19.11.1963
Neðri deild: 18. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í C-deild Alþingistíðinda. (1968)

64. mál, vegalög

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég held, að það ætli að fara svo, að hæstv. ráðh. vakni af Þyrnirósarsvefninum. Ég sleppi því að víkja að öllum gorgeirnum, sem var í ræðu hans, slíkt er ekki til að hafa orð á, því að það er alvanalegt. Hann finnur að orðalagi í grg. frv., þar sem vitnað er til þess, að það hafi verið látíð í veðri vaka, að ríkisstj. kæmi fram með endurskoðað vegalagafrv. á síðasta þingi. Ég sagði aldrei, að hæstv. samgm: og landbrh. hafi ætlað að bera það fram, heldur ríkisstj. Allur þingheimur veit, að hér er rétt frá skýrt, að þetta stóð til á s.l. vetri.

Hæstv. ráðherra brá ekki venju sinni, en fór að kenna öðrum um það, sem aflaga hefur farið í hans tíð, þóttist furða sig á, hve vegir eystra væru í slæmu ástandi, eftir að ríkisstjórnir, sem ég hafi stutt, hafi setíð lengi að völdum. Ég veit ekki betur en hæstv. ráðherra hafi ætíð stutt sömu ríkisstjórnir og ég nema á tímum vinstri stjórnarinnar 1956-1958. Ég tók það fram, að áður en hann tók við völdum samgmrh., hefði verið venjan að opna, sem kallað er, vegalögin einu sinni á hverju venjulegu kjörtímabili. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi komið svo oft til Austurlands, að hann ætti þó að vita um vegaerfiðleika og viðáttu þess fjórðungs. Og það er ekki sambærilegt við flatneskjuna þar sem hann hefur ríkt og ríkir. Það er margfalt meira verkefni þess vegna að búa þar vel að í þessum málum. Og svo segir hæstv. ráðh., að þetta sé í annað skipti, sem við höfum flutt brtt. við vegalögin. Annaðhvort eru þetta óvöndugheit eða minnisleysi, og er hvorugt gott, því að ég hygg, að hann geti lesið það í þingtíðindum, að ég og aðrir austfirzkir þm. hafi einlægt verið á verði, þegar tiltækt hefur verið að fá vegalögin opnuð, og einatt hafi eitthvað verið þar sem annars staðar bætt inn í og létt þar með af sveitunum í þessu efni.

Annars er ekki eltandi ólar við þessa ræðu hæstv. ráðh. En hann var þó svo ljúfur og tillitssamur, að í lokin gat hann þess, að það þyrfti að fá meira fé til þessara mála. Það er gott, að hann er nú að gera sér grein fyrir því. Það hefur ekki séð á í sambandi við afgreiðslu fjárlaga á undanförnum árum, eftir að þessi hæstv. ráðh. tók við þessum málum. Þetta er öllum kunnugt og ekki eingöngu, að það hefur sama og ekkert fengizt þar um þokað fyrr en lítils háttar á síðasta vori, kannske vegna þess, að þá átti að kjósa til Alþingis, og því siður, að það hafi verið tekið tillit til þeirrar óhemjudýrtíðar, sem ríkir á þessu verklega sviði eins og annars staðar.

Staðreyndirnar eru þær, að 1958 voru bornar fram vegalagabreytingar, og ég geri ráð fyrir því og hef ástæðu til að ætla, að ef þáv. ríkisstj. hefði setíð að völdum út það þing, þótt ekki hefði verið meira, þá hefðu fengizt einhverjar leiðréttingar þessara mála. En það réð úrslitum, að seinni hluta þingsins taka við þeir stjórnarflokkar, sem ráða síðan. Í sex ár hefur engu fengizt um þokað í þessum efnum.

Það er, eins og ég vék að, gott og blessað, ef ríkisstj. vaknar svo nú, að hún setji fram frv., sem er til meiri umbóta en þetta frv. er og varðar Austfirðingafjórðung eins og aðra. Við skulum biða og vona, og við skulum ætla, að hæstv. ráðh., sem talar svo digurt nú í þessum málum, — hann talar digurt að því leyti, að hann býr sakir til á hendur öðrum og segir: Þið voruð ekki betri en þetta, þið voruð vondir, ef hann telur það — sem ósatt er — þá ætti hann þó að hafa hugsum á því að reynast betri.

Þetta götustrákaorðbragð hans er aldrei viðkunnanlegt eða þolandi.