03.03.1964
Neðri deild: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í C-deild Alþingistíðinda. (2095)

154. mál, skipulag miðbæjarins í Reykjavík

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra for seti. Ég vil taka það fram í upphafi míns máls, að þetta frv. er ekki flutt hér sem neitt flokksfrv. eða að neinu leyti á vegum Alþb. sem slíks, heldur er þetta aðeins mitt persónulega álit, sem ég flyt í þessu. Ég þykist vita, að um það mál, sem hér um ræðir, séu skiptar skoðanir innan allra flokka, og óska þess, að frá upphafi í þeim umr. eða þeirri meðferð, sem þetta mál kynni að fá, færu menn ekki að neinu leyti að skiptast eftir flokkum, heldur eingöngu eftir því, hvaða álit menn hafa á því máli, sem fyrir liggur.

Aðalatriði þessa frv. er að ákveða, að gamla kvosin eða gamli miðbærinn í Reykjavík skuli hlíta sérstökum lagaákvæðum viðvíkjandi þeirri skipulagningu, sem þar færi fram. Og ég skal gera stutta grein fyrir, hvernig á því stendur, að ég flyt þetta frv., og höfuðtilganginum með því.

Reykjavík sem höfuðborg okkar lands hlýtur, fyrir utan það að vera stærsta borg landsins og hlíta þeim reglum, sem almennt eru í lögum um, hvernig borgir skuli skipuleggja og annað slíkt, þá hlýtur hún að markast nokkuð sérstaklega af því, að hér sé aðalaðsetur þings og stjórnar. Hver einasta höfuðborg í Evrópu og Ameríku, held ég áreiðanlega, tekur sérstakt tillit til þess, og venjulega eru þingin það mikils meðvitandi um sinn mátt, að þau marka alveg sérstaklega ekki aðeins verkefni, heldur meira að segja ýmis sérréttindi eða jafnvel stundum réttindaleysi og alveg sérstaklega skipulag hverrar höfuðborgar. Og ég held þess vegna, að það sé alveg sérstaklega mál Alþingis að ákveða um, hvers konar heildarskipulag skuli haft, a.m.k. á því svæði Reykjavíkur, sem framar öllu öðru verður höfuðaðsetur stjórnar og þings, verður miðstöð landsins, miðstöð þess „administrativa“ starfs í landinu. Nú er það þar að auki svo, eins og öllum er kunnugt, að Reykjavík er með elztu bæjum, sem við höfum, a.m.k. af þeim, þar sem allmikið af byggingum stendur óeyðilagt eða óskemmt enn þá, því að þar sem eldri byggingar hafa verið á landinu, er sums staðar mjög illa farið fyrir þeim. Það er þess vegna tvenns konar höfuðtilgangur í sambandi við þetta frv. Það er í fyrsta lagi sá að vernda þær gömlu sögulegu minjar, sem enn er að finna í þessum miðdepli Reykjavíkur. Þessi miðdepill er raunverulega þar, sem Reykjavík var að mestu leyti um 1900 eða a.m.k. kjarni Reykjavíkur þá. Við Íslendingar eigum ákaflega lítið af gömlum byggingum, eins og allir vita, og það hefur á þessari öld verið eyðilagt meira af gömlum byggingum en nokkru sinni fyrr í okkar sögu, vegna þess að allir gömlu sveitabæirnir, sem til voru um aldamótin, hafa verið að hverfa. Og meira að segja þeim fáu sérstöku minjum, sem hefur verið hlíft, við skulum bara taka Víðimýrarkirkju, hún stendur uppi eins og einstæðingur, eftir að búið er að rifa húsið, sem var við hliðina á henni og bar þó merki enn þá þess gamla tíma og var í einhverju samræmi við þá gömlu og indælu kirkju, sem þar stendur.

Hér í Reykjavík hefur það verið svo, að til allrar hamingju höfum við enn sem komið er sloppið, þannig að það hefur ekki tekizt að eyðileggja nema litíð af þeim sögulegu byggingum, sem hérna voru. Og þetta litla, sem eftir er, og til allrar hamingju margt af því það dýrmætasta, sem við eigum, verður að gera ráðstafanir til að varðveita, og sú skylda hvílir fyrst og fremst á Alþingi, vegna þess að þarna er um að ræða hluti eða hús, sem Alþingi framar öllu ber að setja lög um og tryggja þannig, eftir því sem mögulegt er, að slíkar byggingar verði ekki eyðilagðar. Það er þess vegna skylda okkar að sýna ræktarsemi gagnvart okkar forfeðrum og gagnvart okkar sögu í því að varðveita slíkar byggingar. Í þessu frv. er alveg sérstaklega tekið fram um nokkrar þeirra, og býst ég við, að flestir séu sammála um, að þær sé sjálfsagt að varðveita. Þar ber fyrst að telja menntaskólann núverandi, þinghúsið, dómkirkjuna, stjórnarráðshúsið. Samt vitum við það viðvíkjandi menntaskólanum, að þegar er nokkur hætta þar á ferðum, að farið sé að krukka þar eitthvað í, og við vitum, að þær hugmyndir eru svo sem uppi, að það ætti helzt að taka menntaskólann og flytja hann burt eða jafnvel rífa hann. Og þó að ég búist við, að allir alþm. séu sammála um það, að slíkt komi náttúrlega aldrei til mála, þá skulum við muna eftir því, að það er ekki langt síðan elztu hús á Íslandi, hús eins og t.d. einokunarbúðin gamla á Eyrarbakka, voru rifin og þeirra óskemmdu viðir notaðir sem uppistöður í annað hús. Við verðum enn að láta nota menntaskólann sem skólahús, þó að flestar aðrar þjóðir hefðu fyrir löngu verið hættar því, ef þær hefðu átt slíkt hús, og gert það hús eingöngu að minjasafni, kannske notað einhvern part af því í sambandi við Alþingi eða forseta, en gert það fyrst og fremst að minjasafni í sambandi við þjóðfundinn og störf Alþingis frá endurreisn þess og fram til þess, að það flutti í þetta hús, sem við nú stöndum i. Og ég efast ekki um það, að í framtíðinni mun einhvern tíma í þjóðfundarsalnum gamla verða safnað saman myndum af þeim mönnum, sem þann þjóðfund sátu, og látnar prýða þann sal í staðinn fyrir þá dönsku konunga, sem þar voru, þegar ég t.d. var í menntaskólanum. Og ég held, að við ættum nú þegar með lögum að gera ráðstafanir til þess, að við þessu húsi verði ekki snert. Það er aumingjaskapur af okkur að vera ekki búnir að byggja tvo menntaskóla í Reykjavík og láta hætta að nota þennan, því að hann er raunverulega löngu óhæfur til þess að vera menntaskóli.

Þá er stjórnarráðshúsið. Við vitum ósköp vel þess sögu, og það er alveg sérstaklega ánægjulegt að varðveita það hús vegna þeirrar sögu. Þegar maður hugsar til þess sem gamals fangahúss og alls, sem í því hafi gerzt áður, og aðsetursstaðar

þeirra dönsku yfirvalda hér, þá dettur okkur í hug ljóðlínan hjá Steingrími: „Og jafnvel úr hlekkjunum sjóða má sverð“. Stjórnarráðshúsið býst ég líka við, að allir menn hljóti að vera sammála um að eigi að standa, og ég efast ekki um, að það séu nú þegar til aðferðir til þess, t.d. hvað menntaskólann snertir, slík timburhús, að varðveita þau þannig, að þau séu algerlega örugg gegn bruna, þannig að það eigi að vera hægt að varðveita slík hús um ófyrirsjáanlegan tíma.

Þinghúsið hér höfum við oft rætt um, en mönnum finnst kannske ekki eins mikill sögulegur ljómi yfir því og er í okkar augum um menntaskólann og gamla þjóðfundarsalinn. En það verður nú kannske, þegar menn fara að deila dálítið harðar en gert hefur verið um þá menn, sem lifðu um aldamótin, um þá kynslóð, sem setti fyrst mark sitt á þetta hús, eins og til allrar hamingju er farið að gera núna, þannig að menn liggi ekki alveg óumdeildir lengur, og menn kynnu þá a.m.k. í framtíðinni að hugsa til þess, að gamli Benedikt Sveinsson og Skúli Thoroddsen, Hannes Hafstein og svo þeir yngri, sem á eftir þeim komu upp úr 1908, hafi barizt hér í þessu húsi og hað þá baráttu, sem hér var, og hér voru lögð drögin að fullveldinu, og hér var barizt um Uppkastið, og það kemur til með að verða líka á sinn hátt sögulegur ljómi um þetta hús, þegar nógu langt er liðið frá. Og ég býst við, að flestir þeir, sem að einhverju leyti er þessi miðdepill Reykjavíkur kær, muni vilja, að alþingishúsið og dómkirkjan fái að standa hér. Þó að margt af þeim gömlu húsum hverfi, sem hérna eru vestan við okkur, og eigi að hverfa þá mundi vafalaust í framtíðinni vera unnt að hafa þar hús, sem sómdi sér vel við hliðina á dómkirkjunni og alþingishúsinu án þess að skemma þann stíl, sem í því er. Ég efast ekki um, að það sé líka margt hér í kring af þeim gömlu húsum, sem menn mundu vilja varðveita, þegar menn færu að hugsa um þessa hluti. Gamla Iðnó hefur sina sögu að geyma, og gamla Búnaðarfélagshúsið hefur sinn sérstaka stíl frá aldamótunum. Og við sjáum bezt á því, sem nú er byggt eða nú er hugsað til að byggja, hve mikils menn muni meta það að eiga slíkt hús eftir svona 200-300 ár og hvílík villimennska það mundi þykja af þeim, sem nú lifa, að eyðileggja þessar gömlu minjar.

Ég verð að segja það fyrir mitt leyti, að þegar t.d. eitt af þeim húsum, sem þóttu, þegar ég var ungur, með helztu stórhýsum hér í Reykjavík, hús Sambands ísl. samvinnufélaga við Arnarhól, þegar það var byggt, þá þótti mér alltaf undarlegt, að menn skyldu endilega þurfa að rífa Sölvhól um leið, og ég held, að það hefði verið einmitt mikil ánægja að því að geta fengið að láta einn lítinn, gamlan torfbæ, jafnvel þó að það kosti mikið að viðhalda honum, fá að standa þannig í hjarta Reykjavíkur, einmitt innan um öll þau stórhýsi, sem þar eru byggð.

Ég verð að segja, að mér finnst vera fullmikil hjá okkur hér stundum sýndarmennskan, jafnvel í nafngiftum, ræktarsemin nokkru minni. Ég hugsa sérstaklega til mínnar höfuðborgar, Akureyrar, þegar verið er að kalla þá steinkirkju, sem þar var byggð og þar stendur nú, Matthíasarkirkju, en rífa þá kirkju, sem Matthías Jochumsson prédikaði í allan þann tíma, sem hann lifði og starfaði. Það er undarleg aðferð í ræktarsemi að kunna ekki að meta þá hluti, sem hafa að geyma einhverjar sögulegar minjar. Það þarf ekki að vera neitt djásn í byggingarlist eða neinu slíku, heldur aðeins sú meðvitund, að þessi og þessi maður, sem þjóðinni er kær, skuli hafa lifað og starfað þarna. Það á að vera nægilegt til þess að helga slíka hluti, eftir því sem við getum. Þeir eru ekki svo margir, sem við eigum slíka.

Ég held t.d., að einhvern tíma mundi mönnum þykja vænna um það að geta endurskapað Aðalstræti 10, þar sem búð Silla og Valda er nú, nokkurn veginn í því formi, sem það var, og láta ekki eyðileggja það, heldur en fá eitt af þeim stórhýsum, sem út frá verzlunarlegu sjónarmiði mundi þykja girnilegast að reisa við Austurstræti. Ef við hugsum ekki nema til næstu aldamóta, þá skulum við muna það, að það verður enginn vandi að byggja stórhýsi. Við getum byggt alls staðar, hvar sem við viljum, nógu mikið af 10-20 hæða húsum eða hvern skrambann sem við vitjum koma upp þannig. Okkar þjóð, eins og aðrar þjóðir, verður nægilega auðug, það verður nóg ríkidæmi, það verður enginn skortur á að byggja einhver ósköp. Húsnæðisleysi og annað þess háttar verður löngu úr sögunni. En þær voldugu og ríku kynslóðir, sem þá koma til með að lifa og geta leikið sér að því að byggja eins og þær vilja í krafti þeirrar tækni og þess auðs, sem við eins og aðrir hlutar mannkynsins ráðum þá yfir, þær geta ekki gert eitt. Og það er að skapa aftur það, sem búið er að rífa. Það geta þær ekki gert. Þær geta reynt að búa til einhverjar eftirmyndir, reynt að reisa við í einhverjum líkum stíl eða annað slíkt, og vafalaust munu þær reyna að gera mikið að því. En þær geta aldrei skapað það gamla aftur. Það er eitt af því fáa, sem þær koma ekki til með að geta. Og það verður hörð gagnrýni á þá, sem nú lifa og eru þó eins ríkir og við, að hafa eyðilagt hluti, sem aldrei er hægt að skapa á ný.

Við höfum stundum álasað okkar forfeðrum. Þeir voru fátækir, þeir þurftu að nota handrit í skóbætur, þeir voru ekki að eyðileggja það að gamni sinu. Verjum við þó ekki verknað þeirra. En okkur liggur ekkert á að rífa byggingarnar, sem standa hérna í miðdepli Reykjavíkur. Það er ekkert, ekki nokkur skapaður hlutur, sem rekur á eftir okkur með það. Það má ósköp vel bíða. Við getum leyst öll okkar vandamál án þess að granda nokkru af því, sem við héldum að væri betur geymt. Þær þjóðir, sem hafa lent í hörmungum styrjalda, jafnvel sú þeirra, sem harðast varð úti í siðasta stríði og sá sina gömlu höfuðborg gersamlega eyðilagða, í álíka rústum og hraunin eru hjá okkur, Pólverjar, tóku til að endurreisa nokkuð af Varsjá og endurreisa það í þeim gamla stíl, endurreisa metra að segja gamla markaðinn, sem þeir kölluðu, gömlu markaðstorgin með húsum frá 15. og 16. öld, sem maður gekk um á álíka rústum 1945 eins og Hafnarfjarðarhraun er nú. Og þeim tókst þetta. Þessi hús líta út mjög líkt sem þau voru. Þeir höfðu nákvæmar teikningar og annað slíkt af því. En það er náttúrlega ekki það gamla. Þessar þjóðir, sem hafa gamla menningu og sérstaklega gamla borgarmenningu, reyna, þegar þær verða fyrir svona ægilegum hörmungum eins og styrjöldum og eyðileggingum, að endurreisa þetta til þess að láta ekki samhengið í sögu þeirra slitna, til þess að gamlar sögulegar minjar, gamlar sögulegar byggingar, sem hafa verið eyðilagðar, séu þó a.m.k. byggðar eins aftur, og það þó að það kosti of fjár og það fyrir þjóð, sem á við allsleysi að búa og tekur við öllu sínu landi í rústum eftir styrjöld. Samt sýna þessar þjóðir svona ræktarsemi gagnvart því gamla, sem til er. En hér á Íslandi virðast menn helzt hafa tilhneigingar til þess að rífa eins mikið af þessu gamla niður, fyrst það var ekki skotíð niður eða sprengt í styrjöldum. Og það er mál, að við áttum okkur á þessu og stöðvum slíkt.

Ég man eftir því, þegar ég komst að því, að kirkja Matthíasar Jochumssonar hafði verið rifin á Akureyri. Ég talaði um það við þáv. biskup, séra Sigurgeir, og hann sagði við mig, að hann hefði ekki heldur verið spurður að þessu, þegar þetta var gert. Sannleikurinn er, að það var sérstaklega um aldamótin hjá okkur og þegar menn voru að reyna að flytja úr gömlu kotunum, þá var fögnuðurinn svo mikill að sleppa út úr þeirri fátækt, sem maður þá bjó við, að bóndinn, sem fannst gamla kotíð fyrst og fremst vera heimkynni berklanna og fátæktarinnar, hann varð þeirri stundu fegnastur, þegar hann losnaði við þetta og gat rifið það niður og flutt í betra hús. En það er annað fyrir okkur, sem nú lifum og horfum upp á það, að það fer varla að verða eftir eitt einasta kot á Íslandi, eins og var í gamla daga, til þess að varðveita, aðeins nokkur gömul höfðingjasetur, sem til allrar hamingju sveitamenningin hefur sett sitt stolt í að varðveita og varðveita fagurlega, en kotin eru að hverfa.

Það er þess vegna alveg nauðsynlegt fyrir okkur að átta okkur á þessu í tíma. Það eru að brenna hjá okkur gömul hús hér og þar um landið, meira en 100 ára gömul. Það er verið að rífa önnur. Meðferðin þar er sums staðar ekkert betri en hjá barbörunum, þegar þeir voru að rífa grísku hofin og byggja úr þeim sín híbýli, og þessu verður að hætta.

Ég hef ekki í þessu frv. gert neina till. um að reyna að varðveita hluta af Reykjavík alveg eins og hann er. En ég verð að segja það, að t.d. gata eins og Vesturgatan, sem er ein óskemmdasta gata Reykjavíkur enn þá af nýjungum, mundi eftir 200 ár og jafnvel skemmri tíma, ef hún væri varðveitt eins og hún er, þykja líklega ekki aðeins merkilegasta, heldur jafnvel að sumu leyti ein fegursta gatan í Reykjavík, bara vegna þess ljóma, sem mundi vera yfir því vegna þess gamla. Við getum búið til hluti, sem eru miklu, miklu glæsilegri og annað slíkt. Við verðum ekki í neinum vandræðum með það í framtíðinni, mennirnir. Við höfum sýnt það nú þegar, að við erum sízt í vandræðum með íburðinn. Tökum bara Ægissíðuna. En hvort það verður önnur eins hjartahlýja í öllum þeim útflúruðu steinkumböldum eins og í mörgum gömlu húsunum, það er annað mál, og hvort komandi kynslóðir munu ekki hugsa dálítið öðruvísi, þegar þær enn þá geta þó litið eitthvað af þessum gömlu götum, og finna öðruvísi til og skilja öðruvísi þær kynslóðir, sem nú hafa lifað, það læt ég ósagt.

Það er þess vegna fyrsti tilgangurinn í þessu frv. að vernda þennan miðbæ, þannig að það sé ekki flanað að neinu, að nýjabrumið fái ekki að vera svo mikið hjá okkur, að við eyðileggjum verðmæti, sem ómögulegt er að skapa aftur. Okkur liggur ekkert á, a.m.k. ekki þannig séð, að við eigum að eyðileggja neitt, sem ekki sé hægt að skapa á ný. Þess vegna er það eitt aðalatriðið í sambandi við þetta frv., einmitt í 4. gr. þess, að þar til sú skipulagsnefnd hefur lokið starfi, sem gert er ráð fyrir í frv., megi ekki byggja nýtt eða breyta eða rífa á þessu svæði, sem þarna er afmarkað. Þetta er annað höfuðatriðið, vegna þess að ég álit svo mikla nauðsyn á því að vernda þetta gamla, sem þarna er. Það er nóg að eiga það í hættu fyrir eldinum, þó að maður eigi það ekki t hættu fyrir mönnunum líka.

Annar og raunar sá jákvæði höfuðtilgangur þessa frv, er hins vegar sá að tryggja, að þessi miðhær í Reykjavík verði byggður þannig, að það sé fullt samræmi og fegurð í byggingu hans, að hann sé hugsaður innan þessa svæðis, sem hér er tilgreint, allur sem ein heild. Svæðið afmarkast af þessum götum, með leyfi hæstv. forseta, það „takmarkast af Hringbraut að sunnan, af Suðurgötu og Garðastræti að vestan, af Tryggvagötu að norðan og af Sóleyjargötu, Skothúsvegi, Þingholtsstræti og (frá Bankastræti), Ingólfsstræti og Sölvhólsgötu að austan“. Þetta svæði allt saman sé hugsað sem ein heild og allar höfuðbyggingarnar á því séu ákveðnar með hliðsjón hver af annarri, þannig að það sé fullt samræmi þarna á milli.

Bæjarstjórn Reykjavíkur er á þeirri skoðun, að ráðhús Reykjavíkur eigi að vera á þessu svæði. Hér á Alþ., þegar rætt hefur verið um þinghús, þá býst ég við, að flestir hafi líka verið sammála um það, þó að menn annars greini á um stað, að þinghús eigi að vera á þessu svæði, sem þarna er tilgreint. Þegar rætt er um nýtt stjórnarráðshús, í t.d. Bakarabrekkunni eða þar, þá virðast þeir, sem að þeim hugmyndum standa, líka vera sammála um, að stjórnarráðshús eigi að vera á þessu svæði, þannig að þrjú veruleg stórhýsi, sem hvert um sig hlýtur að setja mikinn svip á höfuðborgina og hvert um sig að vera hugsað í senn sem starfsmiðstöð og líka sem merkilegt hús í byggingarlist, eiga öll að vera á þessum stað. Ég býst við, að t.d. Listasafn ríkisins, það mundu margir vera á því, að það ætti að vera á þessum stað. Ég fyrir mitt leyti gæti ákaflega vel hugsað mér það í þeim krika neðan við ráðherrabústaðinn, þar sem barnaheimilið Tjarnarborg er núna. Þar mætti útbúa ákaflega fallegan garð í kring með höggmyndum og öðru slíku, og þar er það rétt í námunda við Þjóðminjasafnið. Og ég býst við, að strax og farið yrði að athuga skipulagið á þessu svæði í heild, muni menn jafnvel hugsa til fleiri opinberra bygginga, sem á þessu svæði mættu vera. En vinnubrögðin í að undirbúa þetta hafa verið þannig fram að þessu, að hvað snertir t.d. ráðhús Reykjavíkur er starfandi ein sérstök nefnd, sem heilmikið hefur unnið, og hún hefur hugsað sér sérstakan stað, eins og öllum er kunnugt. Og sá staður er hugsaður án tillits til þess t.d., hvernig byggt yrði við Lækjargötuna, þar sem gamli barnaskólinn og fríkirkjan eru núna.

Hér hefur verið starfandi nefnd, sem nýlega var kosin af Alþ. eða fyrir 2—3 árum, og hún hefur fjallað um þinghús. Hún hefur ekki haft neitt samstarf við þá nefnd, sem Reykjavíkurbær hefur haft í þessum málum. Stjórnarráðið eða ríkisstjórnin hefur sett nefnd til þess að athuga um stjórnarráðshús. Sú nefnd hefur ekki haft neitt samstarf hvorki við þinghúsnefnd né ráðhúsnefnd. M.ö.o.: það er verið að hugsa um þau 3 aðalstórhýsi, sem hver þjóð mundi hugsa sér að prýddu fyrst og fremst sína höfuðborg, án þess að nefndirnar, sem að þessu vinna, hafi nokkurt samráð hver við aðra. Það, sem mér finnst vera alveg óhjákvæmilegt í þessum efnum, það er, að sett sé ein nefnd, sem hugsar um þetta allt saman, og að öll þau störf, sem unnin hafa verið af öðrum nefndum í þessu, þau séu metin og gagnrýnd og endursköpuð og nýsköpuð af þessari nefnd og það sé miðað við það að búa til heildarskipulagningu að miðbænum í Reykjavík, sem geri ráð fyrir öllu þessu og fleira til og hefur þetta virkilega í samræmi hvað við annað. Núna nýlega sá ég fagra teikningu af Norrænu húsi, sem hér á að byggja, hugmyndir í sambandi við það um nýja tjörn og annað slíkt, og mér hafa fundizt það mjög góðar hugmyndir. En enn þá er ekki farið að hugsa fyrir, almennt mun vera gengið út frá því, að gamli barnaskólinn, fríkirkjan, jafnvel kvennaskólinn, jafnvel Thor Jensen-húsið, — sem ég álít samt dálítið vafasamt, — eigi að hverfa, og það hefur ekki verið hugsað fyrir, hvað eigi að koma þar. Eins og nái nokkurri átt að ákveða þá hluti, fyrr en maður veit, hvar hinar stórbyggingarnar eigi að lenda. Það nær bókstaflega ekki nokkurri átt, og það eru vinnubrögð, sem ekki mundu tíðkast hjá nokkurri siðaðri þjóð, að ætla að skipuleggja eitt og eitt hús út af fyrir sig. Það er algert lágmark þess, sem menn gera hjá menntuðum þjóðum, þegar menn eru að skipuleggja, ég tala nú ekki um höfuðborg, að menn hugsi um, hvernig hún eigi að líta út, eða a.m.k. miðdepill hennar sem heild. Það er hægt að leyfa sér það með Smiðjustíginn að skipuleggja þannig, að hús, sem byggt er á hornum Hverfisgötu og Smiðjustígs, standi eins og áður var hugsað, en svo þegar á að byggja aftur upp við Smiðjustíg og Laugaveg, þá sé húsið látíð skaga út í Smiðjustíginn, þannig að Smiðjustígurinn haldist ekki einu sinni á þessu stutta bili, bara eftir því, hvernig býður við að horfa út frá einkahagsmunum þeirra, sem húsin og lóðirnar eiga á þessum svæðum. Það hefur sýnt sig, að það hefur ekki verið hægt að halda neinni heildarskipulagningu hérna vegna þess, að það hefur verið ákveðið, hvernig byggja skuli hvert horn út af fyrir sig, ekki einu sinni heil gata. Og enn sem komið er er það þannig, að sífellt er verið að hringla í hlutum, því að jafnvel fyrir 30 árum, þegar menn dreymdi um að reisa þjóðleikhús og voru að byrja á því, átti að hafa stærðartorg þar, en síðan er hringlað í öllu saman, ekki nokkur festa í neinu. Það er þess vegna alveg ófært, að það sé verið að taka ákvarðanir um að byggja eitt og eitt hús án þess að hugsa um, hvernig hitt eigi að vera.

Ég varð var við það t.d. í sambandi við ráðhúsið, sem um er rætt í Reykjavík, að sú nefnd, sem starfað hefur að því og gert uppdrætti og sýnt líkön, gengur út frá því, að það sé bara eins og sjálfsagður hlutur, að Alþingi Íslendinga detti ekki í hug að byggja á sinni lóð, þar sem góðtemplarahúsið er nú, lóð, sem var keypt fyrir alþingishúsið fyrir löngu og Alþ, er búið að eiga í áratugi og á enn, alveg eins og lóðina hér undir listamannaskálanum, vegna þess að þeir menn, sem hugsuðu um þetta þá, þeir hafa auðsjáanlega gengið út frá því, að það væri hugsanlegt, að Alþ. kærði sig um að byggja hér hringinn í kringum þennan garð, eða þríhyrning í kringum þennan garð. En þegar þeir eru að hugsa um ráðhús Reykjavíkur, þá er gengið út frá því, að Alþ. eigi ekki að fá að byggja á sinni lóð. Og ekki nóg með það, nei, Alþ. á helzt ekki heldur að vera í sínu gamla húsi. Því er slegið fram bara eins og hverjum öðrum sjálfsögðum hlut af einhverjum og einhverjum mönnum úti í bæ og sagt: Jú, það er hægt að afhenda þetta gamla alþingishús t.d. fyrir hæstarétt. Menn, sem hafa ekki nokkra tilfinningu fyrir þeirri sögu, sem gerzt hefur í þessu húsi, fyrir þeim mönnum, sem lifað hafa og barizt í þessu húsi, þeir segja: Við getum bara losað okkur við þetta dót allt saman. Sumir segja: Við skulum bara rífa þetta sem fyrst. Og ráðhúsnefnd Reykjavíkur virðist ekki hafa öllu meiri ræktarsemi gagnvart því eða virðingu gagnvart því. Þetta er kannske okkur að kenna, sem skipum Alþ., að við látum menn ekki vita, að það er þetta þing, sem ákveður, hvort og hvernig er leyft að byggja í þessu landi, hvort t.d. bæjarstjórn Reykjavíkur fær að byggja ráðhús eða ekki og hvar það er, að það eru lög frá þessari stofnun, sem segja fyrir um, hvort bæjarstjórn Reykjavíkur sé til eða ekki, að það er Alþ., sem með lögum ákveður, hvernig fara skuli að, og það var aldrei farið eftir þeim lögum hvað snertir heildarskipulagningu í Reykjavík. Og það er máske tími til kominn , að Alþ. láti til sín taka og láti vita af því, að það er löggjafarþing þjóðarinnar, sem hefur valdið til þess að ákveða, hvernig skuli fyrst og fremst móta miðdepilinn í höfuðborg landsins. Væru Þingvellir aðsetur Alþingis, mundi okkur þykja sjálfsagt að ákveða, hvað þar væri gert, og það gerði Alþ. Það var því að þakka, að um 1000 ár var það barið inn í kollinn á okkur, að við ættum að sýna þeim stað virðingu. Við megum líka gjarnan bera nokkra virðingu fyrir þessari kvos. Hún var máske einu sinni nokkuð dönsk, en hún er þó fyrst og fremst miðstöð íslenzks lýðveldis nú. Og við eigum að láta hana mótast af þeim hugsjónum og af þeim kröfum, sem við gerum til fegurðar og til samræmis í þessum miðdepli landsins. Við eigum ekki að láta hana mótast einvörðungu af verzlunarhagsmunum.

Ég veit ósköp vel, að 1óðirnar í þessum miðbæ eru dýrar. Þær kostuðu að vísu ekki mikið um aldamótin, en þær kosta það núna, vegna þess að þjóðin er búin að byggja upp þennan bæ. Við erum búin að skapa hér borg af tveim kynslóðum. En það dugir ekki að láta hagsmuni þeirra, sem lóðir eiga í miðbænum í Reykjavík, ráða því annars vegar, hvernig gamlar og góðar byggingar séu eyðilagðar, eða hins vegar, hvort miðbærinn verði svo ljótur í framtíðinni, að það verði skömm að honum, sem miðdepli landsins og höfuðborgarinnar. Ef við fáum tóma verzlunarkumbalda, 6, 8 og 10 hæða hús, sem gera dómkirkjuna og alþingishúsið að smáum kofum við hliðina á þeim, þá erum við búin að spilla allri fegurð í miðdepli þessa bæjar og þessa lands. Það hvílir sérstök stemming yfir Austurvelli, þegar dómkirkjan og alþingishúsið fá að njóta sín þar, en um leið og væru komnir stórir verzlunarkumbaldar hér vestan við eða hringinn í kringum okkur, þá er sú stemming farin. Við getum áreiðanlega umbunað þeim aðilum, sem eiga lóðir á þessu svæði, þó að þessar lóðir séu tuga millj, kr. virði með braskverði í dag. Við getum áreiðanlega umbunað þeim, við höfum nógu mikið land hér í Reykjavík, og til allrar hamingju á Reykjavíkurbær nógu mikið af lóðum, til þess að við getum útvegað þeim lóðir annars staðar, og við getum lofað þeim að byggja upp heilar verzlunarmiðstöðvar annars staðar, en bara að lofa okkur að halda þessu í friði. Það er að vísu hægt að rífa alla þá verzlunarkumbalda aftur seinna meir, en það er miklu leiðinlegra, þó að ég búist við, að komandi kynslóðir mundu gera það til þess að reyna að endurskapa það, sem var hérna, ef við höfum ekki líka látíð rífa þær byggingar, sem enn þá standa.

Ég held þess vegna, að ákvörðun um, að það skuli búa til heildarskipulag af miðbænum í Reykjavík, mundi verka mjög vel á það að draga úr því braski með lóðir, sem núna á sér stað einmitt á þessu svæði. Það er gott að banna að byggja á þessu svæði um tíma og láta menn vita það, að í allmörg ár muni fyrst og fremst verða hugsað um það, hvernig þessi miðbær verði fegurstur, en ekki, hvernig menn geti haft mest upp úr honum. Það kann að vísu að vera, að sumar af þessum lóðum muni falla á meðan, en það er líka kannske hægt að semja við marga eigendur þeirra um, að þeir byggðu annars staðar. Ég veit, að þetta er oft erfitt. Menn gerast oft allaðgangsharðir í sambandi við að fá að byggja á dýrmætum lóðum. Við þurfum ekki nema að sjá húsin, sem ber núna á milli Landsbankans og alþingishússins, húsin, sem reist voru á grunninum, þar sem Hótel Reykjavík var, grunni, sem aldrei áttu að koma nein hús á, og hús, sem vafalaust verða rifin í framtíðinni, til þess að sjá, hve hart er venjulega sótt af valdamiklum mönnum að byggja á dýrum lóðum. En ég held, að það sé alveg nauðsynlegt, að við komum í veg fyrir það og við fáum og sköpum tækifæri til þess að mega ganga þannig frá þessum miðbæ, að þar geti orðið um fegurð og samræmi að ræða.

Ég er satt að segja alveg hissa á því. að það skuli þurfa að berjast fyrir því hér á Alþingi í dag að búa til heildarskipulag af miðbænum. Það er í lögum frá 1922, að það átti að búa til heildarskipulag af öllum bænum, leggja það heildarskipulag fyrir og staðfesta það. Það hefur aldrei verið gert. Slíkt heildarskipulag er ekki til í dag. Það má vel vera, að það sé að sumu leyti gott, að það skuli ekki vera til, e.t.v. hefði það verið sniðið allt of smátt. En það er engu að síður haldið áfram að byggja og nauðsynlegt að gera það og allt í lagi, það á að byggja upp. Heildarskipulag af miðbænum er þess vegna raunverulega aðeins framkvæmd á einum hluta af því, sem er búið að vera í lögum í 40 ár á Íslandi og hefði fyrir löngu átt að gerast. Ég hef tekið eftir því á þeim líkönum, sem búin hafa verið til, eins og t.d. af ráðhúsinu og fleiri líkönum, áður en ráðhúsið var nú sett í Tjörnina eða lagt til að setja það þar, þá var raunverulega bara sett á þessi líkön hitt og þetta á stöðunum í kring, án þess að menn væru nokkuð vissir um, hvað það yrði. Það var svo óákveðið, hvernig Fríkirkjuvegurinn átti að vera eða hvernig Tjarnargatan átti að vera og annað slíkt, og það hafa komið ýmsar mismunandi uppástungur um þetta og mönnum sýnist náttúrlega sitt hvað um það. En það, sem er áriðandi, er, að það verði ekkert á neinum einstökum bletti af þessu, sem gæti spillt heildarsamræminu á eftir, að þetta verði hugsað sem ein heild, þannig að menn sjái miðbæinn fyrir sér eins og hann eigi að verða í framtíðinni, áður en nokkuð er farið að gera, sem væri svo að segja óafturkallanlegt. Og ég held, að ég megi fullyrða, að hver einasta þjóð fer svona að viðvíkjandi miðdepli sinnar höfuðborgar. Hún reynir, ef það hefur ekki verið mótað löngu, löngu áður, þannig að núv. kynslóð fær ekki þar breytt um, — þá reynir hún að móta það sem fegurst og í sem mestu samræmi hvað við annað. Við töpum engu með því að bíða nokkuð hvað þetta snertir og hugsa okkar gang og deila um það, það er nauðsynlegt, en reyna þó framar öllu að koma með sem beztar og fegurstar hugmyndir, sem gagn gæti orðið að við að ákveða endanlegt útlit.

Í þessu frv. er lagt til, að það sé sérstök nefnd, skipulagsnefnd miðbæjarins, sem eigi að ákveða þetta skipulag. Hún skuli skipuð með eftirfarandi hætti: 4 menn séu skipaðir af Alþingi, 4 menn af hæstv. ríkisstj., 4 menn af borgarstjórn Reykjavíkur og 4 menn af Arkítektafélagi Íslands. Enn fremur séu í n. án tilnefningar skipulagsnefndarmenn ríkisins, borgarstjóri Reykjavíkur, þjóðminjavörður og skipulagsstjóri ríkisins.

Þetta er, eins og menn skilja, allstór nefnd. Allir þeir aðilar, sem nú eru hver um sig að hugsa um sérstakar stórbyggingar á þessu svæði, borgarstjórn Reykjavíkur, stjórnarráð eða ríkisstj., Alþingi eða alþingisnefndin, allir þessir aðilar eiga sina sérstöku fulltrúa í þessari nefnd, Arkitektafélag Íslands þar að auki alveg sérstaklega, sem maður má kannske sérstaklega búast við að hugsaði um þann hlut, sem snýr að fegurð, samræmi og því, sem hagkvæmt er í þessu, og svo þessir sérstöku embættismenn, sem ég nefndi. Þetta er allstór nefnd, og hún á að vera til þess að tryggja það, að öll sjónarmið komist þarna að, öll sjónarmið séu rædd og þegar endanleg ákvörðun væri tekin, væri það þannig, að það væri samræmi á milli allra þessara aðila. Þess vegna er lagt til, að það sé kosin sérstök framkvæmdanefnd, til þess að verkið geti gengið betur og fljótar.

Það er í 3. gr. mælt fyrir um, hvernig þessi skipulagsnefnd um bæinn skuli vinna að þessu. Og í þeirri grein er líka bannað að breyta þeim húsum, sem ég gat um í upphafi míns máls. Það er líka á valdi þessarar n. að ákveða, hvaða einkabyggingar skuli standa — þær gömlu — á þessu svæði. Þessi skipulagsnefnd miðbæjarins á sem sé að reyna að koma sér saman og fær til þess allar þær heimildir, sem slíkar nefndir hafa, og fær aðgang að öllu því, sem þessar sérstöku nefndir, sem unnið hafa að hverju húsi þarna út af fyrir sig, ráðhúsi, alþingishúsi og stjórnarráðshúsi, hafa unnið fram að þessu. Og þegar starfi n. er lokið og endanlegar till. hafa verið gerðar um heildarskipulag miðbæjarins og höfuðbygginganna þar, á þessi n. að leggja sínar till. fyrir Alþingi, ríkisstj. og borgarstjórn Reykjavíkur. Fallist allir þessir aðilar á þessar till., er heildarskipulagið þar með ákveðið, og það er það, sem er það æskilegasta í þessu. Og ég er satt að segja svo bjartsýnn, að ég álít, að það sé engan veginn óhugsandi, að þetta geti gerzt. Ég álít, að þegar þessir aðilar, sem þarna fara að vinna saman, fara að athuga sinn gang, eigi sannarlega ekki að þurfa að verða slíkur ágreiningur á milli þeirra, að ekki sé hægt að finna út úr því, hvernig þetta verði sem heild fegurst og bezt. Það er ekki með neitt af þessu, hvorki stjórnarráðshús, ráðhús né alþingishús, þá eru ekki neinir einkahagsmunir að verki. Það er enginn einn aðili þarna, sem hefur neinna einkahagsmuna að gæta. Þetta eru allt saman opinberir aðilar, sem ekki hafa þarna eða geta haft neitt annað sjónarmið en hvað sé fegurst og bezt fyrir heildina. Það kann að vera kannske til að byrja með, að það sé einhver metnaður eða annað slíkt í þessu, hver eigi að vera fremstur og annað slíkt, en ég hef fyrir mitt leyti þá trú, að það sé hægt að jafna slíkt. Sumpart eru þetta jafnvel sömu mennirnir, sem þarna koma til greina, sömu mennirnir kannske, sem eiga sæti t.d. í borgarstjórn Reykjavíkur og á Alþingi, og ég tala náttúrlega ekki um í ríkisstj. Hins vegar, svo framarlega sem ekki er eining í þessari nefnd, er þar ákveðið eins og nú er í lögum, að þá tekur félmrn. og þar með hæstv. ríkisstj. endanlega ákvörðun.

Ég held, að það sé nauðsynjaverk, að við reynum að ná samkomulagi um þetta. Mér hefur ekki dottið í hug í þessu, þó að ég hafi mínar persónulegu skoðanir um þessi mál, að reyna að setja neitt af slíku þarna inn í, enda væri það náttúrlega hrein firra. Það eina, sem með þessu frv. er farið fram á, er, að áður en nokkuð sé gert, sem óafturkallanlegt sé, sé reynt að koma sér saman um heildarskipulagið.

Það mun að líkindum fara svo, að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til n. Ég skal ekki gera neina till. um það, hvaða n. þætti heppilegast að fengi þetta. Ég mun ekki gera neina till. um að senda það til n., býst við, að bæði allshn. og félmn, kæmu þar til greina. En ég vil í því sambandi segja, að ég álit, að ástandið sé orðið alveg gersamlega óþolandi, hvað snertir vinnubrögð nefndanna á Alþingi, það er orðið svo nú, að þingmannafrv., sem fer í n., sést varla aftur. Stjfrv. eru kannske nokkurn veginn afgreidd, en þmfrv. eru grafin, og það er að versna með hverju árinu sem liður hvað þetta snertir. Ég er ekki að segja þetta til núv. meiri hl. í n. út af fyrir sig. Minni hl. í n. getur alveg skrifað sitt nál. og afgreitt, þarf ekkert að bíða eftir því endilega, að meiri hl. afgreiði sitt. En þetta eru orðin alveg gersamlega óþolandi vinnubrögð, sem eru öllum til vansa og við eigum ekki að láta viðgangast. Ég veit, að við erum allir saman samsekir í þessum efnum. Þetta hefur veríð að versna sífellt á undanförnum árum, og ég álít tíma til kominn , að við hættum þessu. Það eru ótal aðferðir til þess að afgreiða eitt frv. úr n. án þess einu sinni fyrir þá, sem ekki vilja samþykkja það, að taka endanlega afstöðu til þess. Það er hægt að vísa frv. til ríkisstj., það er hægt að afgreiða frv. með rökst. dagskrá, meinlaust, jafnvel alveg, en það er þó þingleg afgreiðsla á máli. Það er, sem er skemmtilegast og hreinlegast, hægt að afgreiða frv. með því að samþykkja það eða fella það. Og ég álít, að við eigum að taka þann hátt upp aftur að gera þetta. Þetta þótti sjálfsagt, t.d. um það leyti sem ég settist á þing. Þá þótti sjálfsagt að afgreiða frv. frá n., og menn voru alveg ófeimnir þá við að leggja það til að vísa því til ríkisstj., sem þýddi þá venjulega að grafa það þar, látum það vera, það er þó allt öðruvísi kirkjugarður en nefndirnar, eða þá bara beinlínis að fella það. En ég álit, að við alþm. séum að leggja okkur undir allt of réttmæta gagnrýni og gagnrýni, sem sé alveg óþarfi, að við verðum fyrir, með því að afgreiða ekki mál frá nefnd. Þetta er ósiður, sem hefur verið að eflast alitaf hreint, aukast hjá okkur, alveg sama hvaða stjórn hefur setíð að völdum á hverjum tíma. Það var kannske að sumu leyti eitthvað til í þessu, þegar var hrein utanþingsstjórn, vegna þess að þá fundu nefndir Alþingis kannske einna mest til þess, að þær voru þó valdið, sem réð, líka hvað stjórnarfrv. snerti. Ég held, að það sé alveg nauðsynlegur liður í því að rétta álit Alþingis við, að þessi vinnubrögð breytist. Þetta er niðurlægjandi fyrir þingið, þegar við fáum hér skýrslur um störfin, svona og svona mörg frv. hafi verið lögð fyrir, svona og svona mörg frv, hafi þeir afgreitt, og það er svo að segja ekkert af frv. afgreitt sem lögð eru fyrir. Þetta getur ekki gengið. Ég er ekki að segja það sérstaklega út af þessu frv., sem ég hér hef verið að mæla fyrir, heldur almennt. Og ég held, að það væri að öllu leyti til þess að auka álit Alþingis, að sá háttur væri tekinn upp að afgreiða frv. úr n. Ég veit, að mörg frv. hafa verið send til umsagnar, það hafa verið fengnar umsagnir um frv., og það er hægt að fræðast ýmislegt á þeim umsögnum, þannig að almenningur fái hugmynd um, hvernig það mál stendur, jafnt þó að menn leggi til, að frv. sé t.d. vísað til ríkisstj. eða með rökst. dagskrá frá, en það sé samt sem áður afgreitt.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að æskja þess, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr.