21.11.1963
Neðri deild: 19. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í C-deild Alþingistíðinda. (1958)

61. mál, hefting sandfoks

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Frv. það til 1. um heftingu sandfoks og græðslu lands, sem hér liggur fyrir til umr., höfum við hv. 3. þm. Norðurl. e. enn leyft okkur að flytja, en siðast bárum við það fram á næstsiðasta þingi, þinginu 1961–1962. Er þetta frv. nær shlj. því, sem þá var. Frv. var þá allýtarlega rætt við 1. umr. Síðan fékk landbn. þessarar hv. d. það til athugunar. Kom fram nál. frá minni hl. n., og mælti sá hluti með frv., en meiri hl. landbn. skilaði ekki nál. Til 2. umr. kom málið ekki.

Þetta mál er nú ærið mjög rætt í þessari hv. d., og ég tel ekki ástæðu til þess að hafa í þetta sinn sérlega langa framsöguræðu og mun því stilla máli mínu í hóf.

Svo sem kunnugt er, er frv, samið af svokallaðri sandgræðslunefnd, sem Hermann Jónasson, þáv. landbrh., skipaði á árinu 1957. Í febrúarlok 1958 skilaði svo sandgræðslunefnd frv. til nýrra sandgræðslulaga ásamt mjög rækilegri grg. Síðan hefur málið ekki náð fram að ganga og staðið að mestu leyti fast. Þess ber að geta, að snemma árs 1960 hafði sandgræðslunefndin, eftir að hafa haft sitt eigið frv. og grg. til nokkurrar athugunar, gert nokkra breyt. á sínu fyrra frv., og í þetta sinn er frv. flutt í þeirri mynd að kalla, sem sandgræðslunefnd gekk frá því hið síðara sinn. Frv. hefur frá upphafi verið flutt hér á Alþ. af einstökum þm., og nú mun það vera í 5. sinn, sem það kemur hér fram og liggur fyrir.

Það fer ekki á milli mála, að frv. er vel og ýtarlega unnið af hálfu þeirra, sem það hafa undirbúið, enda hefur það aldrei verið véfengt. Um það hafa fjallað þeir menn, sem öðrum voru fremri um ræktunar- og tandgræðslumál yfirleitt. Og rök þau, sem liggja að því, að slíkt frv. er samið og lagt fram og stutt að þeirri stefnu um teið, sem í frv, getur, að með nýrri löggjöf og nýjum stórátökum þurfi að hefja sókn til eflingar og stækkunar gróðurríki landsins, — rök þau eru öllum auðsæ og þess vegna að mestu óþarft um þau að ræða.

Sandgræðsla Íslands hefur á liðnum áratugum unnið hið mesta þjóðnytjastarf. Það hefur verið komið í veg fyrir gróðureyðingu af völdum sandfoks, á stórum svæðum þessa lands og þá ekki sízt í mínu héraði, Rangárvallasýslu, og einnig í Þingeyjarsýslu og viðar hefur verið vel að unnið. Innan sandgræðslugirðinga er mikið land. Það eru mörg hundruð km2 lands innan sandgræðslugirðinga á vegum Sandgræðslu Íslands og mikið af þessu landi er nokkuð vel grætt og annað mjög vel á veg komið, þannig að örfoka land eða sandlendi hefur verið tekið til nauðsynlegrar meðferðar og þar með búið að bjarga miklu af gróðurlendi í byggð. Eftir því sem lauslega hefur verið athugað af sérfróðum mönnum, mun vera utan sandgræðslugirðinga eigi minna en 4000 km2 sanda og mela, sem eru lægri en 400 m yfir sjávarmáli, og þetta land talið nokkuð auðvelt til græðslu, þannig að a.m.k. að gagni geti komið sem beitiland og til ræktunar að einhverju leyti, ef með þyrfti og þannig á stæði. En hér er aðeins um litinn hluta af auðnum landsins að ræða, sem vinna verður að nýtingu á, svo sem kostur er.

Eins og ég sagði, hefur sandgræðslan, og okkur er það öllum jafnvel kunnugt, unnið mikið og þarft verk. En ekki má hinu gleyma, að bændur landsins hafa eigi síður unnið að sínu leyti að landgræðslumálunum. Þeir hafa í mínum og flestra annarra augum unnið hið mesta þrekvirki. Og það er eigi síður rétt að láta þá stétt manna í þessu landi fá þau vopn í hendur, sem mega duga þeim til þess að vinna í gróðurríki okkar lands og uppi á auðnum enn stærri sigra í þágu uppgræðslunnar og ræktunarmálanna yfirleitt.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir því, að öll starfsemi Sandgræðslu Íslands færist mjög í aukana og lagt verði inn á nýjar brautir í mörgu efni. Skipulega verði að því unnið og auknum fjármunum, sem verulegu nemi, til þess varið að efla og auka gróður í úthögum og á afréttum. Aukin tækni, meiri þekking ásamt vaxandi hópi ungra og vaskra sérfræðinga í landbúnaðarmálum gefur hinar beztu vonir á þessum sviðum, og þegar má segja, að fengizt hafi dýrmæt reynsla í þessum efnum og gefi okkar vonum hinn bezta byr í seglin.

Í frv. er auðvitað fyrst og fremst ætlazt til þess, að sjálf sandgræðslan haldi áfram líkt og áður, en þó í auknum mæli. Þá er og stefnt að því, að hreppsfélög og félög einstakra bænda geti hafizt handa um sandgræðslumál í samráði við þessa stofnun, Sandgræðslu Íslands, án þess að afsala sér landi í hendur hennar, eins og gilt hefur almennt, þegar land einstaklinga hefur verið tekið til meðferðar af Sandgræðslunnar hálfu.

Þá eru ákvæði, þar sem Sandgræðslunni eru falin hin allra veigamestu verkefni, og eru það nýmæli. Þessi verkefni eru fólgin í því að græða upp og auka gróður á viðlendum beitilöndum og með nýjum aðferðum. Það er gert ráð fyrir því, að slíkar aðferðir, ef til kemur, verði byggðar á samstarfi við þá félagsaðila, sem mest fara með mál bænda á þessu sviði, eins og t.d. sýslufélög, hreppsfélög og fjallskilafélög.

Í 20. gr. þessa frv. er svo ákvæði um, að Sandgræðsla Íslands skuli í samráði við Búnaðarfélag Íslands og jarðvegsrannsóknadeild búnaðardeildar Atvinnudeildar háskólans gera 10 ára áætlun um framkvæmdir um eflingu gróðurs á afréttum og úthögum. Þetta er veigamikið ákvæði og stefnir til þess, að sett verði framkvæmdaáætlun í þessu efni og þau svæði þá tekin, sem bezt liggja við og hægast og ódýrast er að koma til nokkurs gróðurs. Og um slíkt efni geta í raun og veru ekki aðrir fjallað en sérfræðingar í jarðvegsefnum og sandgræðslumálum yfirleitt.

Þá eru í þessu frv. veigamikil ákvæði um stöðugt eftirlit og athuganir á afréttum uppi í því skyni að koma í veg fyrir gróðurfarsspillingu og uppblástur sakir ofbeitar.

Þá má þess geta, að það er eitt nýmæli hjá sandgræðslunefndinni, að Sandgræðslu Íslands er heimilað að gripa inn í, þar sem stofnað hefur verið til mannvirkjagerðar í nokkuð stórum stíl, og gera viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir verulegt eða varanlegt tjón af röskun á jarðvegi og öðru slíku, sem gæti horft til gróðurspjalla.

Ég hef leyft mér hér í sem stytztu máli að geta höfuðákvæða þessa frv., sem liggur fyrir til umr., og er þá eftir að geta þess, sem að vísu er í mínum augum og sjálfsagt flestra annarra stærsta atriðið, og það er öflun fjár til þess að framkvæma þau verkefni, sem Sandgræðslu Íslands eru fengin í hendur með þessu frv., ef að lögum verður. Og þess er þá skemmst að minnast, að sandgræðslunefndin hið siðara sinni komst að þeirri niðurstöðu, að eðlilegast væri eftir atvikum að afla fjár með því að leggja sérstakan aukaskatt á áfengi, þannig að 5 kr. gjald skuli lagt á allar vínvörur til drykkjar, sem seldar eru um hendur Áfengisverzlunar ríkisins. Ég hygg, að miðað við sölu á þessum drykkjum árið 1962 megi telja, að tekjur af þessu 5 kr. gjaldi hefðu numið allt að 5 millj. kr. eða rúmlega þeirri fjárhæð, sem veitt er eða ætluð er á fjárlögum fyrir árið 1964 til sandgræðslumála alls.

Það er ekki óeðlilegt, að Sandgræðslunni væri fenginn í hendur tekjustofn eins og þessi, þegar t.d. er virt, að Skógrækt ríkisins hefur fengið sérstakan tekjustofn af sölu tóbaksvara, og má segja, að það sé nokkuð hliðstætt. Og um þennan tekjustofn er það enn fremur að segja og ber að undirstrika, að hér er ekki beinlínis farið inn á tekjuliði ríkissjóðs, sem annars væri, ef lagt væri til, að tekjur í þessu efni væru fengnar gegnum fjárlög. Og það er alveg rétt og hefur oft komið fram í ræðum áður um þetta mál og ekki sízt hjá hæstv. landbrh., sem kemur úr héraði, þar sem þessi mál, sandgræðslumálin og uppgræðslumál yfirleitt, eru brennandi spursmál, að þetta væri leið, sem væri mjög vei til athugunar að fara. Og það kemur fram í áliti sandgræðslunefndar frá 1960 um þessa tekjuöflunarleið, að hæstv. landbrh. hafi verið hvað hlynntastur henni af þeim leiðum, sem verið hafa til athugunar.

Við flm. þessa frv. gerðum okkur vonir um í lengstu lög, að hæstv. landbrh. flytti sjálfur þetta mál, þegar hann hafði fengið fyrir mörgum árum nauðsynlegar skýrslur og grg. frá sandgræðslunefnd í hendur, og hefði slíkt að sjálfsögðu bezt hæft. En þær vonir brugðust. Hefur væntanlega og eftir því sem heyra hefur mátt á hæstv. landbrh, engin samstaða innan ríkisstj. fengizt enn þá um flutning málsins, a.m.k. ekki í þessu horfi, sem við nú leggjum það fyrir. En fyrir þá sök, hversu málið er gagnmerkt í sjálfu sér og brýn nauðsyn að koma því fram til úrslita að áliti flestra þeirra, sem um slík og þvílík mál fjalla, þá höfum við flm. talið okkur bæði rétt og skylt að flytja það enn á ný í þeirri trú, að samstaða náist um framgang þess í meginatriðum.

Ég þykist nú eiga von á því, að hæstv. landbrh., sem er mikill áhugamaður um sandgræðslumál eins og mörg önnur landbúnaðarmálefni og honum er skylt, muni taka hér til máls á eftir mér, enda færi það mjög að venjum, því að við höfum áður töluvert rabbað saman hér í deildinni um þetta mál. En ég vildi mega eiga von á því, að hæstv. landbrh. tæki nú öllu jákvæðara í þetta stórmál en áður, og hann þarf ekki að halda það, þó að hann hafi stundum haldið því fram í umr. um það, að það væri fyrir fordildar sakir, að við flm. þessa frv. erum með það á prjónunum. Það er síður en svo. Og við erum ekki einir nm það af þdm. að hafa áhuga á þessu máli og framgangi þess. Þetta mál er hvorki einkamál okkar flm.ríkisstj. heldur. Þetta er mál alþjóðar. Og það ætla ég að vona, að hæstv. landbrh. fallist á það í þetta sinn, er hann kemur hér í ræðustólinn og lýsir viðhorfi sínu til málsins: Og það mundi enga gleðja fremur en okkur flm., ef hæstv. landbrh., sem hefur tögl og hagldir hér í þessari deild eins og í Alþingi, kæmi nú til móts við okkur eða við fyndum sameiginlegan flöt til þess að koma málinu fram.

Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja orð mín að þessu sinni fremur, en vildi óska þess, að þessu máli yrði, eins og ég sagði áður, jákvætt tekið, og að lokum vil ég óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr., þegar þessari umr. er lokið, og enn fremur til hv. landbn, deildarinnar.