19.11.1963
Neðri deild: 18. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í C-deild Alþingistíðinda. (1977)

64. mál, vegalög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki þreyta hér umr., en það eru nokkur atriði, sem komu fram hjá hæstv. ráðh., sem ég vil víkja að.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri tiltölulega meira til vegaframkvæmda á fjárlögum hjá hæstv. ríkisstj. núna heldur en áður hefði verið. Við hvað miðar hæstv. ráðh.? Miðar hann við fjárlögin í heild? Hefur vegaframlagið hækkað eins mikið og fjárlögin í heild? Ég segi, að það hafi ekki gert það. Ég vil líka minna þennan hæstv. ráðh. á það, að þegar núv. ríkisstj. kom til valda, þá hækkaði hún benzínskattinn um 34 aura og tók til sín benzínskatt, sem áður hafði farið í útflutningssjóð. Er þetta það, sem hann miðar við, þegar hann segir, að vegagerðin hafi nýjar og auknar tekjur af umferðinni? Ég vil líka minna á það, að innflutningur á bifreiðum og umferð í landinu þar af leiðandi hefur verið miklu meiri en nokkru sinni fyrr, en fjárveitingar hafa ekki vaxið í samræmi við það. Þess vegna er það ekki rétt hjá hæstv. ráðh., að fjárveitingar til vegagerðar séu tiltölulega jafnháar nú og áður var, nema síður sé.

Út af vegaviðhaldinu, sem þeir hæstv. ráðh. og hv. 5. þm. Vesturl. hafa rætt um, vil ég segja það, að samkv. ríkisreikningi fyrir 1958 var varið í vegaviðhald 41 millj. 750 þús. kr., en samkv. fjárlagafrv. því, sem nú liggur hér fyrir, á að verja 70 millj. kr. Þetta er hækkunin, frá 42 millj. tæpum upp í 70, á sama tíma sem fjárlögin hafa nærri því þrefaldazt. Þetta er ekki að halda við í vegaviðhaldinu.

Hæstv. ráðh. sagði, að mér hefði yfirsézt í sambandi við till. hv. landsk. þm. Bjartmars Guðmundssonar. Mér yfirsást ekki, því að ég tók þetta fram. Ég sagði einmitt frá því, að þetta gerðist á því þingi, sem við framsóknarmenn lögðum fram frv. til breyt. á meðferð á benzínskatti og þungaskatti af bifreiðum, að þetta gengi til nýbygginga á vegum og brúm. Það frv. var saltað í nefnd og ekki leitað umsagnar vegamálastjóra, fyrr en till. Bjartmars og þeirra félaga var komin fram. Hún var sett inn í fjvn., og þegar fjvn. hafði afgreitt hana til vegamálastjóra, þá rausnaðist hv. samgmn. til þess að senda okkar frv. samhliða. Og upp úr okkar frv. og þeirri till. samdi vegamálastjóri till., sem var endursend fjvn. og þar samþykkt í einu hljóði, og það eina, sem við vorum ekki sammála um í fjvn., var það, að við vildum láta Alþingi kjósa nefndina, en hæstv. ráðh. vildi fá að skipa hana. Þetta er staðreynd í málinu. Þetta man ég vel, og þarf enginn að minna mig á og þarf ekkert að deila um upphafið, því að það var svo sem ég hef greint.

Út af því, sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði, að ég hefði talað um tekjur af umferðinni, í því sambandi hef ég fylgt þeirri reglu, sem fyrrv. vegamálastjóri, Geir heitinn Zoega, hafði, þegar hann skrifaði grein um vegi á Íslandi og framlög til þeirra og tekjur af þeim í Fjármálatíðindin 1956, og ég hef fengið upp hjá Hagstofu Íslands árlega slíkt yfirlit, og það hefur alltaf verið gert á einn og sama veg. Á þann hátt miða ég við, þegar ég tala um tekjur af umferðinni í landinu. Og þær tekjur, sem ríkissjóður hefur af bifreiðum, hvort sem það er í benzínskatti, þungaskatti, leyfisgjöldum, gúmmígjöldum eða öðru, þær fást vegna þess, að við höfum lagt hér vegi, eins og Geir vegamálastjóri sagði, svo að ríkissjóður hefur stórfelldar tekjur af því að hafa lagt fé til vegamála á Íslandi. Þetta er staðreynd, og einmitt vegna þess að ríkissjóður hefur haft svo stórfelldar tekjur síðustu árin, átti meiru að verja til þessara vegamála en gert hefur verið. Það er líka staðreynd, sem ekki þýðir á móti að mæla. Þess vegna endurtek ég það, að hæstv. ríkisstj. hefur verið smástíg í þessu máli. En vonandi eigum við eftir að reyna betra, þegar þetta nýja frv. kemur fram, og fagna ég því sannarlega, að svo verður.