03.02.1964
Neðri deild: 50. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í C-deild Alþingistíðinda. (2044)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Ég vit þakka hv. 5. þm. Norðurl. v. mjög vel fyrir heilræðin, sem hann var að gefa mér. Hitt verð ég að játa, að ég fæ ekki séð, að þetta mál hafi nú beinlínis gefið honum tilefni, en ég skal fúslega taka undir það með honum, sem hann sagði um barlóminn, og ég vænti, að þeir skilji, sem það eiga. Ég skal ekki fara frekar út í það.

En það vill nú svo vel til, að þessi hv. þm. er ásamt mér í landbn., sem fær þetta mál til meðferðar, og ég vona, að við getum rætt þetta nánar, þegar við tökum málið fyrir í n., og ef við finnum einhvern flöt á því að láta þetta frv. verða til þess að kenna bændum að búa, þá væri það ákaflega vel.

Ég vil aðeins leiðrétta það, ef sá skilningur kann að hafa komizt inn hjá hv. þm., að ég hafi sérstaklega flutt þetta frv. með hag Búnaðarsambands Austurlands fyrir augum, þá er það talsverður misskilningur. Ég gat þess í minni fyrri ræðu, að það mundi að vísu valda nokkurri hækkun til þess búnaðarsambands, ef þessi skiptingarregla væri tekin upp, en ég býst þó við, að önnur búnaðarsambönd, eins og sum búnaðarsamböndin á Vestfjörðum og Vesturlandi, mundu jafnvel njóta þess enn meira. En ég ætla sem sagt ekki að fara að karpa neitt við hann, því að það er síður en svo, að ég hafi löngun til þess eða telji ástæðu til þess. En ég verð bara að segja það síðast, að mér fannst það tilefni, sem hann notaði til þessara orða sinna, vera dálítið langsótt, því að þetta litla frv. mun aldrei geta verkað mikið í þá átt, en það er þó, eins og ég sagði, ekki einskisvert, því að það byggist á vissu grundvallarsjónarmiði, sem á að liggja til grundvallar yfirleitt í félagsmálastarfi.