20.02.1964
Neðri deild: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í C-deild Alþingistíðinda. (2105)

157. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Flm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Á þskj. 288 flyt ég ásamt hv. samþingismönnum úr Norðurl. v. og hv. 5. landsk. þm. frv. til laga um virkjun Svartár í Skagafirði. Í frv. er lagt til, að sýslunefnd Skagafjarðarsýslu og bæjarstjórn Sauðárkrókskaupstaðar verði heimilað að virkja Svartá í Skagafirði til vinnslu á raforku til almenningsþarfa, enn fremur að byggja háspennulinur og afspennistöðvar til þess að afhenda orkuna rafveitum á orkuveitusvæðinu. Lagt er til, að virkjun þessi verði nefnd Svartárvirkjun, sem eigi heimili og varnarþing á Sauðárkróki, og verði hún rekin sem sjálfstætt fyrirtæki með sérstöku reikningshaldi samkvæmt reglugerð, sem raforkumrh. staðfestir. Gert er ráð fyrir, að í stjórn virkjunarinnar eigi sæti 5 menn, 2 kjörnir af sýslunefnd Skagafjarðarsýslu og 2 af bæjarstjórn Sauðárkrókskaupstaðar, og tilnefni síðan þessir 4 stjórnarnefndarmenn 5. manninn í nefndina, en verði ekki samkomulag í nefndinni um oddamann, þá skal hann tilnefndur af hæstarétti. Í stjórn virkjunarinnar skulu þeir einir eiga sæti, sem búsettir eru á orkuveitusvæðinu.

Þá er í frv. farið fram á, að notað verði það ákvæði 22. gr. raforkulaganna frá 1946, að ríkissjóður ábyrgist lán, sem tekin verða til virkjunarinnar, allt að 85% af virkjunarkostnaði.

Þó að virkjun Reykjafoss í Svartá hafi ekki fyrr en nú borið á góma hér á hinu háa Alþ., er það engan veginn svo, að hér sé um nýja hugmynd að ræða. Þegar fyrir meira en 40 árum var farið að ræða um virkjun Svartár heima í Skagafirði, og árið 1920 rannsakaði Halldór Guðmundsson raffræðingur virkjunarskilyrði við Reykjafoss. Var það álit hans, að þar mætti virkja allt að 800 hestöfl, og var það ekki litið orkuver á þeim tíma. Kringum 1930 var mikið rætt um Reykjafossvirkjun í héraði og haldnir um málið margir fundir. Um það leyti var enn gerð bráðabirgðarannsókn á virkjunarskilyrðum, framkvæmd af Jóni Ísleifssyni verkfræðingi, og það mun hafa verið árið 1930, sem Steingrími .lónssyni rafmagnsstjóra og Jakobi Guðjohnsen verkfræðingi var falið að gera áætlun um virkjunina, byggða á þeim rannsóknum, sem fyrir lágu. Jafnframt gerðu þeir áætlun um orkuveitu fyrir stóran hluta héraðsins með 20 kw. linu. Mun þessi áætlun vera ein sú fyrsta sinnar tegundar, sem gerð hefur verið hér á landi um rafvæðingu í strjálbýli, og svo stórhuga voru þeir í áætlun sinni, að enn er ekki nað þeim áfanga í dreifingu raforku í Skagafirði, sem áætlun þeirra gerði ráð fyrir, og er þó lengra komið dreifingu raforku í mínu héraði en ýmsum héruðum öðrum. Úr framkvæmdum varð þó ekki, enda fóru þeir tímar í hönd, sem gerðu allar stórframkvæmdir lítt viðráðanlegar.

Um verulega vatnsaflsvirkjun í Skagafirði var svo ekki að ræða, fyrr en Gönguskarðsá var virkjuð, sem síðar var svo samtengd Laxárvatnsvirkjun í Austur-Húnavatnssýslu. Þessar virkjanir, sem eru eign rafmagnsveitna ríkisins, hafa samanlagt 1600 kw, vélaafl. Þess var ekki að vænta, að þessar tiltölulega litlu vatnsaflsstöðvar fullnægðu um lengri tíma raforkuþörfinni á orkuveitusvæðinu, sem mun hafa aukizt árlega um nær 6-10%, enda urðu rafmagnsveitur ríkisins árið 1961 að setja upp dísilstöð á Sauðárkróki, 2 vélar með samtals 1200 kw. afli, og var sú stöð byggð sem varastöð og toppstöð fyrir orkuveitusvæðið. Fleiri dísilstöðvar eru á orkuveitusvæðinu, og er afl þeirra samanlagt 1650 kw. Heildaraflþörfin í ár er áætluð 3230 kw., og er af því sýnt, að það afl, sem þarna er fyrir hendi, er nú svo til fullnotað, og verður naumast hjá því komizt að bæta dísilafli við kerfið, og sú aflaukning má ekki vera minni en 400 kw., ef hún á að duga til ársloka 1966, og eigi minni en 800 kw., ef hún á að nægja til ársloka 1968. Með þessari nauðsynlegu aukningu dísilaflsins, ef ekki verður ráðizt 3 vatnsvirkjun, fer svo, að hlutdeild dísilaflsins fer ört vaxandi á þessu orkuveitusvæði, en hlutdeild vatnsaflsins að sama skapi minnkandi, og kostnaðurinn við dísilreksturinn fer fljótlega að segja áþreifanlega til sín.

Ef þetta frv. næði fram að ganga á Alþ. nú, sem við flm. væntum, og hægt væri að virkja Svartá sem fyrst, þannig að virkjunin gæti tekið til starfa um áramótin 1966 og 1967, þá yrði árið 1967 fyrsta rekstrarár hennar. Og aukning dísilaflsins þyrfti ekki að verða meiri á orkuveitusvæðinu en 400 kw.

Þegar rafmagnsveitur ríkisins settu upp á Sauðárkróki dísilstöðina 1961 og sýnt þótti, að ekki yrði í bráð ráðizt í að byggja nýja vatnsaflsstöð, samþ. bæjarstjórn Sauðárkróks vorið 1961 heimild til handa rafveitu Sauðárkróks til þess á sínum vegum að láta gera nauðsynlegar mælingar og athuganir við Reykjafoss. Verk þetta tók að sér Theódór Árnason verkfræðingur, og það er á verkfræðitegri athugun hans og niðurstöðu, sem álitsgerð sú um virkjunina er byggð, sem birt er sem fylgiskjal með grg. okkar. Ég ætla ekki að þessu sinni að rekja skýrslu Theódórs Árnasonar um virkjun Svartár, en vil leyfa mér að koma henni í hendur þeirrar hv. þn., sem fær þetta mál til meðferðar. Verkfræðingurinn gerði 2 áætlanir af mismunandi stærð. Sé miðað við stærri tilhögunina, er stofnkostnaður áætlaður 50 millj. kr. og árlegur rekstrarkostnaður, miðað við 7% ársvexti, 4.65 millj. kr. Er hér miðað við, að virkjunin hafi 3600 kw. afl og geti unnið 15.7 millj. kwst. á ári. Verður þá meðalkostnaðarverðið á kwst. 29.6 aurar við fulla notkun, eða meira en helmingi lægra en olíukostnaðurinn einn á hverja kwst. frá dísilstöð. Það skal tekið fram, að þessar tölur eru miðaðar við verðlag eins og það var hér á landi á s.l. sumri, en síðan hafa orðið verðhækkanir, og inn í áætlunina um stofnkostnaðinn vantar greiðslur, svo sem fyrir landspjöll og vatnsréttindi, en þær greiðslur hljóta óhjákvæmilega að nema allverulegum upphæðum.

Af álitsgerð þeirri, sem birt er sem fylgiskjal með frv. og tekin er saman af Steingrími Jónssyni framkvæmdast,jóra Sogsvirkjunarinnar og Ásgeiri Sæmundssyni tæknifræðingi, má sjá, að nokkur rekstrarhalli verður óhjákvæmilega á virkjuninni fyrstu árin. En þá er miðað við, að virkjunin taki aðeins við þeirri orkuvinnslu, sem dísilstöðvarnar hafa nú. En þrátt fyrir það er rekstrarhallinn orðinn litiil á þriðja starfsári eftir áætlun þeirra og á fjórða ári alveg horfinn. Engan veginn er þó víst, að rekstrarhallinn verði sá, sem hér er bent á, eða um 970 þús. kr. að meðaltali fyrstu 3 árin, því að telja má vist, að samstarf verði á milli hinnar nýju virkjunar og þeirra vatnsaflsstöðva, sem fyrir eru, og því samstarfi verði svo hagað, að nýja virkjunin taki á sig þegar á fyrsta ári meiri orkuvinnslu en sem nemur orkuvinnslu dísilstöðvanna.

Ég sagðist ekki ætla að rekja áætlanir Theódórs Árnasonar um virkjunina. Þar kemur þó margt athyglisvert fram, sem gerir þessa virkjun og framkvæmdir við hana, að því er ég hygg, nokkuð óvenjulegar, og mælir með því, að ráðizt verði í þessar virkjunarframkvæmdir. Þar er t.d. bent á það, að vatnsrennsli hefur verið athugað í Svartá, sennilega lengur en í nokkurri annarri á á landi okkar eða á milli 30 og 40 ár, og hefur komið í ljós, að rennsli árinnar er mjög jafnt. Ég hef rætt þetta við Sigurjón Rist vatnamælingamann, og staðfestir hann, að þetta sé rétt, að svo sé, að rennsli Svartár sé mjög jafnt. Ég vil þá nefna það til dæmis, að meðan á virkjunarframkvæmdum stendur er fyrirhugað að veita Svartá í gamlan farveg hennar, sem er nokkru vestar en farvegur hennar er nú. Með þessu móti verður hægt að vinna verkið á þurru landi, og er að því mikið hagræði og mikill sparnaður. Öllu yfirfallsvatni verður svo veitt um hinn gamla farveg, þannig að um gljúfrið neðan við fossinn fer aðeins vatnið frá vélunum, og er það talið mikið öryggi, að það sé aðeins þetta vatn, sem fer um gljúfrin. Rétt fyrir ofan Reykjafoss og í næsta nágrenni við hann eru heitar uppsprettur. Talið er, að þessu heita vatni megi safna saman og dæla því í frostum og hríðum á vetrum upp í inntakið og nota það þannig til þess að minnka eða koma í veg fyrir krapamyndun í vatninu, áður en það gengur inn í vélarnar. Álitsgerð sinni um virkjun Svartár ljúka þeir Steingrímur Jónsson og Ásgeir Sæmundsson með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Virkjun Svartár hefur því skilyrði til að þrefalda vatnsorkuna frá því, sem núverandi vatnsaflsstöðvar hafa, og jafnframt skilyrði til að lækka einingarverð raforkunnar um 35%, allt að óbreyttu verðlagi. Hefur hún því skilyrði til að verða lyftistöng rafvæðingarinnar í þessum héruðum, svo sem bezt verður á kosið, um næsta áratug og vel það“.

Við þetta vit ég aðeins bæta þessu: Í umr., sem orðið hafa hér á þingi í vetur í sambandi við þáltill. um aukinn iðnað í kaupstöðum og kauptúnum, hefur verið á það bent með réttu, að atvinnuástand í Norðurlandskjördæmi vestra er nú lakara en víðast hvar annars staðar á landinu. Því veldur fyrst og fremst, að síðustu missirin hefur sjávarafli brugðizt fyrir Norðvesturlandi. Til þess að auka atvinnu í þessum landshluta og til þess að gera hana öruggari hafa menn helzt horft til þeirra úrbóta að efla þann iðnað, sem fyrir er, og koma á fót nýjum iðngreinum. Eitt meginskilyrði fyrir því, að iðnaður verði rekinn með ábata, er það, að hann eigi kost á nægri og ódýrri raforku. Sé hún fyrir hendi, munu ýmsar nýjar starfsgreinar verða til, atvinna aukast og afkoma fólksins verða betri og tryggari. Það er því skoðun okkar flm., að virkjun Svartár komi til með að verða hin helzta lyftistöng undir atvinnulífið í þeim byggðum, sem orku hennar er ætlað að ná til.

Það mun hafa verið venja, herra forseti, að málum sem þessum hafi verið vísað til fjhn., og geri ég það að till. mínni, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjhn.