21.11.1963
Neðri deild: 19. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í C-deild Alþingistíðinda. (1960)

61. mál, hefting sandfoks

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. fyrri flm. þessa frv., hv. 4. þm. Sunnl., hefur þegar gert ýtarlega grein fyrir efni frv., eins og það liggur fyrir hér á þskj. 66 og hefur áður legið fyrir þessari hv. d. Og ég hef ekki miklu við það að bæta. Hins vegar vildi ég gjarnan nota tækifærið til þess að ræða litíls háttar almennt um það stórmál, sem hér er á ferðum, þ.e.a.s. gróðureyðinguna í landinu og ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir hana og græða auðnir þessa lands, að því leyti sem það er talið fært með þeirri þekkingu og þeim aðferðum, sem menn nú ráða yfir.

Það, sem ég segi, verður þó að sjálfsögðu litíð annað en upprifjun á því, sem komið er fram í umr. um þetta mál áður, þegar það hefur verið flutt hér á hinu háa Alþingi. En þetta mál er þó þess eðlis og svo mikilsvert, að ástæða er til að rifja upp, þegar svona frv. er á ferðinni, ýmsar staðreyndir, sem nauðsynlegt er að menn geri sér grein fyrir. Ræða hæstv. landbrh, hér áðan gefur ekki mikið tilefni til umr. Þó kom fram í henni nokkur misskilningur, sem ég vildi gjarnan leiðrétta, og dálítið einkennilegur hugsanagangur. Hæstv. ráðh., sem annars tók þessu máli vel nú, lét orð falla á þá leið, að hann furðaði sig nokkuð á því, að við flyttum þetta frv. nú óbreytt eða lítið breytt frá því, sem það hefði verið, þegar það var síðast flutt fyrir 2 árum, því að þá hefði Alþingi hafnað frv., og það var einkennilegt, fannst honum, að flytja mál aftur, sem Alþingi hefði hafnað.

Það er nú í fyrsta lagi um þetta að segja, að ef hæstv. ráðh. athugar nánar sinn gang og lítur í þingtíðindin frá undanförnum árum, mun hann sjá við nánari athugun, að Alþingi hefur ekki hafnað þessu frv. og ekki heldur öðrum þeim frv., sem flutt hafa verið á Alþingi um þetta efni síðan 1957. Þegar við fluttum frv. síðast, við hv. 4, þm. Sunnl., þá var því vísað til n., hv. landbn., í þessari hv. d. Minni hl. n. skilaði áliti og mælti með frv., en meiri hl. skilaði ekki áliti. Þetta hygg ég, að ég fari rétt með, en hæstv. ráðh. getur kynnt sér þetta nánar í skjölum þingsins. Alþingi eða hv. Nd. greiddi því ekki atkv. um þetta mál og hafnaði því ekki, hvorki samþykkti það né hafnaði því. Eins var það þau tvö skipti, sem málið hafði þá áður verið flutt. Þegar við þessir sömu flm. fluttum það á Alþingi 1950—1960, að ég ætla, og þegar Steingrímur Steinþórsson, fyrrv. búnaðarmálastjóri, flutti málið á þinginu 1958–1959, þá hafnaði þingið ekki frv., heldur hlaut það þau örlög margra þingmála að verða ekki útrætt. Við höfum því ekki flutt hér mál, sem Alþingi hefur áður hafnað, og enda þótt við hefðum gert það, væri ekkert einkennilegt við það, því að það mun hæstv. ráðh. líka komast að raun um, ef hann kynnir sér þingsöguna bæði fyrr og síðar, að það er ákaflega algengt, að þm. hafa flutt mál, sem þingið hefur hafnað. Alla tíð frá því að þessi stofnun var endurreist, hefur það gengið svo, að það eru mörg mál, sem ekki hafa gengið fram á Alþingi í fyrsta sinn, mörg mikilsverð mál, sem hafa orðið til góðs fyrir þetta þjóðfélag, en flm. málanna hafa ekki gefizt upp við að flytja þau, þó að Alþingi hafnaði þeim, heldur hafa þeir haldið áfram að flytja þau og vinna þeim fylgi, þangað til Alþingi hefur samþykkt þessi mál. Og eitt af þeim málum má segja, að sé sjálfstæðismál Íslendinga. Það er því næsta einkennilegt að viðhafa þessi ummæli, og hafa þau sjálfsagt verið höfð að lítt athuguðu máll. Hitt er svo alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni, að það gæti verið ástæða til þess að athuga málið betur, og það er svo um flest mál eða öll, að hversu vel sem þau eru undirbúin, getur lengi verið ástæða til að athuga í þeim einhver atriði betur. Og sízt munum við hafa á móti því, að mætir menn eins og Pálmi Einarsson landnámsstjóri eða starfsmaður atvinnudeildarinnar, sem hæstv. ráðh. nefndi hér og mun vera Ingvi Þorsteinsson, leggi fram sitt lið og sína þekkingu til þess að gera þetta mál sem bezt úr garði. Og ég geri satt að segja ráð fyrir því, að þessir menn eða a.m.k. Pálmi Einarsson landnámsstjóri, sem lengi er búinn að vera starfsmaður í landbúnaðarmálum, hefði fyrr verið reiðubúinn til þess að leggja á ráð og leggja fram sína þekkingu í þessu máli, ef til hans hefði verið leitað af hlutaðeigandi stjórnarvöldum, þegar þetta frv. kom hér fram á Alþingi.

Hæstv. ráðh. gat þess, að í sambandi við afgreiðslu þessa frv. þyrfti m.a. að gera sér grein fyrir vinnubrögðum þeim, sem viðhöfð yrðu til þess að framkvæma frv. Getur vel verið, að það sé rétt, að það þurfi að gera sér betur grein fyrir þeim vinnubrögðum, en venjulega er það framkvæmdaratriði að verulegu leyti, hvernig vinnubrögðunum skuli hagað. Hæstv. ráðh. sagði líka, að það væri nauðsynlegt að gera áætlun um framkvæmd þessara mála. En við nánari athugun mun hann sjá, að einmitt í þessu frv., í 20. gr., er kveðið svo að orði, að Sandgræðsla Íslands skuli í samráði við Búnaðarfélag Íslands og jarðvegsrannsóknardeild búnaðardeildar atvinnudeildar háskólans gera 10 ára áætlun um framkvæmdir samkv. 19. gr. frv., sem er uppgræðsla sú, sem er aðalnýmælið í frv., þannig að þeir, sem undirbjuggu málið, hafa fyllilega gert sér grein fyrir því og sett það í frv. beinlínis, að gera skyldi áætlun um þessi mál. Það þurfti því ekki að kveðja til neina aðra menn til að gera till. um það, að áætlun skuti gerð, hún er í frv.

En það mátti samt yfirleitt segja, að hæstv. ráðh. tæki þessu máli vinsamlega, og vil ég vænta þess, að það sé fyrirboði þess, að frv. nái nú fram að ganga. En það er hæstv. ráðh. náttúrlega ljóst, eins og okkur flm., að þetta mál mun ekki ná fram að ganga, ef hann, ráðh., eða hæstv. ríkisstj. leggst gegn því. Ríkisstj, hefur möguleika til þess að hindra framgang mála vegna aðstöðu sinnar og meiri hl., og nú er búið að hindra framgang þessa máls á Alþingi nokkrum sinnum. Ég vona, að nú verði þar annar háttur á hafður, og við flm. erum að sjálfsögðu, eins og hv. 1. flm. málsins tók fram, reiðubúnir til viðræðu og samstarfs um endurbætur á þessu frv. Hins vegar er það svo, að við flutning málsins bæði nú og fyrr höfum við farið eftir till. þeirra manna, sem á sínu m tíma var af þáv. landbrh. falið að undirbúa þetta mál. Við höfum í rauninni ekki gert þessar till. sjálfir, þetta eru till. okkur fróðari manna um þessi mál, en við höfum á þær fallizt og viljað vinna að því, að málið næði fram að ganga.

Upphaf þessa máls, sem hér liggur fyrir, er það, eins og hv. 1. flm. málsins raunar minntist á í framsöguræðu sinni, að á árinu 1957 skipaði þáv. hæstv. landbrh., Hermann Jónasson, 5 manna nefnd til að endurskoða sandgræðslulögin frá 1941 og gera frv. til nýrra sandgræðslulaga. í þessari nefnd, sem ráðh. skipaði til að athuga þetta mál, voru Björn Kristjánsson fyrrv. alþm. á Kópaskeri, sem var formaður n., Steingrímur Steinþórsson, þáv. búnaðarmálastjóri, Páll Sveinsson sandgræðslustjóri, Árni G. Eylands, þá starfsmaður í landbrn., og Arnór Sigurjónsson ritstjóri Árbókar landbúnaðarins. Ég þarf ekki annað en lesa þessi nöfn, til þess að hv. þm. megi sjá, að athugun þessa máls var fengin í hendur mönnum, sem skilyrði höfðu til þess að vinna gagnlegt starf. Það var líka svo, að þessi nefnd sýndi mikinn áhuga í starfi sínu og vann verk sitt af dugnaði. N. ferðaðist um þau héruð, þar sem sandgræðslustarfsemin hefur aðallega látíð til sín taka. M.a. skoðaði hún a.m.k. allar helztu sandgræðslugirðingarnar, og hún stóð fyrir því að gefa út á 50 ára afmæli sandgræðslustarfseminnar myndarlegt afmælisrit. Í þessari bók, sem ég hef hér í höndum og hv. þm. allir hafa haft í höndum, er yfirlit yfir þessa starfsemi frá öndverðu og merkilegar ritgerðir yngri og eldri um þessi mál, svo og athuganir eða yfirlit um athuganir á þeim verkefnum, sem fyrir liggja. N. samdi svo frv., sem hún afhenti hlutaðeigandi stjórnarvöldum, og þetta frv. var til meðferðar bæði í landbrn. og á búnaðarþingi á árinu 1958. Það er alveg rétt, sem hæstv. landbrh. tók fram, að í því voru ákvæði varðandi tekjuöflun, — ég held, að það hafi ekki verið mikið annað, — sem ollu nokkrum ágreiningi á búnaðarþingi, og í grg. frv., eins og við fluttum það á Alþingi, 1960–1961 ætla ég að það hafi verið, gerðum við grein fyrir áliti búnaðarþings á þessum málum og þeim till. og samþykktum, sem þar voru uppi. Þar var m.a. gert ráð fyrir sérstöku gjaldi á búpening, sem sandgræðslunefndin hafði lagt til og taldi, að mundi ekki illa til þess fallið að vekja almennan áhuga bænda á þessari starfsemi. Ég skal ekki dæma um það álit, en ýmsum þótti óþarft að leggja á þetta gjald. Einnig voru þar líka till., ef ég man rétt, um tekjuöflun með gjaldi á innfluttum fóðurbæti, eins og málið kom frá n. Á næsta þingi á eftir, að mig minnir 1958—1959, flutti einn nm., Steingrímur Steinþórsson, frv. á Alþingi, og það var í fyrsta sinn, sem það var flutt. Það voru þá orðin stjórnarskipti, og sú stjórn, sem við tók, lagði ekki þetta mál fram. En Steingrímur Steinþórsson flutti það þá á Alþingi.

Síðar, eftir að sú hæstv. ríkisstj., sem nú situr, kom til valda, tókum við hv. 4. þm. Sunnl. málið upp, og þetta er í þriðja sinn, að mig minnir, sem við flytjum það hér í deildinni, þó nokkuð breytt að því er tekjuöflunina varðar, eins og hæstv. ráðh. vék líka að. Þegar við fluttum málið í fyrsta sinn, tilkynnti hæstv. landbrh., sem þá var hinn sami og nú, að hann mundi eða hefði þegar; ég man ekki, hvort heldur var, kvatt sandgræðslunefndina gömlu til starfa á ný. Ég held, að það sé misminni hjá honum, að hann hafi skipað nýja nefnd. Ég held, að hann hafi kvatt gömlu sandgræðslunefndina til starfa á ný. Og hún kom saman um það leyti og gerði þá till. um breyt. á frv., og þær voru aðallega í því fólgnar að breyta til um aðaltekjuöflunina, þannig að í stað þess, sem n. hafði áður lagt til, að aflað yrði fjár með aukaálagningu á tóbak, þá var nú lagt til, að aflað yrði fjár með aukaálagningu á áfengi. Ári eftir að n. hafði skilað þessum nýju till. eða rúmlega ári eftir það, fluttum við frv. í annað sinn og tókum þá upp tekjuöflunaraðferðir hinar nýju, gerðum till. um, að aukaálagning á áfengi kæmi í staðinn fyrir aukaálagningu á tóbak. Ég geri ráð fyrir því, að þarna sé um svipaðar fjárhæðir að ræða, þó er ég ekki fyllilega dómbær á það, þannig að af hálfu sandgræðslustarfseminnar eða landgræðslustarfseminnar, eins og hún ætti réttilega að heita, skipti það ekki mjög miklu máli, á hvorn hátt fjárins er aflað fremur, með aukaálagningu á áfengi eða aukaálagningu á tóbak. En eins og hv. þm. geta séð í 31. gr. frv., er ekki gert ráð fyrir því, að áfengisverzlunin greiði þetta gjald af tekjum sínu m, heldur að gjaldið sé lagt á sérstaklega, sem aukaálagning umfram álagningu áfengisverzlunarinnar, sem hún á að innheimta fyrir sandgræðslustarfsemina og standa skil á til sandgræðslunnar.

Að öðru leyti en því, sem tekjuöflunina varðar, er þetta frv. litíð breytt að efni til frá því, sem það var þegar á árinu 1957. En búið er að fella niður búfjárgjaldið, sem upphaflega var gert ráð fyrir,— nefndin gerði sjálf till. um það, að ég ætla, - og sömuleiðis gjald af innfluttum fóðurbæti, sem nú er ekki lengur um að ræða, enda má segja, að á móti þeirri tekjuöflun komi það, sem hæstv. ráðh. gat um, að nokkuð hefur verið hækkað framlag á fjárlögum til sandgræðslunnar. Það er rétt, sem hann sagði, að núna síðustu árin hefur framlag til sandgræðslunnar verið töluvert mikið hækkað, þó hvergi nærri eins mikið og fjárlögin í heild hafa hækkað, að ég ætla. Og á þessum tíma hefur vitanlega líka aukizt kostnaður við þessa starfsemi, þar sem allt er nú dýrara en áður var.

Eins og hv. fyrri flm. frv. kom að í framsöguræðu sinni, höfum við hv. 4. þm. Sunnl. talið okkur hafa nokkuð ríka skyldu til þess að leggja þessu máli lið. Við vorum báðir áður og erum raunar enn fulltrúar fyrir héruð, sem mjög hafa orðið fyrir barðinu á eyðingaröflum náttúrunnar, og þar sem það hefur einnig sýnt sig glöggt, hverju koma má til vegar með þeim aðgerðum, sem nú er hægt að beita.

Ég minnist þess alltaf, þegar ég fyrir um 10–12 árum var staddur norður í Kelduhverfi einn sólbjartan sumardag og fegurð náttúrunnar var mikil, eins og hún verður þá á þeim slóðum og árstíma. Þá skyndilega rétt eftir hádegið dimmdi í lofti. Hann gekk upp á sunnan. Þarna neðan af láglendinu var að sjá eins og færi jóreykur af óvígum her sunnan yfir fjöllin. Sandurinn eða rykið kom þarna eins og ský niður í byggðina undan sunnanvindinum, og sólskinið hvarf, og þessi rykmökkur steyptist niður yfir láglendið. Einmitt á þessum árum voru að eyðast gróðurlönd viði vaxin í uppsveit Öxarfjarðar, og var ekki annað sýnt en að sandurinn mundi brjóta undir sig alla sveitina niður að jökulvötnunum, sem þar falla fram. Þá var það, sem það tókst með góðra manna aðstoð hér á Alþingi og í stjórnarráði og á vegum Sandgræðslunnar að hefta framgang sandsins í Öxarfirði. Þar var komið upp einni stærstu sandgræðslugirðingu landsins, um 6 þús. hektara að stærð, og sáð í þann hlutann, sem næstur var sveitinni. Nú er þarna gróið land, þar sem sandurinn færðist áður fram, hávaxinn melgróður og viðir og túngrös og voðanum bægt frá, þó að ekki sé búið að græða upp nema litinn hluta af allri sandgræðslugirðingunni. í þessu héraði eru margar aðrar sandgræðslugirðingar eldri, aðallega báðum megin meðfram Jökulsá, þar sem jökulhlaupin fyrr á tímum fóru yfir láglendið í Kelduhverfi og Öxarfirði. Þar er svonefnd Ásgirðing, sem í afmælisriti Sandgræðslunnar er einnig talin um 6 þús. hektarar, þar er Vatnsbæjagirðing og Arnarnesgirðing og tvær girðingar á Austursandi. Þetta eru eldri girðingar, og alls staðar sést mikilsverður árangur. En mestallt þetta land væri sennilega hægt að græða upp.

Í Rangárvallasýslu, í héraði hv. 1. flm. og hæstv. landbrh., eru kannske enn stærri sandsvæði og miklar sandgræðslugirðingar. Girðingin í Landeyjum mun t.d. vera um 12 þús. hektarar, ef ég man rétt, og Gunnarsholtsgirðingarnar líklega um 11 þús. ha.

Önnur héruð landsins, þar sem eyðingin er mest, eru t.d. Vestur-Skaftafellssýsla og SuðurÞingeyjarsýsla, og í báðum þessum sýslum hefur mikið verið girt og orðið mikill árangur. Allir kannast við starfsemina í Gunnarsholti, sem er höfuðstaður sandgræðslunnar.

Þessi starfsemi að hefta framgang sandfoksins er orðin meira en 50 ára gömul. Fyrstu sandgræðslulögin eru frá 1907. En einmitt um það leyti, sem sandgræðslunefndin tók til starfa fyrir 6–7 árum, voru menn farnir að koma auga á nýjan möguleika og nýjar aðferðir. Menn voru búnir að koma auga á möguleika til þess að gera meira en hefta sandfokið, möguleika til þess að sækja á í staðinn fyrir að verjast, að græða upp sanda og mela, þar sem landið er ekki mjög hátt a.m.k. og þar sem einhver gróðurvottur er. Og það er einmitt tilgangurinn, höfuðtilgangurinn með þeirri aukafjáröflun, sem þetta frv. frá öndverðu hefur gert ráð fyrir, hvort sem gjaldið ætti að leggjast á tóbak eða brennivín, aðaltilgangurinn að fá fé til þess að hefja þessa sókn. Og okkur finnst, flm., að hvert árið, sem líður án þess að reynt sé að afla þessa fjár og hefjast handa, svo að um muni, hafi að þessu leyti til einskis liðið. Þess vegna er ástæða til að harma það, að Alþingi skuli ekki fyrr hafa afgreitt þetta mál á þann hátt að skapa sandgræðslustarfseminni möguleika til þess að hefja þetta átak.

Í afmælisriti Sandgræðslunnar, sem ég nefndi áðan, eru merkilegar skýrslur, sem við flm. höfum nú víst vakið athygli á hér áður og hv. þm. flestir hafa sennilega einhvern tíma kynnt sér, en e.t.v. liðið úr minni síðan, — merkilegar skýrslur um starfsemi Sandgræðslunnar fram að þeim tíma og möguleika til þess að græða upp landið. Samkv. þeim skýrslum voru sandgræðslugirðingarnar árið 1957 um 50 að tölu, samtals um 1000 km2, og nokkrar af þeim stærstu nefndi ég hér áðan. En í þessu riti er einnig yfirlit um athuganir, sem sandgræðslunefndin lét gera á þeim svæðum, sem mögulegt væri að græða upp að meira eða minna leyti með hinum nýju aðferðum. Þar segir, í þessari bók, á bls. 329, að sandar og melar auðveldir til græðslu lægri en 400 m yfir sjávarmál séu samtals 3787 km2. Og ég ætla, að Páll Sveinsson sandgræðslustjóri taki það fram í ritgerð, sem hann skrifar í bókina um þetta efni, að á öllum þessum svæðum sé um einhvern gróður að ræða. Það, sem þá er gert ráð fyrir að þurfi að gera, er að bera á landið, og tilraunir þykja hafa sýnt, þegar borið er á land, sem ekki er hærra en þetta og einhver jarðvegur er í, eins og gerist á söndum og melum, þá grói landið upp svo mjög, að þar geti a.m.k. orðið um gott beitiland að ræða. Hér er í öðru lagi talað um aðrar auðnir landsins, sem séu lægri en 400 metra yfir sjávarmál, og þar er um álíka stórt landssvæði að ræða, sem ekki er eins auðgrætt og það, sem fyrr var nefnt. Það eru sérstaklega þessir auðgræddu sandar og melar undir 400 m, sem augu manna hafa beinzt að í sambandi við þetta frv., og þessi svæði eru á ýmsum stöðum á landinu, í ýmsum landshlutum. Í Gullbringu- og Kjósarsýslu og austur undir Ölfusá er t.d. talið, að séu um 1000 km2 af slíku landi, svo að nokkuð sé nefnt, í Suður-Þingeyjarsýslu um 405 km2, í Norður-Þingeyjarsýslu 606 km2, fyrir utan sandgræðslugirðingarnar, sem ég hef áður nefnt, í Vestur-Skaftafellssýslu 530 km2, í Rangárvallasýslu 435 km2, í Árnessýslu austan Ölfusár, Sogs og Öxarár, þ.e.a.s. utan landnáms Ingólfs, 238 km2. En alls eru þessi svæði í 16 sýslum talin,, þessi sem auðgræddust eiga að vera. Ég rif ja þetta upp hér í sambandi við þetta mál til þess að stuðla að því, að hv. þm. íhugi enn einu sinni þessa hluti, sem hér er um að ræða, og mikilvægi þessa máls.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. En ég vil eins og hv. fyrri flm. málsins mega vænta þess, að nú sé stundin komin. Þetta mál hefur, — það er kannske ekki óviðeigandi að segja, af því að hér er um sanda að ræða, — hrakizt í eyðimörkinni um nokkurra ára skeið. Við vonum, flm., að nú sé sú stund komin, að okkur takist hér í hv. d. og hv. Alþingi að setja ný lög um sandgræðslu eða landgræðslu, sem fullnægi þeim tilgangi, sem fyrir 6–7 árum vakti fyrir þeim ágætu mönnum, sem sandgræðslunefndina skipuðu og í öndverðu sömdu þetta frv.