14.12.1963
Neðri deild: 30. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í C-deild Alþingistíðinda. (2011)

99. mál, jarðræktarlög

Flm. (Hjörtur E. Þórarinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 125, er flutt af mér ásamt tveim öðrum þm. Framsfl., þeim Ágúst Þorvaldssyni, hv. 2. þm. Sunnl., og Birni Pálssyni, hv. 5. þm. Norðurl. v.

Hér er um að ræða breytingu á jarðræktarlögum, nr. 45 frá 1960.

Jarðræktarlög voru fyrst sett hér á Alþ. árið 1923. í þeim var gert ráð fyrir, að þau skyldu endurskoðuð að 5 árum liðnum, enda var svo gert árið 1928. Síðan hafa þau verið endurskoðuð margsinnis, eftir því sem breyttir tímar hafa gefið tilefni til. 1936 voru t.d. samin alveg ný jarðræktarlög, og að tilhlutan búnaðarþings voru svo felldir inn í þau lög nýir kaflar 1942. Núgildandi jarðræktarlög eru að meginefni til frá 1950, en breytingar hafa þó verið gerðar síðan, m.a. 1955.

Meginatriði þessara laga hefur frá upphafi verið það að setja reglur um stuðning ríkisvaldsins við ræktun lands, fyrst í stað aðallega sléttun gamalla túna, en siðar í æ ríkara mæli við útfærslu ræktunarinnar, þ.e. nýrækt. Þó var einnig strax í upphafi ákveðið framlag til vissra byggingarframkvæmda, sem taldar voru hafa varanlegt gildi sem jarðabætur, þ.e. áburðargeymslur og safnþrær. Síðan voru svo smátt og smátt fleiri tegundir framkvæmda teknar inn í lögin, einkum varanlegar heygeymslur, svo og stórvirk þurrkun lands, þegar véltæknin kom til sögunnar og gerði hana mögulega. Verður öll sú saga ekki rakin hér, það yrði of langt mál. En árangurinn er það, sem fyrir augum blasir í sveitum í dag í stórkostlegri ræktun og byggingum.

Í upphaflegu lögunum var svo gert ráð fyrir, að ríkisframlagið væri ákveðinn hluti af kostnaðarverði. Fljótlega var því ákvæði þó breytt og tekið að greiða það sem visst framlag á unnið dagsverk eftir föstu mati. 1936 eru dagsverkin einnig lögð niður, en verkeiningar og styrkur á þær lögfestur, og hefur það form haldizt síðan, þótt hvað eftir annað hafi verið gerðar breytingar á sjálfum upphæðunum, auk þess sem um langt skeið, eða frá 1942 til 1960, var greidd verðlagsuppbót á framlögin.

Ég ætla ekki að rekja hér, hvað hefur áunnizt, síðan jarðræktarlög voru fyrst samþykkt, né heldur á hvaða stigi við stöndum í dag. En til þess að gefa mynd af því, sem gerzt hefur í sjálfri jarðræktinni, skal það sagt, að nú mun vera búið að grafa nálægt 10 þús. km af opnum skurðum síðan 1942 og túnstærð talin vera um 80 þús. ha. Þó er það ekki nákvæm tala og nákvæm tala ekki fyllilega þekkt.

Um byggingarframkvæmdir er svipaða sögu að segja, en ég læt nægja að benda á, að á síðustu 25 árum hafa verið byggð varanleg hús yfir megnið af búpeningi landsmanna, um 50 þús. nautgripi og 800 þús. fjár, svo og hlöður fyrir meginið af vetrarfóðri þess búpenings. Mestar árlegar framkvæmdir hafa orðið síðan 1956 og komust hæst 1959, en þá voru teknir út um 4500 ha. af nýrækt og grafnir um það bil 1000 km af opnum skurðum. Síðan hefur heldur hallað undan fæti, einkum hvað þurrkun lands snertir. Ekki liggja fyrir tölur um það, hve miklum hluta af kostnaði við þær framkvæmdir, sem ríkið hefur styrkt, framlag þess nemur frá upphafi, en hitt hefur Stéttarsamband bænda látíð reikna út, hvernig fjármunamyndun í landbúnaði hefur gerzt á áratugnum 1951—1960. Þá kom í ljós, að af allri fjármunamyndun, þ.e.a.s. í ræktun og húsum, vélum og bústofnsauka, voru óafturkræf framlög ríkisins 12%, lán frá föstum lánastofnum landbúnaðarins 19%, en afgangurinn, 69%, eigið framlag af aflafé og vinnu bænda sjálfra. Í 12%, sem frá ríkinu komu, eru þá einnig talin þau framlög, sem greidd eru samkvæmt lögum um landnám ríkisins. Þó að langmestur hluti af stofnkostnaði við uppbyggingu í landbúnaði hafi þannig verið greiddur af eigin fé og vinnu bænda, er hitt jafnvíst, að framlag ríkisins samkvæmt jarðræktarlögum hefur haft geysilega þýðingu, ef til vili úrslitaþýðingu í þeirri byltingarkenndu þróun, sem þessi atvinnuvegur hefur gengið í gegnum á því 44 ára tímabili, sem þessi lög hafa staðið, en nú eru þau enn á ný úrelt orðin og þarfnast skjótra lagfæringa.

Þetta frv. er borið fram til að leiðrétta þau atriði, sem mest eru aðkallandi. Verðbólgan, sem hefur leikið svo grátt marga góða löggjöf, sem bindur fjárgreiðslu við ákveðna krónutölu, hefur einnig bitnað á jarðræktarlögunum. Í þeim er gert ráð fyrir, að framlag ríkisins sé ákveðin upphæð í krónutölu á verkeiningu, að viðbættri verðlagsuppbót samkvæmt vísitölu. En þar sem vísitalan hefur hin síðari árin ekki verið látin verka á peningagreiðslur, þá hefur síhækkandi ræktunar- og byggingarkostnaður valdið því, að ríkisframlagið hefur farið hlutfallslega lækkandi ár frá ári. Það nægir alveg til skýringar að geta þess, að framlag til eins ha. af ræktun á mýrlendi á býli, sem hefur meira en 10 ha. túnstærð, hefur lækkað hlutfallslega á árabilinu 1956—1962 úr 20.2% 1956 í ca. 10%, nákvæmlega reyndar 9.95% 1962, eða sem sagt hefur ríkisframlagið rýrnað um liðlega helming á þessu tímabili. Þetta sýnir þróunina. Og sama sagan hefur gerzt um byggingarframlög. Að vísu er sjálfsagt að geta þess, að ný lagaákvæði um aukaframlög til litilla túna hafa vegið þessa lækkun upp og meira en það í þeim tilfellum, en það er önnur saga.

Nú leggjum við til í þessu frv., sem hér liggur fyrir, að aftur sé horfið að því fyrirkomulagi, sem upphaflega var viðhaft, þ.e. að binda framlagið við ákveðið hlutfall af kostnaði, og má segja, að þetta sé ein höfuðbreytingin, sem við leggjum til frá gildandi lögum. Jafnframt er gert ráð fyrir, að sérfræðingar Búnaðarfélags Íslands og Teiknistofu landbúnaðarins meti árlega kostnað við verkeiningu hverrar tegundar framkvæmda, sem framlags nýtur. Þetta á að koma í veg fyrir, að áframhaldandi verðbólga rýri enn á ný framlagið, en auk þess verður það miklu auðveldara í útreikningi en verið hefur um sinn, þó að það sé í sjálfu sér ekki mikið atriði. Ekki er í frv. gert ráð fyrir ríkisframlagi til annarra framkvæmda en þeirra, sem nú þegar njóta framlags eftir gildandi lögum, en hins vegar er það hækkað nokkuð, en misjafnt þó eftir tegund framkvæmda.

Í 1. gr. frv. felst sú breyt. á 5. gr. gildandi jarðræktarlaga í kafla í, að ríkið greiði 2/3 hluta af launum héraðsráðunauta í stað helmings, sem nú er. Sömu hlutföll séu einnig á greiðslu ferðakostnaðar þeirra, en hana greiða búnaðarsamböndin, sem ráðunautarnir vinna hjá, hana greiða þau nú ein. Í 2. gr. frv. felast ýmsar breytingar á 11. gr. gildandi laga, þ.e. II. kafla, sem í fjallar um framlög ríkisins til tiltekinna jarða- og húsabóta. Gert er ráð fyrir, að ríkið greiði 3/4 hluta alls kostnaðar við landþurrkun, sem nær einvörðungu er nú unnin með stórvirkum véltækjum, bæði opnir skurðir og lokræsi. Handgröftur skurða er að miklu eða mestu leyti úr sögunni. Nú greiðir ríkið 65% af þessum kostnaði, eins og kunnugt er. Að öðru leyti er hækkunin mest á heygeymslum, einkum votheyshlöðum og súgþurrkunarkerfum.

Reynslan leiðir æ betur í ljós, að þetta tvennt verður að fara saman og haldast í hendur, aukin grasrækt til heyskapar og tryggari úrræði til að varðveita næringargildi grassins til vetrarins. Helztu úrræði, sem nú eru fyrir hendi í þessu sambandi, eru einmitt votheysgerð og súgþurrkun heys, og hefur hvort tveggja sannað gildi sitt óumdeilanlega. Þrálátur illviðrakafli á miðju sumri t.d. um norðanvert landið getur bakað þjóðarbúinu gífurlegt tjón. Á landi tapast fóðureiningar milljónum saman á túnunum, og á meðan gengur síldin úr greipum sjómanna, svo að skipt getur hundruðum þúsunda mála. Við því síðara er lítið eða ekkert hægt að gera enn þá, en við því fyrra eru til þau úrræði, sem ég nefndi, og þau geta bjargað geysilegum verðmætum, ef þau eru nógu útbreidd og útbreiddari en nú, en þau eru í sumum héruðum mjög algeng orðin, en annars staðar ekki. Það er heppilegt að aukinn stuðningur ríkisins komi þeim héruðum þá öðrum fremur til góða, sem þannig hafa dregizt aftur úr á framfarabrautinni.

Sjálfsagt er að gera sér grein fyrir því, hvaða útgjaldaaukningu þessar breytingar mundu hafa í för með sér fyrir ríkissjóð, ef að lögum yrðu. En miðað við framkvæmdir ársins 1962 og skýrslur hjá Búnaðarfélaginu og kostnaðarmat á verkeiningu, sem nýlega hefur verið gerð af Landnámi ríkisins og Teiknistofu landbúnaðarins, mundi útgjaldaaukning á 16. gr. fjárlaga, þ.e.a.s. gjöld samkvæmt jarðræktarlögum, hækka um 16 millj. eða milli 55 og 60%, eftir því sem mér telst til. Talið er, að meðaltúnstærð í landinu sé u.þ.b. 15 ha. nú. Er það ekki nákvæm tala, en sæmilega nákvæm þó. En það er einmitt upp að því marki, sem aukaframlag er greitt samkv. lögum um framlag ríkisins. Allir eru sammála um það, að þetta sé allt of lítil túnstærð. Lágmarkið þyrfti að vera 25 ha. a.m.k., til þess að viðunandi bústærð náist, eins og nú er komið framleiðsluháttum í landbúnaðinum og aðstöðu hans. Þarf því enn að rækta 10 ha. til jafnaðar á hvert býli, til þess að því marki sé náð, eða a.m.k. 50 þús. ha. í landinu öllu. Og nú er svo talið, að sjálf ræktun landsins að lokinni uppþurrkun kosti 8-12 þús. kr. á hvern ha. eftir eðli landsins. Það kostar því mörg hundruð millj. kr. að rækta þetta land.

Nú er það staðreynd, að hver ræktaður ha. kallar á aðra og enn þá dýrari fjárfestingu í útihúsabyggingum og öðrum mannvirkjum, svo að jafnvel þótt nokkur hluti nýræktarinnar notist sem beitiland, þá er fyrirsjáanleg gífurleg fjárfestingarþörf í landbúnaðinum næstu áratugina, og það eins þó að bændatala lækki eitthvað á tímabili frá því, sem nú er, en það virðist nú blasa við í augnablikinu. Það mun ekki heldur veita af því, að framleiðsluaukningin haldi áfram nokkuð jafnt og þétt, þar sem talið er, að þjóðinni hafi fjölgað um nálega helming eða fyllilega helming, áður en þessi öld er öll. En það þýðir, að búvöruframleiðslan þarf einnig að aukast um nálega helming á þessu sama tímabili, ef hún á að fullnægja innanlandsþörfinni einni saman.

Við flm. þessa frv. teljum, að það sé bæði eðlilegt og skynsamlegt, að þjóðarheildin haldi áfram að styðja að uppbyggingu landbúnaðarins, eins og hún hefur gert nú um 40 ára skeið, og auki hana heldur en minnki, því að hér er um það að ræða að bæta landið til frambúðar og treysta grundvöllinn fyrir ört vaxandi þjóð.

Herra forseti. Ég legg til, að þessu frv. verði vísað til hv. landbn. að lokinni þessari umr.