20.02.1964
Neðri deild: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í C-deild Alþingistíðinda. (2110)

157. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mikið þessar umr. En það er ástæða til þess að fagna því, ef nú má vænta nánari upplýsinga frá stjórnarvöldum um þær rannsóknir, sem fram hafa farið nú undanfarið á skilyrðum til stórvirkjunar hér á landi. Það eru nú liðin nálega 3 ár, síðan Alþingi samþykkti ályktun þá, sem ég nefndi hér áðan, varðandi virkjun Jökulsár á Fjöllum, og ýmsum þykir tími til þess kominn, að endanleg skýrsla verði gefin um það mál. Ég vil nefna það í þessu sambandi, að þetta frv., sem hér er fram komið, ætti að mínna menn á, að það er ekki, eins og ýmsir virðast álíta, eingöngu yfirvofandi raforkuskortur hér á Suðvesturlandi. Það er ekki nóg að bæta úr raforkuþörf hér á Suðvesturlandi, heldur þarf einnig að bæta úr raforkuþörf í öðrum landshlutum. Og ég veit ekki, hvort menn mundu telja það fullnægjandi lausn í þessum landshlutum, eins og nú er komið málum, að stórvirkjun verði komið upp hér syðra til þess að framleiða hér ódýra raforku til almenningsnota, en öðrum landshlutum ætlað að búa við dýra raforku frá smærri virkjunum. Þetta vildi ég aðeins segja í sambandi við ummæli, sem hæstv. ráðh. lét falla um það mál.

Ég vil svo í þessu sambandi minna á það, að í sameinuðu þingi hefur nýlega verið flutt til1. til þál., þar sem gert er ráð fyrir, að Alþingi láti þessi mál til sín taka á þann hátt að kjósa nefnd til þess að fjalla um þau og kynna sér þær athuganir, sem fram hafa farið, bæði á vegum raforkumálaskrifstofunnar og stóriðjunefndar, á þessu sviði, og það er ástæða til þess að taka undir það, sem hér kom fram áðan, að nauðsyn ber til þess, að unnið verði að undirbúningi þessara mála á annan hátt og á breiðara grundvelli en undanfarið hefur verið gert.