20.02.1964
Neðri deild: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í C-deild Alþingistíðinda. (2106)

157. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að segja örfá orð í sambandi við þetta frv. um virkjun Svartár í Skagafirði, áður en það fer til nefndar.

Ég hef veitt því athygli, að hv. flm. þessa frv. komast svo að orði í grg, á bls. 2, með leyfi hæstv. forseta:

„Vera má, að hægt sé að sjá þessum landshluta fyrir ódýrari raforku frá væntanlegum stórvirkjunum, en um það liggur enn ekkert fyrir“.

Í þessum ummælum grg. kemur það fram, að frv. um virkjun Svartár og að bæta á þann hátt úr raforkuþörf Skagfirðinga er flutt a.m.k. öðrum þræði vegna þess, eins og flm. segja, að enn liggur ekkert fyrir um, að þessi landshluti eða þetta héráð eigi kost á ódýrari raforku frá stórvirkjun. Það er ekki að ófyrirsynju, að á þetta er minnzt af hálfu þeirra flm., vegna þess að alkunna er, að það munar allmiklu á framleiðsluverði orkunnar, hvort um litla eða stóra virkjun er að ræða. Orkuframleiðsla í stórum virkjunum er yfirleitt miklu ódýrari en orkuframleiðsla í smærri virkjunum.

Í skýrslu þeirri, sem fylgir þessu frv. sem fskj., er þess getíð á bls. 3, að ég ætla, að meðalkostnaðarverð á kwst. í orkuveri hjá Svartá mundi kosta 29.6 aura við fulla notkun. En til þess að gefa hugmynd um samanburð á smávirkjun og stórvirkjun, má nefna það, sem ég ætla að ég muni rétt, að ef miðað er við þær kosinaðartölur, sem birtar voru á árinu 1962 um framleiðslukostnað í stórum orkuverum, 100 þús. kw. eða stærri, er þetta nálægt því eða rúmlega helmingi hærra verð en þar var gert ráð fyrir. Nú má vera að vísu, að þær áætlanir um stórvirkjanir hafi. nokkuð breytzt síðan á árinu 1962, en þetta sýnir, að munur er á því að framleiða raforku í stórvirkjun og minni virkjun. Þetta gera flm. sér að sjálfsögðu ljóst og komast þess vegna að orði eins og þeir gera í grg. Og viðhorf þeirra er þá það, að þeir flytja þetta frv. um 3600 kw. virkjun við Svartá með tilliti til þess, að enn liggur ekkert fyrir um það, að Skagafjörður geti fengið rafmagn frá stórvirkjun. Og það er í sjálfu sér mjög eðlilegt viðhorf.

Ég vil aðeins mínna á það í þessu sambandi, að vorið 1962 gengust þm. á Norðurlandi öllu og Austurlandi, þ. á m. þm. Norðurl. v., fyrir því, að haldinn var fundur á Akureyri með fulltrúum frá sýslunefndum og bæjarstjórnum í öllum kaupstöðum og sýslum á þessu svæði til þess að ræða um virkjun Jökulsár á Fjöllum. Til þessa fundar var boðað vegna þess, að þá fyrir nokkru, eða 20. marz 1961, hafði Alþingi samþykkt þáltill., þar sem ríkisstj. var falið að láta gera áætlanir um virkjun Jökulsár til stóriðju. Það var vitanlega svo, að fyrir því var gert ráð um Norður og Austurland, að jafnframt því sem orka frá þessari miklu virkjun yrði notuð til stóriðnaðar, yrði þarna um að ræða orku, sem dreift yrði um allt Norður- og Austurland. Ég skal ekki fjölyrða um þær ályktanir, sem á þessum fundi á Akureyri voru gerðar sumarið 1962, eða það, sem síðan hefur gerzt, en í tilefni af framkomu þessa frv. og þeim ummælum, sem flm. hafa látíð falla í grg. í því sambandi og ég nú hef rakið, vil ég segja það, að ég harma, að ekki skuli liggja fyrir nú upplýsingar um möguleika Skagfirðinga og annarra Norðlendinga og Austfirðinga til þess að fá raforku frá stórvirkjun. Vera má, að þetta mál, sem hér er fram komið, verði til þess að flýta eitthvað fyrir því, að niðurstöður fáist í því máli, hvort Norðlendingar og Austfirðingar mega vænta, áður en langt um liður, raforku frá stórvirkjun, og þá náttúrlega er sér í lagi átt við þá virkjun, sem ég nefndi hér áðan og Alþingi á sínum tíma gerði ályktun um, sem sé virkjun Jökulsár á Fjöllum.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram til athugunar fyrir þá nefnd, sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, og í tilefni af því, sem í grg. þessa máls stendur.