03.02.1964
Neðri deild: 50. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í C-deild Alþingistíðinda. (2043)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Björn Pálsson:

Herra forseti. Mér þótti vanta á hjá flm. að nefna ekki, hve miklu þetta mundi nema, ef þessi breyting yrði samþykkt. En efnið er þess eðlis, að það virðist vera, að þeir, sem hafi minni tekjur, eigi að fá frá hinum, sem hafa meiri tekjur, og aðaltilfærslan yrði þá sennilega á milli Sunnlendinga og Austfirðinga. Það getur verið fjarska gott að fá aura, en það er nú svo með allt betl, að það eru tvær hliðar á því, það minnkar mennina, sem taka við því. Og ég álít, að hv. flm. hefði getað athugað, hvort hann ætti ekki að kenna þeim að búa og framleiða mikið þarna fyrir austan, svo að hann þyrfti ekki að vera að þessu væli fyrir þeirra hönd. Málið er ákaflega einfalt. Það er að afla mikilla heyja, eyða litlu fóðri í kindurnar og fá góðan arð af þeim. Þá græða mennirnir og hafa mikla umsetningu. Þetta átti hann að vera búinn að kenna þeim, þegar hann var að búa þarna fyrir austan. Þetta er afar einfaldur hlutur. Þarna eru góð sauðlönd. Svo er bara að stækka túnin, vera duglegur að heyja og hafa svo allgóð bú, hirða vel um kindurnar að vetrinum, fá góðan arð af þeim, og þá er þetta allt saman komið og þarf ekki að vera að væla um svona smámuni. Þetta skapar minnimáttarkennd hjá þeim bændum, sem búa þarna. Það er eins og hinir búi svo vel, en þeir þurfi endilega að fá einhvern stuðning. Nú er þetta svo lítið , að það er ekkert gagn að því, það verður aðeins auðmýkingin. Það, sem hv. fim. á að gera, er að ferðast á milli sinna kjósenda og tala í þá kjark og manndóm og segja þeim að gera þetta og hitt, þeir gætu búið eins og hann hefði búið, þegar hann bjó á Skriðuklaustri eða hvar það var nú, — tala í þá kjark og hetjudóm.

Þegar ég fór frá foreldrum mínum, fékk ég með mér eitt þunnt lak ofan á rúmið mitt, ég átti öll rúmföt nema það. Ég sendi það aftur eftir 3–4 daga, því að ég vildi vinna fyrir því, sem ég hefði. Ég hef oft hugsað með hlýleik til lakpjötlunnar. Móðir mín sagði: Skárri er það nú skilsemin, — þegar það kom aftur. Það hefur verið mér mikils virði í lífinu sú endurminning að hafa ekki farið með neitt, og þess vegna er ég í dálitlum vafa um, hvort þetta er ekki austfirzkum bændum til ama og leiðinda. Það, sem hv. flm. á að gera, er að sýna þeim fram á, hvernig þeir eigi að stækka sín bú og auka sinar tekjur.

Þá er annað atriði, sem ég álít að sé mjög hættulegt fyrir íslenzka bændastétt, og það er þessi sífelldi barlómur í blöðum og ræðum um þeirra aumu kjör. Þannig er landsfólkinu og þeim, sem ekki stunda búskap, talin trú um, að þetta sé einna versta atvinnugreinin. Það hefur nýlega komið í blöðum, að bændur séu einna tekjulægstir. Það má vel vera, að þeir séu það í beinum peningum eða að krónutölu á skattskránum. Bændur verða að fá verð fyrir afurðir sínar, en þessi sífelldi söngur, að það séu lökustu kjörin, sem þessi stétt býr við, þetta er aðeins til þess að fæla aðra menn frá því að stunda þessa atvinnugrein. Ég efast um, að nokkrir menn hafi meiri ánægju af lífinu en einmitt bændurnir. Þeir eru hraustastir þeir lifa líkamlega og andlega heilbrigðu lífi. Ég álit, að þeir hafi meiri ánægju af sínu starfi en hér um bil allar aðrar stéttir. Svo er alltaf þessi sífelldi söngur, að það sé verst af öllu að stunda þessa atvinnugrein. Unga fólkinu er talin trú um, að það eigi ekki að fara í landbúnað, og þannig missum við fjöldann af kjarnmesta unga fólkinu frá þessari atvinnugrein, sem væri hægt að reka betur, ef það væru valdir menn í henni.

Það er dálítið tvíeggjað að vera alltaf að mála skrattann á vegginn. Bændur hniga ekki niður af kransæðastíflu og öðru slíku á miðjum aldri. Þeir reyna á sig og lifa sínu heilbrigða lífi. Þó að þeir fái e.t.v. heldur færri krónur í nettótekjur en sumar aðrar stéttir, þá ber margs að gæta í því sambandi. Það er að ýmsu leyti ódýrara að lifa í sveit, útsvör eru þar lægri og ýmislegt kemur þar fleira til greina.

Ég er þess vegna ekki viss um, að austfirzkum bændum sé greiði gerður með þessu frv. Það skiptir meiru að auka sjálfstraust þeirra en þó að þeir geti reytt fáeinar krónur af bændunum á Suðurlandi, sem veitir ekki raunar af sínu, í eitthvert búnaðarsamband fyrir austan. Og ég vona, að hv. flm. beini nú sinni orku að því að kenna þeim að búa þarna fyrir austan, svo að þeir hafi jafnmiklar tekjur og aðrir menn, og þá þarf hann ekki að vera að þessu bónastagli fyrir þá.