20.12.1963
Efri deild: 33. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

95. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það fór nú svo, að ég gat ekki verið við nema að litlu leyti, þegar 2. umr. fór hér fram, en þá var beint til mín fsp., m.a. í sambandi við 95. gr. Það er um heimild til að ákveða með reglugerð, að leyfa skuli sérstakt umferðargjald af bifreiðum, sem fara um tiltekna vegi eða brýr. Í tilefni af þessu vil ég taka það fram, að þessi heimild var sett hér inn vegna þess, að til tals hefur komið að taka vegartoll af Keflavíkurvegi, þegar hann er fullgerður, helzt svo háan, að það gæti staðið undir vöxtum af því láni, sem til vegarins hefur verið og verður tekið. Ég vil þó upplýsa það, að ákvörðun hefur ekki verið tekin um þetta og þá vitanlega miklu síður, hversu hár þessi tollur verður, ef hann verður á lagður. En fyrirmyndina er að hafa frá, ýmsum öðrum löndum, sem taka vegartolla og brúartolla, og víst er um það, að ef vegartollur yrði tekinn á þennan hátt, yrði hann aldrei hafður svo hár, að það þættu ekki stór hlunnindi að því að hafa fengið steyptan og góðan veg á móti því að fara hina vondu og holóttu malarvegi. Ég vil taka það fram, að þetta ákvæði verður áreiðanlega notað mjög varlega, og ég vil enn fremur taka það fram, að áður en ákvörðun er tekin um það að innheimta slíkan toll, þá þarf að gera ýmsar athuganir, áður en slíkt getur átt sér stað, til þess að koma í veg fyrir að það verði unnt að halda því fram, að níðzt sé á einu byggðarlagi frekar en öðru. En ég get vel látið mér til hugar koma, að þegar við höfum náð þeim áfanga að nota varanlega vegi, verði a.m.k. fjölförnustu vegirnir tollaðir á þennan hátt. En til þess að það borgi sig, þarf að vera mikil umferð um vegina, og erlendis er þetta tíðkað þannig, að það er tekið aðeins þar sem umferðin er mikil og þar sem það þykir borga sig, en ekki í þeim landshlutum, þar sem umferðin er minni. Áður en þetta kemur til framkvæmda, verður að fara miklu nánari athugun fram á þessu máli. Það þótti hins vegar rétt að hafa heimildina í lögunum, enda þótt það sé ekki, eins og nú standa sakir, mjög aðkallandi.

Ég vil enn á ný lýsa ánægju minni yfir því, að ný vegalög eru nú sem sagt að taka gildi. Við erum nú að ljúka sjöttu og síðustu umr. málsins. Það hefur komið fram við athugun þessa máls, að þegar áætlun var gerð í frv. til fjárl. í júlímánuði s.l., munu tekjur af benzíni, gúmgjaldi og þungaskatti hafa verið áætlaðar heldur háar. Þessi áætlun var endurskoðuð í okt. s.l., og þá sannfærðust þeir, sem höfðu gert áætlunina í júlí, um það, að þær tölur, sem eru í frv. til fjárl., eru of háar. En tölurnar, sem byggt, er á í vegalagafrv., eru þær tölur, sem þóttu réttar við nánari athugun í októbermánuði, og miðað við þær tölur var gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiddi á næsta ári 47.1 millj. kr., en væri þó skaðlaus miðað við það frv., sem fyrir liggur til fjárlaga fyrir árið 1964. Og vegna þess að hér hefur verið svolítið um þetta rætt að gefnu tilefni, vil ég lýsa því yfir, að þrátt fyrir þennan mismun mun ríkissjóður greiða á næsta ári 47.1 millj., eins og um hefur verið talað, og það hefur alltaf verið talað um þessa upphæð í samningum um lausn þessa máls. Þess vegna er það að sjálfsögðu sú upphæð, sem ríkissjóður greiðir, hvað sem því líður, að ósamræmi er milli tekna í fjárlfrv. og þeirra tekna, sem reiknað er með í vegalagafrv. af gúmgjaldi, þungaskatti og benzíngjaldi. Ég vildi aðeins taka þetta fram til þess að taka af allan vafa um þetta og það geti legið algerlega hreint fyrir.