19.11.1963
Neðri deild: 18. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í C-deild Alþingistíðinda. (1975)

64. mál, vegalög

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Mér þykir góðs viti, að stjórn og stjórnarandstaða skuli þegar vera farin að deila um, hvorir eigi heiðurinn af því að hafa komið vegalaganefnd á laggirnar, enda þótt framleiðsla hennar hafi enn ekki birzt þinginu. Ég vona, að þetta sé vísir þess, að takast muni gott samkomulag um lausn á þessum málum, þegar þar að kemur.

Hv. 3. þm. Vesturl. ræddi um vegaviðhaldið af hressilegum þjósti. Þó gat ég ekki betur heyrt en við værum í þessu máli nákvæmlega sammála um, að það þyrfti að gera meira fyrir vegaviðhaldið en hefur verið gert, og þó eru fjárlagatölur um viðhaldið raunverulega komnar yfir 60 millj., en voru nærri 30 millj. fyrir fáum árum.

Ég er sammála honum um, að það eru vandkvæði á að láta héruðin bera lán til vegagerðar, þegar unnið er meira en veitt er á fjárlögum. Einhverja lausn verður að finna á þeim vanda. Hefur mjög mikið verið af þessu gert í okkar kjördæmi, og ég hygg, að menn úr öllum flokkum séu sammála um, að a.m.k. í stórum hluta þess kjördæmis sé nú um að ræða framkvæmdir, sem má raunar kalla vegabyltingu.

Ég vildi að lokum aðeins segja örfá orð um það, að hv. 3. þm. Vesturl. fullyrti, að ríkið hefði 2-3 hundruð millj. kr. tekjur af umferðinni. Þetta fer eftir því, hvað menn eiga við, þegar þeir tala um tekjur af umferðinni. Ef við athugum umferðina sjálfa, hefur ríkið tekjur af henni með benzínskatti, þungaskatti og gúmmígjöldum. Það er af umferðinni sjálfri. Svo er annar liður: tekjur ríkisins af innflutningi bifreiða og bifreiðavarahluta. Ég mundi ekki telja rétt að tala um það sem tekjur af umferðinni. Ég er sammála því, að ríkið á að leggja til vegakerfis og gatnagerðar allar tekjur af umferðinni í þessum skilningi, tekjur af benzínsköttum, þungaskatti og gúmmígjaldi. Ástandið í þessum málum er þannig, að samkvæmt þeim fjárlögum, sem hér liggja fyrir, ætiar ríkið að leggja um 40 millj. kr. meira til vegagerðar ríkisins heldur en það fær í tekjur af þessum liðum. Hins vegar má deila um, hvort vegakerfið á heimtingu á að fá allar tolltekjurnar. Ég hygg, að menn muni komast að raun um við nánari athugun, að það sé hæpið, að hægt sé að skipta öllu okkar viðskiptalifi í deildir, þannig að hvert verksvið í þjóðfélaginu eigi að hafa allar tolltekjur, sem falla til af innflutningi, sem því kemur við. Einhvern veginn verður það stóra ríkisbákn, sem við allir berum uppi, að hafa tekjur, og þetta er einn af hinum stóru sameiginlegu tekjustofnum. Hvort sem tekið yrði beint af tollum af bifreiðum eða úr ríkissjóðnum sjálfum, þá hygg ég, að hann þurfi að greiða eitthvað með þeim tekjum, sem fást af benzíni, þungaskatti og gúmmígjaldi, til þess að við fáum þær stórbreytingar á framkvæmd vegagerðar, sem okkur alla dreymir um.

Ég vil svo minna á, að í fyrri ræðu minni var ég ekki að ráðast á stjórnarandstöðuna, er ég talaði um, að breyting á vegum í þjóðvegatölu ein væri ekki verulega raunhæf umbót. Ég játaði í sama orðinu, að ég hefði sjálfur á sínum tíma staðið að flutningi slíkrar till. Hér er aðeins um almenna hugsun að ræða, sem var engan veginn árás á stjórnarandstöðu frekar en stjórnarþingmenn núverandi, því að allir hafa staðið að slíkum frv., og þau hafa vissulega verið liður í kerfi, sem hér hefur ríkt og hefur gefið mikinn árangur. Það, sem ég vildi benda á, var, að það þarf miklu meiri breytingar á vegalögum en koma fram í þessu eina frv. til að ná þeim árangri, sem við nú viljum ná.