19.11.1963
Neðri deild: 18. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í C-deild Alþingistíðinda. (1972)

64. mál, vegalög

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það tekur því ekki að vera að karpa meira við hæstv. ráðh. í þessu efni. Hann er nú orðinu hér í stólnum mjúkmálli en hann var upphaflega, og er gott til þess að vita, og er orðinn nær því, sem sagt var í gamla daga, að sumir prestar væru, þeir gætu talað mjúklega í stólnum, en það, sem mestu máli skiptir, að prédika á gangstéttunum eða á götunni, þ.e. að framkvæma og vinna í samræmi við prédikunina, það vantar, sbr. verk hans í þessum málum.

Hæstv. ráðh. hældi mjög frammistöðu sinni og ríkisstj. í sambandi við vegamálin að undanförnu. Hvað hefur þá hæstv. ráðh. fest á pappírinn til nýbyggingar vega á því frv. til fjárl., sem nú liggur fyrir? Er það ekki, hæstv, ráðh., sama talan og var í fyrra? Eru það ekki rúmar 20 millj.? Og hvað segir svo reynslan? Hæstv. ráðh. var að tala um, að svona og svona mikið hefði verið lagt til vega og svona mikið framkvæmt. Hvernig er það fé fengið? Það er fyrst og fremst ekki fengið með fjárframlögum samkv. fjárlögum, þó að sú upphæð hafi hækkað frá 1958. Það er góðu heilli, að hæstv. ríkisstj. tók lán í fyrra, einhverja milljónatugi sennilega, til bygginga ýmissa nauðsynlegra vega. Hvað er það svo mikið, sem sveitirnar hafa orðið að leggja á sig til þess að reyna að ná einhverjum áfanga í vegamálum heima fyrir? Ætli það nálgist ekki fram undir eins árs fjárveitingu samkv. fjárlagafrv., sem sveitirnar hafa orðið að taka að láni? Það nær því ef til vill ekki alveg, en ætli það séu ekki 20 milljónir, sem sveitarfélögin hafa orðið, ekki sízt á þessu ári og á síðastliðnum árum, að taka að láni á sinn reikning og borga vexti af til þess að ná einhverjum nauðsynlegasta lágmarksáfanga í þessum efnum? Ég sé ekki, að hæstv. ráðh. hafi af miklu að státa í frammistöðu sinni í þessum efnum.

Hvað er svo með vegaviðhaldið? Hæstv. ráðh. var að tala um, að öli framlög, bæði nýbyggingafé og viðhaldsfé. hefðu stórkostlega vaxið í tíð þessarar hæstv. ríkisstj. Það getur hún að miklu leyti átt við sjálfa sig í sambandi við þá dýrtíð, sem ríkisstj. hefur hellt yfir þjóðina. En ef við athugum viðhaldsféð, þá mun það hafa verið milli 30 og 40 millj., skulum við segja, fyrir árið 1958, - hv. þm. afsakar, ef ég fer skakkt með tölur, — en nú eru ráðgerðar 70 millj. Þetta er vissulega mikil hækkun. En hvar sést staður eftir þetta fé? S.l. ár var fjárveiting til viðhaldsins milli 60 og 70 millj., núna ráðgerðar 70 millj. Þetta er mikið fé, en það hrekkur ekki til, og víða er það orðið svo, þó að það sé kannske ekki á Suðurlandsundirlendi, — það er víða orðið svo með þessa vegi, að það er ekki hægt að hefla vegina lengur. Það er búið að skafa niður allan ofaníburð, sem hefur verið lagður í vegina, þannig að það er komið nærri því niður í mold, svo að ég hefði haldið, að jafnhliða því, að það er þakkarvert að hækka viðhaldsféð, þá vildi ég leyfa mér að benda hæstv. ráðh. á það, að kannske væri það eins fjárhagslega hyggilegt að auka stórkostlega frá því, sem nú er, nýbyggingaféð, svo að það væri hægt að byggja meiri framtíðarvegi og hraða þeim málum meir en verið hefur á undanförnum árum.

Hæstv. ráðh. fór nú, eins og ég sagði áðan, að prédika falleg orð hér í ræðustól, fór að hafa áhyggjur af mínum málflutningi og þar fram eftir götunum. Hugsa sér, sagði hann, ef þetta hefði bara verið opinber fundur. Það gerði ekkert, þó að svona færi fram í þingsölunum, það væri annað mál. En þessi prédikari, hæstv. ráðh., hefði gjarnan mátt hefja mál sitt með betur grundaðri ræðu en hann gerði. Það var ekki neitt í minni framsöguræðu, sem gaf tilefni til að ýfast við, heldur réð gamla venja hæstv. ráðh. að ýfast við öllu, sem stjórnarandstöðumenn flytja fram, og hann kann sjaldnast að gera greinamun á því, sem gott er eða vafasamara í þeirra málflutningi.

Ég skal ekki hafa þessi orð lengri. En ég er trúaður á, að það rætist, þó að hæstv. ráðh. sárnaði, að ég nefndi Þyrnirósarsvefn, þá fari hann nú af honum og slíkt verði til frambúðar og honum auðnist að bera fram nýtilegt vegamálafrv. á þessu þingi.