26.11.1963
Neðri deild: 20. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í C-deild Alþingistíðinda. (1981)

67. mál, strandferðaskip fyrir siglingaleiðina Vestmannaeyjar - Þorlákshöfn

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 72 er flutt af mér og samþm. mínum, hv. 4. þm. Sunnl., Birni Fr. Björnssyni, en við vorum báðir meðflm. að shlj. frv. á síðasta þingi, en 1. fim. þess frv. var þáv. hv. 6. þm. Sunnl., Karl Guðjónsson. Frv. náði ekki fram að ganga, svo að við höfum leyft okkur að leggja þetta frv. hér í þessari hv. d. fram nú á þessu þingi í þeirri von, að það fái hér góðar undirtektir.

Greinar frv, eru 5 og þarfnast þær hver um sig ekki sérstakra skýringa, svo einfaldar eru þær og auðskildar efnislega. En með frv., ef að lögum verður, er ríkisstj. heimilað að láta byggja skip til þess að annast daglegar ferðir á siglingaleiðinni milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, og ætla ég að fara fáeinum orðum um málið í heild.

Vestmannaeyjakaupstaður er, svo sem kunnugt er, einn af stærri kaupstöðum hér á landi, íbúar hátt á 5. þúsund, en þar að auki starfar þar á vetrarvertíð aðkomufólk, svo að skiptir þúsundum. Ég þarf ekki og ég ætla ekki heldur að rekja hina miklu þýðingu þessarar miklu verstöðvar fyrir framleiðslu- og atvinnulif þjóðarinnar. svo kunnugt er það öllum landsmönnum og þá auðvitað ekki sízt hv. alþm.

Íbúar Vestmannaeyja hafa lengi mátt búa við erfiðar og dýrar og allt of fáar áætlunarferðir milli lands og Eyja. Fyrsta átakið af hálfu þess opinbera, sem verulega hefur miðað að því að bæta úr þessu samgönguleysi Eyjabúa, var, þegar skipið Herjólfur var smíðað til að annast siglingar á leiðinni Reykjavík—Vestmannaeyjar með ferðum til Hornafjarðar. Herjólfur hefur undanfarin sumur haft áætlunarferðir til Þorlákshafnar, en stundum hafa slíkar áætlunarferðir þangað ekki verið farnar, þegar veður hefur hamlað, og á vetrum hafa þessar ferðir lagzt niður, þar sem lendingarskilyrði fyrir skip eins og Herjólf hafa ekki verið til staðar í Þorlákshöfn. Nú er unnið að hafnargerð í Þorlákshöfn, og verður væntanlega lokið þeim áfanga, sem ráðgert er að koma í framkvæmd nú, eftir svo sem eitt eða í hæsta lagi tvö ár. Þá á ekkert að vera lengur því til fyrirstöðu, að allstór hafskip geti athafnað sig í þeirri höfn, þegar sjór er fær á þeirri siglingaleið , sem hér er um að ræða, og opnast þá tiltölulega stutt leið fyrir daglegar samgöngur milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar og til Reykjavíkur um Þrengslaveginn. Má gera ráð fyrir, að ferð milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur þyrfti ekki að taka nema svo sem 41/2 klukkustund, í stað þess að sjóleiðin milli Eyja og Reykjavíkur tekur nú ekki skemmri tíma en í kringum 10 klst. Oft tekur sú leið líka miklu lengri tíma og er fólki erfið og óþægileg, þegar veður er óhagstætt, sem því miður er oft, og sjór úfinn. Með hafnargerðinni í Þorlákshöfn hillir undir það langþráða mark, að leiðin milli lands og Eyja styttist stórkostlega og geti orðið fær flesta daga. En þá þarf að vera til staðar þægilegur farkostur, sem getur gegnt því mikilvæga hlutverki að flytja fólk, vörur og farartæki, eins og t.d. bifreiðar, á milli þessara staða. Við flm. teljum, og um það hugsa ég að sé ekki ágreiningur, að þetta sé sú eina leið til þess að gera samgöngur Vestmanneyinga sem þægilegastar og öruggastar, auk þess sem flugvélar verða einnig auðvitað alltaf notaðar, þegar veður leyfir.

Mér hafa sagt kunnugir menn, að síðan bifreiðaeign fór að verða allalmenn í Vestmannaeyjum, sé eins og fólk uni enn verr en áður einangrun byggðarlagsins. Menn vilja geta komizt með farartæki sín stytztu leið til lands, þegar þeim hentar, og ferðazt svo óháðir um landið á sínum eigin farartækjum.

Í Vestmannaeyjum er og hefur lengi verið mun almennari velmegun en víðast annars staðar á landinu. Er það auðvitað sprottið af hinum góðu og nálægu fiskimiðum og dugnaði fólksins, sem þar býr. En þrátt fyrir hina almennu velmegun er talsvert orðið um það nú, sem ekki var áður fyrr eða a.m.k. miklu minna, að fólk flytur frá Eyjum, og er mér sagt, að einangrun staðarins og hinar tiltölulega löngu sjóferðir, sem menn verða að fara, þegar þeir vilja komast til Eyjanna eða frá þeim, muni mestu valda um það, hversu margir flytja í burtu þaðan. En hvað sem um þetta er, um það skal ég ekki dæma, þá er það ekki nema eðlileg þjónusta þjóðfélagsins við íbúa þessa fjölmenna staðar, sem hefur mesta framleiðslu miðað við mannfjölda allra byggðarlaga tandsins, að sjá um að tengja staðinn sem bezt við samgöngukerfi landsins, svo að íbúarnir þar, sem vissulega leggja ekki minna til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar en aðrir, nema fremur sé, — leggja sennilega til meira en flestir aðrir vegna hinnar miklu framleiðslu, sem þar er, að þeir geti notíð þeirra þæginda og öryggis, sem góðar og tíðar samgöngur veita.

Eitt af því, sem Eyjabúar njóta ekki til jafns við aðra þéttbýla staði, er það, að þeir verða oft að vera án mjólkur, eða a.m.k. verða þeir alloft að notast við mjólk, sem er orðin nokkuð gömul. Nú á tímum eru gerðar miklar og vaxandi kröfur um holla fæðu, en nýmjólk er talin nauðsynlegur liður í daglegri fæðu hvers manns. Mjólkina er hins vegar ekki hægt að geyma lengi í sínu upprunalega ástandi. Daglegar samgöngur skemmstu leið við mjólkurframleiðslusvæðin sunnanlands eru þess vegna einnig mikil nauðsyn. Sama er og að segja um ýmsar afurðir aðrar, sem þeir ættu með daglegum samgöngum að geta fengið nýjar, svo sem t.d. sláturfjárafurðir á haustin í sláturtíðinni, ef skip hentuglega útbúið til flutninga á viðkvæmum matvælum væri daglega í förum frá suðurströndinni.

Vegakerfi landsins er samfélagsleg þjónusta af hálfu hins opinbera, sem allir landsmenn standa undir kostnaði af og eiga allir að hafa sama rétt til að njóta. Góðar samgöngur eru vissulega fyrsti og þýðingarmesti þáttur í því að viðhalda jafnvæginu í byggð landsins og jafna aðstöðu manna, eftir því sem hægt er, til þæginda og öryggis. Auðvitað eru samgöngur í lofti og á sjó alveg sama eðlis og eru þannig greinar af sama stofni, þjónustunni við íbúa landsins til að geta komizt um landið sitt eftir vild.

Við flm. þessa frv. álítum, að íbúar Vestmannaeyja geti ekki talizt njóta sömu aðstöðu og aðrir menn, sem búsettir eru hér á Suðurlandi, a.m.k. ekki fyrr en þeir fá hentugt skip, sem eingöngu hefur því hlutverki að gegna að halda uppi ferðum milli Vestmannaeyja og Suðurlandsundirlendisins. Okkur finnst, að íbúar Eyjanna eigi þjóðfélagslegan rétt til þess, að þörf þeirra í þessu efni verði tekin til greina, og af þeim ástæðum er frv. þetta fram borið. Viljum við mega vænta þess, að hið háa Alþingi líti einnig þannig á þetta mál.

Ég legg til, herra forseti, að frv. þetta verði látið ganga til 2. umr. að þessari umr. lokinni og hv. samgmn.