21.11.1963
Neðri deild: 19. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í C-deild Alþingistíðinda. (1963)

61. mál, hefting sandfoks

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. gat um allar þær mörgu rannsóknir, jarðvegsrannsóknir og grasarannsóknir og aðrar slíkar, sem þyrftu að fara fram, og ég get vel fallizt á, að það sé meira en rétt hjá honum, að þær þurfi að eiga sér stað. En ef öllum þessum rannsóknum á að ljúka, áður en litíð er við því að ganga frá nýjum sandgræðslulögum, þá hygg ég, að þau megi bíða nokkurn tíma. En svo vill vel til, að í því frv., sem hér liggur fyrir, er einmitt gert ráð fyrir því, að slíkar rannsóknir verði studdar og studdar að verulegu marki, og heyra þær undir rannsóknir þær, sem hæstv. ráðh. taldi hér upp réttilega.

Í 23. gr. frv. segir, með leyfi forseta: ,.Sandgræðslan, hlutaðeigandi sandgræðsluvörður“ o.s.frv. „skulu fylgjast sem bezt með notkun afrétta í héraði hverju um land allt með það fyrir augum sérstaklega, að hverju fer um gróður og beitarþol. Þarna eiga sem sagt að fara fram á vegum Sandgræðslu Íslands beitarþolsrannsóknir, sem auðvitað er höfuðnauðsyn. Í VII. kafla frv., 29. gr., segir: „Rannsóknir og tilraunastarf í þágu Sandgræðslu Íslands heyrir undir tilraunaráð jarðræktar, eins og önnur mál, er jarðrækt varða“. Og í 30. gr. segir: „Tilraunir og athuganir í þágu sandgræðslu til þess að afla hagnýtrar fræðslu á því sviði skulu gerðar í Gunnarsholti“ — í bækistöðvum sandgræðslunnar — „og á öðrum þeim stöðum, er bezt henta, eftir því sem tilraunaráð ákveður“. Þannig hefur þetta frv. einmitt að geyma fyrirmæli og þau nauðsynleg, til þess að slíkar rannsóknir, sem hæstv. ráðherra nefndi, megi fram fara og efla megi þær rannsóknir svo sem auðið er hverju sinni. Þetta er ákaflega stórt atriði, og þeir, sem sömdu það, hafa réttilega haft auga á þessu veigamikla verkefni.

Mér er vel kunnugt um tilraunir þær, sem dr. Sturla Friðriksson og hans menn fara með nú síðustu árin, og hversu glæsilegar niðurstöður eru þegar fengnar af þessum tilraunum. Allt slíkt er í anda þessa frv. Og það er vel um það, að hæstv. ráðh. eigi sinn þátt í því að stuðla að þessum rannsóknum, En hitt er allt annað mál, að sú töf, sem orðið hefur á þessu frv. um 5—6 ára skeið, hefur orðið til þess, að sandgræðslan og allar þessar merkilegu rannsóknir á vegum jarðræktar hafa fengið mörgum millj. kr. minna til sín en annars hefði orðið, ef við hefðum á hv. Alþ. borið gæfu til þess að samþykkja frv. til nýrra sandgræðslulaga nokkrum árum fyrr.