17.04.1964
Neðri deild: 80. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í C-deild Alþingistíðinda. (2028)

102. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að fagna því, að málefni íslenzkra menntaskóla skuli hafa verið rædd jafnýtarlega og raun ber vitni um hér á hinu háa Alþingi undanfarið. Fyrir hv. þd. liggja frv. um stofnun þriggja nýrra menntaskóla, þ.e. eins hér í Reykjavík og menntaskóla á Ísafirði og Eiðum. Það er áreiðanlega ekki ofmælt, að menntaskólarnir séu eitt mikilvægasta skólastigið í íslenzku skólakerfi, og á því er enginn vafi, að framtíð arþróun í íslenzkum skólamálum og menntamálum mun m.a. vera í þá átt, að æ fleiri íslenzkir skólanemendur gangi einmitt í menntaskóla, svo að full þörf er á því að auka og bæta skilyrði manna til að sækja menntaskóla frá því, sem nú er. En hitt verða menn líka að gera sér ljóst, að um margar leiðir í því efni er að velja og til þess þarf mjög að vanda, þegar framtíðarbrautin í þróunarmálum menntaskólanna er mörkuð. En ég taldi rétt í raun og veru að gefnu tilefni í þeim umr., sem hingað til hafa farið fram um málið, að láta koma fram nokkrar upplýsingar um ástandið í menntaskólamálunum nú, því að mér fannst jafnvel hafa verið látíð liggja að því í sumum ræðum, sem flutt ar hafa verið, að skilyrði íslenzkra nemenda til að stunda menntaskólanám væru lélegri en þau eru í raun og veru. Þess vegna vil ég láta koma skýrt fram, að hvorki í Menntaskólanum í Reykjavík né Menntaskólanum á Akureyri né í kennaraskólanum hefur nokkrum nemanda með fullgildum landsprófsréttindum verið synjað um skólavist fram að þessu. Hver einasti nemandi, sem staðizt hefur svonefnt landspróf, en það er inngöngupróf í menntaskólana, hver einasti nemandi, sem staðizt hefur þetta löggilta inntökupróf í menntaskólana, hefur átt þess kost að stunda nám í menntaskóla fram að þessu. Um Menntaskólann á Laugarvatni gegnir sérstöku máli, þar sem hann er alger heimavistarskóli og skólarými þar er eðlilega háð því, hversu marga er hægt að taka í heimavist hverju sinni. Skólameistari Menntaskólans á Laugarvatni kveðst venjulega hafa orðið að vísa frá u.þ.b. 15 nemendum af 50—60 umsækjendum þau ár, sem hann hefur starfað við skólann, en s.l. haust voru 28 nemendur teknir í Menntaskólann á Laugarvatni. Meðal þeirra, sem vísað er frá, eru yfirleitt allir umsækjendur úr Reykjavík, og má gera ráð fyrir því, að meiri hluti þeirra, sem vísað er frá Laugarvatni, komist í annan menntaskóla, ef þeir á annað borð hafa hug á því að halda fast við það áform sitt að stunda menntaskólanám. Og skólameistari þekkir ekki dæmi þess, að nokkur, sem ákveðinn hafi verið í því að hefja menntaskólanám, hafi þurft að hverfa frá þeirri fyrirætlun af búsetuástæðum.

Á Akureyri verður árlega að synja nokkrum umsækjendum um heimavist, u.þ.b. 20—30 árlega, að því er skólameistari Menntaskólans á Akureyri segir. Ýmsum þeirra tekst að afla sér húsnæðis með öðrum hætti á Akureyri, og skólameistari Akureyrarskólans telur einnig, að í hæsta lagi 10 nemendur hafi hætt við skólagöngu í Menntaskólanum á Akureyri á s.l. ári vegna synjunar á heimavist, en á því ári voru tæplega 120 nemendur teknir í skólann. Hins vegar veit hann ekki til þess, að neinn þeirra, sem synjað var um heimavist á Akureyri, hafi orðið að hætta við menntaskólanám af þeim sökum.

Varðandi þetta taldi ég rétt, að kæmi hér skýrt fram, að tala þeirra, sem lokið hafa landsprófi s.l. 3 ár, er þessi: 1961 476 nemendur, 1962 525 nemendur og 1963, á þessu ári, 560 nemendur. Af þessari tölu nemenda, sem höfðu rétt til þess að sækja menntaskóla, hóf eftirfarandi fjöldi nám í einhverjum af menntaskólunum eða Kennaraskóla Íslands : 1961 424, 1962 464 og 1963 511. En þó að það sé svo, að fram að þessu hafi ekki þurft, sem betur fer, að synja neinum með fullgildum réttindum um nám í menntaskóla, er rétt, að tala þeirra, sem nauðsynlegt er að gangi menntaskólaveginn, mun án efa fara talsvert vaxandi á næstu árum, svo að það er fullkomlega tímabært að gera sér grein fyrir því, með hvaða hætti sé skynsamlegast að sjá fyrir framtíð arþörf þjóðarinnar fyrir menntaskólanám.

Um væntanlegan nemendafjölda á næstu árum er örðugt að segja, svo sem að líkum lætur, og þó má fá nokkra hugmynd um líklega þróun í þessu efni með því að athuga nákvæmlega árlega fjölgun nemenda að undanförnu, en tölur um það var ég áðan að nefna. Áætlun, sem gerð hefur verið um væntanlega nemendafjölda á næstu árum, bendir til þess, að óvarlegt sé talið að gera ráð fyrir minni fjölgun í Menntaskólanum í Reykjavík en 100 á ári. Í Menntaskólanum í Reykjavík er meira en helmingur þeirra, sem menntaskólanám stunda, eða 317 af 511, svo að líkleg heildartala þeirra, sem gera má ráð fyrir að vilji stunda menntaskólanám á næstu árum, til viðbótar þeim, sem nú stunda nám, er væntanlega einhvers staðar á milli 150 og 200. Þessum aukna nemendafjölda þarf að sjálfsögðu að sjá fyrir auknu skólahúsnæði og bættum námsskilyrðum.

Sú stefna, sem lögð er til í þeim frv., sem hér liggja fyrir, er að byggja einn nýjan menntaskóla hér í Reykjavík og tvo aðra, annan á Vestfjörðum og hinn á Austfjörðum. Í sambandi við þetta vildi ég láta nokkur atriði koma fram.

Varðandi skilyrði til menntaskólanáms hér í Reykjavík er það að segja, að nú í sumar er verið að vinna að mjög verulegri viðbót við hinn gamla menntaskóla í Reykjavík, og standa beztu vonir til, að byggingu þess viðbótarhúsnæðis, sem nú er unnið að, verði lokið í haust, þannig að hægt verði að taka þær nýju kennslustofur, sem eru í byggingu, til notkunar á hausti komanda. Með því móti verður öll starfsaðstaða elzta og stærsta menntaskólans breytt til stórkostlegra bóta frá því, sem verið hefur um marga undanfarna áratugi. Þá hefur ríkisstj. enn fremur tekið ákvörðun um, að þegar þeim byggingarframkvæmdum er lokið, skuli hafin bygging annars menntaskóla hér í Reykjavík, og er þegar verið að vinna að teikningum að því húsi, og því hefur verið ákveðinn staður í Litlu-hlíð, þar sem á sínum tíma hafði verið ráðgert að byggja nýjan menntaskóla fyrir Reykjavík alla. Geri ég mér von um, að bygging þess menntaskólahúss geti hafizt næsta vor, en það krefst mikils undirbúningsstarfs að hefja byggingu jafnstórs skólahúss og þar er um að ræða. Ríkisstj. hefur hins vegar ekki talið rétt að lögfesta ákvörðun sína um þetta efni á þessu stigi, vegna þess að á vegum menntmrn. starfar nú sérstök nefnd að endurskoðun l. um menntaskóla, þ.e. að endurskoðun námsefnis menntaskólanna, athugun á því, hvort sú deildaskipting, sem nú er í menntaskólanámi hér, sé ekki að einhverju leyti orðin úrelt og þarfnist endurbóta.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að af hálfu skólamanna hafa verið uppi till. um að taka upp kennslu á menntaskólastiginu í nýrri deild, svonefndri náttúrufræðideild, og hefur verið talið rétt að fá umsögn sérfróðra manna um það efni, áður en nokkur breyting er gerð á menntaskólalögunum, enda þarf það að sjálfsögðu ekki að verða framkvæmdum til neins trafala, þó að formbreyting hafi ekki verið gerð á gildandi menntaskólalögum um það, að menntaskólar hér í Reykjavík skuli vera tveir. Þessar ákvarðanir hafa þegar verið teknar. Það er verið að vinna að stækkun Menntaskólans í Reykjavík, og ríkisstj. er þegar búin að ákveða að hefja byggingu annars menntaskóla hér í Reykjavík. En það er rétt, að skynsamlegt er og gagnlegt að hugsa enn þá lengra fram í tímann, og þá vaknar spurningin um það, hverjar ættu að vera næstu viðbótarframkvæmdir á næstu árum, hvort þá stefnu á að marka, sem stungið er upp á í tveimur frv., sem hér eru til umr., að byggja nýja menntaskóla á Ísafirði og á Eiðum eða hvort aðrar leiðir í þeim efnum væru skynsamlegri.

Ég tel rétt, áður en ég held áfram, að skýra hv. þdm. frá umsögn fræðslumálastjóra um tilsvarandi frv. og þau, sem nú hafa verið flutt um stofnun menntaskóla á Vestfjörðum og Austfjörðum, þegar þau áður voru hér til meðferðar í hv. þd. Fræðslumálastjóri gerði þá athugun á tölu þeirra nemenda, sem líklegt væri að mundu æskja eftír menntaskólanámi á Vestfjörðum og á Austfjörðum, og einfaldast er, að ég lesi nokkrar setningar úr umsögn fræðslumálastjóra um þetta efni, með leyfi hæstv. forseta:

„Á Vestfjörðum hefur verið þreytt landspróf miðskóla við tvo skóla, frá því að sú skipan var tekin upp vorið 1946, við héraðsskólann á Núpi og gagnfræðaskólann á Ísafirði. Á s.l. 8 árum hefur fjöldi þeirra nemenda, sem náð hafa tilskilinni einkunn til þess að setjast í menntaskóla, verið frá 17—28 á Núpi og Ísafirði, að meðaltali 22 á ári. Af þeim hafa flest árin verið meira en helmingi fleiri á Núpi, enda er þar heimavistarskóli. Á þessum 8 árum hefur fjöldi landsprófsnemenda með rétt til inngöngu í menntaskóla aðeins einu sinni náð 9 á Ísafirði, en 2 árin aðeins verið 4, að meðaltali tæplega 7 á ári. Á síðari árum hefur meira en helmingur af nemendum Núpsskóla verið annars staðar að af landinu en Vestfjörðum, en í þessu sambandi má benda á það, að aðsókn að héraðsskólum hefur verið mjög mikil hin síðari ár. Af öllum landsprófsnemendum á landinu, sem náð hafa einkunn, sem veitir rétt til inngöngu í menntaskóla, hafa að meðaltali 81.99% farið í menntaskóla á s.l. 4 árum, 18.01% hafa hætt námi eða farið í aðra skóla en menntaskóla. Sé gert ráð fyrir því, að þessar prósentutölur séu svipaðar yfir landið allt, lækkar meðaltalið á Vestfjörðum s.l. 8 ár úr 22 í 18. Áður var vikið að því, að í héraðsskólanum á Núpi hefðu alltaf miklu fleiri tekið landspróf en í Gagnfræðaskólanum á Ísafirði. Sennilega mundu fæstir nemendur Núpsskóla sækja menntaskóla á Ísafirði. Þeir mundu að líkindum flestir sækja menntaskólana á Akureyri og Laugarvatni, enda eru þar heimavistarskólar. Væntanlegur nemendafjöldi í hverri ársdeild hins fyrirhugaða menntaskóla á Ísafirði yrði samkv. þeim tölum, sem fyrir liggja um nemendafjölda á undanförnum árum, 10—12. Að loknu fyrsta ári í menntaskóla skiptast þessir nemendur síðan í mála- og stærðfræðideild, og yrði þá meðalfjöldi í deild 5—6 nemendur.

Á Austurlandi hefur oftast á undanförnum árum verið þreytt landspróf miðskóla við tvo skóla, Alþýðuskólann á Eiðum og Gagnfræðaskólann í Neskaupstað. Að meðaltali hafa árlega s.l. 8 ár rúmlega 13 nemendur náð tilskilinni einkunn til að setjast í menntaskóla á báðum þessum stöðum. Sé sú tala lækkuð um 18%, verða eftir 11 nemendur, en það mundi þó verða hámarksfjöldi í hverri ársdeild fyrirhugaðrar menntaskóladeildar á Eiðum, en síðan helmingi lægri í hverri deild, þegar búið væri að skipta í mála- og stærðfræðideild. Þessar tölur eru að vísu ekki fyrir 2 s.l. ár, en engin grundvallarbreyting mun hafa orðið í þessum efnum á undanförnum 2 árum“.

Það er því alveg augljóst mál, að nýir menntaskólar á Vestfjörðum og Austfjörðum mundu nú um nokkurra ára bil verða hvor um sig mjög litlir, og án þess að ég andmæli því að nokkru leyti, að það komi fullkomlega til athugunar í framtíðinni, að það séu menntaskólar á Vestfjörðum og Austfjörðum, eins og nú eru menntaskólar á Suðurlandi og Norðurlandi, finnst mér þessar tölur gefa tilefni til athugunar á því, hvort ekki sé hægt að bæta námsskilyrði menntaskólanemenda á annan hátt hagkvæmar, líka fyrir íbúa Vestfjarða og Austfjarða, en þann að taka ákvörðun um að byggja menntaskóla á þessum stöðum. Í því sambandi vildi ég alveg sérstaklega minna á, að stækkun menntaskótans á Laugarvatni mundi verða mjög hagkvæm ráðstöfun, vegna þess að í raun og veru er menntaskólinn á Laugarvatni aðeins hálfbyggður. Það mundi því vera hægt að auka ekki bara menntaskólanámsskilyrði, heldur einnig heimavistarskilyrði við menntaskólanám með mjög ódýrum og mjög hagkvæmum hætti. Og það er skoðun mín, að þegar lokið er byggingu annars menntaskóla hér í Reykjavík, væri það skynsamlegasta ráðstöfunin í húsnæðismálum menntaskólanna að hefja byggingarframkvæmdir við menntaskólann á Laugarvatni og koma honum sem allra fyrst upp í þá stærð, sem honum upphaflega var fyrirhuguð og mjög góð starfsskilyrði eru fyrir á Laugarvatni.

Þá vil ég nefna aðra framkvæmd í menntaskólamálunum, sem ég tel aðkallandi og skynsamlega og mundi einmitt koma nemendum utan af landsbyggðinni, sem vilja stunda menntaskólanám, að miklu gagni, en það er bygging heimavistarhúss í Reykjavík fyrir menntaskólanemendur. Það er ráðstöfun, sem hefði að mínu viti fyrir löngu átt að koma til mjög alvarlegrar athugunar. Við menntaskólann hér í Reykjavík eru þegar mjög margir nemendur utan af landi, sem búa hjá ættingjum eða kunningjum hér í Reykjavík, og það ber sannarlega til þess brýna nauðsyn að bæta námsskilyrði þeirra með því að gefa þeim kost á að búa í heimavist við annan hvorn menntaskólanna hér í Reykjavík og þá væntanlega frekar við hinn nýja, fyrirhugaða skóla hér. Þá tel ég og koma til greina að stækka menntaskólann á Akureyri, ekki mjög mikið, en nokkuð, sem hægt væri að gera með mjög hagkvæmum hætti. í þessu sambandi vildi ég einnig geta þess, að sú breyting hefur orðið á skilyrðum til menntaskólanáms nú alveg nýlega, að kennaraskólinn hefur fengið rétt til þess að útskrifa stúdenta og þannig hefur aðstaða ungs fólks til menntaskólanáms með því móti batnað mjög verulega. Síðasta Alþingi samþykkti og stofnun tækniskóla. Er nú verið að undirbúa það, að hann hefji starf sitt, og mun það væntanlega verða á næsta hausti. Hinn væntanlegi tækniskóli verður einmitt hliðstæður menntaskólum á því sviði, sem honum er ætlað að veita fræðslu á, og þar kemur þá einn menntaskólinn enn, sem sannarlega bætir úr mjög brýnni þörf.

Svo að síðustu vil ég benda á það aftur, að menntaskólalöggjöfin í heild er nú í endurskoðun, og vona ég, að því starfi ljúki nú á þessu sumri, þannig að hægt verði að leggja fyrir næsta Alþ. heildarfrv. um menntaskólanám, sem fullnægi í öllu þeim kröfum, sem nú eru annars staðar gerðar mestar og beztar til slíks náms, því að eins og ég sagði í upphafi þessara orða minna, er menntaskólastigið eitt mikilvægasta stigið í skólakerfi okkar Íslendinga, eins og allra annarra þjóða, og einmitt það stig, sem hér hjá okkur og annars staðar er í örustum vexti, svo að full ástæða er til þess að hyggja vandlega að framtíðarstefnunni í þessum málum, bæði að því er snertir námsefnið sjálft og að því er snertir hin ytri námsskilyrði. En þessar upplýsingar taldi ég rétt að kæmu fram, áður en þessum umr. lyki.