20.02.1964
Neðri deild: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í C-deild Alþingistíðinda. (2108)

157. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Flm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Ég get að sjáifsögðu tekið undir það með hv. 3. þm. Norðurl. e. og hæstv. raforkumrh., að raforkan verður eitthvað ódýrari frá stórvirkjunum. En ég efast þó stórlega um, að það sé rétt, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði, að þessi tala, sem nefnd er í álitsgerð Steingríms Jónssonar og Ásgeirs Sæmundssonar, að kw. muni kosta 29 aura frá virkjun við Svartá, sé helmingi hærri en sú tala mundi verða frá stórvirkjun. En því miður er það rétt, eins og hv. þm. drap á, fyrir liggja ekki óyggjandi upplýsingar nú á þessari stundu, og því er ekkert hægt að fullyrða í þessu sambandi.

Um daginn gaf hæstv. dómsmrh, skýrslu, merka skýrslu, um fyrirhugaðar raforkuframkvæmdir. Þar var drepið á, að það kæmi til greina að virkja Þjórsá, leiða línu norður yfir öræfin og síðan austur og vestur. Nú liggur ekkert fyrir t.d. um það, hvað lína úr Eyjafirði til Skagafjarðar mundi kosta. Þetta er í rauninni líka nauðsynlegt að fá að vita, þegar rætt er um þessi mál, því að þetta hlýtur að geta haft áhrif á skoðanir manna, sem þeir mynda sér um virkjun Reykjafoss. En ég fagna mjög þeim orðum hæstv. raforkumrh., þegar hann sagði, að á þessu þingi yrði að mótast stefna í því, hvað gera ætti í raforkumálunum og rafvæðingu landsins.