28.01.1964
Neðri deild: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í C-deild Alþingistíðinda. (2038)

117. mál, lögtak og fjárnám

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Á síðari árum hafa mörg verkalýðsfélög í landi okkar stofnað sjúkrasjóði og í samningum sínum við atvinnurekendur náð samkomulagi um greiðslur til þessara sjóða. Er það viðurkennt, að samningar um slíka sjóði, sjúkra- og styrktarsjóði verkalýðsfélaga, hafa haft veruleg áhrif til þess að greiða fyrir samkomulagi á vinnumarkaðinum, enda er reynsla hvarvetna sú, að ýmsar félagslegar ráðstafanir hafi vaxandi þýðingu í þeim efnum.

Síðan sjúkrasjóðir voru stofnaðir, hefur komið fram vandamál við framkvæmd þeirra, sem byggist á því, að það er mikið verk og oft erfitt að innheimta gjöld til þessara sjóða. Nú eru aðeins örfá stærstu verkalýðsfélögin í landi okkar þess megnug að hafa fasta starfsmenn, og er algengast, að forráðamenn félaganna gegni störfum fyrir þau í frítímum sínum. Af þessum ástæðum hafa forustumenn a.m.k. tveggja verkalýðsfélaga í kjördæmi mínu óskað eftir því, að flutt yrði frv., þar sem greiðslur í þessa sjóði yrðu felldar undir lögin um lögtak og fjárnám. Er þetta að sjálfsögðu aðeins hugsað sem aðhald og óskað eftir þessu ákvæði í trausti þess, að það geri innheimtuna léttari, sérstaklega á þeim svæðum (sem eru meiri hluti landsins), þar sem verkalýðsfélög hafa ekki starfskrafta, sem geta beitt sér að slíkum innheimtustörfum nema að mjög litlu leyti:

Þetta er þörfin, sem veldur því, að frv. er fram komið, og vil ég vænta þess, að eins og allir aðilar hafa verið sammála um stofnun slíkra sjóða, megi nást vinsamlegt samkomulag um að greiða sem bezt fyrir því, að framkvæmd þeirra geti orðið eins og til er stofnað.

Ég legg til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.