21.11.1963
Neðri deild: 19. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í C-deild Alþingistíðinda. (1961)

61. mál, hefting sandfoks

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð. — Ég er eftir atvikum ánægður með afstöðu hæstv. landbrh. gagnvart þessu máll. Það eru aðeins örfá atriði, sem ég vildi koma að og hæstv. ráðh. minntist á.

Endurskoðun á sandgræðslufrv. er áformuð, segir hæstv. ráðh. Ég gat ekki heyrt í hans ræðu, um hvað þessi endurskoðun ætti aðallega að fjalla, en hann nefndi til 2 menn af þeim, sem fara eiga yfir þessi mál, og báðir þeir menn eru manna líklegastir til þess að fara sæmilegum höndum um mál eins og þetta, það er ég viss um. En hitt er allt annað mál, að ég geri ekki ráð fyrir því, að þessir ágætu menn finni nýja fleti í þessu efni í neinum aðalatriðum. Ég hygg, að megi segja það, að þeir ágætu menn, sem unnu þetta mál í upphafi, hafi kannað það svo í grunn í meginatriðum, að þar um verður út af fyrir sig ekki svo mjög bætt. Endurskoðun hlýtur því meira að falla í þann farveg að athuga betur um aðferðir til að vinna sandgræðslumálið fram og þær aðferðir, sem vísindamenn helzt geta aðhyllzt, eftir því sem reynsla og þekking hefur vaxið í þessum málum. Þess vegna hef ég ekki mikla trú á því, að endurskoðun út af fyrir sig geti mjög miklu breytt um það frv., sem hér liggur fyrir, og allra sízt þannig, að þessi endurskoðun mætti ekki fara fram nú þegar og framvegis um mörg næstu ár, þrátt fyrir það, þó að þetta frv. yrði gert að lögum.

Það er nú svo með þetta frv. eins og önnur, sem fjalla um mál, sem eru í mjög örri þróun, að þau hljóta að sjálfsögðu að verða um margt úrelt á langri leið, og það má enda viðhafa sömu orð um alla löggjöf, að hún hlýtur að taka breytingum meira og minna með tímanum, þannig að maður þarf ekkert að vera hissa á því, þó að eitt og eitt ákvæði í þessu frv., sem hér liggur fyrir og er orðið nærfellt 6—7 ára gamalt, þurfi að taka einhverri breytingu út af fyrir sig. En ég hygg það og stend fast á því, að meginatriði þessa frv. hljóti að standa um skeið óhögguð þrátt fyrir þá endurskoðun, sem áformuð er. Eða er kannske meiningin, að þessir endurskoðunarmenn frv. eigi að fjalla um tekjuöflunarleiðir og reyna að finna einhverja nýja fleti í því efni? Ég hef enga trú á því, að þeim takist það betur en ýmsum öðrum, sem þar um hafa fjallað, og vafasamt er það, að þeir geti komið fram með neina þá tekjuöflunarleið í frv., sem hæstv. ríkisstj. felli sig við. Það er fyrst og fremst ríkisstj., skilst mér, sem þarf að fella sig við tekjuöflunarleið, svo að hún megi verða lögfest.

Ég vil því vænta þess, að þrátt fyrir þessa endurskoðun, sem ég geri ekki ráð fyrir að leiði neitt nýtt í aðalatriðum í dagsins ljós, megi þetta frv. ná fram að ganga á þessu þingi, þannig að að því loknu megi gilda ný sandgræðslulöggjöf í þessu landi, sem byggð er á aukinni þekkingu og fenginni reynslu í þessum efnum. Og ég er ekki í vafa um það, að slík löggjöf nær fram að ganga, ef ríkisstj. kærir sig um og nær samstöðu um innbyrðis, og ég vil vænta þess og legg meginkapp á það, að hæstv. landbrh. komi því til leiðar í ríkisstj., að það verði samstaða um frv., eins og það liggur hérna fyrir í meginatriðum, og það megi ná fram að ganga á þessu þingi. Og ég þykist vera viss um það, að hæstv. landbrh., jafnvel og hann tók í þetta mál nú og óvenjulega vel, — því að stundum hefur nú um þetta mál hér á fyrri árum öðruvísi þotið í þeim skjá, — megi svo að vinna innan sins flokks, að frv. nái fram að ganga, og þá fær hann þakkir alþjóðar fyrir bragðið.