17.04.1964
Neðri deild: 80. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í C-deild Alþingistíðinda. (2033)

102. mál, menntaskólar

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að vísa algerlega heim til föðurhúsanna ummælum síðasta hv. ræðumanns um það, að frv. það, sem hér er til umr. um menntaskóla, sé flutt til þess að ala á, eins og hann orðaði það, óánægju og auka kryt milli landshluta. Slik ummæli eru auðvitað víðs fjarri öllum veruleika og raunar í fullu samræmi við annað, sem fram kom í ræðu hans.

Kveinstafi hans út af því, að framsóknarmenn vilji ekki fylgja skynsamlegustu till., sem komið hafa fram á Alþingi í manna minnum, að því er mér skildist, get ég út af fyrir sig vel skilið. En ég vil bara benda hv. þm. á það, að ég hef ekki orðið var við, enn sem komið er a.m.k., stuðning, hvorki flokksmanna hans né annarra stuðningsmanna ríkisstj. við þau merkilegu mál. Væri honum kannske eins nærtækt að beina spjótum sínum fyrst þangað.

Frv. það um menntaskóla, sem hér er til umr., er ekki flutt til þess að ala á kryt eða auka á óánægju. Það er flutt vegna þess, eins og segir í grg., að okkur flm. er það ljóst, að breyttir þjóðfélagshættir auka þörfina á sérmenntuðu fólki til starfa í margvislegum greinum. Batnandi þjóðarhagur byggist í vaxandi mæli á því, að vísindi og tækni verði tekin í þjónustu atvinnuveganna. Þess vegna er nauðsynlegt að greiða fyrir því, að sem allra flestir eigi þess kost að afla sér þeirrar menntunar, sem nauðsynleg er til að geta orðið virkur þátttakandi þessarar framtíðaruppbyggingar. Þessi er ástæðan fyrir flutningi frv., og það hefur ekki komið fram hjá einum einasta ræðumanni, sem um þetta mál hefur talað, annað en það væri fyllilega tímabært að gera sér grein fyrir því, hvar við stöndum í málefnum menntaskólanna.

Í því frv., sem hér er til umr., var, auk þess að gera ráð fyrir nýjum menntaskóla í Reykjavík, sem ég vil aðeins víkja að síðar, kveðið á um, að lögfestur yrði Menntaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn á Laugarvatni, en þeir hafa, eins og kunnugt er, hingað til aðeins starfað samkv. heimild í menntaskólal. frá 1946. Þetta er að vísu aðeins formbreyting, sem ekki skiptir miklu máli, en við flm. töldum þó sjálfsagt að koma á framfæri. Auk þess var í okkar frv. gert ráð fyrir því að stofna menntaskóla á Austfjörðum og á Vesturlandi, þegar, eins og það er orðað, fé er veitt til þess á fjárl. Þessi viðauki var settur í frv. vegna þess, að okkur var ljós sá aðstöðumunur, sem var fyrir unglinga í þessum tilteknu byggðarlögum og annars staðar á landinu að afla sér þessarar framhaldsskólamenntunar. En frv. kveður ekki fastar á um þetta en svo vegna þess, að við vissum, að það mundu verða nokkur vandkvæði á því fjárhagslega a.m.k. að koma þessum skólum upp, og þess vegna töldum við, að það mundi nægja að gera ráð fyrir stofnun skólanna á þann hátt, sem hér er gert. En siðar á þinginu hefur það komið í ljós, að ásóknin að austan og vestan, að þörfin fyrir skólana á Austurlandi og Vestfjörðum er svo mikil, að síðan þetta frv. var lagt fram, hafa allir þm. þessara kjördæma, sem sæti eiga hér í hv. d., að mig minnir, flutt sérstök frv., sem gera ráð fyrir stofnun menntaskóla á þessum stöðum, og eru þau einnig hér til umr. Ég mun því í þessum fáu orðum, sem ég segi hér, ekki fjölyrða frekar um þessa menntaskóla. Það hafa aðrir gert, og það stendur raunar öðrum kannske orðið nær eftir þau tíðindi, sem síðar hafa gerzt.

Ekki skal ég draga það í efa, að þær upplýsingar hæstv. menntmrh., sem hann gaf hér í ræðu sinni áðan, séu réttar, að enn þá hafi verið hægt að taka við til framhaldsnáms í menntaskólum öllum þeim, sem sótt hafa um það, þ.e.a.s. hér í Reykjavík. Það eru þá allir þeir, sem hafa staðizt tilskilda framhaldseinkunn, sem réttindi hafa til þess að stunda menntaskólanám. Það er enn þá hægt að taka við þeim, og er það vel. Þess er þó við þetta að gæta, að tilskilin framhaldseinkunn er nokkuð há, auk þess sem almennt er talið, að landspróf sé ákaflega þungt, og það er náttúrlega í valdi fræðsluyfirvaldanna, hversu þungt landsprófið er haft, og gefur auga leið, að þungt landspróf verkar sem sigti á það, hverjir komast til framhaldsnáms. Ég tel mig hafa fullar upplýsingar um það, að margir nemendur, sem eiga fyllilega rétt á því að stunda framhaldsnám, ná ekki tilskilinni lágmarkseinkunn á landsprófi. Það er auðvitað erfitt að segja um það, hver eigi rétt á því að stunda framhaldsnám, en ég er þess fullviss, að margir góðir nemendur stöðvast á menntabraut sinni vegna þess, hversu há lágmarkseinkunn er tilskilin til framhaldsnáms, en það mun vera einkunnin 6, eftir því sem ég veit bezt. Þá þætti mér enn fremur vænt um, ef hægt væri að fá um það upplýsingar, — að vísu verður það sjálfsagt ekki á þessum fundi, en þá síðar, — hvort nokkuð sé hæft í því, sem ég veit að margir væntanlegir umsækjendur eða þeir, sem hafa hug á því að ganga í menntaskóla, óttast, að vegna þess, hve hægt er að taka við fáum nemendum, muni lágmarkið verða hækkað. Ég veit, að þessi skoðun meðal framhaldsskólanemenda er nokkuð algeng, að það muni ekki til inngöngu í Menntaskólann í Reykjavík á næsta hausti duga einkunnin 6, það muni verða hækkuð lágmarkseinkunnin. Er þetta rangt? Þetta þætti mér gott að fá upplýst.

Hæstv. menntmrh. skýrði frá því, að nú mundi á næsta hausti verða hægt að taka í notkun viðbyggingar þær við menntaskólann, sem lengi hafa verið í undirbúningi. Ég vonast til, að þetta fái staðizt, og tel raunar víst, að byggingum sé það langt komið, að þetta geti orðið hægt. En ég minnist þess, að þetta er ekki í fyrsta skipti, sem því er lýst yfir, að þessar byggingar geti verið tilbúnar til notkunar á næsta hausti. Það hef ég áður heyrt, a.m.k. á s.l. hausti áttu þær að vera til, þá var tæplega byrjað á þeim. En nú hefur verið unnið talsvert við þær á s.l. sumri og eins í vetur, og þá standa vitanlega vonir til þess, að einhvern tíma reki að því, að þær verði tilbúnar til notkunar. En í sambandi við þessar viðbyggingar er þess að gæta, að þær munu ekki nema að mjög óverulegu leyti auka rými skólans til að taka við nýjum nemendum, þ.e. til að fjölga nemendum. Þær munu vissulega bæta mjög verulega úr kennsluaðstöðu fyrir þann nemendafjölda, sem þegar er fyrir í menntaskólanum, en þær munu ekki, eftir því sem ég veit bezt a.m.k., gera skólanum kleift að taka við fleiri nemendum, sem nokkru nemi. Þarna er um að ræða byggingu á sérkennslustofum og aukna eða bætta aðstöðu fyrir ýmsa verklega kennslu, sem vissulega var full þörf á að fá og skólinn þarfnaðist mjög. En ég held, að þetta bæti ekki nema að litlu leyti úr því, hvað skólinn getur tekið við mörgum nemendum. Auk þess er svo á það að lita, sem ég hef áður sagt í sambandi við umr. um þetta mál, að skólamenn telja margir. sem ég hef átt tal við, að menntaskóli með 800—900 nemendum sé þegar orðinn nægilega stór, að ekki sé sagt of stór, og það sé ekki þess vegna ráðlegt að auka nemendafjöldann í þessum eina skóla og eina lausnin til þess að veita nauðsynlega aðstöðu sé sú að byggja annan skóla. Þess vegna vil ég sérstaklega lýsa ánægju minni yfir þeirri yfirlýsingu hæstv. menntmrh. hér í ræðu hans áðan, að nú hafi verið afráðið að byggja nýjan menntaskóla í Reykjavík. Það eru vissulega gleðitíðindi fyrir alla þá, sem áhuga hafa á framhaldsmenntun hér, að þessi ákvörðun skuli hafa verið tekin. Aðalgallinn er náttúrlega sá, að þessa framkvæmd hefði þurft að byrja fyrr. En um það þýðir ekki að sakast. Það er gert, sem gert er. En ég endurtek það, að ég er ánægður með þá yfirlýsingu, að nú skuli eiga að reisa nýjan menntaskóta í Reykjavík, fyrir hann er full þörf.

En mér finnst í þessu sambandi, að hér sé nokkuð öfugt að farið. Það hafa verið flutt hér á undanförnum þingum oftar en einu sinni a.m.k. frv. til l. um það að reisa nýjan menntaskóla í Reykjavík. Hæstv. ríkisstj. hefur aldrei viljað ljá máls á því, að lagasetningu um þetta yrði komið á. Ég tel, að Alþ. eigi nú sem fyrr að marka stefnuna í skólamálum og byrjunaraðgerð í því að reisa nýjan menntaskóla í Reykjavík hljóti að eiga að vera sú að breyta 1., að A1þingi ákveði það, að menntaskólar í Reykjavík skuli vera tveir. Ég tel því, að það megi alls ekki seinna vera fyrir hæstv. ríkisstj. að afla sér lagaheimildar til þeirrar byggingar, sem hún hefur nú ráðgert, og því tel ég s;jáifsagt og raunar ekki koma annað til greina en að frv. það, sem einmitt liggur hér fyrir Alþingi og gengur í þessa átt, hljóti að verða samþykkt, og er ég að sjálfsögðu mjög ánægður yfir þeim úrslitum.

Ég get ekki betur séð en það hljóti að hafa verið samvinnuleysi milli hv. menntmn. og hæstv. ríkisstj., þar sem hv. menntmn. leggur til að vísa málinu til ríkisstj. Vitanlega átti n. að leggja til, að frv. yrði samþ., ekki sízt ef hún hefði vitað um vilja ríkisstj., að framkvæmdin stæði fyrir dyrum. Þess er enn fremur að gæta, að menntaskólalögin að öðru leyti eru gömul og úrelt. Það starfa menntaskólar samkv. heimild í þeim lögum, sem ættu raunar að fara inn í lögin, eins og ég hef áður sagt. Laugarvatn og Akureyri starfa samkv. undanþágum, og er eðlilegast, að þegar þessir skólar eru komnir á, séu um þá skýlaus lagaákvæði. Um menntaskóla á Austurlandi og Vestfjörðum mun ég, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, ekki sérstaklega tala, enda eru sérstök frv. fyrir þinginu um þá og aðrir, sem gera þeim skil.

Ég get svo látíð þessu máli mínu lokið. Eg vil aðeins í lokin endurtaka það, að það er einmitt ekki sízt með hliðsjón af ummælum hæstv. ráðh., sem mér sýnist alveg augljóst, að það sé sjálfsagt að samþykkja það frv., sem ég hef leyft mér að flytja ásamt hv. 4. þm. Sunnl. um að byggja nýjan menntaskóla í Reykjavík. Þær lagfæringar, sem þarf að gera á námsefni skólanna, er vitanlega ekkert síður hægt að gera fyrir því, þó að þetta sé samþ. Hæstv. ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún ætli sér að byggja menntaskóla. Það vantar ekki viljann. Það vantar aðeins lagaheimildina, og hana er hægt að fá með því að samþykkja það frv., sem hér er til umræðu.