19.11.1963
Neðri deild: 18. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í C-deild Alþingistíðinda. (1969)

64. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú ástæðulitíð að vera að þjarka við hv. þm. um þetta, því að mér fannst hann nú satt að segja vera í hálfgerðum vandræðum áðan, þegar hann var að gera mér upp orðin og segja, að ég hefði sagt, að hann hefði aðeins tvisvar sinnum flutt brtt. við vegalögin. Ég hélt a.m.k., að hann hefði gert það allan þann tíma síðan þessi ríkisstjórn var mynduð, í 4 ár a.m.k., þó hann hafi látíð það undir höfuð leggjast, meðan hann studdi ríkisstj. En sleppum nú því.

Hv. þm. flytur hér frv. um breytingar á vegalögunum, þar sem hann æskir þess, að sýsluvegir verði teknir í þjóðvegatölu, og hann náttúrlega gerir engar til. um fjárútvegun, það er ekki hans mál. Það er ríkisstj., sem á að útvega það, og hann segir nú stundum, að það hafi tekizt ágætlega, þegar flokksbróðir hans, hv. 1. þm. Austf., var með ríkiskassann, og hann leyfir sér að snúa algerlega við staðreyndum og telur, að það hafi verið illa staðið í stykkinu með fjárútvegun til vegamála, síðan ég varð samgmrh., það hafi verið miklu betra áður. En hvernig var nú með fjárframlög til vega 1958, þegar flokksbræður hans fóru með þessi mál? Þá var veitt til viðhalds vega 33 millj. kr., en 63 millj. á yfirstandandi fjárlögum. Og hvernig var með nýbyggingar vega? Ég man, að það hefur hækkað um i2%. En hvað hefur svo kostnaðurinn hækkað mikið á þessu tímabili? Samkvæmt útreikningum vegamálastjóra hefur vegagerðarkostnaður hækkað um 45% frá 1958. Og svo segir þessi hv. þm., að núv. ríkisstj. hafi búið verr að vegamálunum en meðan framsóknarmenn fóru með þessi mál. Og var ekki flest af því, sem hv. þm. sagði, eitthvað í þessum dúr? Hugsum okkur, að hann væri á fjöldafundi að tala fyrir skynsömu fólki. Ég veit, að hv. þm. vita fyrir fram um þetta og hafa gert sér grein fyrir því fyrir fram. En ef hann væri að tala á fjöldafundi, sem væri ekki nógu kunnugur málunum, hvaða álit haldið þið að áheyrendur mundu fá á ræðumanninum, sem léki sér að því að snúa öllu við? Ég ætla ekki að svara því. Ég veit, að þið hafið alveg gert ykkur ljóst, hvaða álit sá maður hefur.