16.04.1964
Neðri deild: 79. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í C-deild Alþingistíðinda. (1927)

23. mál, jafnvægi í byggð landsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Við þessa umr. um frv. á þskj. 23, um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. liggja fyrir tvö nál. frá hv. fjhn., frá meiri og minni hl. n. Undir álit meiri hl. skrifa þeir hv. 6. landsk. þm., Davíð Ólafsson, sem er formaður og frsm. n., hv. 1. landsk. þm., Sigurður Ingimundarson, og hv. 3. þm. Reykv., Matthías Á. Mathiesen. Það má taka það fram, að þessir þrír hv. nm. eru allir beint eða óbeint þm. þess svæðis, sem skipulagsmenn hér syðra kalla Stór-Reykjavík, en mikil áform um framtíðarskipulag þessa svæðis hafa nýlega birzt í dagblöðum Reykjavíkur. Undir álit minni hl. skrifa þeir hv. 1. þm. Norðurl. v., Skúli Guðmundsson, og hv. 11. þm. Reykv., Einar Ágústsson. Minni hl. n. leggur til, að frv. verði samþ., og vil ég fyrir hönd okkar flm, þakka honum fyrir þá afstöðu. En hv. meiri hl. leggur til, að frv. verði afgr. með rökst. dagskrá, sem prentuð er á þskj. 407 ásamt nál. frá þessum nefndarhluta, en nál. minni hl. er prentað á þskj. 381. Það er að sjálfsögðu þakkarvert, að menn afgreiði mál, því að betur fer á því, að mál sé afgreitt úr nefnd, en ekki afgreitt. Hins vegar mun ég leyfa mér hér á eftir að gera nokkuð að umræðuefni sérstaklega það nál., þar sem lagt er til, að frv. verði visað frá með rökst. dagskrá.

Þetta mál er búið að vera nokkuð lengi í athugun. Frv. um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, á þskj. 23, er, eins og númer málsins ber með sér, eitt af fyrstu málum þessa þings. Því var útbýtt í hv. d. hinn 16. okt. s.l. og visað til hv. fjhn. 21. okt. En þegar komið var fram yfir áramót og nokkuð var liðið á þetta ár og þingið hafði þegar setið í nokkra mánuði, gerði ég það að umræðuefni hér í hv. d. utan dagskrár, að enn væri ekki búið að afgreiða þetta stórmál úr n., og mæltist til þess við hæstv. forseta, að hann hlutaðist til um, að n. afgreiddi málið. Nokkru siðar var það svo tekið fyrir af formanni n. á nefndarfundi og n. afgreiddi málið, og varð þá niðurstaðan, að hún reyndist vera klofin í málinu. Nál. minni hl. var dags. 16. marz, en nál. meiri hl. var ekki úfbýtt fyrr en eftir páska, að ég ætla 1, apríl, en dags. 20. marz. Þessi tími leið sem sé, tíminn frá 21, okt. 1963 til 20. marz 1964, þangað til hv. meiri hl. var reiðubúinn að afgreiða málið.

Það væri ástæða til þess að ræða nokkuð um þennan mikla drátt á afgreiðslu slíks stórmáls, sem hér er um að ræða og fjallar um slíkt viðfangsefni í þjóðlífi okkar Íslendinga sem þetta mál fjallar um. En ég ætla ekki að fara langt út í það. Og ég ætla ekki heldur að þessu sinni að ræða mjög mikið almennt um hið svokallaða jafnvægismál. Það hefur verið gert við önnur tækifæri. Ég ætla ekki heldur að gera mikið að því að ræða almennt um efni þessa frv. að öðru leyti en því, sem nál. hv. meiri hl. gefur tilefni til, enda ræddi hv. frsm. minni hl., hv. 1. þm. Norðurl. e., mjög ýtarlega um þetta efni á fundi, þar sem 2. umr. var hafin um þetta mál, og annar flm. málsins, hv. 2. þm. Austf., ræddi einnig allýtarlega um þetta mál þá. En ég vil aðeins, áður en ég kem að þessu nál. meiri hl., minnast örfáum orðum á þá framsöguræðu, sem hv. frsm. meiri hl. flutti hér í byrjun umr.

Hann gerði í þeirri ræðu aths., sem mér kom nokkuð á óvart, varðandi þær upplýsingar, sem gefnar eru í grg. frv. um þróun byggðar og mannfjölda í einstökum landshlutum. Hann vakti athygli á því, sem rétt er, að þar væri borinn saman fólksfjöldinn annars vegar 1940 og hins vegar 1962. Og hann var, að mér virtist, að gera einhvers konar tilraun til að koma því að, að það væri einkennilegt og að mér skildist einhvers konar flokkspólitísk hlutdrægni í því að velja þessi ár til samanburðar. Þetta kom mér ákaflega á óvart, að heyra þennan hv. þm. mæla slíkum orðum, því að mér virðast þessar hagfræðilegu upplýsingar, sem þarna hafa verið birtar, ekki gefa neitt tilefni til slíks. Það er auðvitað hægt að bera saman hvaða ár sem er, og ég veit ekki, hvernig hv. þm. fer að fá það út úr þessum upplýsingum, að hér sé einhvers konar flokkspólitísk hlutdrægni á ferðinni. Ég skil það ekki. Hvers vegna ættum við þá, sem erum allir framsóknarmenn, sem stöndum að þessu frv., að velja árið 1940, þegar við stóðum að ríkisstj. og áttum fulltrúa í ríkisstj.? Hvers vegna ættum við þá ekki fremur að velja eitthvert ár, áður en Framsfl. var stofnaður? Ég skil ekki samhengið í þessum orðum hv. þm., og ég held, að á bak við þan sé einhvers konar óraunhæfur beygur, sem hefur leynzt innra með honum um það, að í þessu máli hljóti að vera eitthvað af því tagi, sem hann vildi vera láta. Nei, það er svo sannarlega ekki um neitt slíkt að ræða. Hér er tekið annars vegar síðasta ár hins fjórða tugar aldarinnar, ár í byrjun heimsstyrjaldarinnar, þegar miklar breytingar voru að hefjast í þjóðfélaginu, og hins vegar síðasta árið, sem skýrslur eru til um eða voru til um, þegar þessu frv. var útbýtt, því að það var á árinu 1963. Síðan hafa komið skýrslur um árið 1963, þannig að ef frv. væri flutt nú, mundum við að sjálfsögðu hafa tekið tölur þess árs. Mér þykir leitt, að menn eins og hv. þm., sem yfirleitt þurfa að fjalla málefnalega um margs konar viðfangsefni, skuli koma fram með útúrdúra eins og þennan.

Ég verð að segja það, að mér þótti ræða hv. þm., hv. frsm. meiri hl., þar sem hann var að lýsa ástandinu í þróun landsbyggðarinnar, ekki bera þess vott satt að segja, að honum fyndist eins mikið til um þá þróun, sem hér er um að ræða, og mér og ýmsum öðrum finnst. Ummæli hans minntu mikið á þetta svokallaða „og þó viðhorf“, sem við heyrum stundum hjá þeim, sem ræða um opinber mál. Hann ræddi um það, að miklir fólksflutningar hefðu orðið og væri það varhugavert, og þó hefði það haft sína kosti og að þetta væri áberandi hér á Íslandi og þó væri það líka áberandi í öðrum löndum. Og allt er þetta svo sem satt.

Já, hv. d. var búin að bíða nokkuð lengi eftir því, að meiri hl. hv. fjhn. gæti gert upp hug sinn í þessu máll. Það út af fyrir sig gerir kannske ekki svo mikið til. Það er eins og segir einhvers staðar í ljóði:

Sá reyndi fyrst daginn,

sem rökkursins beið,

á reiðskapnum kennist,

hvar heldri menn fara.

Og það er þessi reiðskapur hv. meiri hl., dagskráin, sem hér er til sýnis, dagskráin, sem hann ber fram og leggur til að verði samþ., og nál., sem henni fylgir, sem ég hef hug á að fara hér um nokkrum orðum.

Meiri hl. í hv. fjhn. á síðasta Alþ. gerði einnig till. um afgreiðslu sams konar frv. og lagði til, eins og meiri hl, gerir nú um þetta frv., að það frv. yrði afgr. með rökst. dagskrá. Mér varð það fyrst fyrir, þegar ég sá álit meiri hl. nú, að bera saman dagskrárnar og orðalag þeirra, bera saman orðalag dagskrárinnar frá 1963 og orðalag dagskrárinnar núna. Og með leyfi hæstv. forseta ætla ég að leyfa mér að lesa upp þessi tvö plögg. Hin rökst. dagskrá hv. meiri hl. í fyrra hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem frv.“ — þ.e.a.s. þetta frv., sem einnig var flutt í fyrra — „felur ekki í sér nein nýmæli, sem máli skipta, umfram það, sem þegar hefur verið lögfest í lögum um atvinnubótasjóð frá síðasta þingi, en tilgangur þeirrar löggjafar er fyrst og fremst að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og að hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða í landinu, og einnig þegar séð fyrir þeirri áætlanagerð, sem frv. ráðgerir og úthlutun fjármagns skuli byggjast á, sbr. fyrirhugaða framkvæmdaáætlun ríkisstj., telur d. samþykkt frv. með öllu óþarfa og tekur fyrir næsta mál á dagskrá:”

Þetta var hin rökst. dagskrá meiri hl í fyrra. Hin rökst. dagskrá, sem frá meiri hl. kemur nú, er nokkru styttri. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem þegar hafa verið sett lög um atvinnubótasjóð, en þetta frv. fer að meginstefnu til í sömu átt og þau lög, og tilgangur þeirrar löggjafar er fyrst og fremst að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, telur d. ekki þörf nýrrar lagasetningar í þessu efni og samþykkt frv. því óþarfa og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þarna hefur ýmsu verið vikið við á þann hátt, að ekki skiptir miklu máli. En eitt er það, sem hefur verið fellt niður úr dagskránni í ár, sem þeir meirihlutamenn lögðu til að Alþingi samþykkti í fyrra, en þeir leggja ekki til að Alþingi samþykki núna, og það er þetta, að frv. feli ekki í sér nein nýmæli. Þeir ráðlögðu Alþingi í fyrra að samþykkja það, að frv. fæli ekki í sér nein nýmæli, sem máli skipta. En nú ráðleggja þeir Alþingi ekki lengur að samþykkja það. Og þetta er þá það, sem áunnizt hefur á þessum mánuðum hjá hv. meiri hl., í nóvember og desember og janúar og febrúar og marz, að komast að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki rétt að ráðleggja þm. að gera samþykkt um það, að ekki væru nýmæli í þessu frv. Það er kannske vegna þess, að það eru ýmsir nýir menn nú í þinginu, sem ekki voru þar í fyrra. Ég veit það ekki. Og getur líka verið af því, að þessi meiri hl. er ekki alveg skipaður sömu mönnum og hann var í fyrra. Þeir hafa komið auga á, að þetta væri ekki rétt, t.d. gagnvart sínum eigin flokksmönnum, sem hefðu kannske ekki kynnt sér frv., að ráðleggja þeim að samþykkja það með atkv. sínu, að í því fælust ekki nýmæli. En þegar farið er að lesa sjálft nál., sem hv. þm. er ekki ætlað að samþykkja með atkv. sínu, heldur er aðeins sett fram til skýringar, til þess að prentast í þingtíðindum og birtast almenningi í útvarpi, að vísu á þeirra ábyrgð, sem undir það skrifa, þá stendur ýmislegt um þetta mál, sem minnir á það, sem sagt var í fyrra. Þar segir t.d., að að meginstefnu til sé ekki hægt að segja, að neinn teljandi munur sé á þessum lögum, þ.e.a.s. lögum um atvinnubótasjóð, og því frv., sem hér liggur fyrir. Og er það að vísu ekki sama orðalagið, en þó nokkuð í sömu átt. Með þessu á að segja það sama og sagt er í fyrra í dagskránni, að hér sé ekki um nein raunveruleg nýmæli að ræða í þessu frv. Þeirra skoðun virðist sem sé vera sú, eða sú skoðun, sem þeir vilja telja menn á að hafa, að ekki sé þörf á frekari lagasetningu um þetta mál, lögin um atvinnubótasjóð nægi og hér sé ekki í þessu frv. um nýmæli að ræða, löggjöfin um atvinnubótasjóð sé harla góð, því að í dagskránni segir, eins og ég las áðan, nú eins og í fyrra: „telur d. ekki þörf nýrrar lagasetningar í þessu efni og samþykkt frv. því óþarfa.“ Það á að vera óþarft að samþykkja þær ráðstafanir, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Það er engin ástæða til þess, að svona boðskapur sé borinn á borð í þskj., án þess að það sé nokkuð krufið til mergjar, hvað hæft sé í því, sem þarna er sagt, og hv. frsm. minni hl. gerði það raunar allýtarlega, þegar 2. umr. hófst fyrir nokkru í hv. d. Og ég vil benda á það í fyrsta lagi, að sumir hv. stjórnarþm. hér á Alþ. virðast ekki vera þessarar skoðunar, að ekki sé þörf á nýjum ráðstöfunum í þessum efnum. Það er a.m.k. kunnugt um einn hv. þm. í hópi stjórnarstuðningsmanna, sem er ekki þessarar skoðunar. Sá þm. er hv. 4. þm. Vestf., Þorvaldur G. Kristjánsson. Hann hefur flutt í sameinuðu þingi till. til þál., sem varðar það efni, sem fjallað er um í sambandi við þetta frv., og þegar sú till. var lögð fram í Sþ., flutti hv. þm. um það allýtarlega ræðu. Í þessari ræðu sinni sagði hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Svo mjög sem þessi mál“ — þ.e.a.s. jafnvægismálin — „hafa verið á dagskrá hin síðari ár, verður ekki annað sagt en nokkuð hafi skort á raunhæfar aðgerðir til úrbóta. Mér virðist, að þetta sé vegna þess,“ sagði hv. þm., „að menn horfast ekki nægilega í augu við þá staðreynd, að til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins þurfa þeir landshlutar, sem höllustum fæti standa, ekki einungis að njóta þeirra framfara og framkvæmda, sem stuðlað var að um allt land með venjulegum hætti, heldur þurfa þeir sérstakra aðgerða við, sem sérstakt fjármagn þarf til. Þess hefur ekki verið nægilega gætt í framkvæmd," sagði hv. 4. þm. Vestf. í þessari ræðu. Og hann nefndi einmitt í þessari ræðu starfsemi atvinnubótasjóðs sem dæmi um ófullnægjandi aðgerðir í þessu máli og færði fyrir því rök. Það er sem sé kunnara en frá þurfi að segja, að starfsemi atvinnubótasjóðs, sem annars er hin þarfasta stofnun og ekki er meiningin að hrófla nokkuð við með þessu frv., er þannig, að það verður ekki sagt, að hann vinni að því verkefni einu að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Ég hef hér fyrir framan mig skýrslu um úthlutun á lánum úr atvinnubótasjóði vorið 1963: Hann hafði mjög naum fjárráð þá.— Honum eru ekki ætlaðar nema 10 millj. í tekjur á ári, og við þessa fyrstu úthlutun sína samkv. þessum nýju lögum reyndist hann í raun og veru gjaldþrota,þannig að stjórn sjóðsins komst að þeirri niðurstöðu, að sú úthlutun, sem hún vildi framkvæma, væri ekki framkvæmanleg með því fé, sem hann þá hafði undir höndum. Þá var farið inn á þá leið að fá heimild frá ríkisstj.; sem ég veit nú raunar ekki, hvaða lagagildi hefur, til þess að nota fyrir fram nokkuð af tekjum ársins 1964. Það var gert, og þannig reyndist framkvæmanlegt að veita þau lán, sem sjóðsstjórnin taldi nauðsynlegt að veita, til þess að úthlutunin yfirleitt gæti farið fram. En ef sjóðurinn fær það ekki bætt upp, og ekki hefur það verið gert í fjárl. fyrir þetta ár, hefur hann á árinu 1964 enn minna fé til umráða en hann hafði á árinu 1963. En vonandi komast menn að raun um það, áður en þessu þingi lýkur, að úr því þurfi að bæta. Atvinnubótasjóður hafði sem sé ekki úr mjög miklu fé að spila á sínu fyrsta starfsári samkv. hinum nýju, margumræddu lögum, sem samkv. umsögn meiri hl. eiga að vera það — við skulum segja: fullkomin, að frekari löggjöf sé óþörf., En þrátt fyrir það úthlutaði hann á þessu vori einum 8 lánum til fyrirtækja í Reykjavík. Og hann úthlutaði nokkrum lánum í viðbót til fyrirtækja á þeim svæðum, þar sem skipulagsmennirnir hér kalla nú Stór-Reykjavík. Ég ætla, að upphæðin; sem fór í Reykjavík, hafi numið nálægt 1 millj. kr., en hitt hef ég ekki lagt saman. Auðvitað er ég ekki að finna að þessari úthlutun. Ég er ekki að finna að því, þótt fyrirtæki í Reykjavík eða jafnvel í Stór-Reykjavík hafi fengið lán úr atvinnubótasjóði. Það er ekki nema eðlilegt. En það er fráleitt, þegar þannig er ástatt, þegar starfsreglur sjóðsins eru þannig, að tala um, að þetta sé sú jafnvægisstofnun, sem koma skal, sú sem á að tryggja byggð um land allt og koma í veg fyrir óeðlilega fólksflutninga. Það er fráleitt. Nei, atvinnubótasjóðurinn — er að verulegu leyti aðeins framhald af stofnun, sem starfaði fyrir nokkrum árum við Fiskveiðasjóð Íslands; svokallaðri styrktarlánadeild. Þessi stofnun, styrktarlánadeild Fiskveiðasjóðs Íslands, veitti þá svokölluð styrktarlán til kaupa á fiskiskipum til viðbótar 1. veðréttar lánum, sem fiskveiðasjóður veitti. Þessi deild er nú hætt starfsemi sinni, en atvinnubótasjóðurinn hefur tekið hana upp: Hann veitir út á síðari veðrétt allmikið af lánum, að vísu ekki háar upphæðir, til flestra fiskiskipa, sem landsmenn kaupa, hvar sem þeir eru á landinu, og til þessa fer mjög verulegur hluti af fé sjóðsins. Þetta er mjög svo eðlileg starfsemi og ekki athugaverð á neinn hátt eða aðfinnsluverð, heldur þvert á móti. En það á ekki að nota þessa stofnun eða lögin um hana sem átyllu til þess að koma í veg fyrir, að samþykkt sé sú löggjöf, sem þörf er á til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Slíkan málflutning leyfi ég mér að átelja, alveg eins og ég leyfði mér að átelja hann í fyrra. Og það er upp slíkan málflutning nú í annað sinn. Við því er vitanlega ekkert að segja, þó að nefndir eða nefndarhlutar leggi til, að mál sé afgreitt með rökst. dagskrá. Það er mjög algengt í þingi, að það sé gert, og við því er ekkert að segja annað en að aðrir menn geta verið því ósammála. En dagskráin verður að vera rökstudd, ef hún á að heita rökstudd dagskrá. Hún verður að vera studd með réttum og sönnum rökum. Vera má, að hin raunverulega ástæða til þess, að hv. þm. telja sig ekki geta mælt með þessu frv., sé sú, að þeir telji ríkissjóði ekki fært að stofna til þeirra útgjalda á þessu ári eða næsta ári, sem af þessu mundu hljótast. Það út af fyrir sig er sjónarmið, sem hægt væri að hlusta á, þó að mér finnist það varla raunverulegt, eins og sakir standa. Fræðilega séð er það frambærilegt sjónarmið. En það er ekki það, sem þeir segja, hv: þm., heldur hafa þeir leyft sér að halda hinu fram.

Nú má vera, að hv. þm. þyki, að hér sé nokkuð mikið mælt, og ég vil þá líka leyfa mér að styðja þessi ummæli mín með rökum. Og þess vegna ætla ég að leyfa mér að rifja upp fyrir hv. meiri hl. og fyrir hv. þm., þ. á m. þeim, sem e.t.v. — e.t.v. segi ég — hafa ekki kynnt sér þetta mál ýtarlega, — rifja upp þau nýmæli, sem í þessu frv. felast, í tilefni af því, að svona ummæli hafa verið viðhöfð. Ég vil þá í fyrsta lagi minna á 1. gr. frv. Í 1. gr. frv. felst skilgreining á því, hvað það sé, sem teljist samkv. þessu frv., ef að lögum verður, stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Og sú skilgreining felst í því, að í gr. er sagt, að tilgangur l. sé að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með rannsóknarstörfum, áætlunargerð og fjárhagslegum stuðningi til framkvæmda og eflingar atvinnulífi í þeim landshlutum, þar sem bein eða hlutfallsleg fólksfækkun hefur átt sér stað undanfarið eða er talin yfirvofandi. Það er ætlazt til þess, að þær aðgerðir, sem framkvæmdar verða samkv. þessum lögum, miði í þá átt að stuðla að því, að ekki fækki tiltölulega fólki í einstökum landshlutum, og jafnframt að stuðla að því, að þessir landshlutar haldi sinni eðlilegu fólksfjölgun, eftir því sem við verður komið að sjálfsögðu. Hér er sem sé um tvennt að ræða. Hv. frsm. meiri hl., þegar hann ræddi um þróun þá, sem orðið hefur undanfarna áratugi, ræddi hann í rann og veru eingöngu nm það, virtist mér, hvar fólki hefði beinlínis fækkað, hvar íbúatalan væri lægri nú en hún hefði áður verið. En það er ekki nóg að líta á þetta. Árleg fjölgun þjóðarinnar hefur nú síðustu tvo áratugina verið nálægt 2% á ári. Þetta er sem sé meðalfjölgunin í landinu, og sá landshluti, sem ekki hefur þessa meðalfjölgun, heldur ekki sinni eðlilegu fólksfjölgun miðað við landið í heild. Og það gefur auga leið, að jafnvel þó að í einhverju byggðarlagi hafi fjölgað um eina eða tvær manneskjur eða kannske 10—20 á 20—30 árum, þá skiptir það ekki svo miklu máli, ef samhliða hefur fjölgað stórlega í landinu, því að þá hefur hlutfallið breytzt milli þess landshluta, sem þar er um að ræða, og landsins í heild. Þessi landshluti er orðinn veikari en áður var miðað þjóðarheildina.

Hv. þm. var að minnast á það í ræðu sinni, að þessi 20 ára þróun eða 22 ára þróun, sem skýrt er frá í grg. frv., ætti ekki við nú síðustu árin. Hann virtist með þessu vilja gefa í skyn, að í raun og veru væri búið að stöðva þessa þróun; sem hefði kannske verið í byrjun hins fimmta áratugar. En ef hv. þm. kynnti sér þetta mikla plagg, sem ég nefndi hér áðan, sem er grg. skipulagsmannanna í Stór-Reykjavík um fyrirhugaða byggð þar og skipulag í framtíðinni, þá mundi hann komast að raun um það; að þeir segja í áliti sínu, að þeir geri ráð fyrir, þó að þeir segi það kannske ekki beinlínis þannig, en tölurnar, sem þeir nefna, segja það, að 2/3 af fólksfjölguninni í landinu verði á þessu svæði. Og þó álíta þeir í raun og veru, að fjölgunin verði meiri, því að þeir segjast gera ráð fyrir nokkru meiri fjölgun í till. sínum um byggð og skipulag að öðru leyti, enda er það svo, að einnig nú síðustu árin heldur þessi þróun áfram, þó að hún sé e.t.v. ekki jafnhröð og hún var um tíma. Ég gerði það mér til fróðleiks, rétt eftir að ég hafði hlýtt á ræðu hv, þm., að ég bar saman manntalið frá hagstofunni frá 1. des. 1962 og bráðabirgðamanntalið, sem nú er nýkomið frá þessari sömu hagstofu um mannfjöldann 1. des. 1963, og þar kemur fram það, sem mig grunaði: í flestum sýslum landsins, þar sem kauptún og sum ærið stór eru þó innifalin, stendur mannfjöldinn í stað milli þessara ára, víða fækkar beinlínis tölulega, og á sumum stöðum er örlítil fjölgun, en fjarri því að vera hin eðlilega fólksfjölgun, fjarri því, að þessar sýslur með kauptúnum sínum haldi sinni eðlilegu fólksfjölgun, enda getur það auðvitað ekki farið saman, að mikill meiri hluti fólksfjölgunarinnar staðnæmist á því svæði, sem nú hefur þó ekki nema rúman helming þjóðarinnar, og að hinir einstöku landshlutar haldi sinni eðlilegu fólksfjölgun. — Þetta vildi ég minnast á í sambandi við ummæli, sem hv. frsm. lét falla um þetta atriði málsins. Ég er þá kominn að því — (Forseti: Má ég spyrja hv. ræðumann, hvort hann vilji ljúka ræðu sinni á skömmum tíma eða fresta?) Það er alveg á valdi hæstv. forseta. (Forseti: Ef hann getur lokið henni á 2—3 mínútum, þá er það velkomið, að öðru leyti verður að fresta.) Það get ég, því miður, ekki. (Forseti: Þá er rétt, að við frestum ræðunni.) Já, það er sjálfsagt að verða við því.

Umr. frestað, en frv. var ekki á dagskrá tekið framar.