skynsamlegri og hagkvæmri dreifingu byggðarinnar í von um, að í framtíðinni þurfi ekki 90% þjóðarinnar að þjappa sér saman í Reykjavík og nágrenni. í framhaldi af þessu segir síðan , að ýmislegt hafi verið gert í þessu skyni, en svo er bætt við þessum orðum: „Sýnilega verður þó að gera mun betur, ef duga skal“. Og enn segir í ritstjórnargrein Alþýðublaðsins, með leyfi hæstv. forseta:

„Flestar aðrar þjóðir eiga við sama vandamál að stríða. Það stafar ekki eingöngu af rýrum landkostum á útnesjum, heldur á sér félagslegar rætur í nútímalífi. Þess vegna hefur verið gripið til mjög róttækra ráðstafana í löndum eins og Bretlandi og Frakklandi. Ef fyrirtæki vill reisa verksmiðju eða stækka gamla verksmiðju í London, verður að fá til þess leyfi yfirvalda. Mjög oft er synjað um slíkt leyfi, en sagt: Þessa verksmiðju má reisa á Norður-Englandi, þar sem atvinnulifið og byggðin þarf hennar meira en London. Ef það er gert, greiðir ríkisvaldið kostnað við slíka staðsetningu umfram byggingu í London. Sömu sögu er að segja í París. Þar er alvarlegum höftum beitt til að dreifa nýjum atvinnufyrirtækjum um landið og hindra aukinn vöxt stórborga. Þar sem ríkisafskipti eru pólitísk deilumál, er rétt að minna á, að þessum höftum er miskunnarlaust beitt í Bretlandi og Frakklandi af mjög hægri sinnuðum ríkisstj: — og í framhaldi af þessu talað um brezka íhaldsflokkinn.

Og niðurlagið í þessari ritstjórnargrein er þannig: „Af þessu má marka, að ekki dugir að láta pólitískar kreddur standa í vegi fyrir því, að ríkisvaldinu sé beitt eins mikið og til þarf, þegar um lausn alvarlegra vandamála er að ræða. Hér á landi verður að líta á dreifingu byggðarinnar sem vandamál, er krefst mun róttækari aðgerða en hingað til hafa verið reyndar. Verður að velja fyrst ákveðna staði, sem hafa góð skilyrði, og skapa þar öfluga þéttbýliskjarna, sem gætu skapað festu í heila fjórðunga, og byggja þá skipulega upp:

Þannig endar þessi ritstjórnargrein í Alþýðublaðinu 4. apríl. Ég verð að segja það, að hér er skynsamlega skrifað um þetta stóra mál. En það vil ég að lokum segja, að ef þeir menn, sem þannig skrifa um nauðsyn þess að vinna að jafnvægi í byggð landsins, greiða atkv. með frávísunartill. meiri hl. fjhn. í þessu máli, þá er mikið ósamræmi, mjög mikið ósamræmi í orðum þeirra og athöfnum.

Það er till. okkar, minni hl. fjhn., herra forseti, að frv. þetta verði samþykkt.