21.01.1964
Neðri deild: 42. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í C-deild Alþingistíðinda. (2015)

102. mál, menntaskólar

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 147 ásamt hv. 4. þm. Sunnl. (BFB) frv. til I. um breyt. á I. nr. 58 7. maí 1946, um menntaskóla. Í frv. okkar er lagt til, að 1. gr. áðurnefndra laga orðist þannig, að menntaskólar skuli vera fjórir, tveir í Reykjavík, einn á Akureyri og einn á Laugarvatni, en auk þess skuli stofna einn menntaskóla á Austurlandi og einn á Vestfjörðum, þegar fé er veitt til þeirra í fjárlögum.

Heimild sú, sem er í gildandi lögum til starfrækslu menntaskóla á Akureyri og Laugarvatni, hefur sem kunnugt er verið fyrir löngu notuð. Þar eru starfandi menntaskólar og hafa verið um langt skeið. Lögunum hefur þó ekki verið breytt þrátt fyrir þetta, skólarnir eru enn starfræktir samkvæmt þessari heimild. Sú breyting, sem hér er lögð til varðandi þessa skóla, er því aðeins formbreyting til samræmis við það ástand, sem nú ríkir og ríkt hefur, breytir svo sem engu og hefur engin útgjöld í för með sér, en virðist einsýnt að breyta lögunum í þessa átt til þess að færa lagagreinina til samræmis við það ástand, sem í málunum ríkir.

En öðru máti er hins vegar að gegna um þá breyt., sem í frv. okkar er ráðgerð á menntaskólum í Reykjavík. Samkvæmt gildandi lögum er aðeins einn menntaskóli hér. Sá skóli er til húsa í gömlu menntaskólabyggingunni við Lækjargötu, eins og allir vita. Það hús hefur verið notað í þessu skyni í 118 ár. Það var tekið í notkun árið 1846, þegar nemendur þessa skóla, sem þá hét raunar Latínuskólinn, voru aðeins 60. Nú eru nemendur Menntaskólans í Reykjavík yfir 900, og má því nærri geta, hversu gífurlegt þröngbýli muni þarna vera um að ræða. Gamla húsið er orðið allt of lítið fyrir starfsemi skólans og því óhjákvæmilegt að byggja nýtt skólahús. Skylt er að geta þess í þessu sambandi, að framkvæmdir eru þegar hafnar að talsvert auknum byggingum í grennd við gamla menntaskólahúsið. En þær framkvæmdir ráða þó ekki nema að mjög litlu leyti fram úr þeim húsnæðisvandræðum, sem þarna er um að ræða, heldur eru fyrst og fremst reistar í því skyni, að hægt sé að koma við sérkennslu á verklegan hátt í þar til gerðu húsnæði, en til slíks hefur mjög skort aðstöðu hin síðari árin. Um þessar framkvæmdir við menntaskólann hafa verið talsvert skiptar skoðanir. Þarna hafa verið keyptar alldýrar lóðir og mannvirki til þess að bæta úr sárustu húsnæðisvandamálunum með lágum viðbyggingum í nágrenni gamla skólans. Margir hefðu fremur kosið, að fjármagni þessu hefði verið varið til byggingar nýs skólahúss, eins og raunar hafði verið ráðgert, húss, sem hefði betur þjónað hlutverki sínu. En þessi stefna hefur nú orðið ofan á, sem kunnugt er, og skal ekki um það sakast hér. Hitt er aðalatriðið, að því fer alls fjarri, að með þessum viðbótarbyggingum séu húsnæðismál skólans leyst, því að skólinn getur ekki bætt við nemendafjölda sinn, svo að nokkru nemi, þrátt fyrir þessa breytingu. En auk þess kemur svo til það, sem mestu máli skiptir, en það er, að almennt er talið af þeim, sem til þekkja, að Menntaskólinn í Reykjavík sé nú þegar orðinn a.m.k. nægilega fjölmennur og að það sé rangt að stefna að því að fjölga nemendum í honum. Flestir skólamenn telja, að heppilegasti nemendafjöldi í slíkum skóla sé 500—600 nemendur, og miðað við þær tölur gætu 2 menntaskólar í Reykjavík verið fullsetnir innan 1—2 ára. Þess má geta, að ýmsir skólamenn telja, að nemendur framhaldsskólanna ættu að vera enn færri í hverjum skóla en hér var nefnt, og tala um allt niður í 300—350 nemendur, og má vel vera, að þeir hafi töluvert mikið til síns máls. Hvernig sem um það er, munu flestir sammála um hitt, að 800—900 nemendur sé allt of mikið, jafnvel þó að aðstæður væru allar svo sem bezt væri á kosið.

Eftirspurn eftir skólavist í Menntaskólanum í Reykjavík er gífurlega mikil, og verður að setja miklu strangari skilyrði fyrir inntöku inn í skólann en í raun og veru nokkur sanngirni mælir með, auk þess sem nemendum er gert að leysa þyngri þrautir, eftir að í skólann er komið, heldur en námsferill þeirra í sjálfu sér gerir kröfu til. Æskilegt væri og æskilegast, að allir, sem standast landspróf, ættu aðgang að framhaldsnámi, eftir því sem hugur þeirra stendur til og aðstæður þeirra að öðru leyti leyfa. Vegna húsnæðisskorts getur Menntaskólinn í Reykjavík ekki annað þessari eftirspurn, en verður að vísa miklum fjölda nemenda frá. Við flm. þessa frv. teljum, að úr því þurfi hið bráðasta að bæta og að það verði aðeins gert, svo að vei sé, með því að fjölga menntaskólunum í Reykjavík og hefjast þegar handa um byggingu nýs húsnæðis fyrir hinn nýja skóla.

Þá er enn fremur í frv. okkar gert ráð fyrir því að stofna menntaskóla á Austurlandi og á Vestfjörðum. Á mörgum undanförnum þingum, má ég segja, hafa þm. Vestfjarða, fleiri eða færri, flutt frv. til laga um stofnun menntaskóla á Vestfjörðum, siðast, að því er mig minnir, á þingi 1960. Enn fremur hefur verið flutt hér a.m.k. einu sinni frv. til laga um stofnun menntaskóla á Austurlandi. Þessi frv. hafa verið flutt vegna mikils áhuga í viðkomandi byggðarlögum á því, að aðstaða unglinga til framhaldsnáms verði jöfnuð svo sem hægt er, og liggja fyrir ýmsar samþykktir og áskoranir frá mörgum samtökum um þau efni, sem ég skal ekki telja hér upp. Það virðist sanngirniskrafa, að íbúar Austurlands og Vestfjarða verði að þessu leyti settir við sama borð og íbúar á Suðurlandi og Norðurlandi. Sunnlendingar eiga aðgang að Laugarvatnsskólanum og Norðlendingar að Menntaskólanum á Akureyri. Þessir skólar geta enn tekið við þeim nemendum, sem þangað sækja, en íbúar Austurlands og Vestfjarða verða að leita til annarra byggðarlaga til þess að sækja menntaskóla. Augljóst er, að mikið hagræði og fjárhagslegur styrkur er að því að þurfa ekki að senda nemendur mjög langt að heiman til skóladvalar og því mikið hagsmunamál fyrir þessi byggðarlög, að slikir skólar gætu risið þar. Þess vegna er, eins og áður segir, í frv. einnig gert ráð fyrir heimild til stofnunar menntaskóla á Austurlandi og Vestfjörðum, þegar fé hefur verið veitt til þeirra á fjárl., en gera má ráð fyrir, að stofnun þessara skóla þurfi nokkurn undirbúning.

Enginn vafi er á því, að breyttir þjóðfélagshættir auka þörf íslendinga á sérmenntuðu fólki til starfa í margvislegum greinum. Nú eru tímar sérhæfingarinnar, og okkur er ekki sízt nauðsynlegt að stefna að því að fá til starfa vei menntaða sérfræðinga á sem allra flestum sviðum verklegra viðfangsefna. Til þess að íslendingar geti haldið í horfinu og sótt eðlilega fram í samanburði við aðrar þjóðir, er ekki lengur nóg að bjargast við brjóstvitíð eitt. Vonir okkar um batnandi þ,jóðarhag byggjast í vaxandi mæli á því, að vísindi og tækni séu tekin í þjónustu atvinnuveganna. Slíkt verður hins vegar ekki gert, nema tryggt sé, að landið eigi jafnan völ á hæfum vísindamönnum og að nægilegt framboð sé á tæknimenntuðu fólki. Íslenzkir menntamenn hafa þráfaldlega sýnt það og sannað, að þeir eru engir eftirbátar erlendra starfsbræðra sinna, en okkur vantar fleiri slíka menn. Þess vegna er nauðsynlegt að greiða fyrir því, að sem allra flestir eigi kost á því að afla sér þeirrar menntunar, sem nauðsynleg er til að geta orðið virkur þátttakandi í þeirri framtíð aruppbyggingu, sem hér þarf til að koma.

Ég sé ekki ástæðu til þess að vera að fjölyrða meira um þetta mál á þessu stigi. Ég er sannfærður um, að allir hv. alþm. viðurkenna og skilja þessa nauðsyn, og þess vegna leyfi ég mér að vonast eftir vinsamlegum undirtektum undir þetta mál. Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. menntmn.