20.02.1964
Neðri deild: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í C-deild Alþingistíðinda. (2111)

157. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það skiptir vitanlega engu meginmáli, hvort okkar verkvísindi segja, að hagkvæmast sé að virkja stórvirkjun fyrir Suðurland á Suðurlandi eða á Norðurlandi fyrir Norðurlandið. Öllu máli skiptir það, hvort niðurstaða sérfræðinga okkar í þessum efnum um virkjanir annaðhvort norðanlands eða sunnan í stórvatnsföllunum, — með fullri nýtingu þeirrar uppistöðu, sem hugsanleg er í sambandi við þessar virkjanir, — eins og hv. 3. þm. Reykv. gat hér um áðan sem mjög mikilvægt atriði í sambandi við virkjunarmál, verði sú, að raforkan komin á hina ýmsu staði í landinu reynist ódýrari að viðbættum leiðslukostnaði hvert á land sem er heldur en við smávirkjanir. Afstaða mín t.d. til þessa frv. um virkjun Svartár byggist mjög á því; hvað sérfræðingarnir segja um það, hvort virkjun frá Suðurlandi með veitukerfi norður um Skagafjörð og Húnavatnssýstur reynist ódýrari, þ.e. hvort orkan leidd til Skagafjarðar- og Húnavatnssýslna reynist ódýrari frá stórvirkjun á Suðurlandi heldur en t.d. frá smávirkjun í Húnavatns- eða Skagafjarðarsýslu. Að fenginni slíkri vitneskju tæki ég hiklaust afstöðu, — jafnvel sem Norðlendingur mundi ég taka afstöðu með virkjun sunnanlands, ef hún að viðbættum leiðslukostnaði reyndist ódýrari frá Suðurlandsvirkjun heldur en frá virkjun í héraði. Þetta er ekki mál, sem heyrir undir hreppapólitík, og ekki mál, sem heyrir undir landsfjórðungapólitík. Þess vegna vil ég líka spyrja hæstv. ráðh., hvort t.d. virkjunin hér sunnanlands,stórvirkjunin fyrirhugaða, mundi leysa t.d. raforkuþörf Vestfirðinga á viðhlítandi hátt, þannig að orkan frá slíku orkuveri, miðað við stóriðju og notkun um landsbyggðina með samantengdu kerfi, mundi vera ódýrari þar vestur frá en t.d. frá viðbótarvirkjun við vatnsföllin í Arnarfirði. Ég mundi ekki telja mér neinn héraðsmetnað í því að ber,jast hér fyrir viðbótarvirkjun á vatnsföllunum í Arnarfirði eða Skúfnavötnum við Ísafjarðardjúp til orkuframleiðslu fyrir Vestfirðinga, ef vísindin segðu, að orka frá slíkum virkjunum yrði dýrari en frá sunnlenzkri virkjun, að viðbættum leiðslukostnaði vestur á Vestfirði. Þá mundi ég vera fylgjandi Suðurlandsvirkjuninni, því að ég tel þetta vera landsmál í heild og að hreppa- eða sýslu- eða landsfjórðungasjónarmið eigi þar engan rétt á sér. Þess vegna eigum við að spyrja um, hvað öruggur útreikningur sýni um þetta, og ráðh. þessara mála á hverjum tíma eiga að tjá okkur niðurstöður sérfræðinganna óhlutdrægt, og þá á afstaða okkar að fara eftir því, hvaða leið sé bezt til þess að leysa landsþarfirnar, þjóðarþarfirnar í þessum málum.

Ég vil því, að því er snertir hagsmuni okkar Vestfirðinga í raforkumálum, spyrja um það, hvort athuganir hafi verið gerðar á því, hvort virkjun hér sunnanlands eða norðan mundi vera svo miklu ódýrari í stórvirkjunum, að það bætti upp kostnaðinn við samtengingu orkuvera í landinu, þannig að t.d. orka frá slíku orkuveri sunnanlands reyndist ódýrari en viðbótarvirkjun við Dynjanda eða Mjólkárfossa í Arnarfirði. Ég þakka væntanlegt svar hæstv. ráðherra.