27.04.1964
Neðri deild: 84. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í C-deild Alþingistíðinda. (2089)

153. mál, stjórnarskipunarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil aðeins í tilefni þeirra orða, sem fram komu í niðurlagi ræðu hv. 3. þm. Reykv., segja, að það hefur ekkert gerzt í þessum málum, síðan ég gaf skýrslu mína á sínum tíma út af fsp. sama þm. varðandi alúminíumbræðslu og olíuhreinsunarstöð.

Það er ýmislegt, sem fram kom í ræðu hv. þm., sem ég tel nokkuð á misskilningi byggt, miðað við það, sem fram kom í svari mínu á sínum tíma, sérstaklega varðandi eignarrétt olíustöðvar og afnotarétt vatnsafls af erlendum aðilum. í sambandi við alúminíumbræðsluna var ekki nm annað rætt en orkusölusamning til tiltekins tíma til alúminíumbræðslu, sem væri þá annaðhvort öll eða a.m.k. sama sem öll í eign erlendra aðila, og ef menn vilja kalla það afnot af okkar vatnsréttindum og orku, sem í fallvötnunum býr, þá hygg ég, að það gæti valdið nokkrum misskilningi, og það hefur aldrei í mínum huga verið um annað að ræða en við sjálfir hefðum þar öll ráð í okkar hendi með því að tímabinda og takmarka orkusölusamninginn. Ef um það næst ekki samkomulag, þannig að viðunandi sé frá okkar hálfu, yrði aldrei neitt úr slíkum framkvæmdum, ef ég mætti ráða eða þeir, sem svipað hugsa og ég í þessu efni.

Um þær upplýsingar, sem ég gaf um olíuhreinsunarstöðina, lá það fyrir, að þeir erlendu aðilar, sem rætt hafði verið við af einstökum aðilum, einstaklingum og félögum hér, höfðu byggt sínar viðræður á því, að innan tíðar og mjög skamms tíma, 5—7 ára, yrði slik olíuhreinsunarstöð alíslenzkt fyrirtæki. Enn fremur kom ekkert fram í þeim upplýsingum, sem ég gaf um það, að meðan hún starfaði í sameign Íslendinga og útlendinga eða þar á eftir, fengi hún einokunaraðstöðu hér á Íslandi. Þvert á móti hefur í öllum viðræðum, sem ég hef átt við hina innlendu aðila hér, verið frumskilyrði, að vegna þess, hve fyrirtækið væri ráðgert stórt og gæti ráðið yfir miklum hluta eða mestum hluta af innlenda markaðinum, yrði það að gera sér grein fyrir því, að allur innflutningur á þeim efnivörum, sem þeir framleiddu, yrði algerlega frjáls og verðlagsmyndunin frá þessu fyrirtæki mundi þess vegna ráðast af frjálsri samkeppni og hverjum sem væri heimilt að flytja þessar vörur inn og með því hagstæðasta verði, sem á hverjum tíma væri fáanlegt á hinum erlenda markaði.

Þetta vildi ég aðeins hafa sagt í sambandi við þetta. Hér var aldrei gert ráð fyrir einokunarfyrirtæki og aðeins á byrjunarárunum, eins og kom fram í mínu svari, 5—7 ár, að einhverju leyti í sameign við erlenda aðila. Annars tók ég fram þá, að það væri óljóst og það er ljóst enn, að hve miklu eða litlu leyti þörf er afskipta íslenzkra stjórnarvalda af þessu máll. Hitt er þó sýnilegt, að slíku fyrirtæki verður aldrei komið hér upp í blóra við íslenzk stjórnarvöld. En það þarf hins vegar ekki að þýða það, að þau þurfi í sjálfu sér að hafa nein sérstök afskipti af slíku fyrirtæki, ef það er byggt upp að meira eða minna leyti sem íslenzkt og verðandi alíslenzkt fyrirtæki og innan ramma þeirra laga og reglna, sem eru og íslenzk stjórnarvöld á hverjum tíma hafa í hendi sér að setja, bæði þing og stjórn.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta, en ég endurtek það, að ég tel ekki, að neitt hafi komið fram í þessum málum, frá því að ég gaf mína skýrslu, sem gefur tilefni til frekari upplýsinga.