25.02.1964
Neðri deild: 61. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í C-deild Alþingistíðinda. (2099)

155. mál, Vestfjarðaskip

Flm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Á þinginu 1959—1960 fluttum við Bjarni Guðbjörnsson, sem þá átti sæti á þinginu um stund, till. til þál. um strandferðaskip fyrir Vestfirði. Till. varð ekki útrædd. Eins og frá var greint í grg. með þeirri till., hafði þá um margra ára skeið verið mikill áhugi á því á Vestfjörðum að fá sérstakt skip til strandferða milli Reykjavíkur og Vestfjarða. Á þeim 4 árum, sem eru liðin síðan þessi till. var flutt, hafa kröfur Vestfirðinga um sérstakt Vestfjarðaskip orðið háværari. Á fjórðungsþingum Vestfirðinga, sem hafa verið haldin síðan, hefur þetta mál borið á góma og verið gerðar um það ályktanir. Á síðasta Alþingi flutti hv. 5. þm. Vestf. ásamt hv. 4. þm. Reykn. frv. um Vestfjarðaskip. Var flutningur þess frv. ráðinn í samráði við okkur hv. 1. þm. Vestf., en við áttum þá hvorugur sæti í þessari hv. d. Það frv. komst þó aldrei lengra en til n. En á því sama þingi fluttu Vestfjarðaþm. úr stjórnarflokkunum till. til þál. um athugun á strandferðum Vestfirðinga. Ekki varð sú till. heldur útrædd.

Nú flytjum við hv. 5. þm. Vestf. og ég frv. það, sem hér er til 1. umr., um Vestfjarðaskip. Við viljum nú freista þess að koma málinu áfram og gerum okkur vonir um betri skilning á þessu hér á hv. Alþingi en verið hefur til þessa, enda hafa farið fram alþingiskosningar síðan og skipan þingsins nokkuð á annan veg en var, þegar þetta mál var flutt síðast.

Ég tel ekki nauðsyn á að vera margorður um þörf Vestfirðinga fyrir sérstakt Vestfjarðaskip, tillöguflutningur hér á hv. Alþingi á undanförnum árum og endurteknar áskoranir Vestfirðinga sjálfra tala sínu máli. Samgöngur til Vestfjarða eru engar á landi allt frá haustnóttum ár hvert og fram í maí eða júnímánuð. Þessu er ólíkt farið um aðra landshluta, að undanteknu Austurlandi. Um Suðurland, Vesturland og Norðurland er haldið opnum öllum aðalleiðum allan veturinn, svo og fjallvegum milli byggðarlaga. Þessu er ekki til að dreifa um Vestfirði. Flutningar á landi koma því ekki til greina Vestfirðingum til hagsbóta allt að 2/3 hlutum ársins. Flugferðum til Vestfjarða var haldið uppi með svokölluðum sjóflugvélum um margra ára skeið. En svo féllu þær samgöngur niður með öllu. Fyrir skömmu er loksins kominn einn flugvöllur fyrir áætlunarflug með venjulegum farþegaflugvélum á Vestfjörðum. Sá flugvöllur er á Ísafirði, en aðeins ein flugbraut. Það má því lítið út af bera um veður, að sá flugvöllur sé nothæfur. En auk þess eru þar há fjöll og aðkreppt, sem torvelda mjög aðflug. Sú flugþjónusta kemur því fáum öðrum að gagni en Ísfirðingum og þeim, sem þar í nágrenninu búa. En þeim, sem búa sunnan Breiðadalsheiðar, koma þær flugsamgöngur að engu gagni að vetri til, þótt skammt sé til Ísafjarðar, þar sem heiðin er lokuð allan veturinn,

Samkv. þessu, sem ég hef nú nefnt, hafa Vestfirðingar um ekkert annað að velja en skipaferðir til vöruflutninga og að miklu leyti til fólksflutninga um 7—8 mánaða skeið á ári hverju.

Enn má nefna það sem dæmi um þörfina fyrir Vestfjarðaskip, að einn af mestu athafnamönnum Vestfirðinga, Einar Guðfinnsson útgerðarmaður í Bolungarvík, hefur um margra ára skeið talið sig nauðbeygðan til að halda uppi vöruflutningum með eigin skipum milli Reykjavíkur og Vestfjarða, en auðvitað getur það ekki talizt nein framtíðarskipan á samgöngumálum Vestfirðinga. Þeirri viðbáru hefur verið hreyft um þetta mál, að ekki sé rétt að ákveða sérstakt Vestfjarðaskip, fyrr en endurskoðað hafi verið allt skipulag strandferða kringum landið. Ég tel hér um tylliástæðu eina að ræða. Nauðsynin á sérstöku Vestfjarðaskipi er ótviræð, og ég hef engan heyrt halda því fram, að hún sé ekki ótvíræð. Um þennan landshluta, Vestfirði, gegnir mjög svipuðu máli og Vestmannaeyjar. Þegar ráðin var bygging Herjólfs, var því alls ekki hreyft, svo að ég muni eftir, að Vestmannaeyjaskip yrði að bíða eftir heildarendurskoðun strandferðanna. Hvers vegna þarf þá Vestfjarðaskip að bíða eftir slíkri endurskoðun?

Í frv. þessu leggjum við til, að Vestfjarðaskip verði 600—700 brúttórúmlestir að stærð. Við gerum ráð fyrir í frv., að byggingarkostnaður skipsins fari ekki yfir 25 millj. kr., en hann getur þó orðið mun mínni. Leggjum við því til, að ríkisstj. verði heimilað að taka allt að þessari upphæð að láni. Þá leggjum við til, að rekstur skipsins verði falinn Skipaútgerð ríkisins eða öðrum þeim aðila, er treysta má til að annast góða og hagkvæma þjónustu. Hér er komið til móts við sjónarmið þeirra manna, sem telja engan veginn sjálfsagt; að Skipaútgerð ríkisins annist reksturinn.

Með því að mál þetta hefur verið til umr. hér á hv. Alþ. þing eftir þing, sé ég ekki ástæðu til þess að orðlengja um þetta mál. Ég vænti þess, að hv. þm. taki þessu nauðsynjamáli Vestfirðinga af fullum skilningi og að málið fái endanlega afgreiðslu á þessu þingi.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv samgmn.