17.12.1963
Neðri deild: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

103. mál, náttúruvernd

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Efni þessa frv. er mjög einfalt. Í gildandi lögum um náttúruvernd er svo fyrir mælt, að bæði formaður ráðsins og varaformaður skuli vera embættisgengir lögfræðingar. Nú stendur svo á, að sá, sem verið hefur formaður náttúruverndarráðs frá upphafi, Ásgeir Pétursson sýslumaður, hefur sagt af sér formennsku í ráðinu, vegna þess að hann hefur tekið við starfi utan Reykjavíkur, og þarf nú að skipa formann í hans stað. En þar sem ekki er talin þörf á, að bæði formaður og varaformaður séu embættisgengir lögfræðingar, þá er talið rétt, að í þessu sambandi sé gerð sú breyting á gildandi lögum, að annaðhvort formaður eða varaformaður skuli vera embættisgengur lögfræðingur. Og það er eina efni frv., sem hér er um að ræða.

Þar eð ég hafði hugsað mér að láta skipun nýs formanns í náttúruverndarráði taka gildi frá áramótum, frá 1. jan. n. k., vildi ég mjög mælast til þess, þar sem hér er um einfalt mál að ræða, að hið háa Alþingi sæi sér fært að afgreiða þessa litlu breytingu á gildandi náttúruverndarlögum, áður en þingið fer heim, tekur sér jólaleyfi nú í lok þessarar viku. Eru það því vinsamleg tilmæli mín til hv. n., sem fær málið til meðferðar, að hún miði afgreiðslu sína við, að það verði unnt, ef sú samstaða næst um þessa breytingu, sem ég vona að náist í hv. n. og síðan í hinni hv. deild.

Ég leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.