18.12.1963
Efri deild: 29. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

103. mál, náttúruvernd

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Mig langar nú til þess að fara aðeins örfáum orðum um þetta litla, en eiginlega skrýtna frv., sem hér liggur fyrir.

Hæstv. menntmrh. hefur nú gert grein fyrir efni þess með fáum orðum. Það er eins og hann sagði, að í l. um náttúruvernd, nr. 48 frá 1956, sem er mikill og vandaður lagabálkur og að mörgu leyti gagnleg löggjöf, sem á sínum tíma var samin af ágætum mönnum, þeim Ármanni Snævarr háskólarektor, Sigurði Þórarinssyni jarðfræðingi og Finni Guðmundssyni fuglafræðingi, var mælt fyrir um náttúruvernd eða sett upp mjög mikið kerfi, þar sem um er að tefla, að í hverri sýslu og hverju bæjarfélagi eigi að vera svokallaðar náttúruverndarnefndir. Formaður í þessum náttúruverndarnefndum í hverju bæjarfélagi og sýslufélagi er sjálfkjörinn sýslumaður, þ.e.a.s. þar er séð fyrir lagakunnáttu í n. Yfir þessum náttúruverndarnefndum er svo eitt ráð fyrir allt landið, náttúruverndarráð. Og það er mælt svo fyrir í 10. gr. þessara l. um náttúruvernd, að bæði formaður og varaformaður skuli vera embættisgengir lögfræðingar. Og í aths. við þessa 10. gr. frv. að l. um náttúruvernd er tekið fram sérstaklega, að það sé eðlilegt og sjálfsagt að gera þá kröfu, að formaður sé lögfræðingur, embættisgengur lögfræðingur, eins og þar segir. Og í raun og veru er það ekki svo óeðlilegt, að þessi krafa sé gerð, því að þessum aðilum, náttúruverndarnefndum og náttúruverndarráði, er ætlað allviðamikið hlutverk eftir þessum lögum. Náttúruverndarnefndir og náttúruverndarráð geta ákveðið það eða tekið ákvörðun um það, sem kallað er náttúruvætti, enn fremur um það, sem kallað er fólkvangur og þjóðvangur og friðland. Allt þetta getur haft í sér fólgna mjög mikla takmörkun á eignarrétti einstakra manna. Og það er ýmislegt, sem er bannað í þessum lögum. Mönnum er bönnuð tiltekin meðferð eigna sinna, t.d. utan kaupstaðar bannað að setja upp auglýsingaspjöld, áróðursspjöld, áletranir á mannvirki, nema þá með leyfi náttúruverndarn. Og þessar nefndir og þetta náttúruverndarráð geta gefið út ýmiss konar bönn, og það hefur heimild til þess að fylgja þessum bönnum eftir með því að leggja dagsektir á.

Þegar alls þessa er gætt, er það náttúrlega ekki svo óeðlilegt, þó að sú krafa hafi verið gerð, að einn maður í þessu valdamikla ráði væri lögfræðingur. Og ef það hefur verið ástæða til þess 1956 að hafa þessa skipun á. þá er mér spurn, hvað hafi breytzt síðan. Það kemur nefnilega ekki fram í þessu frv. Eina ástæðan, sem sett er fram í grg. þessa frv. og kom fram hjá hæstv. menntmrh., var, að formaður þessa ráðs væri fluttur úr bænum upp í Borgarnes, að mér skildist. Nú segir það hvergi í l. um náttúruverndarráð, að náttúruverndarráðsmenn skuli vera Reykvíkingar, og vitaskuld geta menn utan Reykjavíkur haft áhuga á náttúruvernd, ekkert síður en Reykvíkingar. Í l. segir aðeins það í 10. gr., að náttúruverndarráð skuli hafa aðsetur í Reykjavík, en það er vitaskuld ekki það sama og að segja, að náttúruverndarráðsmenn skuli vera þar búsettir, heldur felst í því það eitt, að náttúruverndarráð skuli hafa þar sinn samkomustað, koma þar saman til fundar. Ég held þess vegna, að það felist alls ekki, og ég mótmæli því, að það sé lagður sá skilningur í þessi lög, að það séu Reykvíkingar einir, sem geti átt sæti í náttúruverndarráði, þannig að þessi ástæða, sem þarna er lærð fram, er að mínum dómi hrein tylliástæða. Það, sem þarf að sýna fram á, ef rök eru til þessarar breytingar, er, að störf náttúruverndarráðs á undanförnum árum hafi þannig verið, að þau sýni, að það sé ekki þörf á neinni lagakunnáttu í starfi ráðsins. Nú er mér að vísu ekki kunnugt um, hvað þessar nefndir, náttúruverndarnefndir, í hverri sýslu og náttúruverndarráð fyrir landið allt hafa verið athafnamiklar, en ég geri ráð fyrir því, að þær hafi látið ýmis mál til sín taka á þessum árum, og væri fróðlegt að heyra skýrslur ráðh. um það, hvað þessar stofnanir hafa tekið ákvarðanir um á þessum árum. Þessir aðilar eiga að vera launaðir, nefndirnar í sýslunum úr sýslusjóði, ef ég man rétt, og ráðið hér, náttúruverndarráðið, úr ríkissjóði.

Auk þess, sem ég gat um áðan, er ég minntist aðeins á verkefni ráðsins og náttúruverndarnefndanna, þar sem þessir aðilar hafa heimild til þess að setja mönnum ýmsar lífsreglur og gefa út boð og bönn að viðlögðum dagssektum, er í þessum lögum gert ráð fyrir því, að mál fyrir þessum stofnunum, náttúruverndarnefndum og náttúruverndarráði, sæti alveg sérstakri meðferð, og það er talað um náttúruverndarmál, þ.e.a.s. það er gert ráð fyrir því, að málsmeðferð fyrir þessum stofnunum geti að nokkru leyti svipað til meðferðar dómsmála. Og út frá því sjónarmiði er náttúrlega ekki óeðlilegt, að lögfræðingur sitji í forsæti þessa ráðs, af því að það er naumast á færi annars en þess, sem hefur nokkra lagaþekkingu, að stjórna þeirri málsmeðferð, sem þar er gert ráð fyrir, svo að vel fari.

En það kann nú að vera, að það hafi ekki reynt svo mjög á þetta í framkvæmd, og ég skal út af fyrir sig ekkert halda fram hlut lögfræðinga í þessu sambandi, þó að mér sýnist, eins og ég hef þegar drepið á, að það væri eðlilegra, og það hafi a.m.k. ekki verið sýnt fram á það, hvorki í grg. né af hæstv. menntmrh., að ástæður hafi að nokkru leyti breytzt frá því 1956, að þetta ákvæði var sett inn í lögin. En samt sem áður má vel vera, að það álítist nú rétt vera, að það sé ekki þörf á því að hafa ákvæði í l., sem tryggja það, að lögfræðingur skipi þar forsæti. En þá vil ég bara segja það, að annaðhvort er nauðsynlegt að hafa lögfræðing fyrir formann og varaformann eða ekki, því að það er hrein lokleysa, endileysa, vil ég segja, að gera þá kröfu, að annar hvor þeirra skuli vera lögfræðingur. Ef það er hægt að afskrifa það ákvæði, þá á að ganga hreint til verks og alveg afnema þessa sérfræðikröfu og leggja það alveg á vald ráðh. að skipa þann, sem hann álítur þeim kostum búinn að geta gegnt þessu starfi: Ég álít í raun og veru óframbærilegt að setja svona ákvæði í löggjöf, og ég held, að þess séu engin dæmi, að það séu í löggjöf ákvæði eins og þetta, að annaðhvort formaður eða varaformaður skuli vera lögfræðingur, og ég álít, að það sé ekki stætt á því.

Ef n. kemst að þeirri niðurstöðu eftir athugun á þessu og eftir að hæstv. ráðh. hefur kannske lagt fyrir hana gleggri rök en komu fram í hans stuttu framsöguræðu áðan, þá álít ég, að hún eigi að ganga alveg hreint til verks og fella alveg niður þessa sérfræðikröfu. Og ég hef ekkert á móti því, ég skal alveg greiða atkv. með því, að það skuli alls ekki vera skilyrði, að það skuli vera lögfræðingur. En að hafa þetta eins og það er, það er ekki hægt. Það getur Alþingi varla sóma síns vegna afgreitt. En ef Alþingi breytir frv. í það horf og reyndar hvort sem er, ef það ætti að afgreiða í þessu formi, sem það er nú í, þá ætti að draga af því rökréttar afleiðingar og breyta skipun náttúruverndarnefndanna einnig. Ef það þarf ekki að vera lögfræðingur formaður í náttúruverndarráði, sem er æðra stjórnarstigið í þessu sambandi, er vitaskuld engin þörf á því að hafa lögfræðing í náttúruverndarnefnd og alveg óþarfi að ætla sýslumönnum að vera þar sjálfkjörnir. Þá á að skipa allar náttúruverndarnefndirnar á lýðræðislegan hátt að öllu leyti og láta sýslunefndirnar kjósa þær, þ.e. kjósa þrjá menn.

Ég verð að segja það, að í aths. við 10. gr. frv. var á sínum tíma tekið fram, eins og ég sagði áðan, að það væri eðlilegt, að það væri lögfræðingur, sem skipaði forsætið í þessum nefndum. En jafnframt var það líka tekið fram, að það væri eðlilegt, að í náttúruverndarráði ætti sæti verkfræðingur. Nú held ég, að það sé skemmtilegast að hafa samræmi í hlutunum, og ef á að fella niður, að formaðurinn þurfi að vera lögfræðingur, hví þá ekki að fella niður þessa kröfu um, að einn nm. þurfi að vera verkfræðingur. Við skulum bara leggja þetta allt á vald ráðh., þannig að hann geti skipað að sínum geðþótta hverja sem hann vill í þetta ráð.

Þetta er smámál í sjálfu sér. En það er, eiginlega ekki hægt að taka samt við svona máli þegjandi og skýringalaust. Það er ástæðan til þess, að ég hef sagt þessi orð hér. Það er komið með þetta mál á síðustu dögum þingsins fyrir jólafrí, því er ætlað að fara í gegn athugunarlaust með afbrigðum á 2–3 dögum. Því er miður, að sá ósiður tíðkast nokkuð hjá sumum ráðh. hæstv. að leggja mál þannig fyrir á síðustu dögum þings, og manni er stundum ekki grunlaust um, að það sé gert í trausti þess, að þm. gefist þá ekki jafnmikið ráðrúm og endranær til þess að athuga málið. Þetta er tillitsleysi, ég vil segja: þetta er ókurteisi gagnvart Alþingi, að fara þannig að, og þó að hér sé ekki um stærra mál að ræða en þetta, þá taldi ég rétt að taka þetta fram, til þess að það komi fram, að ráðh. geta ekki treyst því, að það sé tekið við hverju sem er, ef það er ekki sérlega stórt í sniðum, sem þeir koma með, þegjandi og án skýringa. Ég vil a.m.k. ekki gera það.

Þetta er vissulega ekkert stórmál, það er rétt. En þá liggur því líka ekkert á. Og það er alveg ástæðulaust að vera að leggja svona áherzlu á mál, sem er þessa eðlis, að ætla að keyra það gegnum þingið, án þess að t.d. nefnd þeirri, sem fær þetta til meðferðar, gefist tóm til þess að setja sig inn í þann mikla lagabálk, sem þetta er breyting á. Ég hefði satt að segja haldið, að þó að það sé ekki lengri tími liðinn frá setningu þessa lagabálks en 7 ár, þá gæti nú komið til greina að taka þann lagabálk til gagngerðrar endurskoðunar. En það getur hæstv. ráðh. betur upplýst hér á eftir, hvernig framkvæmdin hefur verið í þeim efnum, og t.d. það, hvort þessi löggjöf kunni ekki að vera heldur þung í vöfum og hvort það væri ekki ástæða til þess að breyta henni eitthvað í það horf að gera hana einfaldari og þannig kannske, að hennar gætti þá eitthvað meira í framkvæmd en ég hygg að raun beri vitni. Þetta þyrfti sú nefnd, sem fær málið til meðferðar, að geta athugað í góðu tómi.

Ég endurtek það, að ég er síður en svo að gera það að nokkru kappsmáli, að það haldist áfram í lögum um skipun þessa náttúruverndarráðs eða náttúruverndarnefnda, að það sitji lögfræðingar í þeim sem formenn. En ég vil gjarnan samt heyra einhver frambærileg rök fyrir því, að nú sé rétt að breyta til frá því, sem upphaflega var ákveðið, og ég vil, ef á annað borð er farið að breyta þessu, hafa „system“ í hlutunum, þannig að þessu sé þá breytt í heild.