21.11.1963
Neðri deild: 19. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í C-deild Alþingistíðinda. (1959)

61. mál, hefting sandfoks

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Rétt er það, að þetta frv. er ekki nýtt hér í hv. d. Það er í fimmta skipti, sem frv. um sandgræðslu er flutt, og það er í þriðja sinn, sem þetta frv. er flutt. Þetta frv. er nefnilega ekki sama frv. og það, sem sandgræðslunefnd samdi, sem þáv. landbrh., Hermann Jónasson, skipaði. Þetta er frv., sem samið var af nefnd, sem ég skipaði 1960, og er í mörgu ólíkt því fyrra frv., þótt bæði frv. eigi það sameiginlegt að vilja stefna að aukinni sandgræðslu.

Í frv. þeirrar nefndar, sem Hermann Jónasson skipaði, var tekjuöflunin á annan veg en lagt er til í þessu frv. Í því frv. var lagt til, að búpeningur yrði skattlagður og teknanna aflað þannig. Það átti að borga visst gjald af hverri sauðkind, hverjum nautgrip og hverju hrossi. Þetta var ekki vinsælt, og mótmæltu bændur því, að þeir yrðu skattlagðir á þennan veg, og er það frv. úr sögunni þess vegna fyrir 3 árum. En þá má spyrja: Hvernig stendur á því, að þetta frv. hefur ekki heldur náð fram að ganga, þótt það sé endurbætt og við það aukið frá hinu fyrra frv.? Það er margt nýtilegt í þessu frv., sem gæti vissulega orðið uppgræðslu og sandgræðslu til framdráttar. Eigi að síður hefur ekki fengizt samstaða um það innan þingsis að gera þetta frv. að tögum, enda þótt það sé ljóst og áreiðanlega vitað, að allir hv. alþm. skilja það, að aukning sandgræðslu er nauðsynleg og æskilegt að auka fjárráð þessara stofnana. Þetta lá fyrir, áður en hv. 4. þm. Sunnl. og hv. 3. þm. Norðurl. e. fluttu frv. Það lá fyrir, að hv. Alþingi hefur hafnað þessu frv. í því formi, sem það er, þrátt fyrir vilja Alþingis um það að auka sandgræðsluna og efla, og þess vegna skil ég ekki, af hverju þessir hv. þm. flytja þetta frv. óbreytt, af hverju er ekkí leitað að nýjum leiðum.

Hv. 4. þm. Sunnl. talaði hér um áðan, að það ætti að leita að samstöðu um málið. Ekki ræddi hann við mig um þetta mál, áður en það var flutt, um samstöðu. Og ég vil upplýsa hv. þm. og hv. flm. um það, að einmitt vegna þess að þessu frv. hefur verið hafnað þrátt fyrir ágætan vilja allra þm. um að bæta úr í þessu máli, auka fjárráð þessarar stofnunar, þrátt fyrir ágætan skilning allra þm. á því að stöðva sandfokið og auka uppgræðsluna, þá hefur þessu frv. verið hafnað. Þess vegna er það, sem ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að leita að nýjum leiðum og úrræðum, sem mættu verða til þess að sameina menn og ná góðum árangri í þessu velferðarmáli þjóðarinnar. Þess vegna er það, að nú er verið að endurskoða þetta frv. Meðal þeirra, sem að því vinna, eru Pálmi Einarsson og sérfræðingur í atvinnudeildinni, Ingvi Þorsteinsson. Þeir eru að vinna að þessu máli nú og reyna að koma því í það form, sem hv. Alþingi gæti sameinazt um. Og það er enginn vafi á því, að þótt fyrra frv. hefði orðið að gagni að mörgu leyti, ef það hefði verið samþykkt og tekjuöflunin dálítið einkennileg, þá hefði það þó getað gert gagn. Þetta frv., sem hér um ræðir, er þó enn betra en það fyrra og a.m.k. losar bændur við þennan fyrirhugaða skatt, og það sýnist vera, að það væri engin fjarstæða, að eitthvað af álagningu, sem er á áfengi, væri látíð í þetta fara. En það er ekki sagt, að það sé endilega nauðsynlegt, að það sé þannig, því að óbeinlínis er það fé vitanlega tekið úr ríkissjóði, sem þannig væri tekið af áfenginu. En það vitanlega má fara margar leiðir í því að afla tekna fyrir sandgræðsluna, og það er áreiðanlega nauðsynlegt og eðlilegt, þegar farið er að hugsa vel um þessi mál, að breyta í ýmsu frá þessu frv. Það er t.d. nauðsynlegt að gera sér fulla grein fyrir því, betur en er gert í þessu frv., hvernig haga skal vinnubrögðum þannig við uppgræðsluna, til þess að gæti komið að sem mestum og beztum notum, t.d. að gera áætlun fyrir ákveðinn tíma, 5 eða 10 ár o.s.frv. og gera sér fyllilega grein fyrir því, að það er ekki aðeins þörf á því að græða upp það, sem nú er örfoka auðnir, heldur líka koma í veg fyrir, að það blási upp, sem enn er gróið land. Og það þarf að athuga það einnig, hversu mikið beitarþolið er, og jafnvel þarf að gera ráðstafanir til þess með lögum, að landinu sé ekki íþyngt um of, þannig að til ofbeitar komi og uppblásturs af þeim ástæðum.

Það er enginn vafi á því, að vilji Alþingis til þess að auka sandgræðsluna og skilningur á mikilvægi sandgræðslunnar er fyrir hendi, og það sýnir sig, að ríkisstj. hefur haft skilning á þessu, þótt ekki hafi verið samin ný löggjöf um það, því að frá því, sem var á fjárl. 1958, hafa fjárráð sandgræðslunnar verið aukin um 160%. Á fjárl. 1958 eru fjárveitingar til sandgræðslunnar 1 millj. 930 þús. Á fjárl. 1963 eru fjárveitingar 4 millj. 330 þús. Og auk þess er tekjuafgangur af Gunnarsholtsbúinu, sem hefur farið til sandgræðslunnar, og auk þess er framlag héraðanna, sem þau leggja á móti, þegar borið er á með flugvélum, en það er helmingur, þannig að það eru rúml. 5 millj. kr., sem sandgræðslan hefur á þessu ári til umráða á móti 1 millj. 930 þús. 1958. Fjárráð sandgræðslunnar hafa þannig verið aukin um rúml. 3 millj. kr. á þessu tímabili, og ég er sannfærður um það, að þegar hv. 4. þm. Sunnl. gerir sér grein fyrir þessu, þá er hann út af fyrir sig ánægður með það, enda kom honum það ekki til hugar í sinni ræðu áðan að deila á ríkisstj. fyrir áhugaleysi og skilningsleysi á þessum málum.

Það, sem okkur hefur ekki komið saman um að öllu leyti, er aðferðin við það, hvernig eigi að lögfesta þessi mál, til þess að geti komið að sem mestu gagni, og ég vil endurtaka, að það er ekki leiðin að endurflytja þing eftir þing sama frv., sem búið er að hafna. Ef við erum að vinna fyrir gott málefni, verðum við að leita að nýjum leiðum til þess að koma málunum fram, samkomulagsleiðum. Og ég er alveg sannfærður um það, að þá ríkisstj. og það Alþingi, sem hefur aukið framlög til sandgræðslunnar um 160% síðan 1958, — það Alþingi og þá ríkisstj, vantar ekki vilja til þess að koma skynsamlegri löggjöf á í þessu efni. Þess vegna þarf að leiða saman hina beztu krafta til þess að finna hin beztu úrræði, og eins og ég sagði áðan, þegar farið er að skyggnast vel inn í þessi mál, er margt, sem kemur til greina í sambandi við það. Það er gróðurverndin ekki síður en sandgræðslan og uppgræðslan.

Í sjálfu sér er ekki ástæða til að vera að fjölyrða meira um þetta. Ég vildi aðeins koma þessu hér að, til þess að hv. alþm. viti, að það er verið að vinna að þessum málum og löggjöf um þessi efni. Það er ekkert aðalatriði, hvort hún kemur árinu fyrr eða seinna. Það er miklu meira atriði, að hún sé sniðin eftir nauðsyninni og eftir því viðhorfi, sem hinir færustu menn fá á þessum málum, eftir því sem þeir vinna meira að þeim, þannig að sem mests árangurs megi vænta. Og ég hefði nú sagt, að það væri mjög slæmt, ef það hefði dregizt að lögfesta þessi frv., ef ríkisstj. hefði haldið að sér höndum og ekkert gert í þessum málum á meðan. En hv. 4. þm. Sunnl. mun ekki ásaka ríkisstj. fyrir það að hafa verið aðgerðalaus, þar sem framlagið til sandgræðslunnar hefur verið aukið um 160% á þessu tímabili. Og ég vil minna menn á það, að 1958 höfðu framsóknarmenn tækifæri til þess að samþykkja frv. um sandgræðslu, — það frv., sem þá var lagt fram og sandgræðslunefnd hafði samið samkv. óskum þáv. landbrh., sem var framsóknarmaður.

Það er ánægjulegt að vita það, að uppgræðslan núna seinni árin hefur gengið mjög vel og hagræðing og bætt vinnubrögð gefa betri árangur en áður. Það eru 3—4 ár síðan byrjað var að dreifa áburði úr flugvél. Það var í smáum stíl fyrsta árið. Þetta hefur alltaf verið að aukast, og umsóknir hafa komið úr flestum héruðum landsins um það að fá áburðarvélina, og hrepparnir hafa boðizt til að leggja helming fram á móti. Og svo var komið sumarið 1961, að ein vél annaði þessu tæplega, því að ef áburðardreifingin átti að koma að gagni það sumarið, sem áburðinum var dreift, mátti það ekki vera seinna en í ágúst, helzt fyrri hluta ágústmánaðar. Til þess að hægt væri að fullnægja óskum allra í þessu efni, var keypt önnur áburðardreifingarvél á s.l. vori. Starfsemi þessi hefur þess vegna aukizt stöðugt, og mér kæmi ekki á óvart, þótt þörf væri fyrir þriðju áburðarvélina, áður en langt um liður.

Það er öllum ljóst, að landið verður að hætta að blása upp. Við höfum ekki efni á því að láta gróðurinn fara til sjávar, eins og gert hefur á undanförnum áratugum og öldum, og sem betur fer erum við komnir vel áleiðis í því að hefta eyðingaröflin að þessu leyti. En það eru þó sýnilega stórverkefni fram undan á einstökum stöðum. Það er t.d. í Haukadal í Biskupstungum, þar þarf að girða stóra girðingu. Þar hefur landið verið að blása og bar mest á því sumarið 1962 og s.l. sumar, og er nú þegar byrjað á þeirri girðingu. Og það má reikna með, að það kosti hátt upp í 1 millj. aðeins að ganga frá þeirri girðingu og sá í uppblásturssvæðin þar, þannig að verkefnin eru ákaflega mikil víðs vegar um landið, ekki aðeins í sambandi við sandgræðslu, heldur og ekki síður í sambandi við gróðurvernd.

Ég læt svo máli mínu lokið að þessu sinni, en tel sjálfsagt, að haldið verði áfram að vinna að þessum málum.