21.11.1963
Neðri deild: 19. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í C-deild Alþingistíðinda. (1962)

61. mál, hefting sandfoks

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það var nú ekki ástæða beinlínis til þess að standa hér upp til þess að svara hv. flm., ekki beinlínis ástæða til þess, en ég get nú ekki að því gert samt að segja nokkur orð í sambandi við það, sem þeir hafa látíð hér frá sér fara.

Hv. síðasti ræðumaður sagðist vonast til þess, að ég gerði það, sem í mínu valdi stæði, til þess að vinna að þessu máli, og hann taldi sig hafa sérstaka ástæðu til að ætla það, vegna þess að ég hefði tekið óvenjulega vel í þetta mál núna. Ég held, að honum hafi orðið mismæli, að hann hafi ætlað að segja, að hann hefði sérstaka ástæðu til þess að halda, að ég héldi áfram að vinna vel að þessum málum, vegna þess, hversu fjárframlög til sandgræðslunnar hafi verið aukin mikið síðustu árin. Hann sagði það ekki, en meinti það, og vitna ég þar í fyrri ræðu hans, sem mátti alveg skilja á þá leið, að hann væri eftir atvikum ánægður með það, sem gert hefði verið. Og það er vitanlega aðalatriðið, hvað er gert og hvað er framkvæmt, og ég hefði haldið, að hv. 4. þm. Sunnl. hefði átt að vita það fyrr og vera sannfærður um það fyrr, að það væri unnið að þessum málum.

En það mun rétt vera, að ég hafi einhvern tíma hér í hv. Alþ. lýst skoðun minni á þessum vinnubrögðum, þegar stjórnarandstaðan tekur frv. til flutnings, sem stjórnskipuð nefnd hefur flutt, - tekur það til flutnings, meðan það er hjá ríkisstj. í athugun, og segir svo í framsöguræðu og í umr. um málið, að það sé æskilegt að fá samstöðu og það sé líklegt, að það megi takast. Það er þetta, sem er óvanalegt, en ekki það út af fyrir sig, að mái séu endurflutt. Það eru þessi vinnubrögð. Út af fyrir sig, ef ekki hefði mátt ýmislegt að þessu frv. finna, átti það vitanlega ekki að verða til þess, að það næði ekki fram að ganga, þó að stjórnarandstaðan hagaði sér á þennan veg, heldur er ástæðan sú, að ýmsir hafa talið, að ef farið yrði að setja nýja löggjöf um sandgræðsluna, þá þyrfti enn betur til hennar að vanda en er samkv. þessu frv. og fyrra frv.

Hv. 4. þm. Sunnl. fullyrti hér áðan, að endurskoðun mundi verða gagnslaus, það mundi standa það, sem í þessu frv. væri, þrátt fyrir endurskoðunina. Ég get upplýst hv. þingmann, í hverju endurskoðunin m.a. ætti að felast. Endurskoðunin á vitanlega að byggjast á því m.a. að gera ráðstafanir til þess að bæta haglendi í heimahögum og á afréttum alveg sérstaklega, gera gróðurathuganir á vegum atvinnudeildar háskólans í auknum mæli, og þá á að leiða rök að því, á hvern hátt það megi takast, til þess að sem beztur árangur náist. Og í þriðja lagi er það vitanlega gróðurverndin, sem ætti að hafa stóran þátt í þessu frv. og byggjast á þessum vísindalegu athugunum, sem verða látnar fara fram í auknum mæli. Það er áreiðanlegt, að það er hér mikið óunnið, t.d. að rannsaka hlutfallslega samsetningu gróðursins í mismunandi gróðurlendi, að athuga þurrefnisframleiðslu óræktaðra og ræktaðra beitilanda, að athuga áhrif friðunar á mismunandi gróðurlendi, að athuga beitarþol hinna mismunandi gróðurlenda, að athuga áhrif áburðar á afkastagetu beitilandsins, að rannsaka hæfni ýmissa plantna, innlendra og erlendra, við uppgræðslu landa, að athuga, hversu nota megi uppgrædd lönd án hættu á nýjum landsskemmdum, að athuga mismun á gróðurskilyrðum í hinum ýmsu landshlutum.

Mér þykir það leiðinlegt, að hv. 4. þm. Sunnl. skuli ekki hafa áttað sig á því, að það er ákaflega margt, sem vantar í þetta frv., sem við erum að ræða um. Það er mjög leiðinlegt, vegna þess að það er svo margt, sem við getum lesið um þetta í skýrslum og gögnum, sem hafa komið út um þessi mál, og þetta frv., sem við erum hér að ræða um, þótt ýmislegt gott sé í því, þá er það alls ekki tæmandi. Það er ekki tæmandi, og við eigum að vanda til þessarar löggjafar, úr því að hún verður sett. Lög um sandgræðslu verða vitanlega sett, það liggur í hlutarins eðli, og þau verða miðuð við þá þekkingu, sem við höfum yfir að ráða nú, miðuð við það, að við tökum þekkinguna og vísindin í okkar þjónustu. Við miðum við það, að við notum það fjármagn, sem við höfum yfir að ráða hverju sinni, þannig, að það komi að sem mestum notum, og ég efast ekkert um það, að hv. flm. þessa frv. átta sig á því, þegar þeir fara að hugsa um þessi mál, að þetta frv. er ekki tæmandi, og það verður þannig, að því meira sem við hugsum um þessi mál, verður okkur ljósara, hversu mikið er hér óunnið og hversu mikið við getum breytt vinnubrögðunum og náð betri árangri en áður með því að taka vísindin, þekkinguna og tæknina í okkar þjónustu.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan, að það hefði verið fyrir 7 eða 8 árum, sem menn uppgötvuðu, að það mætti ekki aðeins verjast uppblæstri og eyðingu, heldur mætti hefja sókn og hefja uppgræðslu, og þess vegna hefðu menn uppgötvað það fyrir 7 eða 8 árum, að það þyrfti meira fé en var á fjárlögum, á meðan flokksmenn þessara tveggja hv. flm. frv. voru við völd. Þetta sandgræðslufrv. var tilbúið í febrúarmánuði 1958. Þinginu lauk ekki það ár fyrr en í maílok eða í byrjun júní. Ég vildi nú spyrja hv. 3. þm. Norðurl, e. að því, hvernig stendur á því, að frv. var ekki flutt á þessu þingi, úr því að hann og hans flokksbræður höfðu þá uppgötvað það, að það þurfti meira fé en var á fjárlögum. Það hefði gjarnan mátt byrja á því 1958 að auka fjárframlög til sandgræðslunnar. Þá voru á fjárlögum 1 millj. 930 þús. kr., en eru nú, eins og áður hefur verið að vikið, 4 millj. 330 þús., og auk þess hefur sandgræðslan haft til umráða framlög frá héruðunum og tekjuafgang Gunnarsholtsbúsins, þannig að það eru rúmlega 5 millj. kr., sem sandgræðslan hefur haft til umráða á þessu ári. Þetta þarf að verða meira, til þess að meira sé unnt að vinna að þessum málum, og að því ber að miða. En ég hygg, að þeir, sem stóðu fastir 1958 og juku ekki framlög til sandgræðslunnar þá meira en raun ber vitni, álasi ekki núv. ríkisstj. fyrir aðgerðaleysi, enda hafa þessir tveir hv. flm. ekki gert það. Og ég verð nú að segja það, um leið og þeir tala um það, að ég hafi verið hógvær í umr. um þetta mál að þessu sinni, þá get ég í rauninni sagt það sama um þá. En um leið og við erum sammála um, að það þurfi að fá ný lög um sandgræðsluna, að það þurfi aukið fé, þá skulum við einnig vera sammála um það, að þetta er ekki leiðin til þess að koma málinu fram, að flytja æ ofan í æ sama frv., sem vitað er að er ekki í þeim búningi, að það hljóti fylgi ríkisstj., fylgi meiri hluta þings, enda þótt meiri hluti þings og allir alþm. séu mjög vetvitjaðir þessum málum og vilji aukið fjárframlag til þessara mála.