20.02.1964
Neðri deild: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 827 í C-deild Alþingistíðinda. (2114)

157. mál, virkjun Svartár í Skagafirði

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan í sambandi við lýsisherzluverksmiðju. — Ég vil um leið þakka hæstv. ráðh. það, sem hann svaraði minni fsp. — Það er viðvíkjandi lýsisherzluverksmiðju, sem hann skaut til hæstv. iðnmrh. að athuga. Ég hef satt að segja ekki fylgzt neitt með því máli, þannig að ég er ókunnugur því, eins og þetta kann að standa nú. Hann sagði svo frá því, að tveir miklir framkvæmdamenn hér væru að hugsa um að reisa lýsisherzluverksmiðju til þess að herða mestallt lýsi, sem væri framleitt á Íslandi. Ég mundi vilja mælast til þess við hæstv. ríkisstj., að hún fylgdist mjög vel með í þessu máli. Eins og kunnugt er, er til heimild fyrir ríkisstj., held ég áreiðanlega í l. frá 1942, um að reisa lýsisherzluverksmiðju, og ríkið á meginið af öllum síldarverksmiðjunum á Íslandi, þannig að það hefur alltaf verið gengið út frá því, ef verksmiðja yrði reist til að herða lýsið, mundi fyrst og fremst ríkið gera það. Það var tekin ákvörðun um að framkvæma þetta á tímum nýsköpunarstjórnarinnar, og það var búið að kaupa inn þó nokkuð af vélunum til lýsisherzluverksmiðju og búið að fá sérfræðinga, sem áður höfðu unnið í Hollandi í þjónustu þess fræga hrings Unilever að þessum málum, og það mistókst allt saman, þannig að hringurinn gat komið þannig sínum málum, að það varð aldrei neitt úr þessu. Það er engum efa bundið, að þetta er ákaflega mikil nauðsyn fyrir Ísland. Ef einhverjir Íslendingar vilja koma slíku upp, er það út af fyrir sig góðra gjalda vert. En það er nauðsynlegt, að ríkið hafi þar hönd í bagga á mjög afgerandi hátt, vegna þess að hagsmunir ríkisins og raunar hagsmunir þessara einstaklinga eru þarna svo nátengdir. Til hvers er fyrir einstaklinga að setja hér upp lýsisherzluverksmiðju, ef þeir hafa ekki tryggingu fyrir því að fá til herzlu það lýsi, sem framleitt er á Íslandi, ef aðstaðan er þannig, að við skulum segja útlendu hringarnir bjóða hærra í lýsið og gera þannig ómögulegt fyrir þessa lýsisherzlumenn að fá hráefnið til sinnar verksmiðju? Mér finnst því, að það hljóti frá upphafi að verða að samræma hagsmuni íslenzka ríkisins sem eigenda hráefnisins að mestu leyti og þeirra aðila, sem kynnu að vilja leggja í að reisa slíka verksmiðju á Íslandi. Og ég skil það varla, að nokkrir menn færu að leggja sína peninga í þetta, nema því aðeins að þeir væru nokkurn veginn öruggir með það að geta samið um slíkt.

Svo er hitt til sem dæmi, að slíkir menn væru sjálfir í sambandi við Unilever, og það þýddi, að þær lýsisherzluverksmiðjur, sem upp kæmust á Íslandi, væru óbeint undir yfirstjórn Unilever-hringsins, sem þýddi, að það hefðu verið byggðar verksmiðjur á Íslandi, sem gerðu okkur enn þá háðari hringnum en áður, og væri þá búið að taka úr greipum okkar þá möguleika að fara að reisa hér virkilega lýsisherzluverksmiðju á Íslandi. Það er vitað, að í allri Vestur- og Norður-Evrópu er ekki ein einasta lýsisherzluverksmiðja til, sem Unilever ekki á eða hefur ítök í, ekki ein einasta, þannig að þegar við á árunum 1944—1945 ætluðum að leggja í þetta, stóðum við einir, íslendingar, allra þjóða í Vestur-Evrópu í slíkri baráttu við Unilever-hringinn. Hann hefur algerlega einokað í allri Vestur- og Norður-Evrópu allar lýsisherzluverksmiðjur.

Við þyrftum því að ganga alveg hreint úr skugga um það, ef Íslendingar eru að leggja í svona hlut, hvort þeir eru að gera þetta algerlega sjálfstæðir, og þá væri gott að hafa við þá góða samvinnu af hálfu ríkisins, og ég býst við, að þeir þyrftu sannarlega á því að halda, það er um svo erfitt mál að ræða þarna, og hins vegar líka að ganga úr skugga um það, að þessir menn séu ekki að neinu leyti í snertingu við Unilever, þannig að það sé bara verið að herða tök hringsins. Við vitum, að þarna er um að ræða sjötta sterkasta hring veraldarinnar, sterkasta hringinn í Evrópu, — fimm sterkustu hringar veraldarinnar eru allir í Bandaríkjum Norður-Ameríku, og Unilever-hringurinn, sem er búinn að vera kunningi okkar í meira en 30 ár hér á Íslandi og hefur ráðið hér verðinu á síldarlýsi svo að segja alltaf og ekki sízt í stríðinu, mætti sízt fá betri tök hér hjá okkur. En ef það væri hægt að skapa samvinnu við dugandi íslendinga um að losa okkur undan þessu, þá væri það mjög ánægjulegt. Ég vil þess vegna, einmitt vegna þess, að hv. 5. þm. Norðurl. v. var að skjóta þessum málum til iðnmrh., líka leggja þessi orð í belg til hæstv. ráðh., ef hann athugaði þessi mál.