19.11.1963
Neðri deild: 18. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í C-deild Alþingistíðinda. (1966)

64. mál, vegalög

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er ásamt mér borið fram af hv. 1, og 5. þm. Austf., og má segja, að það sé nær shlj. frv. um sama efni, sem við bárum fram á síðasta Alþingi, um breyt. á vegalögunum frá 1947. Það frv. náði þá ekki fram að ganga, og bar stjórnarliðið því við, að á því þingi væri von á vegalagafrv. frá hæstv. ríkisstj., byggðu á heildarendurskoðun vegalaganna. Það fór þó svo, að það frv. kom ekki fram og hefur ekki heldur enn borið fyrir augu þm. á hv. Alþingi. Hér er þó um að ræða mál, sem enga bið þolir að fái jákvæða afgreiðslu, og allra sízt má dreifbýli Austfirðingafjórðungs við því, að lengur dragist að sinna þessu máli, þ.e. að tekinn sé í þjóðvegatölu nokkur hluti af þeim nauðsynlegu samgönguleiðum, sem nú eru þar taldar til sýslu- og hreppavega. Eru till. okkar í því efni fluttar samkv. ítrekuðum tilmælum þeirra sveitarfélaga eystra, sem hlut eiga að máli.

Ég held, að það megi fullyrða, að frá upphafi hafi ráðamenn þjóðarinnar gert sér grein fyrir því, að sveitarfélögunum almennt væri algerlega um megn að byggja upp og halda við því vegakerfi, sem nú hvílir á þeim, og að gert hafi verið ráð fyrir, að það opinbera tæki smátt og smátt að mestu við þeim byrðum. Þessi skoðun mín styðst við þá staðreynd, að á undanförnum áratugum, gjarnan oftar en einu sinni á hverju reglulegu kjörtímabili, hafa verið gerðar breytingar á vegalögunum, sem allar hafa gengið í þá átt að auka þjóðvegakerfi landsins til hagsbóta fyrir hlutaðeigandi sveitarfélög. Síðasta breyting vegalaganna í þessa átt mun hafa átt sér stað 1955. Á Alþingi veturinn 1958 —1959 komu fram nær því frá öllum þm. þáv. sveitakjördæma till. um að taka enn hluta af sýslu- og hreppavegunum í þjóðvegatölu, en sú breyting náði ekki fram að ganga. Þá og síðan hafa slíkar óskir aldrei verið teknar til greina af ráðandi ríkisstj. og stuðningsliði hennar.

Ég minnist þess, að meðal þeirra þm., sem 1958 báru fram till. um vegalagabreytingar, till. um það, sem í daglegu tali meðal þm. er kallað að opna vegalögin og fá þar með verulegar breytingar samþykktar á Alþingi, voru meðal annarra ýmsir fulltrúar Sjálfstfl, í þáverandi sveitakjördæmum, og má þar til nefna núv. hæstv. landbrh. og núv. hæstv. forseta þessarar þd. Og vitanlega mætti nefna til fleiri þm. Sjálfstfl., sem báru fram slíkar till., enda voru þær allmjög almennar á því þingi. Síðan hefur verið óheillaþögn um þetta mál í herbúðum Sjálfstfl. En þar sem nú eru liðin 8 ár frá síðustu svokallaðri opnun vegalaganna, mætti vænta þess, að sá Þyrnirósarsvefn, sem hvílt hefur yfir Sjálfstfl. í þessu máli, vari nú ekki lengur og flokkurinn veiti nú þessu máli raunhæfan stuðning á yfirstandandi Alþingi. Kveð ég þar ekki sízt til núv. hæstv. forseta Nd., sem á liðnum árum, meðan hann sat á þingi, bæði flutti og fylgdi ýmsum gagnlegum og nytsamlegum tili., sem stefndu til hagsbóta fyrir dreifbýlið. m.a. í vegamálum. Því verður því ekki að óreyndu trúað, að hann ásamt öðrum þeim þm. Sjálfstfl., sem vilja láta sig einhverju skipta hagsmunamál hins svokallaða dreifbýlis, láti það lengur viðgangast, að þeirra flokkur verði til þess að svæfa enn þetta mál, það mál, sem telja má eina af meginstoðum þess, eins og nú er komið þjóðfélagsháttum, að sveitabyggðir landsins leggist ekki frekar í auðn en orðið er. Hér er ekki um flokksmál að ræða, heldur sameiginlegt hugðarefni og hagsmunamál allra þeirra, sem vilja halda við byggðinni úti um landið, við sjó og í sveit.

Það hafa ýmis atvik ráðið því á hverjum tíma, hverjir hafa borið fram fyrstu till. um þessi mál á þeim Alþingum, þegar slik mál hafa verið tekin fyrir. 1958 mun það t.d. hafa verið framsóknarþm., sem bar málið fram í Nd., en í Ed. mun það hafa verið núv. hæstv. forseti þessarar deildar. Nú erum það við 3 af þm. Austurlandskjördæmis, sem berum málið fram á þessu þingi, og raunar í annað sinn, þar sem við bárum það einnig fram á siðasta þingi. Og það þarf raunar engan að undra, að það skuli vera þm. úr Austfirðingafjórðungi, sem gera till. um lagfæringu í þessu efni, því að það er, að ég hygg, óvefengjanleg staðreynd, að af öllum, sem eiga við erfiðleika að stríða í vegamálum, mun enginn landshluti nú um skeið vera eins illa á vegi staddur í þessum efnum og Austfirðingafjórðungur, og ber þar margt til, fyrst og fremst það, að sá fjórðungum er mjög víðáttumikill og sundurskorinn af fjallgörðum og stærri og smærri vatnsföllum, og þess vegna er vegaþörfin þar alveg sérstaklega mikil. Þá má líka geta þess, að sívaxandi dýrtíð við allar vegagerðir veldur sveitarfélögunum í þessum efnum óviðráðanlegum erfiðleikum, svo að það er vart um það að ræða, að nokkrir bílfærir vegir eftir nútímakröfum geti verið byggðir, svo að nokkru nemi, af sveitarfélögum. Og enn bætist við, sem er í raun og veru alls staðar sameiginlegt, að með breyttum atvinnuháttum kemur það til, að segja má, að ekkert býli sé talið byggilegt, nema það njóti góðs upphlaðins vegar, sem þolir þungaumferð bíla. Og þar af leiðandi eru hinir gömlu vegir, þótt uppbyggðir séu, hvað þá ruðningsvegirnir, algerlega ófullnægjandi og leysa ekki þá þörf, sem leysa þarf. M.a. slíkir vegir, t.d. þeir ruddu, þola varla snjóföl að hausti eða vetrarlagi, svo að þeir lokist ekki, og þótt upphlaðnir kallist, eru þeir fæstir byggðir fyrir þá þungaumferð, sem nú er talin nauðsynleg.

1958 voru sýslu- og hreppavegir í Austfirðingafjórðungi taldir nálægt 485 km af rúmlega 2100 km vegakerfi í fjórðungnum, eða sýslu og hreppavegir meira en 1/5 hluti alls vegakerfisins, og eru þá ekki meðtaldir þeir vegir, sem kallaðir eru fjallvegir og eru sízt minni í Austfirðingafjórðungi en í öðrum landshlutum. Samkv. skýrslu frá 1958 var lýsing á þessum vegum eystra, sýslu- og hreppavegum, þannig, gerð af vegamálastjóra: Þá var talið, að um 100 km af þessum hreppa- og sýsluvegum væri órudd og óbilfær leið. Um 282 km voru taldir rudd leið, en um 100 km upphlaðinn vegur. Þessir 100 km eru að verulegu leyti það gamalgerðir, að þeir eru ekki ætlaðir til þess að bera þá þungaumferð bila, sem nú er þörf á. Það getur því hver maður skilið, hve mikill vandi er á höndum eystra í þessum málum, sem krefjast þegar úrlausnar. Og þetta frv. er borið fram sem spor í þá átt.

Við þm. Austf. verðum því að vænta, eins og ég hef áður vikið að, góðra undirtekta í þessu máli hér á hv. Alþingi. Við mundum að sjálfsögðu fagna því, ef af því verður á þessu þingi, að hæstv. ríkisstj. kemur fram með og lætur afgreiða frv. um vegamál, sem leysir betur þetta mál fyrir Austfirðingafjórðung en hér er gert ráð fyrir. Og ef þetta frv. mætti verða til þess að ýta við hæstv. ríkisstj. í þessu máli, þá er tilgangi okkar að nokkru náð og frv. hefur þá ekki verið að óþörfu eða árangurslaust lagt fyrir Alþingi.

Herra forseti. Ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. samgmn.