19.11.1963
Neðri deild: 18. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í C-deild Alþingistíðinda. (1971)

64. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er reginmisskilningur, sem hv. 3. þm. Vestf. hélt fram, að ég hafi tekið þessu frv. illa. Það er reginmisskilningur, að ég hafi haldið því fram, að það sé óeðlilegt, á meðan frv. til nýrra vegalaga frá ríkisstj. er ekki komið, þótt menn flytji slíkar brtt., vegna þess að það hefur verið gert á hverju þingi. En ég tók illa málflutningnum, sem var hjá hv. 1. flm., öfugmælunum og fullyrðingunum, sem studdust ekki við staðreyndir. Það var það, sem gaf mér tilefni til þess að standa upp, en ekki það, þótt hann flytti frv. eins og þetta. Og þarf ég ekki meira að segja um það.

Hv. 3. þm. Vestf. var að spyrja að því, hvort ég gerði ráð fyrir, að yrði flutt frv. til nýrra vegalaga á þessu þingi. Ég geri ráð fyrir því, þegar lokatill. vegalaganefndar liggja fyrir, og ég vænti þess, að þess verði ekki langt að bíða.

Hv. þm. sagði, að vegalaganefndin hefði skilað frv. í fyrrahaust. Það er rétt, hún skilaði þá frumtill., sem hafa verið endurskoðaðar síðan hjá vegalaganefndinni, og eins og ég segi, það má gera ráð fyrir, að lokatill. n. verði fljótlega tilbúnar, og þá verður frv. flutt, og það verður flutt, frv., þótt ríkisstj. sé kannske ekki alveg að öllu leyti alveg sammála vegalaganefndinni, og hv. þm. þá gefið tækifæri til að fjatla um málið. Það er alls ekki víst, að ríkisstj. og vegalaganefndin séu í öllum atriðum sammála, þótt það hljóti að vera í meginatriðum. Hv. þm. fá þá tækifæri til þess að gera brtt. við frv. vegalaganefndar. En ég fullyrði það, að vegalaganefnd er búin að leggja mikið starf fram, mikla vinnu í þetta mál og hefur unnið vel að því, og ég er sannfærður um það, að verði frv, lögfest með þeirri stefnu, sem þar er mörkuð, þá verður það til góðs fyrir okkar samgöngumál, og það er það, sem við þurfum að sameinast um að koma fram.