20.12.1963
Efri deild: 33. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

95. mál, vegalög

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég gerði hér stuttlega grein fyrir mínum persónulegu viðhorfum til nokkurra brtt., sem komið hafa fram hjá einstökum hv. þdm., og skal ég ekki fara nánar út í það. En að afloknum fundi í gær kom samgmn. saman á fund og ræddi um þessar brtt., sem fyrir liggja, og það var niðurstaða af þeim fundi, að sem heild gat n. ekki stutt neinar þessar brtt., og var því ákveðið að leggja ekkert sérstakt til um þær, heldur hefðu nm. óbundnar hendur um afgreiðslu þeirra og atkvgr. En í sambandi við þessar umr. og út af mismunandi skilningi á einni grein frv. þykir rétt að taka það fram hér í sambandi við 91. gr. að í öllum útreikningum þeim, sem mþn. gerði í sambandi við tekjuöflun 1964, er gert ráð fyrir því, að benzínskattshækkunin komi til framkvæmda 1. jan. 1964, og til samræmis við það er og gert ráð fyrir því, að þungaskattur fyrir árið 1963, sem fellur í gjalddaga á árinu 1964, verði einnig innheimtur með þeirri hækkun, sem frv. gerir ráð fyrir. Þetta er í samræmi við alla útreikninga, sem gerðir hafa verið, og er sagt til skýringar á þessari grein, til þess að það liggi ljóst fyrir, hvernig þetta var útreiknað af mþn.