13.02.1964
Neðri deild: 56. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í C-deild Alþingistíðinda. (2053)

127. mál, efnahagsmál

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Það er eitt mesta vandamál allra frjálsra þjóðfélaga að hafa það skipulag eða framkvæmd á efnhagsmálum sínum, að ekki séu tíðar kaupdeilur og verkföll, því að slíkum átökum vilja fylg,ja margvislegir erfiðleikar, og þess vegna er unnið að því af ráðamönnum allra frjálsra þjóðfélaga að reyna að halda þannig á efnahagsmálum, að ekki komi til slíkra átaka. Eitt það ráð, sem hefur verið lögð mikil áherzla á í því sambandi, er að hafa þann hátt á, að kaupsamningar milli atvinnurekendasamtaka og launþegasamtaka séu gerðir til langs tíma. En til þess að sá háttur verði á hafður, að hægt sé að gera kaupsamninga til langs tíma, er það af skiljanlegum ástæðum eitt meginatriðið, sem launþegar hljóta að leggja áherzlu á, að á þeim tíma, sem slíkir samningar gilda, verði sem minnstar verðbreytingar, sem skerði launin, eða a.m.k. sé trygging fyrir því, að ef slíkar verðbreytingar verði, fái launþegar það bætt á einhvern hátt, meðan kaupsamningarnir eru í gildi. Í mörgum löndum hefur þess vegna sá háttur verið á hafður í þessum efnum, þar sem gerðir hafa verið kaupsamningar til langs tíma, að samið hefur verið um eins konar verðtryggingu kaupsins eða verðlagsuppbætur, sem ýmist er kallað svo. Ég vil t.d. nefna það í þessu sambandi, að á s. l. ári, þegar náðist víðtæk lausn í Danmörku í efnahagsmálum, sem byggð var á samkomulagi milli þáv. ríkisstj. og stjórnarandstöðunnar og líka á samkomulagi við verkalýðssamtökin, var það einn þáttur þess samkomulags, að launþegarnir nytu vissrar kauptryggingar, þannig að ef vísitala verðlags hækkaði um ákveðinn stigafjölda, ættu launþegar að fá dýrtíðar- eða verðlagsuppbætur. Og samkvæmt þessu samkomulagi hafa t.d. launþegar í Danmörku nú fyrir fáum dögum fengíð nokkra kauphækkun eða verðlagsbætur, vegna þess að verðlagsvísitalan þar hækkaði um það mörg stig, að samkvæmt samkomulaginu áttu launþegar rétt á því að fá verðlagsuppbætur samkv. samningunum. Ég vil enn fremur benda á það, að nú eftir áramótin hafa verið gerðir allvíðtækir kaupsamningar í Finnlandi til 2 ára, eins og þm. geta lesið um í tímariti því, sem Norðurlandaráð gefur út og hér er útbýtt. Samkv. þessum samningum, sem flest verkalýðssamtökin í Finnlandi eru orðin aðili að, er samið um nokkra grunnkaupshækkun bæði árin og auk þess um verðlagstryggingu, ef verðlagið hækkar fram úr vissu marki. Í Finnlandi hefur að undanförnu verið nokkuð róstusamt í þessum málum, þó að það nálgist hvergi nærri það, sem verið hefur hjá okkur, og þess vegna töldu atvinnurekendur rétt að gera samninga, sem fólu í sér verðlagsuppbætur, ef væri hægt að ná samkomulagi við launþegasamtökin um, að samningarnir giltu til langs tíma eða til tveggja ára, eins og samið hefur verið um í Finnlandi.

Það, sem segja má að sé ávinningur slíkrar verðtryggingar á kaupi, auk þess sem launþegarnir fá sína aðstöðu tryggða, er í fyrsta lagi það, að þetta tryggir vinnufriðinn til lengri tíma en ella, og svo í öðru lagi, og það er kannske aðalatriðið og það, sem mestu máli skiptir, að þetta skapar valdhöfunum eða ríkisstj. aðhald um það að gera sitt ýtrasta til þess að halda verðlaginn í skefjum, því að valdhöfum eða ríkisstj., þar sem slíkir samningar eru í gildi, er ljóst, að ef verðlag fer yfir ákveðið mark, hefur það almennar kauphækkanir í för með sér. Þess vegna hefur það verið þannig, að það má nokkurn veginn þekkja þau lönd úr, þar sem slíkt fyrirkomulag hefur gilt, að þar hafa ríkisstj. kappkostað meira en annars staðar að gera ráðstafanir til þess að halda verðlagi í skefjum.

Eins og þm. munu minnast, var að vísu um alllangt skeið það fyrirkomulag ríkjandi hér á landi, að verðlagsuppbót eða dýrtíð aruppbót var í gildi. Menn fundu þessu fyrirkomulagi þá ýmislegt til foráttu, enda skal ég fúslega viðurkenna það, að á því voru ýmsir ágallar, og m.a. var sú dýrtíðarvísitala, sem þá var miðað við, allt önnur og óheppilegri í þessum efnum heldur en sú vísitala, sem nú er gildandi. Ég sé ekki ástæðu til þess að þessu sinni að rekja þetta nánar, en þetta fólst í því, að uppbygging gömlu vísitölunnar var talsvert önnur en núverandi vísitölu og meðal annars á þann hátt, að verðhækkanir á landbúnaðarvörum verkuðu meira á hana heldur en nú á sér stað. En þetta liggur í því, að gamla vísitalan var miðuð við það, þegar kaupmáttur launþega var miklu minni en hann hefur þó verið á síðari árum og innkaupin fábreyttari heldur en þau hafa siðar orðið.

Þegar núv. ríkisstj. kom til valda, var það hennar skoðun, að það mundi vera helzta meinabót í þessum efnum að fella þessar verðlagsuppbætur alveg niður og ganga svo rækilega til verks að banna þær með lögum, eins og gert var með viðreisnarlögunum, sem sett voru 1960. Það virtist þá vera trú núverandi valdhafa, að allar hinar svokölluðu víxlhækkanir á kaupgjaldi og verðlagi yrðu úr sögunni, ef það væri sett bann við dýrtíðar- og verðlagsuppbótum, og því væri það ein hin mikilvægasta lausn í efnahagsmálum að setja þetta bann gegn verðlagsuppbótum, sem áður voru í gildi.

Það eru nú liðin 4 ár síðan þetta bann var sett og þess vegna fengin nokkur reynsla um það, hvort í þessu sé fólgin leið til þess að koma í veg fyrir víxlhækkanir á kaupgjaldi og verðlagi. Reynslan er í stuttu máli sú og þarf ekki að rekja hér með mörgum orðum, vegna þess að hún er ötlum þingheimi kunn, að víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags og aukning dýrtíðar og verðbólgu hefur aldrei orðið meiri en síðan þetta bann var í lög leitt. Og til þess liggja alveg augljósar ástæður. Í fyrsta lagi sú ástæða, að þegar launþegar fengu ekki afkomu sína tryggða á þennan hátt, með verðlagsuppbótum eða vísitöluuppbótum, urðu þeir að leita annarra ráða til að fá hag sinn bættan vegna hækkandi og vaxandi dýrtíðar, urðu að leita annarra ráða, —- ráða, sem hafa augljóslega orðið vinnufriðnum í landinu miklu óheppilegri en það fyrirkomulag. sem áður var í gildi. Annað, sem leiddi af þessari breytingu eða þessu banni, var það, að ríkisvaldið gerðist miklu áhugaminna um það að halda verðlaginu niðri, enda er augljóst, að þegar viðkomandi ríkisstj. hefur þá skoðun, að það sé engin hætta á ferðum, það komi engar kauphækkanir, a.m.k. ekki strax, ef verðlag hækkar, þá er hún miklu áhugaminni um að halda verðlaginu niðri og freistast jafnvel til þess að gera sjálf ýmsar ráðstafanir til verðhækkunar, sem hún ella mundi ekki gera, ef verðlagsuppbætur væru gildandi. Sú hefur líka tvímælalaust orðið raunin á á undanförnum árum, að ríkisstj. hefur sýnt miklu minni aðgætni í þessum efnum heldur en átti sér þó áður stað, eins og líka sést á því, að verðhækkanir eða dýrtíðaraukning hefur orðið miklu meiri á þessum tíma en áður fyrr.

Ég hygg, að það sé nú orðið álit flestra, að það ástand, sem nú ríkir í þessum efnum, hinar tíðu kaupdeilur og hin tíðu verkföll, geti ekki haldizt til lengdar. En ég held, að mönnum sé það einnig ljóst, að ef sú verðlagsþróun heldur áfram í landinu, sem átt hefur sér stað að undanförnu, verður erfitt að koma í veg fyrir það, að kaupdeilur og verkföll haldi áfram, því að að sjálfsögðu reyna launþegar að leita réttar sins á einhvern hátt og það með þessum hætti, ef ekki er hægt að gera það öðruvísi. En afleiðingarnar geta hins vegar orðið hinar óhagstæðustu fyrir þjóðarheildina, ef þessi glíma heldur áfram með svipuðum hætti og verið hefur að undanförnu. Þess vegna er orðið nauðsynlegt að leita nýrra ráða í þessum efnum og athuga þá möguleika, sem beztir verða taldir til að tryggja það, að hægt sé að koma í veg fyrir þessa óheillaþróun á þann hátt, að launþegar og atvinnurekendur geti þó vel sætt sig við það fyrirkomulag, sem upp er tekið, og ég hygg, að ef við virðum fyrir okkur þá reynslu nágrannalandanna, sem ég hef nokkuð vikið að áður í ræðu minni, þá sé ekki hyggilegra að leita annarra úrræða heldur en þeirra, að hér verði samið um verðtryggingu launa með líkum hætti og á sér stað í nágrannalöndum okkar, en að sjálfsögðu þá með því skilyrði, að kaupsamningar gildi til lengri tíma en nú á sér stað. Ég hygg, að þetta fyrirkomulag, ef við legðum til grundvallar fyrirmyndir annarra þjóða, mundi reynast okkur stórum heppilegra en það ástand, sem nú er búið við.

Það hefur oft verið talað um það og hæstv. núv. ríkisstj. hefur ekki sízt lagt áherzlu á, að það sé nauðsynlegt að koma í veg fyrir allar víxlhækkanir á kaupgjaldi og verðlagi. En ég satt að segja minnist þess ekki, að það hafi nokkurs staðar hjá þjóð, sem býr við lýðræðisskipulag og þingræðisskipulag, tekizt að koma í veg fyrir allar víxlhækkanir á verðlagi og kaupgjaldi. Það leiðir af hinu frjálsa skipulagi, að slíkar gagnverkandi hækkanir hljóta alltaf að eiga sér stað og eru nauðsynlegar, líka að vissu marki nauðsynlegar til að halda uppi jafnvægi á milli stéttanna í landinu. Og við getum ekki gert ráð fyrir því, að okkur takist frekar að finna upp einhverja reglu í þessum efnum en öðrum þjóðum, — reglu, sem útilokar það, að einhverjar gagnverkandi hækkanir á kaupgjaldi og verðlagi eigi sér stað. En hitt er annað mál, að það á að vera hægt að hafa áhrif á það, að þessar víxlhækkanir séu innan skynsamlegra takmarka, og að því ber að stefna. Og ég hygg, að enn hafi ekki verið fundið upp annað fyrirkomulag, sem tryggi það betur, að þessum víxlhækkunum sé haldið innan skynsamlegra takmarka, heldur en það fyrirkomulag, sem ég var hér að minnast á, að gerðir væru kaupsamningar til langs tíma á þeim grundvelli, að launþegar nytu vissrar verðtryggingar á kaupi sinn. Sú reynsla, sem við höfum haft af þessu áður, er að vísu ekki eins góð og vera skyldi, en ég hygg, að það liggi líka fyrst og fremst í því, að það fyrirkomulag, sem þá var búið við í þessum efnum, var gallað, og það sé hægt að finna annað fyrirkomulag, sem mundi reynast betur, þ.e.a.s. koma verðtryggingu launanna eða kaupgjaldsins í framkvæmd á hátt, sem hefði ekki þá þróun í för með sér, sem leiddi af hinu gamla fyrirkomulagi í þessum efnum hér áður fyrr, og að því ber að sjálfsögðu að stefna og kynna sér þá erlenda reynslu, sem vel hefur gefizt í þessum efnum.

Eins og kunnugt er, gilda þeir kaupsamningar, sem seinast voru gerðir, ekki nema til nokkurra mánaða, þannig að þeir kaupsamningar renna út hjá flestum verkalýðsfélögum, þegar kemur fram á vorið, og að óbreyttu ástandi má gera ráð fyrir, að þá geti meiri eða minni átök átt sér stað. Ég hygg, að ef ætti að vinna að því, þegar að nýjum kaupsamningum kemur, að leysa þessi mál farsællega, þá skipti það meira máli fyrir alla aðila og ekki sízt fyrir launþegana að leggja áherzlu á að fá einhverja verðtryggingu kaupsins tekna í samninga heldur en leggja mikla áherzlu á beinar kauphækkanir. Ég held, að það mundi verða notadrýgra fyrir launþegasamtökin að fá þróuninni beint inn á þennan veg heldur en leggja mikið kapp á, að stórfelldar kauphækkanir eigi sér stað, og það sé það meginmálefni, sem launþegasamtökin eigi nú að beina sér að og eru líka farin að beina sér að í vaxandi mæli, en það er að fá vissa verðtryggingu launanna í samninga eða í lög tekna og þá að sjálfsögðu gegn því, að samið verði til langs tíma og vinnufriður tryggður á þann hátt. En eins og íslenzkri löggjöf er háttað í dag, er ekki hægt að gera slíka samninga, þá er ekki hægt að gera kaupsamninga, sem fela í sér verðtryggingu á kaupgjaldi, vegna þess að 23. gr. viðreisnarlaganna svonefndu frá 1960 bannar það, að samið sé um nokkurs konar verðtryggingu á kaupi, og það er af þeim ástæðum, sem ég hef ásamt þrem þm. öðrum lagt fram það frv., sem hér er nú til umr., um að fella þetta bann niður og gera það frjálst að nýju, að atvinnurekendur og launþegar geti samið um verðtryggingu á kaupgjaldi í því formi, sem þeir kunna að telja heppilegast. Ég held, að með tilliti til þeirra átaka eða þeirra samninga, sem eru fram undan í þessum efnum á næsta vori, sé það hyggilega gert af Alþingi að fella þetta bann nú niður, svo að það verði mögulegt fyrir atvinnurekendur og launþega á vori komanda að leita eftir því, hvort ekki verði hægt að ná samkomulagi á þeim grundvelli, að tekin verði upp verðtrygging á laununum eða kaupinu og þá með þeim hætti, að slíkir samningar verði gerðir til langs tíma. Ég hygg, að það fyrirkomulag mundi verða til þess, að þróunin í framtíð inni yrði heppilegri fyrir alla aðila í þessum efnum en átt hefur sér stað að undanförnu.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að gera nánari grein fyrir þessu frv. að sinni, en leyfi mér að leggja til, að því verði vísað til fjhn. að þessari umr. lokinni.