18.12.1963
Efri deild: 29. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

103. mál, náttúruvernd

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér finnst það bera vott um einstakan starfsáhuga af hálfu hv. 3. þm. Norðurl. v. að verja um það bil 20 mínútum af dýrmætum kvöldfundartíma hv. Ed. á síðustu dögum þingsins til þess að flytja 20 mínútna ræðu um jafneinfalt mál og það, sem hér er um að ræða, einkum og sér í lagi þegar hv. þm. tók það fram, bæði í upphafi og niðurlagi síns máls, að hann væri efni frv. algerlega sammála, þ.e.a.s. hann væri fús til að fallast á það fyrir sitt leyti, að ástæðulaust væri að gera til þess kröfu, að formaður, — og hann gekk enn þá lengra en gengið er í frv., — og varaformaður væru embættisgengir lögfræðingar. Þetta er auðvitað kjarni málsins. Það hefur reynzt vera ástæðulaust og óþarft að gera þessar kröfur. Reynslan, síðan lögin voru samþykkt, hefur leitt þetta í ljós. Af þessum sökum er frv. flutt, og það kemur í ljós, að hv. þm., sem er einn löglærðasti maður á Alþingi, er mér og ríkisstj. sammála um, að þetta sé meginatriði málsins. Það má gjarnan fella þessa kröfu niður að því er báða aðilana snertir meira að segja, og samt þarf að tala um málið í 20 mínútur eða liðlega það.

Ég get líka bætt því við, án þess að ég þurfi nokkuð að lengja mál mitt, að auðvitað þykir mér vænt um það traust, sem einnig kom tvívegis fram í ræðu hv. þm., það traust, sem hann lýsti á mér, þar eð hann taldi það vald betur komið í mínum höndum að ráða því algerlega, hver væri formaður og varaformaður og hver kæmi í stað lögfræðingsins nú að eiga sæti í ráðinu. Það er þá a.m.k. ekki af hans hálfu neinn ótti á ferðinni um, að ég muni misbeita því valdi, sem ég nú hef og er skylt að beita varðandi skipun formanns og varaformanns í ráðið, enda vona ég, að ekkert slíkt hendi mig.

Hv. þm. spurði, hvað hefði breytzt síðan lögin voru sett, hvers vegna í upphafi hafi verið gerð þessi krafa til formanns og varaformanns og hvers vegna nú væri unnt að fella hana niður. Ég skal gjarnan svara þeirri spurningu. Skýringin á því er afar augljós. Reynslan af starfi náttúruverndarráðs hefur leitt í ljós, að það er ástæðulaust að gera þessa kröfu til formannsins. Þetta er skoðun fráfarandi formanns ráðsins, og þetta er skoðun allra náttúruverndarráðsmanna. Ég hef fengið bréflega áskorun frá náttúruverndarráði í heild, undirskrifaða af öllum 7 meðlimum ráðsins, um að gera þessa breyt. á l., og það er rökstutt af hálfu náttúruverndarráðs með því, að reynslan hafi sýnt það, störf ráðsins hafi sýnt það, að þessi krafa sé ástæðulaus, það mundi ekki saka, að annar hver aðilinn hefði lögfræðimenntun, ekki ástæða til að ganga lengra en þarna er gert, en þó skildist mér, að þeir væru í rauninni alveg sammála hv. þm., að það mætti algerlega falla niður. Ég er því persónulega sammála, að það gæti vel komið til mála. Ég mun ekki setja mig gegn því, að þessi krafa verði yfirleitt felld niður, svo að einnig um það efni erum við hv. 3. þm. Norðurl. v. algerlega sammála. Hitt er annað mál, að það skiptir svo litlu máli, að ég tel ástæðulaust að vera að breyta frv. í þessu efni hér og senda það þess vegna aftur til Nd.

Hins vegar er það á misskilningi byggt hjá hv. þm., að frv. sé fram borið vegna þess, að ég eða náttúruverndarráð skilji lögin þannig, að náttúruverndarráðsmenn þurfi að eiga sæti í Reykjavík. Ég er honum alveg sammála um, að lögin ber ekki að skilja þannig. Formaður ráðsins mætti vera búsettur utan Reykjavíkur. Frv. er fram borið vegna þess, að mér ber að skipa nýjan formann, þar eð fyrrv. formaður hefur sagt af sér, af því að hann taldi sig ekki geta sinnt starfinu, eftir að hann er fluttur úr Reykjavík. Ég benti honum á, að lögin bæri ekki að skilja þannig, að honum væri skylt að segja af sér. Hann var því sammála. Ég hvatti hann til að halda áfram starfi sem formaður. Hann skoraðist eindregið undan því.

Þegar ég ræddi við náttúruverndarráð um skipun formanns í ráðið, — svo góð samvinna er á milli ráðsins og mín, að ég taldi mér það skylt og eðlilegt, að ég ræddi við ráðið um það, hvern ég skipaði formann, — þá kom sú skoðun fram strax af hálfu ráðsins, að það væri alveg ástæðulaust að gera þá kröfu, að hann skyldi vera embættisgengur lögfræðingur, og því ástæðulaust fyrir mig að leita að væntanlegum formanni í hópi lögfræðinga, að þeim í sjálfu sér algerlega ólöstuðum. Þess vegna hefur niðurstaðan orðið sú, að samkv. ósk náttúruverndarráðs alls, þeirra sem enn sitja í því, og fráfarandi formanns er þetta frv. flutt og í þeirri mynd, sem það hefur hér.

Þetta vona ég, að hv. þdm, taki sem nægilegar skýringar og það dugi hv. n. til þess, að hún taki þessu litla og einfalda máli með sömu velvild og hv. menntmn. í Nd. tók málinu. Ég vil fremur mælast undan því, að sú breyting verði gerð á frv., að skilyrðið um embættisgenga lögfræðinga verði algerlega fellt niður, ekki af því, að ég kysi það í sjálfu sér alveg eins og hv. 3. þm. Norðurl. v., heldur vegna þess, að það skiptir sáralitlu máli, hvort ákvæðið stendur eða stendur ekki, og það mundi þýða endursendingu frv. til hv. Nd. og verða til tafar á miklum annadögum í hv. Nd. á næstunni.